Er Sveitabrúðkaup virkilega á ensku?

Maður spyr sig þegar maður flettir miðasölunni upp á vefnum. Og heitir myndin Sveita Brúðkaup? Er verið að fæla mig frá því að fara í bíó?


Gleðilegt nýtt ár, gleðilegt nýtt fiskveiðiár

Ég heyrði í útvarpinu í morgun talað af talsverðri gleði um að nú hæfist nýtt fiskveiðiár vegna þess að svo margir hefðu á því liðna ekki getað nýtt allan kvóta í öðrum tegundum en þorski vegna þess að þorskkvótinn hefði tæmst.

Því er víst ástæða til að segja: Gleðilegt nýtt ár - eða hvað?


Meira af klósettum

Maslow greindi einhverju sinni lífsgæði þannig að fólki yrði að vera hlýtt, það mett og vel úthvílt til að geta notið frekari gæða lífsins. Reyndar man ég alls ekki hvernig hann orðaði það en frá því að ég kynntist þarfapíramídanum hans hef ég verið óskaplega meðvituð um þetta. Og þar sem ég er leiðsögumaður og hef ferðast um með hópa fólks sem stundum þarf að hægja sér veit ég að þetta er satt.

Sólmundur vinur minn í stéttinni var í viðtali á Rás 1 og fjallaði um starf leiðsögumannsins. Honum finnst - meðal annars - að klósett ættu að vera með jöfnu (eða ójöfnu) millibili þar sem fólk kæmist á prívatið og borgaði þá allt eins fyrir þá þjónustu frekar en að finnast það þurfa að versla við sjoppuhaldarann.

Bróðir minn er nýtekinn við rekstrinum í Víðigerði. Við vorum að spjalla um þessa þjónustu almennt um daginn og daginn eftir hringdi hann svo hlæjandi í mig og sagði: Hér kom 20 manna rúta til að fara á klósettið, og veistu hvað þau versluðu fyrir mikið? 40 krónur!

Sumir fóru hálflúpulegir á klósettið, sumir settu upp þóttasvip og einn kom með klinkið sitt og vildi fá fjölbreytilegt bland í poka - fyrir fjóra tíkalla.

Mér finnst engin einföld lausn í svona málum en mér hefur aldrei fundist sjálfsagt að sjoppueigendur þrifu eftir rútufarma. Hver er lausnin? Ætti Vegagerðin að blanda sér í málið, svona í ljósi þess að það myndi bitna á henni ef fólk kúkaði í vegkantinn?


Strætókort nema eiga að vera fyrir alla nema

Ég er sem sagt sammála þessari frétt Vísis um að fólki með lögheimili víðs vegar er mismunað. Af hverju er ekki nóg að fólk sé í námi?

Reyndar vil ég auðvitað ganga lengra og hafa ókeypis í strætó. Hvað þýðir annars ókeypis? Einhver borgar, já, alveg eins og einhver borgar fyrir slitið á götunum og heilbrigðisstarfsfólki fyrir vinnu þess þegar fólk hefur slasast í umferðinni. Ég er 100% sannfærð um þjóðhagslegt gildi þess að efla almenningssamgöngur og hef ákveðið að fresta bílakaupum um langan tíma.


Eindreginn brotavilji blaðamanns

Sem blaða- og bókalesandi til margra ára er ég sossum orðin ýmsu vön. Mér finnst stóra Kríuness-málið sneiða hjá stóru máli sem er hvort eitthvað gagnlegt hafi gerst á fundi nefndarinnar. En við lesendur nærumst á þessu smáa og blaðamenn leggja sig í líma við að hlúa að hnýsninni í okkur.

Ég leit inn á dv.is áðan og las þar ómerkilega frétt um kú. Kýrin hafði fest hausinn í tromlu og gat ekki losað hann. Móðurmálshjartanu í mér blæddi hins vegar yfir beygingunni á nafnorðinu kýr. Mér finnst þetta eins og að segja: Hana festi hausinn á sér. Já, þess vegna: Svein klæddi sig. Guðrúnu borgaði á kassanum.

Menn misstíga sig í sífellu, ég líka, en í þessari grein meira en vottar fyrir brotavilja.

Hvaða kúnni er t.d. í umræðunni ...?

Gangandi vegfarandi kom auga á kúnna þar sem hún var orðin mjög pirruð og reyndi að losa sig við járnhlunkinn sem var fastur á höfði hennar.


Allar sagnir í nafnhætti

Við erum nokkuð áhyggjufull, sum, yfir breyttri notkun sagna. Það virðist færast í aukana að málnotendur beygi bara sögnina að vera:

Ég er ekki að skilja þetta. Þetta er ekkert að ganga. Hún var ekki að kaupa þjónustuna.

Nú er þágufallssýkin [sem lagði marga að velli] ekki lengur svo áberandi en í staðinn er komin nafnháttarsýkin. Okkur finnst fallegra, eðlilegra og fjölbreytilegra mál að beygja fleiri sagnir, s.s.:

Ég skil þetta ekki. Þetta gengur ekkert. Hún keypti ekki þjónustuna.

Enskan gerir harða hríð að móðurmáli okkar og að því er virðist engu síður þótt fólk sé ekki sérlega sleipt í ensku. Þetta þýðir málfátækt og ég held að við verðum að reyna að spyrna við fæti.

Bíp.


Sumarið á dagatalinu

Ég man þegar ég gekk á Vífil(s)fell um árið. Það var eini vondi veðurdagurinn í langan tíma enda komumst við Daði hvergi nálægt toppnum. Er hann þó skáti - en mér var líklega ekki viðbjargandi. Í fjallinu eru margar leiðinlegar skriður.

Í sumar gengum við fjögur saman á Esjuna á þriðjudagskvöldi. Það var rigningarkvöld sumarsins 2008 og við tókum Lafleur á þetta, komumst hálfa leið og vorum bara roggin.

Nú stendur fyrir dyrum ganga um Laugardalinn með útkikki á þvottalaugarnar og skv. veðurvefnum á að rigna eldi og brennisteini, blautum. Það verður mikið stuð í úlpunni en ég hef ekki komist upp á lag með að nota regnhlíf. Félagsskapurinn bjargar í horn.

Bíp.


Óbjóður á msn

Nú hef ég tvívegis lent í því að gargandi ókunnugt fólk hefur viljað komast í vinfengi við mig á msn, útlenskt fólk og í öðru tilfellinu kviknakið á myndinni sem fylgdi. Kannast msn-notendur við svona óvelkomna gesti?

Ingó vörtubani tekur til máls og grípur til aðgerða

Ingó Werschofen tjáir sig um vörður á heimasíðu Félags leiðsögumanna og ég verð víst að viðurkenna að þær hafa ekki pirrað mig eins og hann, og allra síst - verð ég að viðurkenna - vissi ég að þær væru óheimilar skv. bæklingi Umhverfisstofnunar. Mér hafa þótt þær lýti og ég segi ferðamönnum frá þessum plagsið þegar tækifæri gefast en héðan í frá mun ég vera enn meira á varðbergi.

Veiðibjóðurinn á tjörninni

Kannski á ég ekki að gera það en ég hef mjög ríka tilhneigingu til að fara með afgangsbrauð niður á tjörn. Þar eru endur og gæsir mjög hændar að mér og nýtingartilhneiging mín er svo sterk að ég get helst ekki hent nýtilegu beint í ruslið. En nú er mér svei mér þá farinn að ofbjóða atgangur mávanna. Núna síðast lenti ég þrívegis í því að mávur greip brauðhnullung úr greipum mér - og var ég þó á varðbergi.

Þessi gerði sig mjög heimakominn

Dúfurnar - sem mér þóttu svo krúttlegar þangað til Ylfa kallaði þær fljúgandi ruslafötur - flýðu undan mávunum upp í fangið á mér þar sem þær voru ekki meira en svo velkomnar.

Og þessi hélt að hún væri komin heim


Tryggð og trúfesta við síma- og tryggingafyrirtæki

Ég las um helgina forvitnilega úttekt á farsímanotkun unglinga. Stór hópur er óánægður með þjónustuna hjá Símanum en er samt áfram í viðskiptum við Símann.

Af hverju?

Af því að mamma og pabbi eru þar? Af því að þau nenna ekki að flytja sig? Vegna neikvæðni, yrðu ekki ánægðari annars staðar?

Reyndar er farsímaþjónusta orðin soddan frumskógur að það er ekki fyrir borgarbarn að hætta sér þar inn. Ég hélt t.d. eitt augnablik um daginn að ég gæti fengið að hringja „fríkeypis“ í fimm vini óháð því hvar þeir væru í viðskiptum. En nei, það tilboð reyndist bara eiga við um þá sem eru í fyrirframgreiddri áskrift. Og nú les ég að þjónustan símavinir Símans kosti 1.000 krónur og að það kosti mig að hringja í númer hjá Nova þótt sá sem ég hringi í svari ekki, bara um leið og tónlistin byrjar að spilast!

Er þetta samkeppni, að bjóða alls konar gervitilboð og leika á notandann?

Ég þori ekki að segja annað um tryggingafyrirtæki en það að ef maður ætlar að skipta og segir upp tryggingunum geta þau allt í einu boðið manni ótrúlega miklu betri kjör. Núna eftir helgina ætlar pabbi í sitt fyrirtæki og spyrja í þaula þangað til hann fær svar við því hvernig tryggingar sem hann fékk tilboð í fyrra upp á 94.000 krónur hafa getað hækkað upp í 155.000 á milli ára. Ég treysti honum til að sitja hjá þjónustufulltrúa þangað til hann fær skýr svör - og segja svo helst viðskiptunum upp.


Sjálfvirkni er eitur

Það er óheilbrigt að þykjast geta gengið að heilsunni vísri á morgun, fjölskyldunni, vinunum og veðrinu. Allt sem kemur manninum við er sveiflukennt og óvíst. Samt gefum við okkur hluti, gefum okkur að ýmislegt gott geti verið sjálfvirkt, maturinn komi á borðið, verkefnin verði óþrjótandi í vinnunni, fólki þyki vænt hvert um annað eða að íslenska handboltalandsliðið vinni fjórða leikinn í röð.

Sjálfvirkni er eitur.

Ég held m.a.s. að það sé óráðlegt að velja alltaf sama skápinn í sundlaugunum og bjánalegt að kaupa alltaf pulsuna á sama horninu, sofa alltaf í sama rúminu og tala við sama fólkið. Maður á að brjóta upp mynstrið og skipta um símafyrirtæki ef annað býður betur og segja upp tryggingunum ef fyrirtækið svínar á manni - í skjóli tryggðar.

Nýlega lærðist mér að ég ætti ekki alltaf að þýða however með samt eða engu að síður - however getur þýtt hins vegar - og að integration er ekki endilega samþætting, heldur allt eins aðlögun. Það er í sjálfu sér hégómlegt en maður getur litið á það sem hluta fyrir heild.

Og stendur ekki víða að maður ætti ekki að vera lengur en sjö ár í sama starfi? Þá þarf ég nefnilega virkilega að fara að skoða hug minn og framtíðargjörðir.

Mér finnst sjálfvirkni jafn mikið eitur og sykur. Ég er samt búin að reyna til þrautar að láta mér líka við lífrænt fæði ... 


Malarhjallar í Borgarfirðinum

Á ferð um Melasveitina í gær sáum við blóm sem virtist við fyrstu sýn svart en reyndist svo dumbrautt við nánari kynni. Þegar við fórum svo alla leið ofan í fjöru sáum við sannarlega tignarlega malarhjalla sem eru 30 metra háir og marglaga. Því segi ég það, Vesturlandið er gríðarlega vanmetið þegar farið er um með ferðamenn. Vesturlandið er áhrifamikið.

Svartir knúppar að því er virðistEn svo eru þeir dumbrauðir

Malarhjallarnir

Spenningurinn leynir sér heldur ekki


Að hugsa í þýðingum

Ég heyrði á Bylgjunni í morgun tillögu um að spænsk-íslenskur maður (íslensk-spænskur?) ætti að halda með Íslandi gegn Spáni í handboltaleiknum sem verður í hádeginu á Ólympíuleikunum ... vegna þess að Ísland er á undan Spáni í stafrófinu. Sem Íslendingur er ég auðvitað sammála þessari uppástungu, nema hvað. En sem Spánverji gæti ég notað sömu gegnheilu rök - því að heiti landsins byrjar á E í spænsku, hEhE.

Áfram Espana!


Hvað er galið við þessi blöndunartæki?

Skoðaðu hönnunina, ég skora á þig!

Margt um manninn í höfuðstað Suðurlands

Á gangi mínum rakst ég á mann sem vinnur hér og vill búa hér. Hann á hins vegar hús í Reykjavík sem selst ekki. Og það er ekki vegna þess að það sé of hátt verðlagt, ónei, hann er kominn með kaupanda að eigninni á uppsettu verði en sá getur ekki selt sína þótt hann sé líka kominn með kaupanda - vegna þess að sá kaupandi fær ekki lán frá bönkunum sem ákváðu sisona að skrúfa fyrir lán, muniði?

Hér er sólríkt sem fyrr og ísinn er bragðgóður. En ég er því miður ekki búin að prófa sundlaugina. Og heldur ekki Ölfusá.


Selfoss city sightseeing

Og ég hef það fyrir satt að veðrið sé miiiiiiiiklu betra hér fyrir austan en í höfuðborginni.

Ingólfsfjall

Ölfusárbrúin sem fleygt hefur verið að einhverjir vilji flytja lengra til austursOg menn skúra bílana sína á góðviðrisdögum

Svona bera túlkar sig að


Maraþonskokkið um næstu helgi

Fyrir helgi barst mér vandað tímarit um Reykjavíkurmaraþonið sem verður 25 ára núna. Nokkurn veginn fyrst verður fyrir ávarp frá borgarstjóra. Gaman að því.

Auðvitað skokkum við öll um næstu helgi - líka þau okkar sem ekki eru í viðskiptum við Glitni. Veðurspáin er viðunandi (ég er skyggn) og skráning fer fram á marathon.is.

Koma svo!


Hrós hróssins vegna

Lítil frænka mín vinnur í bakaríi. Hún er ósköp iðin og vandvirk en hún er bara 15 ára og ekki vön að vinna. Það þarf aðeins að segja henni til. Svo er hún viðkvæmt blóm og henni sárnar ógurlega þegar hreytt er í hana eða hún upplifir ónot.

Ég reyni að stæla hana smávegis og segi að það sem ekki drepi hana herði hana bara og ef þessi vinnuveitandi er óalmennilegur muni henni finnast aðrir vinnuveitendur liprir síðar meir. Það breytir því samt ekki að hann er lélegur yfirmaður, segir illa til og skammar án þess að vita hver gerði eða gerði ekki það sem til var ætlast.

Og ég fór að hugsa um yfirmenn sem kunna ekki að stjórna. Þeir eru ótrúlega margir og kannski er eins gott að maður læri snemma að díla við slaka stjórn.

Skyldi vera tilviljun að ég hugsa á slíkum nótum þessa miðjudaga ágústmánaðar?? Grrrr. Reykjavík, ó, Reykjavík.

Hins vegar leiðist mér líka hrós sem er eins og sjálfvirkt, hrós hróssins vegna. Ef einhver hlær að því sem ég ætla að hafa fyndið upplifi ég það sem hrós þótt enginn segi að það hafi verið fyndið. Ef hins vegar einhver segir mér að peysan mín sé fín, sú sem ég er í og hef verið í 70 sinnum í kringum viðkomandi, finnst mér eins og einhver sé að hrósa mér fyrir að geta sagt nafnið mitt rétt eða reimað á mig skóna.

Kannski er ég svolítið erfið núna - ég kýs að kenna beinverknum í hausnum um ... og hann stafar áreiðanlega af róti síðustu daga í höfuðstöðvum mínum, 101 Reykjavík.

Grrr ...

Góð, þessi fiskisúpa hjá þér, mmm. Er kóríander í henni?


Biddu þjóinn um aðstoð

Við fórum á Café Oliver í hádeginu. Þar voru tvær servítrísuruppvarta, þjónustulundaðar með afbrigðum. Réttir dagsins litu girnilega út en samt leit ég á matseðilinn til að sannfærast um að ég gerði rétt í að velja mér karfa.

Á seðlinum sá ég hvatningu til gesta um að hafa samband við þjóinn ef aðstoðar væri þörf. Stemningin var svo góð á staðnum að ég fór að skellihlæja, og við allar þrjár sem vinnum við að reka augun í villur. Þjóustustúlkurnar útskýrðu fyrir okkur að þarna væri enginn sleipur í íslensku (samt hnutum við ekki um aðrar villur í prentuðum seðlinum).

Svo pöntuðum við okkur í feiknarlega góðu skapi, fengum góðan mat og fyrirtaksþjónustu. Það eru hreinar línur að ég fer aftur á Oliver við tækifæri - þrátt fyrir þjóhnappana.

Karfinn minn með engifersósu og spínati

Ásgerður og Laufey völdu sér eitthvað í brauði:

Ásgerður og borgarinn Laufey og borgarinn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er atvinnusjúkdómur minn að hnjóta um villur hvar sem mig ber niður. Einhverju sinni var ég í sængurbúð og sá að á pakkningunum stóð heislukoddi í stað heilsukoddi. Ég hugsaði það óvart upphátt að þarna væri villa og afgreiðslukonan fyrtist við mig. Síðan hef ég keypt sængurnar mínar annars staðar ... iiiiii.

Oliverurnar fá hins vegar fullt hús fyrir lipurð og matinn minn. Ég get ekki svarið að kjúklingaborgarinn hafi verið ætur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband