Miðvikudagur, 16. september 2020
Aðdróttun eða meiðyrði
Ég er núna í fjölmiðlanámi og meðal þess sem við lesum um eru aðdróttanir og meiðyrði. Margir dómar hafa fallið á báða bóga, menn verið dæmdir og ekki dæmdir fyrir að segja eitthvað óvarlega um einhvern sem einhver átti ekki skilið.
Já, þetta eru stundum eins konar véfréttir en í öllum dómum eru nánari upplýsingar, það eru bara reifanirnar sem eru með skammstafanir á nöfnunum.
Og þá rifjast upp fyrir mér saga af konu sem sendi frænku sinni tölvupóst og spurði sirka: Ég hef heyrt að þessi maður sem þú ert e.t.v. í tygjum við hafi beitt konuna sína andlegu ofbeldi. Getur þú sagt mér að hann hafi komið vel fram við þig? Engar ávirðingar, bara spurning.
Daginn eftir hringdi umræddur maður í frænkuna sem sendi póstinn, vildi fá að vita um hvern hún hefði verið að tala og hótaði frænkunni málssókn. Frænkan sagði: Ég þarf ekkert að segja þér það. Gaurinn sagði: Þú hringir í mig á morgun og segir mér það.
Hún hringdi ekki og sagði honum ekki neitt meira. Reyndar kom fram í tölvupóstinum að um fyrrverandi konuna hans væri að ræða. Kannski á hann margar fyrrverandi konur. Þremur mánuðum síðar hefur hann ekki stefnt henni. Ég veit ekki hvað það tekur yfirleitt langan tíma en umræddur gaur er löglærður og hefur líklega áttað sig á því að ef hann vekur upp mál sem eingöngu hefur verið í tölvupósti milli tveggja einstaklinga er hann að beina athyglinni að sjálfum sér og mögulega ofbeldi sem hann kann að hafa beitt fyrrverandi konuna sína.
Hótanir valda ótta, jafnvel þótt fólk sé bæði í góðri trú og með hreina samvisku. Frænkan ákvað að taka slaginn ef á reyndi og segja bara satt og rétt frá enda hefur hún ekkert að fela.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. september 2020
Meðvirkni
Ég þekki ekki til en ef nokkuð er að marka frásögn fráfarandi safnstjóra í Gerðarsafni er bullandi meðvirkni í Kópavogi. Ég felli ekki dóma yfir því sem ég þekki ekki sjálf þannig að ég slæ þennnan varnagla, en ég held eindregið að íslenskt samfélag sé gegnsýrt af meðvirkni. Kannski er það smæðin, við veigrum okkur við að stugga við vinum og vandamönnum, en kannski er það miklu útbreiddara í heiminum. Líklega er það vandamál í Bandaríkjunum ...
Skilum meðvirkninni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 11. september 2020
Gummi bróðir og meðvirknin
Auðvitað er leiðinlegt að segja sömu söguna of oft og ég hef alveg gengið í þá gildru þegar ég tala um Gumma bróður sem hefur gert sig líklegan til að stela af mér 7 milljónum á virði ársins 2008. En peningar eru bara peningar og svo er allt það sem hægt er að gera fyrir peningana. Ég get ímyndað mér marga betri staði fyrir mína peninga en lúxusferð hans með yngri dóttur sína til Balí að rækta hör. Mér finnst peningunum mínum heldur ekki vel varið í hugbreytandi efni sem telja honum trú um að hann sé bestur, klárastur og sætastur en líklega hefur hann verið á einhverju svoleiðis öll skiptin sem hann hefur talað eins og hann væri klárastur og sætastur. Nóg var af því hjali meðan ég umgekkst hann.
En, nei, það sem nístir hjarta mitt er að hann skyldi misbjóða mömmu okkar, særa hana og hafa ítrekað af henni peninga. Og að hann skyldi aðeins fjórum sinnum fara til pabba þegar hann var hjálparlítill á Hrafnistu og þá fyrst og fremst til að betla af honum peninga.
Ég talaði um þetta allt við fagmann í dag af því að ég get ekki fengið þetta út úr blóðrásinni hjá mér og það er alveg sama hvað ég undirbý mig vel, ég beygi alltaf af þegar ég tala um mömmu og pabba. Fagmaðurinn var með þá kenningu að ég væri haldin kvíða og ég er alveg til í að skoða þá kenningu þótt ég kvíði yfirleitt aldrei neinu heldur vaði í það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég ofandaði samt fullt í sumar þegar ég var að reyna að skrifa MA-ritgerð og stundum finnst mér ég finna fyrir hjartsláttartruflunum.
Í næsta tíma hjá fagmanninum ætlum við að prófa EMDR og ég er mjög spennt að vita hvað kemur úr undirdjúpunum. Ég held samt að þegar ég losna við Gumma úr kerfinu, sem sagt þegar hann borgar mér, losni ég við mjög margt vont í mínu lífi.
Að lokum: Skilum meðvirkninni. Tölum um vondu hlutina en byrgjum þá ekki inni. Ég á ekki sökina hér þótt ég sé ekki algóð eða hafin yfir gagnrýni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. september 2020
Sjö lygar eftir Elizabeth Kay
Ég gleypti Sjö lygar í mig um helgina enda mjög spennandi. Sögumaður segir frá í 1. persónu og gengst við sjö veigamiklum lygum. En eru þær fleiri? Það er hin áleitna spurning. Hvaða vinskapur eða hvaða ást ryður öllu öðru í burtu?
#kaltvatnmilliskinnsoghörunds
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. september 2020
Sænska skilnaðarmyndin á RÚV í gærkvöldi
Sunnudagskvöldin koma sannarlega sterk inn í bíómyndum hjá ríkissjónvarpinu þessar vikurnar. Um síðustu helgi var stórbrotin finnsk mynd og í gærkvöldi sænsk gamanmynd sem var svo fyndin og ófyrirsjáanleg að það ískraði í mér í einn og hálfan klukkutíma. Og allir leikararnir nýir í mínum augum sem var alveg sérstakur bónus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 6. september 2020
Dánarbú lifandi manns
Við vitum öll að lifandi menn skilja ekki eftir sig dánarbú en þetta er samt orðalagið sem Gummi bróðir lét lögfræðinginn sinn skrifa í umboði sínu þar sem hann fól lögfræðingnum að krefjast fjárræðissviptingar pabba eftir atvikum.
Í dag er nákvæmlega ár og dagur síðan ég sá Gumma síðast, ár og dagur síðan pabbi var jarðaður, 5. september 2019. Það er lengra síðan ég talaði við Gumma því að hann rétt skaust í jarðarförina, mætti ekki í kistulagninguna og ekki í erfidrykkjuna, kom bara eins og ókunnugur maður í jarðarförina og spjallaði við vandalaust fólk á aftasta bekk. Við hin systkinin þrjú sátum með ekkasog á fremsta bekk, líka 69 ára bróðir minn sem var mikið hjá pabba og m.a. þegar hann skildi við. Nú hellast tilfinningarnar aftur yfir mig. Pabbi var orðinn 98 ára en kýrskýr í kollinum og alls ekki sáttur við að fara. Hann var það ekki en líkaminn var farinn að gefa sig og ég leyfi mér að segja að Hrafnista reyndist honum ekki vel. Hann fékk að borða og fékk lyf en litla hlýju og varla nokkuð umfram það sem er væntanlega í starfslýsingunum. Og þetta var ekki ókeypis, alls ekki.
Við Kolbrún og Trausti og börnin þeirra og vissulega önnur dóttir Gumma gerðum eins og við gátum til að létta honum lífið, en það eru 24 stundir í sólarhringnum þannig að það voru samt margar klukkustundir á degi hverjum sem hann var afskiptur. Og ég ætla líka að segja það að hann var ítrekað skilinn eftir á klósettinu ... af því að ... eitthvað. Hann datt af klósettinu, hann datt á ísskápinn og okkur var sagt að starfsfólkið hefði í mesta lagi verið eina mínútu í burtu. Það stenst enga skoðun og við systur lágum ekki á skoðun okkar. Ég veit að skaðinn er skeður og ég get ekkert gert fyrir pabba lengur en þetta er ekki rétt. Stundum var fáliðað á ganginum en stundum var starfsfólkið bara upptekið af sjálfu sér.
En aftur að Gumma. Eins og lesendur síðunnar vita lánaði ég Gumma 7 milljónir árið 2008, 5 milljóna handveð sem bankinn gekk að og 2 milljónir til viðbótar til að borga reikninga fyrirtækis sem hann rak. Hann bað mig og ég sagði já af því að bankar rukka svo svívirðilega vexti og ég vildi spara honum lántökukostnað og mikinn vaxta- og jafnvel dráttarvaxtakostnað. Ég átti að sönnu peninginn og var aflögufær en varla er hægt að telja mér það til vansa að hafa farið vel með. Í umboðinu kallar lögfræðingurinn skuldina fyrnda en ég er ekki banki og skuldin ekki viðskiptaskuld. Að auki hafði Gummi fengið mikla peninga lánaða hjá mömmu og pabba og ég vissi að hann færi annars enn til þeirra og þau tóku nærri sér að fyrirtækið stæði svona illa. Ég á 20 ára gamalt bréf frá mömmu sem hún skrifaði Gumma og reyndi að koma vitinu fyrir hann varðandi reksturinn en hún sagði líka: Það þýðir ekki að tala við þig, þú grípur alltaf fram í, leyfir mér aldrei að klára og þá fer ég alltaf að gráta. - En svo sendi hún honum það ekki, heldur var það í pappírum sem ég hef farið í gegnum í búinu þeirra mömmu og pabba.
Gott fólk í kringum mig hefur hvatt mig til að sleppa tökunum, afskrifa skuldina og jafnvel fyrirgefa Gumma. Mér finnst það ekki gott ráð. Gummi er ólíklegur til að hætta að misbjóða fólki í kringum sig og nú er hann kallaður garðyrkjumaður á Sólheimum. Ég veit að fólk þar veit að það þarf að varast hann en kannski ekki það fólk sem er í mestri hættu. Hann getur auðvitað verið stimamjúkur eins og einkennir siðblint fólk.
Til viðbótar við skuldina við mig hafði hann fengið 10,5 milljónir lánaðar hjá mömmu og pabba og þá er ótalið það sem þau gáfu honum. Hann hefur þannig mögulega haft af sínu nánasta fólki upp undir 20 milljónir ef bara höfuðstóllinn er reiknaður saman. Og, nei, ég ætla ekki að hætta að innheimta skuldina. Öll góð ráð um að sleppa tökunum verða ekki þegin fyrr en hann gerir upp við mig. Ég hef ekki sent honum rukkanir um hitt. Af því ætti hann sjálfur 25% og ég 25% eins og við öll systkinin.
Fólk segir að maður þekki ekki fólk fyrr en maður hefur jarðað nákominn með því. Í mínu tilfelli eru það orð að sönnu því að ég lét glepjast í ótrúlega mörg ár, ótrúlega segi og ég meina af því að ég er greind manneskja en fjölskyldukærleikurinn blindaði mig til ársins 2018 þegar hann felldi grímuna þannig að undir tók í mínum heimi. Sumir aðrir voru löngu búnir að sjá úr hverju hann er gerður.
Auðvitað veit ég hvað ég ætla að gera við peningana sem hann skuldar mér en það eru svikin, undirferlið, hótanirnar og ómerkilegheitin sem svíða mest og svo mitt eigið stjórnlausa dómgreindarleysi gagnvart albróður mínum, Gumma Steins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 5. september 2020
Markhópur þjóðkirkjunnar
Þar sem ég er ekki í þjóðkirkjunni missti ég af auglýsingunni um sunnudagaskóla þjóðkirkjunnar en ef eitthvað gæti dregið mig að þjóðkirkjunni væri það einmitt víðsýni af þeim toga sem fjallað er um í fréttunum í dag.
En samt ekki. Sú kirkja sem hefur blasað við mér svo lengi er forpokuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. september 2020
Morgunblaðið
Ég blogga hér ókeypis á vefsvæði Morgunblaðsins og kannski á ég að skammast mín fyrir það. Tvisvar sinnum hef ég samt borgað eitthvað til að fá pláss fyrir myndir en síðan er langt um liðið.
Þegar ég les um það að Morgunblaðið fái næstum því 100 milljónir til að mæta taprekstri á síðasta ári rekur mig í rogastans. Ég var dyggur lesandi Morgunblaðsins á mínum yngri árum og það þótt ég vissi að blaðið væri pólitískt. Það var bara heiðarlegur áróður og slagsíða eins og tíðkaðist á öðrum blöðum. Ég varð áskrifandi eftir að ég flutti úr foreldrahúsum en sagði svo áskriftinni upp fyrir einum 15 árum. Ég veit að menningarumfjöllunin er mjög góð og að þarna starfar margt gott fólk með mikinn metnað en svipmótið ber þess samt merki að blaðið hefur engan áhuga á að bera sig á markaði, svona eins og umfjöllun - eða skortur á henni - er um hið stóra hagsmunamál okkar skattgreiðenda, fiskveiðar. Og fyrir því er ástæða, ekki satt? Stjórn þessarar auðlindar er ekki eins og stór hópur Íslendinga vill hafa hana. Ég held jafnvel að lítill hluti ráði óþarflega miklu.
Nú bið ég alla sem villast hingað inn að leiðrétta ef þeir telja mig fara með rangt mál en ég held að Morgunblaðið hafi verið fjármagnað af hagsmunaaðila í mörg ár. Því ætti það ekki að falla undir það að hafa verið rekið með tapi aðeins bara síðasta ár sem reyndist mörgum fjölmiðlum þungbært.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 2. september 2020
Aðbúnaður á hjúkrunarheimilum
Því miður trúi ég hverju orði í þessari frásögn. Pabbi minn var á Hrafnistu í tæp tvö ár og við sáum hann koðna niður. Samt fór systir mín til hans á hverjum degi sem hún var á landinu og ég þrisvar í viku og oftar þegar leið á dvölina. Starfsfólkið missti hann þegar það hjálpaði honum fram úr rúminu, hundsaði hann, skammaði hann, bæði fyrir að liggja fyrir og vera á ferðinni. Ég kvartaði skriflega og mér var sagt að aldrei hefði verið kvartað. Við systur fengum fund með umboðsmanni aðstandenda, indælli konu sem gerði ekki neitt.
Ég fæ kökk í hálsinn og illt í hjartað þegar ég rifja þetta tímabil upp. Við fylgdumst auðvitað mest með pabba en við sáum alveg hvernig annað fólk á ganginum var hundsað.
Ég get nafngreint fólkið sem hugsaði mest um að horfa á sjónvarpið eða sinna samfélagsmiðlunum og líka hjúkkurnar sem hreyttu í fólk en læt duga að segja Hrafnista sem vekur með mér nægan hroll.
Það er ekki tilhlökkunarefni að eiga eftir að eldast og verða minna sjálfbjarga í þessu kompaníi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. ágúst 2020
Nöldurseggurinn - finnska bíómyndin
Horfið á hana. Hún er það fyndnasta sem ég hef séð í háa herrans tíð. Hún er dálítið ýkt eða maður gæti haldið það ef maður þekkir ekki svona karlfauska en þeir eru víst til. Föt sem nöldurseggurinn keypti á konuna sína 1973 og eru óslítandi eru gjöf sem hann færir tengdadóttur sinni með orðunum: Þau hafa verið þvegin á hverju ári og aldrei hefur þurft að staga í þau.
Vonandi býður RÚV upp á fleiri finnskar myndir á næstunni. Húmorinn er mér að skapi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 31. ágúst 2020
Orðabúrið
Sprenging hefur orðið í hljóðbókaútgáfu undanfarið en á Spotify er líka stórskemmtilegur þáttur tveggja manna um síður úr orðabók. Pétur og Kristján spjalla saman um áhugaverð orð á einni orðabókarsíðu í senn, mynda setningar með skringilegum orðum og hafa svo gaman af því sjálfir að það er ekki hægt annað en að hrífast með. Sjálfri finnst mér það skemmtilegra en að hlusta á sögur sem ég get lesið sjálf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 29. ágúst 2020
Sundabraut
Alla mína ævi hefur verið talað um nauðsyn Sundabrautar en mönnum ekki borið saman um hvort efri eða neðri gerð væri heppilegri, hvort hún ætti að koma inn á Langholtsveginn eða vestar, hvort vistkerfinu stæði hætta af framkvæmdinni og ég man ekki lengur hvað og hvað. En nú er kannski nauðsynlegt að hrinda henni í framkvæmd og hvernig standa málin með flugstöðina? Er verið að stækka hana núna meðan aðsókin er lítil og búa í haginn fyrir framtíðina? Ef ég væri blaðamaður ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. ágúst 2020
Punktur í lok setningar á netinu (í spjalli)
Það eru alls konar tákn í gangi alls staðar og stundum sendir maður sjálfsagt ómeðvituð skilaboð. Í spjallinu á Facebook er ég óformlegri en í öðrum textum og byrja setningar yfirleitt á lágstaf og enda ekki með punkti. Ef ég er að skrifa í símanum kemur sjálfkrafa hástafur fremst og þá enda ég á punkti. Mér finnst það rökrétt.
Ég hef heyrt að þau sem eru núna um tvítugt taki punkti í lok setningar sem skömmum. Dæmi: Foreldri skrifar: Mér finnst að þú ættir að fara að sofa núna.
Afkvæmið segir að foreldrið sé að skammast og ætti frekar að skrifa, þá mildilega: Mér finnst að þú ættir að fara að sofa núna
Mér finnst óþægilegt að sjá heilar setningar sem byrja á stórum staf enda í lausu lofti en ég held að sú breyting hafi byrjað á því að í símum þarf fólk að skipta á milli lyklaborða til að ná í greinarmerki. En punktur þýðir ekki að ég sé reið og alls ekki öskureið ef ég set þrjá punkta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. ágúst 2020
Fyrirvinna
Merkilegt. Í aldanna rás hefur verið talað um karla sem fyrirvinnur fjölskyldna sinna ... og svo er orðið kvenkyns. Ég tók allt í einu eftir þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. ágúst 2020
Svarthvítur glæpur
Ég var mikill lestrarhestur á mínum yngri árum en nú kalla ég mig góða ef ég les heila skáldsögu í hverjum mánuði. Í síðustu viku þurfti ég að skila skólabókum á bókasafnið og ákvað að grípa Glæp við fæðingu og taka með mér heim. Á laugardaginn ákvað ég að hringa mig með hana á svölunum og las næstum alla. Hún er sársaukafull og um afskaplega erfiða bernsku og æsku í glæparíkinu Suður-Afríku, þar sem sögumaður ólst upp. Ástæðan fyrir því að hann sendi þessa bók frá sér rúmlega þrítugur er að hann komst út úr hverfinu, húddinu, og hann segir sjálfur að hann eigi allt mömmu sinni að þakka sem skammaði hann blóðugum skömmunum ef henni þótti ástæða til með það fyrir augum að skóla hann til svo löggan gerði það ekki. Hann var líka nógu glúrinn til að koma alltaf standandi niður og þess vegna varð hann ekki innlyksa í húddinu og koðnaði niður eins og eru örugglega örlög margra.
Sagan er um þungt efni en æsispennandi og fljótlesin vegna stílsins. Og Trevor Noah kvað vera vinsæll uppistandari og hlaðvarpsstjórnandi í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. ágúst 2020
22. ágúst 2019
Í dag er gleðidagur. Í dag er ígildi menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons og í dag skín sólin. Engu að síður kýs ég nú að líta um öxl og rifja upp 22. ágúst í fyrra þegar pabbi minn skildi við. Hann var orðinn 98 ára og búinn að eiga gott líf. Síðustu tvö árin voru samt sársaukafull af því að þá var hann svo hjálparvana, maðurinn sem hafði alltaf rétt öðrum hjálparhönd, maðurinn sem ég gat alltaf reitt mig á. Ég var orðin hjálparhellan hans og það var auðvitað sjálfsagt mál en það tók á að sjá hann missa sjálfstæði sitt en halda skýrri hugsun. Í dag kýs ég því að horfa inn á við og minnast pabba skriflega.
Lýs, milda ljós.
Hann var bara rafvirki svo notuð séu hans orð. Við ræddum þetta alloft og ég varð alltaf jafn forviða á að hann skyldi tala sjálfan sig og starfið niður. Rafmagn er einhver merkilegasta uppfinningin og það að hafa vald á vinnu við það er algjörlega stórkostlegt. Pabbi var iðinn við kolann, stofnaði eigið fyrirtæki, var alltaf vinsæll í vinnu og kom rafmagni í margar stórbyggingar um miðja 20. öld. Þar fyrir utan var hann rafvirki allrar fjölskyldunnar og alltaf bóngóður. Því miður heldur ekkert okkar systkinanna kyndlinum á lofti.
Það er bara ár síðan hann dó, samt svo langur tími og allan þennan mánuð hef ég fundið ógnarsterkt fyrir nærveru hans. Ég vona að hann hann hafi fundið mömmu í græna landinu og fái bæði púðursykurstertu og pönnukökur eins og hann getur í sig látið.
Ég ætla að njóta veðurblíðunnar í hans anda því að meiri sólarfíkill er vandfundinn.
Es. Ég sá hann næstum aldrei svartklæddan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. ágúst 2020
17.104
Í júlí voru víst rúmlega 17.000 manns án atvinnu. Fallið úr kannski 800.000 kr. tekjum í 290.000 er býsna hátt og launamenn eiga enga sök á því. En í stað þess að einblína á að hækka atvinnuleysisbætur finnst mér við þurfa að hugsa atvinnulífið upp á nýtt. Fyrir mestu er að fólk hafi framfærslu og að ákveðin verk séu unnin. Nú er lag að stytta vinnuvikuna og jafna störfin þannig að allir vinnufærir menn eigi kost á vinnu og afkomu. Auðvitað eru sum störf svo sérhæfð að það tekur mörg ár að ná færni í þeim en hvaða skynsemi er í 40 stunda vinnuviku núna þegar tæknin hefur leyst marga af hólmi?
Störf tapast, segir fólk, þegar kaupendur geta skannað vörurnar í búðinni og borgað án þess að manneskja afgreiði þá. Já, en þá ætti að stytta vinnuvikuna án þess að lágu launin í búðinni skerðist. Enginn tapar á því. Enginn. Hins vegar verða til önnur verk við viðhald á móti en þau er ekki endilega hægt að vinna á gólfinu.
En afsakið að ég segi upphátt að meðfram styttingu vinnuvikunnar þarf að taka fyrir skrepp fólks. Á vinnutíma á fólk aðeins að geta farið til læknis, tannlæknis, í jarðarfarir nákominna og foreldraviðtöl vegna barna. Fólk á ekki að fara í klippingu á vinnutíma, ekki í búðir, ekki í tveggja tíma mat með vinunum, ekki með bílinn í skoðun ekki upp á það að skilja verkefnin eftir hjá vinnufélögunum.
Afsakið að ég sé ekki búin að finna og forma einu réttu lausnina en orð eru til alls fyrst og samfélagið þarf sameiginlega að finna jafnvægið í vinnu og afkomu. Ég valdi en valdi samt ekki að vinna mér til húðar í 25 ár og valdi svo í fyrrahaust að taka skref til baka og vona að mér lánist að halda mig við hóflegan vinnutíma í framtíðinni. Þótt vinnan sé skemmtileg er hún ekki lífið eins og það leggur sig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 18. ágúst 2020
Samgöngustyrkir
Algjörlega að þarflausu fór ég að velta fyrir mér samgöngusamningum. Þeir eiga að hvetja fólk til að koma ekki á bíl í vinnuna og t.d. hjá Reykjavíkurborg voru þeir upp á 6.000 kr. á mánuði 2017. 6*12 eru 72 enda hljóðaði samningurinn upp á 72.000 á ári og var líka greiddur í sumarfríi.
Í spurningum og svörum hjá Landspítalanum er beinlínis spurningin:
Fæ ég samgöngustyrk meðan ég er í sumarfríi?
Svarið er: Já.
Ég þekki núna dæmi um annað og það gengur fram af mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. ágúst 2020
Smáatriði eru mínar ær og kýr
Ég er með BA í smásmygli. Nei, ég hef haft lífsviðurværi mitt af því að fara yfir mál annarra og laga að málstaðli og mér hefur þótt það skemmtilegt og áhugavert. Í því felst að leita að villum og þá þarf maður að vera smásmugulegur.
Í sumar hef ég verið að skrifa MA-ritgerð um muninn á talmáli og ritmáli. Það er aðallega skemmtileg stúdía en dálítið lýjandi af því að maður fær efasemdir. Er ég á réttri leið? Er þetta of mikið smáatriði? Hefur einhver annar en ég áhuga á þessu?
Ég vildi bara létta þessu af mér af því að mér líður betur þegar ég er búin að segja suma sjálfsagða hluti. Hver fær ekki efasemdir um rannsóknirnar sínar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Peningar tala
Ég hef mikla ást á sannleikanum. Illa fengnir peningar hafa mikinn áhuga á að leyna sannleikanum. Ég ítreka að ég hef ekki aðgang að öllu sem aðilar máls í Samherjamálunum hafa og tek þannig ekki afstöðu til þeirra að öðru leyti en því að ég finn hvaða rök virka á mig.
Í mjög langan tíma hef ég verið sannfærð um að auðlindum þjóðarinnar sé ójafnt skipt. Ég er millistéttartútta og hef það gott. Ég átti foreldra sem gátu veitt mér gott atlæti og hvöttu mig til að læra það sem mig langaði til að læra. Ég hef alla ævi unnið fyrir mér og haft ásættanlegar tekjur sem er ekki hægt að segja um allt gott fólk með góða menntun. Stórum stéttum er haldið í launalægð og á sama tíma er peningum dælt til puntustétta og barnanna þeirra. Tiltekinn hópur Íslendinga þarf nákvæmlega ekkert að hafa fyrir lífinu, ja, nema þá að verjast sannleikanum.
Þegar menn eiga svo mikla peninga að þeir sofa ekki vært á næturnar af ótta við að þurfa einhvern tímann að borga fyrir þau gæði sem streyma til þeirra á gott og sannleikselskandi fólk að taka upp hanskann fyrir þá sem leita sannleikans og réttlætisins logandi ljósi.
Áfram RÚV.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)