Hvað seldust margar eignir?

Ég er hrædd um að ekki sé mikið að marka þessa útreikninga. Halda menn að verð hjaðni núna aðeins um hlutfall af prósenti? Hafa einhverjar eignir hreyfst síðustu vikurnar og jafnvel nokkra mánuðina? Er ekki vísitalan reiknuð út frá einu eigninni sem seldist í hverjum stærðarflokki í hverju póstnúmeri?

Og hvert verður framhaldið núna?


mbl.is Fasteignaverð lækkaði um 0,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsókn á innherjaviðskiptum, takk

Mér er sama hvaðan gott kemur. Það er ekki hægt að jarma lengur um að leita ekki að sökudólgum. Kannski valda sökudólgarnir frekara tjóni ef ekki er komist til botns í því hvernig skúturnar stóru gátu siglt í strand. Orðrómur er um að fólki hafi verið ráðið eindregið að leggja peninga inn í sjóði sem voru vafasamir og núna kannski tómir vegna þess að háttsettir menn hafi þegar áformað að stinga þeim undan. Ef það er satt þarf að sækja peningana og ef það er ósatt þarf að hreinsa þá af áburðinum. Og ekkert let them deny it-kjaftæði, það er eðlilegt að menn tali svona. Ég veit um eina sem fór 1. október, tveimur dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis, í Glitni til að taka út úr sjóði 9 og henni var ráðlagt svo afdráttarlaust að gera þetta ekki, þetta væri besta ávöxtunin, að hún þurfti nánast að beita ráðgjafann hörðu til að fá að taka út sparnaðinn sinn.

Þetta er ekki ráðgjöf, a.m.k. ekki nein sem byggjandi er á.

Og sjálf er ég enn í óvissu með peningamarkaðssjóðinn minn þannig að vissulega er ég hlutdræg svo að ég haldi þeirri þekkingu ekki fyrir mig.


Endurheimtum kvótann

Rökin fyrir að taka ekki fiskikvótann til baka frá hinum fáu og færa hinum mörgu voru háværust þau að það kostaði svo mikið. Nú þegar skuldirnar af sjávarútveginum eru hvort eð er komnar í eigu ríkisins - er það kannski ekki satt? - er lag að fá kvótann aftur í almenningseigu.

Nú er lag.

Ég vildi að ég væri fyrsta gáfumennið sem fengi þessa hugmynd en ég las þetta t.d. hjá Ragnheiði Davíðs alveg nýlega. Hugmyndin verður bara stanslaust betri. Og veiðum svo meira en við höfum gert hingað til, sjómenn segja að það sé nóg af þorski og það sé hreinlega erfitt að komast framhjá honum þegar veitt er upp í ýsukvótann.

Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?


Hvar er Tryggvi Þór Herbertsson?

Það síðasta sem ég man eftir að hafa séð haft eftir honum var að það væri neyðarbrauð að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hjálp. Hvað skyldi hann hafa meint? Og hvar er núna þessi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar með þá skoðun og aðrar?

,,Það sá þetta enginn fyrir"

GVAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA, hvernig vogar Jón Ásgeir sér að segja að enginn hafi séð þetta fyrir þegar Egill Helgason var að enda við að kveðja Ragnar Önundarson sem EINMITT SÁ ÞETTA FYRIR? Og hann er ekki sá eini sem sá þetta fyrir. Fullt af venjulegu vinnandi fólki vissi að bólan spryngi. Fullt.

Og ég vil fá Jón Daníelsson sem seðlabankastjóra. Þótt hann sé vinur Jóns Þórs Sturlusonar.


Haustfundur leiðsögumanna á fimmtudaginn

Mikið svakalega er ég fegin að hafa ekki þurft að segja útlendingum frá Íslandi alveg upp á síðkastið. Og mikið hlakka ég til að hitta aðra leiðsögumenn og heyra hvernig þeim hefur farnast. Vonandi komast Lára Hanna og Steingerður í þetta sinn ...

,,Þetta eru bara peningar"

Dr. Gunni er mikill húmoristi og mér finnst mikið til hans koma. Í morgun var hann í útvarpinu að tala um kreppuna og hvatti fólk til að taka eftir að Esjan væri á sínum stað, himinninn líka, engin slagsmál um mat í Kringlunni o.s.frv. Þetta eru bara peningar sem hafa tapast og munu tapast. Peningar eru svakalega óefnisleg gæði af því að peningar eru bara ávísun, hitamælir minnir mig að Steingrímur J. sagt um krónuna um daginn, gjaldmiðill. Og ég er alveg hjartanlega sammála. Svoleiðis.

Ég hef hins vegar hugsað oft í þessari viku þegar ég heyri afkáralegar auglýsingar um fjármálaráðgjöf, bestu ávöxtunarmöguleikana, snyrtinámskeið og allt hitt sem ég get hvort eð er aldrei munað hvað þetta eru hégómleg gæði. Þessar auglýsingar borga samt fyrir rekstur margra fjölmiðla. Og ég viðurkenni skýlaust að útvarpshlustun er mér mikilvæg. Ég vil talmál og mikið af því. Ég fer bráðum að vilja hlusta á Gufuna en ennþá er það Rás 2, Útvarp Saga, Bylgjan og stundum Rás 1, vissir þættir á öllum rásum. Hvernig á að endurnýja búnað og borga þáttagerðarmönnum laun ef ekkert fé kemur inn á miðlana?

Sjálfri er mér alveg sama þótt dagblöðum fækki um helming - nei, ekki satt, ég fagna því, en blaðamenn á 24stundum sem mér þykja hafa staðið sig vel þurfa nú að finna sér nýjan vettvang til að njóta sín á. Þeirra gæði voru fólgin í því að vera í skemmtilegri vinnu sem þeim fannst skipta máli.

Ég vorkenni engum að geta ekki endurnýjað bílinn, flatskjáinn, fartölvuna og gsm-símann á hverju ári. Ég vorkenni engum að þurfa að fljúga með farþegaflugi. Ég vorkenni engum að borða hafragraut. Ég held að margir komi til með að kunna betur að meta hið smáa þegar við réttum aðeins úr kútnum. En efnahagur ýmissa íbúðakaupenda var orðinn þannig áður en bankarnir voru ríkisvæddir að var farinn að ganga nærri heilsu fólks. Og hún er dýrmæt.

Mér finnst of mikil einföldun að tala um bara peninga andspænis öðrum gæðum.


Cold War - Cod War - nýenskir tímar?

Kalda stríðið, þorskastríðið, bankastríðið, forsætisráðherrastríðið - og öll getum við fylgst með næstum hverju símtali. En munum við þokast í burtu frá enskunni á næstu árum og taka upp norsku ... eða rússnesku? Einu sinni vorum við næstum orðin amt í Danmörku. Skulle vi måske snarere snakke dansk?

Ekkert lát á auglýsingum

Þetta eru skrýtnir tímar. Allir í kringum mig þekkja einhvern sem fær skell í fjármálafárinu. Menn reyna að anda með nefinu, hugsa að hafi þessi verðmæti yfirleitt verið til lendi þau einhvers staðar. Kannski voru þessi verðmæti bara loftbólur, kannski þurfum við að byrja aftur á botninum og fikra okkur upp.

Kannski kemur ýmislegt gott út úr þessu.

En nú sit ég og bíð eftir Kastljósinu á RÚV+ og biðin er löng því að auglýsingarnar eru endalausar. Einhvern veginn hefði ég kannski giskað á að það drægi úr þeim, a.m.k. bankaauglýsingum, en óekkí. Þar sér kreppunnar ekki stað.

Og bráðum færi ég nokkrar launa-evrur inn í landið. Er ég ekki bjargvættur ...?


AF HVERJU Á ÉG AÐ GJALDA FYRIR ÚTRÁS ÞOTULIÐSINS?

Engum, ekki einu sinni viðskiptaráðherra, tekst nú að telja mér trú um að fasteignarsjóðurinn minn standi óbrenglaður. Og við erum mörg í þeim sporum að tapa. Við erum mörg sem höfum ekkert til þess unnið. Og við viljum ekki lengur sjá til.

-Lækka stýrivexti.

-Frysta eignir höfðingjanna.

-Hætta að ögra vinum og óvinum með gáleysislegu hjali.

-Hætta að hlaða undir fólk sem kveður hálfkveðnar vísur og flissar að sjálfu sér.

Þetta er ekkert grín og algjör óþarfi að hafa heill og hamingju fólks í flimtingum.


ÁTTI EKKI AÐ LÆKKA STÝRIVEXTINA?

Ég bara spyr.


Spennumynd sem segir sex ... milljarða

Það virðist næstum dónaskapur að hugsa eða tala um annað en það sem á okkur dynur í efnahagslífinu. Engu að síður var mér fyrirvaralaust boðið á Reykjavík-Rotterdam, spennandi spennumynd eftir Arnald Indriðason og Óskar Jónasson.

Og hún var alveg þriggja fréttatíma virði.

Spennan var algjör, leikurinn afbragð, plottið stórgott - kannski er bara orðið svona auðvelt að gera mér til hæfis, hehe. Og hæst hló ég þegar Baltasar Kormákur fór í bankann og skipti krónum í evrur.

Ef ég ætti að benda á einn veikan hlekk væri það hlutverk Ingvars E. Sigurðssonar, ásetningur hans var fullaugljós fullfljótt. Lilju Nótt hef ég áður séð hjá Hugleik og ekki verið svikin, hún er líka í leiklistarskólanum. Jörundur var fullkominn hálfviti að sjá enda myndi ég ekki treysta karakter hans fyrir hnefafylli af rusli. Theódór Júlíusson var algjör gullmoli og undrunarsvipurinn á andlitinu þegar hann mætti rustunum á nærbuxunum líður mér seint úr minni.

Mynd í kreppu um kreppu fyrir kreppu ofan í kreppu. Mæli með henni.

Reykjavík Rotterdam trailer og plakat


Kosið verður í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eftir 10 daga

Ég er með óráði eftir tíðindi dagsins á peningamarkaði, svitna og streða við að halda ró minni. Úps, dropi á lyklaborðið. Og þá finnst mér eðlilegt að rifja upp að kosið verður í öryggisráðið 17. október. Ég skil ekki að sú staðreynd skuli hvergi skjóta upp kollinum. Kosningabaráttan hefur staðið yfir árum saman, sumir á móti hugmyndinni, aðrir með, en nú sér fyrir endann á henni og enginn virðist muna eða vita.

Við keppum við Austurríki og Tyrkland. Hvernig fer?

Hvernig fer?

Allt til að dreifa athyglinni frá bankamálastöðu dagsins.

Ef við komumst inn tökum við sæti 1. janúar 2009 og forsæti strax í febrúar. Hefur enginn áhuga á þessu? Eru menn bara svona innilega sannfærðir um að loforð um 140 atkvæði telji ekki neitt?

Deleríum.


Ævintýri í Grafarvogi

Ég tók óbeinni áskorun dr. Gunna eftir að hafa heyrt hann lesa upp í Silfri Egils þau fyrirtæki sem sniðgengju okur og ákvað að kaupa símann minn í Símabæ. Hann er skemmtilega staðsettur í Hverafold þannig að kaupin kölluðu á útsýnisferð með strætó sem varð síðan hin forvitnilegasta göngu- og strætóferð um innviði Grafarvogs þar sem mér tókst að hneyksla Grafarvogsbúa með að hafa ekki hugmynd um hvar Spöngin væri. Það er annað vers og verður ekki farið nánar út í hér.

Undanfarið hef ég leitað grimmt að íbúð til kaups í miðborginni en svei mér ef ég fer ekki bara að skoða auglýsingar úr 112 Reykjavík. Rimahverfið var a.m.k. mjög heillandi.

Ég fann Spöngina og hélt að ég væri hólpin


Ef Ísland er í vanda veit ég hver lausnin er

Sjómenn um öll mið segja að sjórinn sé vaðandi í þorski. Ef við þurfum að auka gjaldeyrinn - sem ég held að geti vel verið rétt - eigum við að veiða úr þessari spriklandi auðlind, selja þorskinn og auka gjaldeyrisforðann þannig.

Þetta er einfalt mál.

Annars kýs ég að trúa því að viðmót okkar til vandans hafi áhrif á hann. Ef við trúum því að allt sé að fara til fjandans fer allt til fjandans - og við verðum þar fremst að banka á hjá kölska.

Okkar er valið.


Setjum svo að sparifjáreigandi eigi 4 x 20.000 evrur ...

Í útvarpinu heyrði ég viðtal við konu sem vinnur við fjármál. Því miður heyrði ég ekki upphafið og veit ekki hjá hvaða stofnun hún vinnur en hún sagði að sparifjáreigendur væru tryggðir með 20.000 evrur í hverjum banka. Því miður var ég ekki viðmælandi hennar því að ég hefði viljað spyrja hana hvað fólk ætti að gera ef það ætti 12 milljónir og vildi dreifa áhættunni. Eða hvað eru margir bankar á Íslandi? Telur hún kannski öll útibúin sérstaklega?

Myndi hún ráðleggja fólki að leggja inn í Glitni til að dreifa áhættunni? Inn í KB, Landsbankann og sparisjóð? Eru sparisjóðirnir eins margir og nöfnin á þeim? Er Byr sjálfstæður banki?

Hún tók fram að við það að dreifa peningunum missti fólk e.t.v. hámarksávöxtun í bankanum sínum, (meinta) ávöxtun sem kemur auðvitað til vegna hárra innistæðna.

Svo hélt hún að e.t.v. veitti Fjármálaeftirlitið einhverja ráðgjöf þótt hún væri ekki viss.

Ástandið á Íslandi er þannig að fólk sem er fullkomlega áhugalaust um verðbréf neyðist orðið til að setja sig inn í stýrivexti, skortstöðu og gjaldeyrisvaraforða. En sumir vilja bara vinna vinnuna sína og fá sanngjörn laun fyrir. Verður nú obbinn af landsmönnum hjá fjármálaráðgjöfum næstu vikurnar, annað hvort vegna skuldastöðu eða allt eins vegna eignastöðu? Og skyldu ráðgjafarnir þá rukka í krónum eða evrum? Skyldu ráðgjafarnir þora að ráðleggja?

Og skyldi eitthvað vera að marka þá?


Hver ræður við að eiga 500 ,,vini"?

Ég er í stríði við snjáldursskruddu:

 


Getur eitthvað gott komið út úr þessari óáran?

Maður þarf að anda djúpt og taka skref frá byltingarvakanum til að reyna að hugsa: Geta hremmingar síðustu vikna og mánaða orðið til góðs?

Hafi Stoðir átt 60 milljarða hvað varð þá um þá við kaup ríkisins á Glitni? Bólgnaði bankareikningur einhvers staðar í heiminum? Hvernig geta einstaklingar, eða þótt það séu fyrirtæki, eignast ævilaun íbúa heilu borganna á svona stuttum tíma? Hvernig urðu þessir peningar til? Er þetta ekki bara talnaleikur sem kemur á daginn núna að ekkert mark er takandi á? Skeði skaði?

Fólk veit að ef það kaupir áhættusækin hlutabréf getur það tapað verðmætum. Hins vegar skilst mér að fólki hafi verið talin trú um að kaup í einhverjum sjóðum hafi verið ígildi venjulegra sparifjárreikninga með eilítið betri vöxtum.

Hvað með lífeyrissjóðina sem Helgi í Góu segir að séu bólgnir af milljörðum? Eru þeir bara tölur á blaði? Eða kaupa þeir banka núna?

Mig furðar reyndar að ekki sé nein umræða um útflutningsgreinarnar sem komast núna í feitt. Fiskur, ál, ferðaþjónusta - þýðingar - ég sé fram á að græða talsvert á einu verkefni sem ég rukka í evrum.

Við viljum bara stöðugleika. En þessar hugrenningar hér bera tíðarfarinu vitni, ég slæ úr og í og veit ekki hvert leiðin liggur.


Segin saga hlerananna

Ég komst í hádeginu á fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar um hleranir Íslandssögunnar í „Hvað er að óttast?“-röðinni. Ég var svo heppin að sitja við hlið blaðamanns Moggans og verða þess vör að hann skrifaði fréttina jafnóðum og fyrirlestri Guðna vatt fram.

Guðni tók við keflinu af Stefáni Pálssyni fundarstjóra

Skemmtun, mikil skemmtun. Missti því miður af erindi Björns Bjarnasonar fyrir hálfum mánuði, en helv. er mikið líf í þessu félagi.


Lélegt hjá RIFF

Við ætluðum að sjá dönsku myndina Til döden os skiller á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni. Á tveimur stöðum í bæklingnum var hún auglýst kl. 22 en í Fréttablaðinu kl. 22:30 sem virðist vera þessi venjulegi sýningartími. Við ályktuðum að Fréttablaðinu hefði orðið á og vorum mætt upp úr hálftíu. Nei, þá var búið að breyta tímanum þrátt fyrir auglýsinguna og þar að auki var uppselt. Þegar maður er búinn að ákveða að fara í bíó heldur maður sig stundum við það þrátt fyrir óvæntar uppákomur.

Við ákváðum að sjá búlgörsku ný-rökkurmyndina Zift. Ég get alveg haft gaman af svona svörtum húmor en myndin var svart-hvít og textinn úr hvítum stöfum sem oft féllu saman við myndgrunninn. Við sem sagt skildum ekki heilu og hálfu senurnar.

Slappt hjá RIFF. Og þar að auki erum við óhress með að upplýsingabæklingnum hafi ekki verið dreift fyrr en á byrjunardegi hátíðarinnar. Þegar svona mikið er lagt undir á svona lítið að vera í lagi.

Ég áskil mér þó rétt til að bíta í súra eplið og fara aftur á morgun á argentínsku myndina Ljónagryfjuna ef því er að skipta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband