Þriðjudagur, 5. október 2021
Vanda eða Ásgrímur, þar er efinn
Ég skil þetta bara eftir hér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. október 2021
Að borga skatta eða ekki
Tvítari spurði þessarar spurningar:
Ef að þið gætuð sleppt því að borga skatta en jafnframt missa allt sem skattarnir greiða... mynduð þið?
Stutta svarið mitt er: Nei, ég trúi á samfélag og samneyslu. Hins vegar finnst mér að við gætum gert ýmislegt betur, upprætt spillingu og jafnað kjör. Ef við værum með borgaralaun þyrfti enginn örorku og atvinnuleysisbætur og þá væri hægt að nota starfskrafta fólks hjá Tryggingastofnun betur.
Ég hef að vísu aldrei sjálf þurft að sækja neitt til Tryggingastofnunar eða Vinnumálastofnunar en hef heyrt nógu margar sögur af því að fólk sem hefur hálfan handlegg þurfi að fara reglulega til að sanna að hann hafi ekki vaxið á og að Vinnumálastofnun haldi meint námskeið til að endurhæfa fólk en brýtur það niður. Því miður hef ég ástæðu til að trúa þessum sögum. Ég trúi hins vegar á að leyfa fólki að gera það sem það getur. Í öllum kerfum eru glufur og alltaf verður til fólk sem nýtir sér glufurnar en ég held að við eigum að trúa á að fólk vilji vel og svo eigum við frekar að hjálpa fólki til sjálfshjálpar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. september 2021
Auðmýkt ... eða ekki
Ég get fyrirgefið fólki ótrúlega mikið ef það sér að sér, biðst afsökunar og sýnir auðmýkt. Það er hins vegar ekki mitt að horfa í gegnum fingur mér þegar fólk brýtur lögin en auðmýkt og samstarfsvilji er ekkert að þvælast fyrir formanni yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. september 2021
Kosningar á Íslandi
Ég ætla ekki að alhæfa, en ég vann í nokkur skipti í kjördeildum í Reykjavík og varð aldrei vör við neina hnökra. Ég vann ekki við talningu, heldur við að taka á móti atkvæðum og eins og ég segi varð ég aldrei vör við að menn gæfu afslátt af fagmennsku.
Mér finnst að við verðum að fara varlega í að hrópa niður almenn faglegheit þótt ég sé á því að Borgarnesdeildin hafi ekki staðið sig. Ef lögin kveða á um að gögnin skuli geymd innsigluð á að geyma þau innsigluð, sbr. lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000:
104. gr.
Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1) eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem [ráðuneytið] 1) leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim.
Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.
Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda [ráðuneytinu] 1) sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim.
Nú er búið að telja aftur í Suðurkjördæmi og þar stemmdi allt. Vonandi skýrast málin í Norðvesturkjördæmi með morgninum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2021
Rafræn kosning
Einu haldbæru rökin gegn því að taka upp rafræna kosningu eru þau að ekki allir geta kosið rafrænt, eru t.d. ekki með tölvu heima hjá sér. Sá hópur er hins vegar minnkandi því að mig grunar að hann tengist aldri.
Ég sá viðtal í gærkvöldi við manninn sem ætlaði að keyra með atkvæðin frá Ísafirði í Borgarnes, fínt viðtal. Hann sagðist njóta ferðalagsins á fjögurra ára fresti og vonaðist til að ekki yrði farið að kjósa rafrænt svo hann missti þetta ekki. Ég er 99% viss um að hann var að grínast (þótt akstursstundin geti vissulega verið notaleg) vegna þess að hagræðið af því að niðurstaða atkvæðagreiðslu liggi fyrir fljótlega eftir að kjörstöðum er lokað, þ.e. þá bara í tíma en ekki rúmi, er augljóst. Þetta árið hefðum við þá t.d. ekki ranglega sent þau skilaboð til umheimsins að konur væru í meiri hluta nýkjörins þings.
Það sýður svolítið á mér við tilhugsunina um að hafna þessum augljósum tækniframförum. Samt horfði ég á kosningasjónvarpið langt fram yfir miðnætti mér til óblandinnar ... skemmtunar. Ég fórna bara þeirri skemmtun og finn mér annað skemmtilegt að gera í staðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2021
Söfnunarþingmenn
Ég heyri og sé að frambjóðendur sem eru ekki kjördæmakjörnir eru kallaðir jöfnunarþingmenn. Ég skil það ekki og legg til að þeir verði kallaðir söfnunarþingmenn. Þeir safna atkvæðum sem annars væru ódauð og ómerk í hinum kjördæmunum.
Steinliggur þetta ekki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. september 2021
Harmageddon hættir
Reiðarslag. Ég hef að vísu ekki hlustað upp á síðkastið en í fyrravetur átti ég oft kost á því og síðustu ár alltaf af og til. Stundum sótti ég þáttinn líka eftir á og hlustaði, a.m.k. á valda kafla. Frosti og Logi spurðu (og spyrja nú sjálfsagt annars staðar) ágengra spurninga og sniðgengu allt mélkisulegt orðalag.
En ég skil sjónarmiðið. Þeir eru komnir yfir fertugt og líta væntanlega svo á að ungu hlustendurnir séu ekki lengur markhópur þeirra.
Ég þakka fyrir samferðina og vona að þeir finni sér góðan farveg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. september 2021
Deilihagkerfið
Það er svo grátlegt að við skulum eiga svona marga bíla. Ég á bíl sem ég nota lítið en finnst gott að hafa einu sinni í mánuði eða svo. Ég keypti hann fyrst og fremst til að snattast með mömmu og pabba en nú eru þau bæði fallin frá. Bíllinn er of gamall til að það taki því að selja hann þannig að ég reikna með að keyra hann út.
Í dag vorum við þrjár vinkonur í hverfinu á kaffihúsi. Ein seldi bílinn sinn í sumar og er að velta fyrir sér hvort hún eigi nokkuð að fá sér nýjan bíl. En hún er í golfi og á gönguskíðum og þær sem hún heldur mest hópinn með í þeim íþróttum búa ekki nálægt henni þannig að þær geta ekki orðið samferða. Ég sagði að hún mætti fá minn bíl hvenær sem er (næstum) og þessi þriðja bauð sinn líka fram. En það væri miklu þægilegra ef svo og svo margir bílar á svo og svo marga íbúa væru til skiptanna og maður myndi bara leggja inn pöntun fyrir ákveðna daga og geta svo gengið að vel umgengnum bíl. Hvert skipti myndi sjálfsagt kosta eins og að taka leigubíl en kostnaður yfir árið myndi snarlækka hjá þeim sem nota bíl lítið.
En þetta kerfi hentar ekki bílaframleiðendum og ekki heldur bensínsölum og það eru hagsmunahóparnir sem halda okkur í kyrrstöðunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. september 2021
Morðhótun
Ég er ekki fórnarlamb, en á langri ævi hef ég auðvitað upplifað einhver áföll. Þegar ég var yfirmaður manns í menningarlífinu fyrir 20 árum varð hann mjög ósáttur við að ég vildi fara eftir reglum sem meira að segja hann sjálfur hafði tekið þátt í að setja. Hann lagði sig fram um að gera lítið úr mér og kvartaði undan mér við nefndina sem ég starfaði með. Nefndin hlustaði á hans sjónarmið á löngum fundi en spurði mig aldrei út í mitt sjónarmið. Samt var hann fræg fyllibytta í þeim bæ og annálaður fyrir að fara á skjön við allt regluverk. Minn næsti yfirmaður stóð með mér en þegar þessi undirmaður hringdi í mig um miðja nótt til að hóta mér lífláti og skar svo á dekkin á bílnum mínum var mér næstum allri lokið. Ég kláraði samt á endanum ráðningartímann með óbragð í munninum.
Út af líflátshótuninni fór ég til lögreglu með upptökuna en hún yppti öxlum og sagðist hvorki vera með búnað né mannskap til að bregðast við. Með það fór ég og lét gott heita. Ég veit sjálf sannleikann en ef múgur manns segði við mig að ég væri að ljúga, að mig misminnti eða ég væri almennt rugluð gæti verið að ég færi að efast um geðheilsu sjálfrar mín.
Kannski er það bara mitt lán að ég hef ekki mikið haft orð á þessu síðan. Einhverjir í kringum mig vissu af þessu en ég held að við höfum öll verið meðvirk og kannski of meðvituð um að við búum í svo karllægu samfélagi að flest er túlkað körlunum í vil.
Hann drap mig samt ekki en kannski bara vegna þess að ég forðaðist að stíga á tærnar á honum. Ég lúffaði og slapp við líkamlegt ofbeldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 4. september 2021
Þarf maður að hafa vit á fótbolta eða tónlist?
Ég er ekki fórnarlamb en ég stend með þolendum. Sá áhugavert innlegg á Twitter rétt áðan:
Eitt sem ég var að pæla í varðandi öll þessi fórnarlömb íslenskra tónlistarmanna hafa þær eitthvað vit á tónlist eða?
Ég get ekki skrifað þetta í eigin nafni af því að a) það væri ritstuldur, b) ég er ekki annálaður húmoristi eins og Gummi Jör.
Ég þori ekki annað en að bæta við að gerendameðvirkir hafa áfellst fórnarlömb fyrir að hafa ekki einu sinni vit á fótbolta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 3. september 2021
Þöggun ... eða ekki
Fótbolti.net segir mér þetta:
Mogginn segir mér þetta:
Ég dreg þá ályktun að menn vilji ekki líða kynþáttafordóma (nema þeir sem ástunda þá). Það er frábært og vonandi mikilvægt skref í að uppræta þá.
Hvernig má það vera að baulað sé á mann fyrir það að líta öðruvísi út en einhver annar? Og hvernig má það vera að nokkur sómakær einstaklingur líði það að fólk sé beitt ofbeldi? Af hverju finnst ekki öllum sómakærum sjálfsagt að fordæma ofbeldi af öllu tagi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 2. september 2021
Alls ekki munnskol
Ég hef því miður þurft að fara oft til tannlæknis um ævina. Samt hef ég ekki meðtekið fyrr en núna, eftir að hafa heyrt tannlækni segja það í útvarpinu, að munnskol gerir ekkert fyrir tannhirðuna, munnskol gefur manni bara ferskan andardrátt. Rétt notaður tannþráður er hins vegar mikilvægur fyrir tannheilsuna.
Svo sagði tannlæknirinn líka annað - hún ráðleggur okkur að skola ekki munninn með vatni eftir burstun heldur eigi maður að leyfa tannkreminu að liggja utan á tönnunum.
Ég nefni þetta svona ef einhver ætti eftir að meðtaka sannleikann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 1. september 2021
Landsliðsþjálfarinn tvístígandi
Ég hef horft á fótbolta (í sjónvarpi), argað af spennu, klappað og húhhað. Ég hef hrifist af ákafa, þrautseigju, góðu spileríi, fallegu marki og fallegri markvörslu. Ég get alveg skilið að fótboltaspil og fótboltaáhorf sé líf einhverra og að ekkert annað komist að. Ég get alveg skilið að þeir sem hafa lifibrauð sitt af fótbolta hringsnúist um hann.
Ég get líka skilið þegar landsliðsþjálfari íslenska liðsins segir að hann væri vondur þjálfari ef hann ætlaðist til að leikmennirnir yrðu með fullan fókus fyrir leikinn annað kvöld. En þá skil ég alls ekkert í blaðamannafundinum þar sem landsliðsþjálfarinn sneri við blaðinu. Kannski hangir þetta saman við skilning hans á því að leikmennirnir vilji ekki tjá sig um meint kynferðisofbeldi félaga sinna vegna þess að þeir segi kannski vitlaus(t) orð.
Lífið heldur áfram og ekkert okkar getur bjargað öllum heiminum, en getum við ekki öll verið sammála um að vera á móti ofbeldi? Getum við ekki öll staðið með þolendum? Lítur liðið kannski svo á að það sé þolandinn? Eru það orðin sem liðið óttast að missa út úr sér?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 31. ágúst 2021
Halla Gunnarsdóttir
Ég man þegar Halla Gunnarsdóttir gaf kost á sér til formennsku KSÍ. Ég þurfti að fletta upp hvenær það hefði verið en ég man vel hvernig mér leið með það. Ég vissi að hún myndi tapa. Hún vissi örugglega að hún myndi tapa.
Ég vildi að hún ynni en ég vissi að hún myndi tapa af því að menningin var alveg þekkt. Hin eitraða karlmennska var alveg þekkt og ég hélt að maður gæti engu breytt. Og tíminn var heldur ekki kominn.
Halla fékk þrjú atkvæði, Jafet Ólafsson 29 og Geir Þorsteinsson 86. Hver kýs aftur formann KSÍ? Eru það stjórnarmenn? Íþróttafréttamenn? Ætli það fólk hafi verið ánægt með valið á honum árið 2009 þegar 8 milljónir höfðu verið dregnar af korti KSÍ fyrir prívatflipp formannsins?
Hvernig brást núverandi framkvæmdastjóri KSÍ (starfsmaður til 27 ára) þá við? Ég finn ekkert um það en ég man ekki betur en að hún hafi stutt formanninn sinn.
Mikið held ég að klefinn hefði breyst ef Halla eða formaður af hennar tagi hefði fengið kosningu árið 2007 en ekki sá sem varð fyrir valinu.
Hvaða fólk kaus hann?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. ágúst 2021
Hver er sekur?
Allt sómakært fólk hlýtur að líta stundum í eigin barm og velta fyrir sér hvort það hafi stigið á tær. Ég geri það stundum.
Ég gæti rantað dágóða stund um þá skoðun mína að fólk eigi að segja satt og koma vel fram við fólk, beita það ekki ofbeldi eða brjóta á því á annan hátt. En við erum öll sammála um það.
Spurningin er meira um mörkin. Hvenær trúum við því að einhver hafi gerst brotlegur um eitthvað? Er freistandi að stinga höfðinu í sandinn eða fela það bak við skjáinn og vona að vandinn hverfi?
Já, það er freistandi. Þegar maður stendur með einum er maður stundum að taka afstöðu gegn öðrum í leiðinni. Það er leiðinlegt að vanda um við vini sína. Það er íþyngjandi að þurfa að segja við fólk sem er oft alveg frábært: Þessi hegðun, t.d. að viðhafa niðurlægjandi ummæli eða beita líkamlegu ofbeldi, er ekki í lagi og ég mun ekki líða hana.
Margir unglingar hafa heyrt jafnaldra sína gera lítið úr skólafélögum og það er augljóslega erfitt hlutskipti að þurfa að segja við sessunaut eða náinn bekkjarfélaga að orðbragðið sé ekki við hæfi.
Það er margt erfitt í lífinu og það getur verið hundleiðinlegt að vera yfirmaður eða í áhrifastöðu og hafa umboð og skyldur til að setja fólki stólinn fyrir dyrnar.
En oft fær fólk líka hærri laun en aðrir starfsmenn af því að það axlar - í orði kveðnu - ábyrgð. Fólk sem leitar í slík störf verður að hafa kjark og einurð til að taka líka slagina og leiðinlegu samtölin.
Já, ég er að tala um toppana hjá KSÍ.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. ágúst 2021
,,Það er alveg ljóst ..."
Þegar fólk segir ítrekað í einu stuttu viðtali að eitthvað sé alveg ljóst fer um mig hrollur. Það er alveg ljóst er hroðalegur orðaleppur þegar fólk veit ekkert hvernig það á að snúa sig út úr erfiðum spurningum. Maður hefur ekki mörg orð um það sem er alveg ljóst. Ef - svona ætla ég að vera agalega kurteis - landsliðsmenn í fótbolta hafa framið ofbeldisglæpi ... er ALVEG LJÓST AÐ FORYSTA KSÍ VISSI AF ÞEIM.
Hættum þessari fokkings gerendameðvirkni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. ágúst 2021
Innanlandsflug í Vatnsmýri vegna sjúkra/slasaðra?
Ég vil flugvöllinn burtu úr Vatnsmýrinni. Ég veit ekki hvort spítalanum er best komið fyrir við Hringbraut, kannski en kannski ekki, en mér er fyrirmunað að skilja af hverju sjúkrahúsið í Keflavík er ekki betur notað í bráðatilfellum. Ef sjúkrahúsið í Keflavík væri alltaf vel í stakk búið væri auðvelt að hafa miðstöð innanlandsflugsins þar af því að fólk sem á heima úti á landi gæti viljað fljúga beint til Keflavíkur, ganga einn gang og fara svo í utanlandsflugið sitt.
En, nei, hávær minni hluti sífrar um það að innnanlandsflugið verði að vera í Vatnsmýrinni út af sjúkum og slösuðum. Er ekki þyrlupallur við spítalann sem hægt er að lenda á ef þyrla sækir slasaðan einstakling, t.d. upp á fjöll eða út á sjó?
Og nú fréttist að áætlunarflugi til Vestmannaeyja verði hætt. Er þá Vestmannaeyingum sama um öryggið? Vegur kannski efnahagssjónarmiðið þarna meira? Ég hef ekki flogið til Vestmannaeyja í áratugi en ég veit um fólk sem varð að sleppa jarðarför í Vestmannaeyjum fyrir einhverjum árum af því að flugið átti að kosta 50.000 fyrir hvort þeirra. Skiljanlega gátu þau ekki keypt miða tímanlega og fengið eitthvert hoppgjald eða hvað það heitir.
Það er svo mikil skinhelgi í þessum flugmálum og tilfinningarnar alls ráðandi. Einhver hópur sem mig grunar að sé ponsulítill vill komast á inniskónum frá t.d. Akureyri og í Stjórnarráðið á þremur korterum. Léttlest frá Keflavík til BSÍ held ég að myndi svara megninu af þörf þess fólks og Dalvíkingar sem gætu viljað komast í tenerífska sól gætu á hinn bóginn sleppt því að gista eina nótt í Reykjavík á leið sinni til útlanda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 28. ágúst 2021
Ég get ekki nógsamlega dásamað Twitter þar sem umræðan er öfgalaus og staðreyndamiðuð. Flest tístin sem ég les þar eru frá fólki sem ég þekki ekki persónulega og það er líka dálítið þægilegt. Ég hef mig ekki í frammi á umræddu forriti heldur er ég lesandinn sem þegir meðan á lestrinum stendur og meðtekur ... og nú er ég að tjá mig um það hér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. ágúst 2021
Unglingar vilja sumarfrí
Þegar ég var unglingur þótti sjálfsagt að vinna launavinnu í öllum fríum; páskafríum, sumarfríum og jólafríum. Það þótti líka sjálfsagt að vinna með skóla. Mér finnst sem það hafi heyrt til undantekninga að vinir mínir hafi ekki unnið með menntaskóla, þá helst seinni part viku og um helgar. Eftir stúdentspróf fór ég heilan mánuð til útlanda og fannst ég svolítið hafa tapað þeim vinnumánuði þegar ég loks mætti hjá póstinum til að flokka og bera út. Samt var það auðvitað ekkert tap því að stúdentsferðin var frábær. Frábær! Og árin á undan hafði ég líka byrjað í sumarstörfunum (eitthvað nýtt á hverju ári) í lok apríl eða í síðasta lagi um miðjan maí.
Þetta er breytt. Unglingar vilja sumarfrí og helgarfrí. Ég var aðeins byrjuð að undrast þetta þegar ljósið rann upp fyrir mér. Mér fannst alltaf gaman að mæta í vinnuna; á færibandið í fiskvinnunni og í súkkulaðiverksmiðjunni, flokka og bera út póst og mæta í bankann til að - ég man reyndar ekkert hvað ég gerði sumarið mitt í Búnaðarbankanum. Um helgar var ég í fatahenginu í Leikhúskjallaranum.
Þetta var félagslegt og skemmtilegt, fullt af fólki á mínum aldri. Unglingar í dag þurfa ekki að fara út úr stofunni til að vera í samskiptum og upplifa félagsleg tengsl frekar en þau vilja.
Og sjálf er ég að breytast í 21. aldar ungling. Ég vil stytta vinnuvikuna, reyndar ekki vegna þess að mér leiðist í vinnu, alls ekki, heldur vegna þess að tæknin öll, tæknibylting síðustu 50 ára, hefur létt okkur störfin og auðveldað okkur að njóta frítímans. Frítíminn á ekki að byrja þegar við verðum 67 ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. ágúst 2021
Upplýsingar um skatta
Þegar ég les um opinbera skattheimtu umtalaða fólksins hef ég hugsað: Já, hann er svona tekjuhár. Gott að þetta skuli allt gefið upp.
Ég er svona einföld að ég hef hvorki áhuga né ástæðu til að öfunda tekjuháa fólkið. Ég skil reyndar alls ekki hvernig nokkur getur verið með - og varið - launatekjur upp á 5 milljónir á mánuði. Hvað getur viðkomandi gert til að verðskulda 7.000 kr. á tímann allan sólarhringinn, líka meðan hann sefur?
Fólk fær tilfallandi háar tekjur þegar það selur fyrirtæki en einhverjir eru með háar tekjur - og háar skattgreiðslur - ár eftir ár. Ég skil það ekki og skil alls ekki þann markað sem lætur það viðgangast.
En upplýsingarnar sem ég fagna, gagnsæið og vitundin - það er ekki endilega mikið að marka þetta. Til hvers er þá verið að tína í okkur tekju- og skattaupplýsingar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)