Laugardagur, 15. janúar 2022
Handboltalandslið karla
Sú var tíðin að ég gat romsað upp úr mér nöfnum landsliðsmanna (karla) í handbolta og jafnvel fótbolta. Í gær horfði ég á spennandi leik íslenska liðsins gegn því portúgalska en nú þekkti ég bara Björgvin Pál og Aron í sjón, þekkti nafnið á Gísla Þorgeiri og lagði Sigvalda og Viktor Gísla á minnið.
Ég veit að ég er ekki ein um að upplifa kynslóðaskiptin.
Í næstu leikjum ætla ég að læra fleiri nöfn, númer og andlit. Það er nú einu sinni mitt sérsvið, a.m.k. í fjallgöngum með mörgum ókunnugum.
Áhorfið framundan kemur í stað allra matarboðanna sem ég ætlaði að halda í janúar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. janúar 2022
festi, um festi, frá festi, til festar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. janúar 2022
Je suis atvinnulíf
Ég sé fólk skrifa að atvinnulífið megi fokka sér þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa áhyggjur af efnahagslífinu af því að margir séu frá vinnu vegna veikinda, einangrunar eða sóttkvíar.
Ég skil ekki svoleiðis skoðanir. Ég segist vera atvinnulíf en samt vinn ég hjá hinu opinbera. Ég hef hins vegar verið verslunarmaður og leiðsögumaður og svo verktaki við textarýni. En þótt spítali sé rekinn af ríkinu er hann atvinnulíf sem þarf að halda gangandi. Og starfsfólk þar þarf að komast í búðir, með börn á leikskóla, um ruddar eða saltaðar götur. Og ef atvinnulífið má fokka sér hlýtur allt að fara í hægagang og enda síðan með óbilandi kyrrstöðu.
Þess vegna er ég #teamatvinnulíf og skil ekki þá sem sjá og upplifa atvinnulíf og veikindadaga sem svart og hvítt.
Við hljótum að vilja finna milliveg og þræða hann svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. janúar 2022
#égtrúi
Ég hef áður sagt að ég geti ekki sagt setninguna: Ég trúi þolendum.
Ég trúi samt að þolendur séu til, að þeir séu margir, þeir hafi ekki kært, þeir hafi bælt niður alls kyns tilfinningar, fundist þeir standa einir í baráttunni og ég er algjörlega sannfærð um að margir þolendur hafi átt erfitt líf og svo styttra líf en til stóð.
Ég stend með þolendum. Það er setning sem ég get sagt og staðið með.
Ég er líka sannfærð um að næstum engin manneskja lýgur upp einhverri sögu um hegðun valdamikils fólks, fylgir henni eftir og stendur með henni alla leið. Ég trúi að erfiðleikarnir við að ljúga þvílíku upp trompi einhverja meinta þórðargleði.
Ég trúi að við séum á tímamótum núna. Breytingar verða ekki án aðgerða og þær eru ekki sársaukalausar. Það er undir okkur sjálfum komið, öllum á hliðarlínunni líka, að gæta þess að byltingin sem við höfum horft upp á í vikunni koðni ekki niður. Fjölmiðlar spila stóra rullu því að þeir eru með áhorf, lestur og hlustun en við sem höfum sloppið betur í gegnum lífið berum líka ábyrgð á samborgurum okkar.
Ég á glettilega erfitt með að skrifa þetta á mína lítt lesnu og hljóðlátu bloggsíðu vegna þess að völdin níðast á fólki með skoðanir sem eru líklegar til að breyta kerfinu og afvalda valdamesta fólkið. Og ég vil ekki verða útsett.
Almáttugur, hvað það hlýtur að vera erfitt fyrir þolendurna að stíga fram og skila skömminni. Ég stend með þolendum og kannski á ég eftir að treysta mér seinna til að segja það hærra.
Sem ég er að fara að birta þetta rifjast samt upp fyrir mér árið 2007 þegar ég leyfði mér hér að hafa efasemdir um bankavöldin sem hreyktu sér fyrir takmarkalausa snilld sína. Ég er hófsöm í orðavali en samt birtust einhverjir Jóar og Stjánar og Stebbar í kommentakerfinu og báru á mig öfund. Þeir komu ekki fram undir nafni en fannst samt eðlilegt að væna mig, sem þeir vissu engin deili á, um að öfunda dúddana sem voru þá mest áberandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 6. janúar 2022
Bara ef það kemst upp ...
Eins og á við um marga aðra er mér brugðið við að lesa um atburð sem varð í heitum potti fyrir rúmu ári. Ég hef, út frá málvitund, ekki getað sagt setninguna: Ég trúi þolendum, en ég get sagt að ég trúi frásögn Vítalíu. Ég trúi að hún sé þolandi. Þeir fimm karlar sem hafa verið orðaðir við brot gegn henni hafa líka allir gengist við því eða þannig skil ég það þegar þeir víkja allir úr störfum og stjórnum.
Ég óttast samt að þeir geri eins og norsku Exit-gaurarnir, noti síðan peninga sína og völd til að snúa sig út úr þessu, en mikið innilega vona ég að þetta marki straumhvörf í baráttu gegn ofbeldi.
Mannskepnan er margs konar og ég er ekki svo bjartsýn að halda að glæpir verði upprættir, bara aldrei nokkurn tímann, ekki frekar en að allir verði siðlegir og kurteisir einstaklingar. En af framhaldi þessa máls ræðst hvernig þolendum mun reiða af til lengri tíma. Og hvort þeim fækki.
Enginn þekkir annan til fulls en ég fullyrði að ég þekki ógrynni geðugra karla sem koma vel fram við fólk. Enginn í baráttuhug heldur öðru fram. Baráttan gegn ofbeldi snýst bara um baráttu gegn ofbeldi og ofbeldismönnum.
Það sem ég hnýt um í umræðunni eru orð stjórnarformanns Íseyjar sem höfð voru eftir henni á Vísi um einn af gerendunum:
Við vissum af þessu strax í haust þegar þetta kom á samfélagsmiðlum og við tókum það mjög alvarlega. Þá var gert samkomulag við hann að ef það yrði eitthvað meira úr þessu, kærur eða eitthvað slíkt þá myndi hann óska eftir leyfi.
Í kvöldfréttum RÚV sagði hún að þau hefðu ekki getað brugðist við orðrómi. Nei? En gerandinn, er hann bara sekur ef það kemst upp um hann? Braut hann ekki á henni ef hún hefði veigrað sér við að tala? Og hefði hann þá mátt halda óáreittur áfram hjá Íseyju þótt hann hefði gert nákvæmlega það sem hún ber á hann og hann veit að hann gerði henni?
Það er nefnilega þessi setning: Saklaus uns sekt er sönnuð - hún er svolítið að missa slagkraftinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 3. janúar 2022
Áramótaskaupið 2021
Það væri eiginlega fljótlegra fyrir mig að telja upp atriðin sem mér þóttu ekki góð en að tíunda þau sem mér þóttu vel heppnuð í áramótaskaupinu. Ég hefði að vísu viljað sjá fleiri pólitísk atriði og aðeins færri um covid en ég held að ég sé í minni hluta þannig að ég geri mig ánægða með hitt af því að atriðin voru fín.
Þau sem hittu allra mest í mark hjá mér voru því pólitísku atriðin: Lilja Alfreðs, Birgir Þórarins, Sigmundur Davíð og Inga Sæland. Freyr Eyjólfsson var óborganlegur Jakob Frímann á hljóðfærinu. Ég hef sérstakt dálæti á Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Gunnari Hanssyni. Tónlistaratriðin í upphafi og lokin þóttu mér vel heppnuð. Líka endurgerð á lagi Gagnamagnsins (Halldór Gylfason og Helga Braga Jónsdóttir).
Ég er fyrir löngu búin að átta mig á að mér finnst skaupið betur heppnað ef leikarar eru fleiri, og þá beitur sniðnir að hlutverkunum hverju sinni, en ef þeir eru færri og þurfa þá að bregða sér í hvers manns líki. Hér eru skjáskot af nokkrum góðum atriðum.
Kvíðapróf eða covid-próf?
Einföldu ráðin þegar maður fer til útlanda.
Kristín Þóra líkari Lilju en Lilja sjálf. Og svo kom geggjuð sena úr Brennu-Njálssögu.
Ég þekki ekki þessa fínu leikkonu.
Lífsýnin send sjóleiðis til Danmark - værsågod og mange tak.
Ég þekki að vísu ekki svona geðvonda náttúruhlaupara en atriðið var gott.
Squid Game - við horfum alltaf með kóreska talinu, haha. Veit heldur ekki hvaða fína leikkona þetta er.
Ekki hægt annað en að hlæja að flokksgæðingnum.
Enginn smálistgjörningur.
En fyrirgefið, er ekki árið 1848?
Þið þekkið hann Jakob!
Þið þekkið hann Birgi.
Only Fans!
ÆÐI. Ég entist ekki til að horfa á heilan þátt af Æði í haust en annars er ég mikill aðdáandi þeirra, sem sagt í viðtölum og leiknum auglýsingum.
Og lokalagið var líka æði:
Það er að æra óstöðugan að birta svona mörg skjáskot og mörg aðdáunarupphróp en þýðir samt ekki að mörg önnur atriði hafi ekki verið fín. Skaupið var mjög gott eins og mér finnst yfirleitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. janúar 2022
Drykkja eftir Thomas Vinterberg
Ég á ekki orð til að lýsa hrifningu minni á Drykkju eftir Thomas Vinterberg sem var á RÚV í gærkvöldi. Fjórir reffilegir karlar, þrír á sextugsaldri með engin börn eða uppkomin og einn um fertugt með ung börn, kennarar í framhaldsskóla, fá þá dillu í höfuðið að gera tilraun sem felur í sér að þeir eru með 0,5 prómill áfengis í líkamanum alla virka daga til kl. 20 á kvöldin. Þeir kaupa sér áfengismæli til að fylgjast með og skrásetja árangurinn á sérstökum fundum. Já, nú hætti ég beinni lýsingu því að þetta hljómar svo óáhugavert en almáttugur minn, myndin var svo skemmtileg, svo dönsk og svo stútfull af tilfinningum að hún ætti að vera skylduáhorf.
Rétt áður las ég bók Mána Péturssonar, Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi, sem ég mæli alveg með að menn lesi en helst fleiri saman og ræði kaflana. Ég er mikill aðdáandi Mána í útvarpinu fyrir að vera skýr og skorinorður, og ég held að hann sé eins hreinn og beinn og hann segist vera, en hans beittu og hnitmiðuðu kaflar eru einföldun eins og hann veit sjálfur. Stundum rekast heilræðin á, sbr. það að maður á að segja hug sinn allan og vera heiðarlegur en líka hlusta meira en tala. Ókei, ég sé að þetta virðist ekki rekast á en lesið bara bókina og þið sjáið það. Málið er bara að Máni ætlar sér ekki að bjarga öllum (karl)heiminum á 109 blaðsíðum, hann leggur fyrst og fremst til að við komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Og ég tek hatt minn ofan fyrir honum og hans miklu sjálfsvinnu í gegnum tíðina.
Aftur að myndinni. Ef einhver lesandi skyldi ekki horfa á hana verð ég að segja að tilraun félaganna brotlendir og þeir sjá að sér. Margt annað gerist sem gerir áhorfið þess virði þótt ég sé búin að ljóstra upp um það að þessir fjórir herrar gátu ekki haldið sér mjúkum allan vinnudaginn.
Meðan ég horfði á myndina minntist ég manns sem dó fyrir allmörgum árum á besta aldri. Ég þekkti hann sem unglingur og þekkti hann ekki vel en hélt að ég hefði aldrei séð hann undir áhrifum. Á daginn kom svo einmitt að ég hafði aldrei séð hann edrú, og fæstir.
Áfengisneysla í óhófi er fokkings skaðvaldur, fólk getur auðveldlega misst stjórn á hófdrykkju og flestar fjölskyldur, kannski allar, þekkja einhvern sem er í vandræðum. Þess vegna lít ég meðfram öðru á þessa mynd sem innlegg í forvarnir.
En aðallega var hún svo skemmtileg!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. desember 2021
Ekki sprengja í óhófi
Það að kveikja ekki í flugeldum er ekkert mótlæti fyrir mig þar sem ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á sprengingum. Ég get því trútt um talað þegar ég segi: Ekki sprengja.
En ég sá pistil á Facebook með góðum rökum um hvers vegna við ættum ekki að menga umhverfið og hræða dýr. Til vara vil ég segja: Ekki sprengja í tíma og ótíma. Takið mark á því þegar fólk varar við slæmum áhrifum á dýr, alls konar dýr. Takið mark á því þegar fólk talar um að börn hrökkvi upp af værum svefni. Takið mark á því þegar fólk talar um hvernig flugeldar menga umhverfið og stytta lífaldur jarðarinnar sem við búum saman á.
Ég sá aðra færslu í gær þar sem karl bað aðra karla á Facebook-síðunni Pabbatips að sleppa flugeldum en styrkja björgunarsveitirnar á aðra vegu ef hvatinn væri að láta gott af sér leiða. Pabbarnir sem höfðu hæst í svörum strengdu þess heit að kaupa tvöfaldan skammt, bæta við köku, láta bílinn vera í gangi á meðan og keyra um á nagladekkjum.
Ókei, ég varð mjög hissa á því að menn segi svona hluti og það undir nafni en sé þá að mótspyrnan er enn talsverð. Það er ekki eins og menn séu bara svona áhugasamir um að sjá himininn ljómast upp - sem ég skil að geti verið gaman - þeir eru líka forhertir og algjörlega blindir á þá glötun sem þeir flýta fyrir. Kannski eyðist jörðin sama hvað við reynum en ég er hissa á að sjá menn - sem líklega eiga börn ef þeir eru á Pabbatips - sem er slétt sama um hvernig börnum þeirra reiðir af á jörðinni.
En ég segi aftur: Vinsamlegast hugsið um afleiðingarnar af skammtímagleði. Skjótum fáum flugeldum og njótum þeirra mikið og vel á meðan. Virðum ferðafrelsi dýra. Virðum svefnró barna. Virðum jörðina okkar og framtíðina.
Gleðilegt nýtt ár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. desember 2021
My Dark Vanessa
Ég er núna búin með þessa umtöluðu bók. Ég ætla að punkta hjá mér hugleiðingar mínar en geri jafnvel ráð fyrir að skipta eitthvað um skoðun.
Vanessa er sögumaðurinn og segir frá tveimur tímabilum, 2000-2007 og svo 2017. Það er auðvelt að reikna út að hún á að vera fædd 1985, sem sagt jafn gömul höfundinum, Kate Elizabeth Russell (1984).
Sagan talar beint inn í uppgjör við kynferðisofbeldi karla gegn konum. Uppgjörinu er ekki lokið, hvorki í okkar raunverulegu veröld né hjá Vanessu sem er í miðju uppgjöri þegar bókinni lýkur, 400 blaðsíðna bók.
Það sem mér finnst best við bókina er að höfundur sýnir okkur en segir ekki, þ.e. útskýrir ekki öll heimskulegu viðbrögðin heldur leyfir lesendum að draga ályktanir, enda hefur höfundur orðið mikla skólun í ritlist. Bæði kennarinn og nemandinn eru helsjúk í kollunum sínum, að sumu leyti meðvituð um það en þá ekki nóg til að breyta um kúrs.
Ég óttast mest að þeir sem þyrftu helst að lesa bókmenntir af þessu tagi geri það ekki.
En þá að vonbrigðum mínum. Ég las þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur sem er starfsmaður hinnar nýju bókaútgáfu Króníku. Útgáfan hafði greinilega snarar hendur með að ná í þýðingarréttinn - og rétt að taka ofan fyrir því - en þýðing er vandasamt verk og þarf - eins og ritun verksins - bæði rúman tíma og aðkomu fleira fólks.
Ég hef séð handarbakavinnubrögð og ég geng ekki svo langt að segja þessa þýðingu svo slæma. En það er grátlegt að fá ekki vandaðan prófarkalestur í lokin á bók sem er viðbúið að verði svona mikið lesin. Ég nefni nokkur dæmi um óvandvirkni:
skipti hárinu í vanganum (frekar en í miðju) - ég finn að vísu eitt dæmi um svona orðalag, í Samtíðinni 1971
kaffi og krítarryks lyktinni - allnokkuð um að orð væru slitin svona í sundur en svo er skrifað einhver(s)staðar þannig að rökin sem ég var farin að tefla fram fyrir hönd þýðanda, að hún ætlaði að ná til þeirra sem ættu erfitt með lestur, féllu á annarri hverri blaðsíðu
týni af mér spjarirnar
tvær læstar dyr
kennileyti
Engar krak-kakinnar
Eins og þú manstu? - víða átakanlegur skortur á kommum en á móti voru þær víða til óþurftar
eitthvað sem hafði ollið
skyldi nákvæmlega hvað ég átti við
gengt húsinu
Þá eru ótalin skiptin sem óbein spurning endaði á spurningarmerki.
Ég hugsaði stundum: Já, þetta er önnur kynslóð, áherslurnar eru aðrar, kannski slítur einmitt þýðandi í sundur orð til að auðvelda sinni kynslóð lesturinn, en það gengur ekki upp. Víðast fylgir hún málstaðli þannig að ég get ekki túlkað frávikin, sem eru að meðaltali á hverri blaðsíðu, annað en villur og óvandaðan frágang. Vanur prófarkalesari hefði lesið bókina gaumgæfilega á einni viku og hún hefði þá mín vegna mátt kosta 200 kr. meira en hún er verðlögð á.
Auðvitað átta ég mig samt á að í 400 blaðsíðna bók er margt gott í þýðingunni, ég þyrfti bara að bera saman við frumtextann til að sjá hvar þýðandi er í essinu sínu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 26. desember 2021
Trúðurinn Aðalheiður og jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Hvenær er maður orðinn gamall? spurði kynnirinn Aðalheiður (Vala Kristín Eiríksdóttir) á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem voru sýndir á RÚV á aðfangadag. Svar hennar var að það væri þegar maður hætti að undrast það sem lífið byði manni upp á, hætti að sjá hið nýja og verða dolfallinn.
Ég var ekkert að fara að horfa á sjónvarpið eftir hádegi í fyrradag, kveikti bara á sjónvarpsfréttunum kl. 13 - en á eftir þeim kom þessi dásemd sem ég gat ekki slitið mig frá. Og ég er greinilega ekki orðin gömul!
Tónleikarnir voru frábærir, nóg fyrir bæði börn og fullorðna, en kynnirinn var svo sannarlega toppurinn á trénu, stjarnan sem skein skærast, límið sem hélt atburðinum í skorðum, sannur gleðigjafi - og stundum minnti hún mig á Línuna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. desember 2021
Takk fyrir visskiptin
Afsakið ef ég skemmi fyrir ykkur jólaauglýsingalesturinn á Bylgjunni. Ég hef ofgnótt af þolinmæði gagnvart auglýsingum og samgleðst fyrirtækjunum sem blómstra í desember. Ég hjóla á milli hverfa með útvarpið í eyrunum og læt mér lynda þótt aðeins sé eitt viðtal og eitt lag innan um hundruð auglýsinga. Áðan gekk þó þolinmæðin til þurrðar þegar auglýsingalesarinn þakkaði fyrir hönd fyrirtækja ítrekað fyrir visskiptin.
Ég vil fá ð-ið mitt til baka!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. desember 2021
Faraldur
Nei, annars, ég hef ekkert að segja um Covid. Samt langar mig að segja að ég hef svo djúpa samúð með þeim sem eru að reyna að halda starfsemi sinni á floti í því kvika ástandi sem ríkir núna. Við ætluðum 10 saman út að borða í hádeginu í dag en vegna hækkandi talna síðustu daga byrjaði að snjóa úr hópnum í gær og svo slógum við þetta af í morgun. Ég sendi veitingastaðnum upplýsingar og fékk svo hlýleg svör að ég mun drífa mig strax og fokkings faraldurinn leyfir.
Þetta bitnar ekkert á mér og mínu fjárhags- og heilsufarsöryggi þannig að ég get látið samúð mína óskipta til þeirra sem á þurfa að halda, já, og svo viðskipti um leið og færi gefst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. desember 2021
Gott fólk - góða fólkið
Ég er að lesa sex ára gamla bók, Gott fólk eftir Val Grettisson. Fyrst verð ég að segja, eins og Friðrika Benónýsdóttir í umfjöllun sinni, að hún hefur farið undarlega hljótt. Ég fékk ábendingu um bókina fyrir mánuði og nú er ég búin að spyrja urmul af vel lesnu og meðvituðu fólki hvort það kannist við hana. Nei, fæstir, og ekki heldur leikritið sem Þjóðleikhúsið setti upp 2017.
Að efni máls: Gott fólk fjallar um Sölva sem var í einhvers konar sambandi við Söru. Þau hættu saman og tveimur árum síðar eða svo koma tveir sameiginlegir vinir þeirra með bréf til hans þar sem hún sakar hann um ofbeldi í sinn garð og hvetur hann til að líta í eigin barm, axla ábyrgð á ofbeldinu og verða betri maður.
Sölvi er til þess að gera venjulegur maður. Hann lítur inn á við og rifjar upp skipti sem hann kom illa fram við Söru án þess að beita ofbeldi sem skildi eftir sig líkamleg ummerki. Hann lagði sum sé aldrei hendur á hana og nauðgaði henni aldrei.
Var hann bara leiðinlegur kærasti eða smættaði hann hana, lítillækkaði, kúgaði og gerði lítið úr?
Um það er bókin. Lesandinn er í raun þátttakandi í ábyrgðarferlinu sem er hrundið af stað með fyrsta bréfinu. Mér finnst hann ekki augljós ofbeldismaður - og ég hef sannarlega skorað mína eigin meðvirkni í gegnum tíðina á hólm - en mér finnst hann samt augljóslega þurfa að breyta hegðun sinni.
Sölvi er blaðamaður, dálítið áberandi, og þegar krafan um ábyrgðarferlið kvisast út finnur hann á eigin skinni afleiðingarnar. Vinnuframlag hans verður illa séð, hann fær ekki afgreiðslu á barnum, vinir og kunningjar verða tvístígandi.
Ég er þakklát fyrir þessa hugvekju frá óvæntu sjónarhorni en sá sem bloggaði upphaflega um sína eigin reynslu af ábyrgðarkerfinu kann blaðamanninum/rithöfundinum Val litlar þakkir fyrir að gera sér mat úr hans reynslu miðað við það sem haft er eftir honum. Gæti hann skorað rithöfundinn á hólm með ábyrgðarbréfi eða er rithöfundurinn í fullum rétti til þess að laga sannar sögur að sinni hugarsmíð?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. desember 2021
Ritstjórnir
Nú er ég búin að hámhorfa á Pressuna sem RÚV er með í sýningu. Þetta er bresk þáttaröð um ritstjórnir tveggja dagblaða sem bítast um bestu fréttirnar og bestu blaðamennina. Annað blaðið virðist hafa meiri metnað til að segja satt og rétt frá, eins og kveðið er á um í siðareglum blaðamanna, og hitt virðist hafa meiri metnað til að hafa áhrif á atburðarásina. Í lokaþættinum kristallast þessi munur enn frekar. Eina skemmdarverkið mitt hér er að ljóstra upp einu orði: Þjóðaröryggi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. desember 2021
Shutterstock
Um helgina sagði ég Shutterstock nokkrum sinnum í nálægð símans. Mér skilst að Shutterstock sé nokkurs konar myndaveita, ekki ósvipað og Flickr Creative Commons, þar sem maður getur sótt myndir án endurgjalds til að nota án hagnaðar. Ég er svo sem bara að gefa mér þetta út frá samhengi orðsins í textanum sem ég las.
Rétt í þessu sá ég að ég hafði fengið í morgun auglýsingapóst (sjá mynd) frá þessu fyrirtæki. Hingað til hef ég tengt algóriþmann við samfélagsmiðla, eins og Facebook, en nú renna heldur betur á mig tvær grímur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 12. desember 2021
Bankarnir
Mér finnst ég hafa heyrt eða lesið nýlega frétt um mikinn hagnað bankanna en þegar ég gúgla eru þær fréttir síðan fyrr í haust. Hins vegar er enginn vafi á því að bankarnir lepja ekki dauðann úr skel. Hvað veldur þessum ofsagróða? Vel rekin fyrirtæki?
Ég fékk þvottavélarviðgerðamann um daginn. Þegar hann var á förum spurði ég um reikning. Hann sagði að þau á skrifstofunni græjuðu hann. Alllöngu síðar, þremur vikum eða svo, barst hann í heimabankann og var þá 350 kr. hærri en gefið var upp á síðu fyrirtækisins. Munurinn fólst í seðilgjaldi. Seðilgjaldið var 2% af upphæðinni og á bak við það var engin sjáanleg þjónusta.
Hvert var vinnuframlag bankans? Hversu margir svona reikningar eru sendir út sem bankarnir hirða seðilgjöld af?
Þegar ég segi fólki hvað ég rukka fyrir mína verktakavinnu stendur sú upphæð. Ég sendi reikningana mína í gegnum Skúffuna ef um ríkisstofnun er að ræða en annars InExchange og þarf ekki að rukka seðilgjald. Af hverju komast bankarnir upp með þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 4. desember 2021
Dropinn holar steininn
Eftir einhver ár geri ég ráð fyrir að flestir verði undrandi á því að við skulum hafa borðað svona mikið kjöt árið 2021. Ég er bullandi sek, ég borða kjöt, ekki á hverjum degi en ég borða kjöt. Þegar ég hætti því, sem er spurning um hvenær en ekki hvort, á ég sjálfsagt ekki eftir að sakna þess. Við erum vanaföst og stundum tekur tíma að komast út úr óheilbrigðu mynstri.
En ég ætlaði ekki að dvelja svona lengi við mataræðið mitt hér, heldur benda á óhemjugott viðtal sem ég heyrði á Rás 1 í dag, viðtal við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, ritstjóra Stundarinnar. Hún hafði ákaflega margt gagnlegt að segja og gerði það á yfirvegaðan og hófstilltan hátt sem ég held að hjálpi umræðunni mjög mikið. Hún var ekki að tala um mataræði eða dýraníð, þótt hún gæti vafalauast lagt þar margt gott til málanna, heldur var hún að tala um kynferðisofbeldi sem við erum sem betur fer farin að viðurkenna og hamast við að uppræta. Þótt Ingibjörg sé bara rúmlega fertug hefur hún sannarlega marga fjöruna sopið á sínum blaðamannsferli og ég vona sannarlega að hún endist þar lengur því að hún er á kórréttum stað í því krefjandi starfi sem felst í því að vera rannsóknarblaðamaður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. nóvember 2021
Ég er blóðgjafi
Mér er tekið blóð með mjög mannúðlegum aðferðum. Ég fæ djús og saltkex, gott og heilbrigt spjall um heilsuna og svo ligg ég á bekk meðan tæplega hálfur lítri rennur úr æðinni/æðunum. Á eftir fæ ég kaffi og kruðerí og birti mynd af blóðgjafarspjaldinu á Instagram.
Við megum reyndar ekki gefa blóð sama hvað. Konur mega gefa blóð á fjögurra mánaða fresti, ekki þegar þær eru þungaðar eða nýbúnar að eiga barn, ekki skömmu eftir að hafa fengið húðflúr og ég man ekki hvort það eru fleiri takmarkanir. Ef hér skyldi geisa stríð og blóðskortur vera átakanlegur mættu konur þó gefa blóð aðeins oftar en annars er hugsunin sú að við náum að birgja okkur upp aftur.
Það að merum sé tekið blóð getur ekki verið það háskalega, heldur hvernig það er gert. Ég hata illa meðferð á nokkru og nokkrum en er möguleiki að umræðan um blóðmerarnar hafi farið úr böndunum? Ég heyrði orðið blóðmerar í fyrsta skipti í síðustu viku, en er hugsanlegt að dýralæknar viti um illa meðferð og aðhafist ekki? Ég neita að trúa því nema mér sé sýnt annað. Ég er búin að sjá svipmyndir sem hafa gengið og mér ofbýður þegar dýr eru lamin. Ég fordæmi það, en sýna þessar myndir sannleikann í sinni nöktustu mynd?
Árni Stefán Árnason, lögfræðingur sem sérhæfir sig í lögum um dýravernd, sýnist mér reyndar hafa komist að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum og eftir hverju erum við þá að bíða?
Ágúst Ólafur Ágústsson, þáverandi þingmaður, spurði um blóðmerahald í þinginu á svipuðum tíma og Inga Sæland þingmaður var fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um að banna að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu. Þórarinn Ingi Pétursson bóndi svarar Ingu fullum hálsi og ver fyrirtækið sem hefur veirð í umræðunni, Ísteka. Einhvers staðar hafa því hugmyndir verið á kreiki og aðrir verið betur upplýstir um blóðtökuna en ég - en frumvarpið sofnaði í atvinnuveganefnd þannig að við vitum ekki hver örlög frumvarpsins hefðu orðið í atkvæðagreiðslu þingsins.
Ég minni á mína upplýstu og samþykktu blóðgjöf, núna rúmlega 60 sinnum. Eru það ekki sirka 27 lítrar? Þeir hafa að sönnu nýst læknavísindunum til að hlynna að sjúkum og þjáðum en eru ekki notaðir til að auka frjósemi dýra sem við ætlum síðan að borða.
Ég skal éta allt ofan í mig ef ég er á villigötum en umræðan virkar svolítið ofsakennd og þátttakendur í henni gætu sannarlega verið einstaklingar sem borða egg úr hænum sem eru geymdar í litlum búrum og fitaðar þangað til fæturnir brotna undan þeim. Nú væri vel þegið að fá heildstæða og upplýsta umræðu - og gjarnan breytta hegðun í kjölfarið - um illa meðferð á dýrum, já, og jörðinni í leiðinni. Við getum ekki leyft okkur að hrópa upp yfir okkur í augnablik og halda svo áfram að borða eldiskjöt sem er alið við ómannúðlegar aðstæður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 26. nóvember 2021
Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson
Það er algjör tilviljun að ég kláraði hina stórkostlegu bók Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson í svörtu innkaupavikunni. Kaupagleðin er nú ekki að sliga neinn á Sjöundá og í grennd, hvorki nú né árið 1802 þegar helstu atburðir sögunnar urðu. Sagan er sönn, náttúrlega eitthvað skálduð eins og vera ber þegar sögumaður hefur bara heimildir frá öðrum og að auki heil öld liðin og rúmlega það frá atburðunum. Gunnar skrifaði söguna í Danmörku og gaf út þar og á því tungumáli 1929.
Hvert er söguefnið? Söguefnið er sá mikli harmur sem kveðinn var að Bjarna (41 árs) og Steinunni (33 ára) sem bjuggu á Sjöundá á Rauðasandi, hann með Guðrúnu (35 ára) og hún með Jóni (41 árs). Til þess er tekið í heimildum að bæði Bjarni og Steinunn hafi verið glæsileg og að sama skapi voru Guðrún og Jón (orðin) heldur ótótleg. Og Bjarni og Steinunn skutu sig hvort í öðru og fengu bágt fyrir í sveitinni, þótt einhverjir hafi haft samúð með hlutskipti þeirra. Hvor hjónin áttu fimm börn sem koma lítið við sögu.
Harmur Bjarna og Steinunnar var ekki eingöngu sá að vera ekki ætlað að eigast heldur að fyrir hálfgerða slysni fyrirkomu þau mökum sínum. Það sannaðist reyndar aldrei en þau játuðu eftir ótrúlega atburðarás í réttarhöldum. Strangt til tekið vitum við ekki enn hvort þau voru sek um það sem á þau var borið og sem þau meðgengu. Hljómar næstum kunnuglega þótt oft og iðulega heyrist setningin: Saklaus uns sekt er sönnuð.
Meðan ég var að lesa bókina hugsaði ég um forgengileika lífsins. Yfirvaldinu þótti ekki tilhlýðilegt að Bjarni og Steinunn gætu svo gott sem lógað Jóni og Guðrúnu - og hver getur andmælt því? Á hinn bóginn varð ekki vart við neina sérstaka meðlíðan þótt þrjú barna Bjarna og Guðrúnar króknuðu á árbarmi eða drukknuðu í ánni þegar þau ætluðu að læðast heim til sín. Eða þótt almúginn drægi varla fram lífið þrátt fyrir þrotlausa vinnu. Fólk var orðið gamalt og slitið um fimmtugt og þess vegna ímynda ég mér jafnvel að Bjarna hafi ekki þótt mikill fórnarkostnaður að gjalda fyrir framhjáhaldið með lífi sínu. Steinunn bar sig aumlegar þegar allt virtist stefna í líflát fyrir glæpinn.
Guðmundur Scheving sýslumaður sem dæmdi í þessu máli var kyndugur karakter. Sjálfsagt hefur hann verið vel haldinn í mat og drykk og þess umkominn að benda holdugum fingri á vesalingana á Sjöundá sem eygðu vott af gleði í öðru fólki en mökum sínum. Ég veit ekki hvernig sýslumaðurinn var í hátt, kannski var hann spengilegur og matgrannur, en á þessum árum þótti það samt til marks um velgengni að vera vel í holdum. Sýslumaðurinn hafði alla þræði í höndum sér en þegar ég segi kyndugur er ég svolítið að hugsa um að þrátt fyrir yfirlæti og oflæti var hann ekki ósanngjarn með öllu. Hann hlustaði á mótbárur, eða þannig kom hann mér fyrir sjónir, þótt hann hafi verið staðráðinn í að koma sakborningunum í gapastokkinn.
Fyrir margt löngu las ég Glæp og refsingu eftir Dostóévskíj og sá í nokkra daga á eftir Raskolnikoff í öllum skúmaskotum. Ég veit ekki hvort þetta fortíðarfólk á eftir að skjóta upp kollinum í sundi eða Bónus en vangaveltur um viðeigandi refsingu fyrir glæp verða ábyggilega áleitnar á aðventunni.
Ég held nefnilega að samviskan sé harðasti húsbóndinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. nóvember 2021
Ó, Hugleikur
Ég er að tala um leikfélagið mitt, Hugleik, sem er að sönnu tengt teiknaranum. Mér var bent á amatörlega (skárra væri það!) mynd um áhugaleikfélagið sem ég átti sjö góð ár með fyrir ríflega 20 árum og er enn sterkkur hluti af mér.
Ég lék nokkur hlutverk á þessum árum og söng einsöng, laglausa ég. Mikið var þetta frábær tími og góðir vinir sem ég eignaðist þarna.
Myndin sem var einhverra hluta vegna sýnd í dag er í spilara RÚV í þrjá mánuði. Gagnrýnendur voru, og eru kannski enn, hrifnastir af hinum ferska áhugamannablæ og mikilli leikgleði. Leikarar voru ekki síst á sviðinu fyrir sjálfa sig og Sigrún Óskars segist í myndinni hafa orðið mjög hissa þegar ókunnugt fólk mætti á fyrstu sýninguna.
Á mínum tíma voru flestir Hugleikarar utan af landi en ég er alin upp í 104 Reykjavík ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)