,,Hún segir að þeim viðurlögum sé þó sjaldan beitt gegn opinberum starfsmönnum.''

Hver hringdi í Láru? Einar fréttamaður? Kennarar eru hársbreidd frá blóðugri baráttu fyrir kjörum sínum og sérfræðingur í vinnurétti æðir inn á vígvöllinn með kökugaffal og hrópar á steik. Fyrirgefið skort á vönduðu myndmáli, ég er bara svo stórkostlega bit á að sérfræðingur í vinnurétti hengi sig í að kennarar sýni mikilvægi sitt með því að fara af vinnustaðnum hálftíma áður en formlegri kennslu lýkur.

Ég hef aðeins gluggað í lög og veit að það er lagalega flókið að segja fólki upp störfum þótt það mæti lyktandi af áfengi, rammskakkt til augnanna, hringi sig reglulega inn veikt, vinni með handarbökunum og/eða rakki vinnustaðinn niður. Víða mætti auðvelda stjórnendum að segja upp óhæfu fólki en það að láta sér detta í hug að argast yfir því að fólk hafi metnað til að sinna lífsköllun og fá fyrir það boðleg laun kalla ég að lesa stöðuna kolrangt.

Já, í hópnum sem gekk út í gær eru bæði svartir og gráir sauðir en við verðum að varast að láta undantekningarnar ráða umræðunni. Í gær birtist grein sem mér finnst segja ansi mikið. Ég hef hins vegar lokið máli mínu ...


Lækkar MS verðið?

MS slapp við 440 m.kr. sekt - hlýtur þá ekki vöruverð að lækka? Forstjórinn missti út úr sér í haust að sektarupphæðin færi beinustu leið út í vöruverðið, dró síðan orð sín (í orði kveðnu) til baka. En fréttin í fréttinni er auðvitað að fákeppnisfélag má selja sjálfu sér á lægra verði en samkeppnisaðilum. Er það ekki magnað?

Og einhvers staðar las ég að í áfrýjunarnefnd samkeppnismála væru þrír menn. Ákvörðunin um þetta hvílir þá á herðum tveggja manna. Samúð mín er ómæld.


Ég sökka fyrir íslenskunni

Ég fór á hátíðardagskrá í Hörpu í dag. Eins og við var að búast var stundin dásamleg. Fyrst var forseti Íslands með annað erindi en á málræktarþinginu í gær, en fyndinn og orðheppinn eins og ég er farin að vænta af honum í hvert sinn. Eitt af því sem bar á góma var auðvitað að tungumálið væri lifandi og síkvikt. Þess vegna á ekki að vernda það eins og viðkvæmt og dauðvona blóm heldur leyfa því að njóta sín og sprikla. Það má sletta. Mér finnst það. En ekki endilega í hverri setningu.

Sigurður Pálsson fékk makleg verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og þeim hafa verið gerð skil í fjölmiðlum dagsins en minni athygli fékk Ævar vísindamaður sem fékk viðurkenningu og flutti svo fallegt erindi sem endaði á upptalningu á nokkrum kennurum sem vörðuðu leið hans út í lífið. Ef við höfum ekki kennara sem láta sér annt um nemendur fækkar þeim sem brillera í lífinu.

Og það er mjög erfitt að kenna yngsta aldurshópnum. Ég vona að viðsemjendur kennara átti sig á ábyrgðinni.


Ef væri ég kennari ...

Ég er kennari. Að mennt. Ég kenndi nokkur ár í framhaldsskóla og fannst ég aldrei búin í vinnunni. Ég þurfti að undirbúa tíma, ákveða hvað ég ætlaði að tala um og hvernig, ákveða hvernig ég ætlaði að virkja nemendur og svo þurfti ég að virkja nemendur í tímum. Ég þurfti að fara yfir verkefni. Þegar ég var að þessu öllu var ég að því. Þegar ég var ekki að því var ég að hugsa um það, stundum með nagandi samviskubit.

Allir páskar voru undirlagðir af ritgerðum. Ég þurfti klukkutíma til að fara yfir stóra ritgerð sem ég vildi skrifa uppbyggilegar athugasemdir við. Það þýddi að ég fór með sæmilegu móti yfir átta ritgerðir á dag í dymbilvikunni og yfir páskadagana. Nema ef ég sleppti páskadegi og var þá í öngum mínum yfir sleifarlaginu.

Aldrei myndi ég treysta mér til að kenna yngstu börnunum. Þau kunna ekki að lesa fyrr en búið er að kenna þeim það. Sum koma læs í skólann á fyrsta degi. Þá eru sum læs í 1. bekk og sum ekki. Það gerir kennaranum sennilega erfiðara fyrir.

Það er mikilvægt að grunnurinn sé vel lagður, að við höfum hæft og áhugasamt fólk til að kljást við það erfiða verkefni, áreiðanlega oft gefandi en samt krefjandi.

Af hverju er þetta fólk ekki á háa kaupinu?

 


Alzheimer-buffið

Guðna tekst það aftur. Með því að gera sjálfan sig að aukaatriði vekur hann athygli á verðugu málefni.


Karl Ágúst á Hringbraut

1/5 af Spaugstofunni er orðinn reglulegur gestur Hringbrautar í stofunni hjá mér. Hann er bæði fyndinn og fundvís á forvitnilega nálgun á hin ýmsu mál. Nú er hann t.d. að tala um ... ýmislegt. 


Hjáróma í kórnum um kjararáð

Ég er orðin nógu gömul til að hafa kosið oft og mörgum sinnum og hef í hvert skipti verið óvissuatkvæði þannig að það sem einhver kann að lesa hér á eftir út úr skrifum mínum um flokkspólitíska afstöðu er örugglega rangt. Hún er ekki til.

Kjararáði er nauðugur einn kostur að úrskurða á kjördegi, eina daginn sem það veit ekki hverjir eru þingmenn þannig að ekki sé hægt að kalla hækkunina flokkspólitíska.

Laun þingmanna hafa verið lág. Laun margra annarra hafa líka verið og eru lág. Þingmenn sem taka starf sitt alvarlega eru alltaf að, lesa, hlusta, fylgjast með innlendum markaði, hitta fólk, fylgjast með erlendum hreyfingum og eru alltaf í vinnunni. Það er ekki endilega hollt eða ástæða til að mæla með því en það er þannig ef þingmaður hefur metnað og eldmóð. Starfið er lífsstíll og áhugamál. Margir segja að þingmenn byrji af krafti og ástríðu en að það eldist fljótt af þeim. Það kann að eiga við um suma en það á líka við um flestar stéttir.

Sjálfri finnst mér hækkunin of brött og sjálfri finnst mér óeðlilegt og rangt að margt sé greitt fyrir þingmenn, svo sem starfskostnaður. Laun þingmanna eiga að vera gagnsæ og þau eiga að vera ágæt.

Ég sit ekki í kjararáði, þekki ekkert af því fólki og skrifa þetta bara út frá einstaklingsskoðun minni.

Ég gæti líka talað um laun leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga en þegar við tölum um laun erum við í raun alltaf að tala um samanburð. Hvað fáum við fyrir launin? Hvað getur næsti maður sem líka ber mikla ábyrgð og vinnur langan vinnudag leyft sér? Hvað kostar fasteign?

Við eigum að borga löggjafanum góð laun og við eigum að gera miklar kröfur, m.a. um að þingmenn búi okkur þannig lagaumhverfi að við getum lifað mannsæmandi lífi á laununum okkar og að launin okkar séu í samræmi við menntun, framlag, ábyrgð og vinnutíma.

Finnst annars engum skrýtið að allir óbreyttir þingmenn séu á sama kaupinu, að ekki sé meira borgað fyrir starfsaldur, lífaldur og menntun? Og hvað um vinnuaðstöðuna í þingsalnum sem Vinnueftirlitið myndi trúlega ekki samþykkja á öðrum vinnustöðum?

Og aftur: Nei, ég er ekki þingmaður, ekki í kjararáði og ekki flokksbundin neins staðar. Mér finnst ég hafa rétt til að hafa skoðun, ég hef reynt að rökstyðja hana en skil að fólk sé ósammála mér.

Væri ekki upplagt að hálaunaða þingið myndi skoða það að lögbinda lágmarkslaun sem hluta af öðrum launum? Hvernig væri tillagan um að hæstu laun mættu ekki vera hærri en fjórfjöld lægstu laun? Ef lægstu laun eru 200.000 eru hæstu laun 800.000 í hæsta lagi. Og hvaða stétt yrði tekjuhæst?


Sigurvegari kosninganna í gær

Er það ekki hitt jafna hlutfall kynjanna? 30/33. Og taparinn er hin litla kjörsókn. Grátlegt.


14 kr. á lítrann

Ég er að horfa á kosningasjónvarpið. Alveg. En ég keypti líka bensín í dag. Mig vantaði bensín og fyrir tilviljun auglýstu þrjú bensínsölufélög verðlækkun í sms-i hjá mér. 14-15 kr. á lítrann. Úr tæpum 200 kr. 

Reiknum þetta aðeins. Ég á Polo sem tekur 40 lítra. 40*15 kr. eru 600 kr. Ef tankurinn væri tvisvar sinnum þetta erum við vissulega að tala um 1.200 kr.

„Fullt verð“ er 197 kr. núna ef ég man rétt. 197*80 lítrar ef við tölum um jeppa. 15.760 fyrir að fylla tankinn. 7% lækkun. Ég myndi ekki ræsa bílinn og fara í leiðangur fyrir það. Og af hverju í ósköpunum er ekki bara lægra verð en það er? Alltaf.


Útganga kvenna

Ég stimplaði mig út úr vinnunni í dag kl. 14.38. Við vorum hvattar, og hvött, til þess þannig að ekki er um eiginlegt verkfall að ræða sem það þó þyrfti að vera. Engu að síður var frábært að mæta á Austurvöll og sjá mannmergðina. Reyndar var fáránlega hlýtt. Ég er mjög mikið fyrir sól og hlýindi en svona blíða í október getur ekki verið góð fyrir andrúmsloftið á heimsvísu.

Fluttar voru örræður. Að öðrum ólöstuðum skaraði Una Torfadóttir fram úr, unglingur með ákaflega sterka réttlætiskennd, máttuga rödd og óaðfinnanlegan flutning. Eitt af því frábæra sem hún sagði var samanburður á límmiðum fyrir verkefnavinnu. Hvaða sanngirni er í því að strákur sem vinnur verk(efn)ið eins og stelpa fái fleiri límmiða en stelpan? Biður stelpan um það? Vill hún vera skör lægra? Vill hún ekki fá verðskuldaða umbun?

Við bíðum ekki til 2068 eftir leiðréttingu launanna. Við krefjumst einfaldlega sömu launa fyrir sömu vinnu. Það er sanngirni.


Viðhorf, ekki hvað er í sjónvarpinu MÍNU

Vinkona mín ein segir á Facebook að henni mislíki útlendingahatrið í sjónvarpinu sínu. Önnur vinkona mín skrifaði um daginn að henni þætti ógurlega leiðinlegt að [einhver] í menningarþætti segði ekkert gagnlegt um leiksýningu sem hún var að hugsa um að sjá.

Og vitið þið hvað? Fyrstu viðbrögð hjá vinum beggja voru: Slökktu á sjónvarpinu þínu.

Ég verð svo leið þegar ég sé svona viðbrögð og get ekki blandað mér í umræðuna af því að ég þekki ekki fólkið sem gerði þessar athugasemdir. Af hverju heldur fólk að málið snúist um SJÓNVARPSÁHORFIÐ? Í öðru tilfellinu snýst það um sjónarmið sem vinkonu minni líkar ekki, að einhver frambjóðandi til þings amist við útlendingum, og í hinu tilfellinu var vinkonu minni raun að því að fá ekki frjóa og upplýsandi umræðu um menningarviðburð.


Orðanetið

Það lofar góðu. 


i-padinn minn

I-padinn kannski? Ipadinn? Mikið vildi ég detta niður á gott orð því að ég hef knýjandi þörf fyrir að lofa græjuna í hástert. Ég fékk svona tæki í jólagjöf síðast, sem leikfang, en núna er ég í námi og hlusta á fyrirlestra í honum, fletti upp í tíma og heima, tek á hann myndir (sjaldan samt) og hann fylgir mér hvert fótmál ef ég vil. 

Hvernig var lífið fyrir tíma internetsins? #dæs


Konur sem viðmælendur

Já, ég er nú algjört nóboddí en hef samt mætt í viðtal í útvarpi einu sinni eða tvisvar. Fyrir mörgum árum mætti ég á Rás 2 til að tala um BA-ritgerðina mína sem ég er enn þann dag í dag dálítið skotin í. Í fyrra var ég aftur á Rás 2 að tala um ball gönguklúbbsins og fékk alls ekki að tala nóg. Einhvern tímann var tekið við mig fréttaviðtal í sjónvarpi vegna Félags leiðsögumanna og í annað skipti blaðaviðtal út af einhverju sem leiðsögumenn voru að bralla. Ég stóð mig ekkert of vel, var dálítið stressuð en fjandakornið, einn og annar kall hefur líka gleypt nokkur orð í beinni eða óbeinni útsendingu.

Og ég bíð alltaf spennt við símann.


Vikulokin í morgun

Í Vikulokunum í morgun voru þrír viðmælendur, ekki rammpólitískt fólk en fólk með miklar skoðanir og það á almennt við um stjórnanda þáttarins sömuleiðis. Ég var úti að hlaupa með þáttinn í eyrunum þannig að athyglin var óskipt. Ég hafði aldrei heyrt talað um konuna sem steig þar inn á völl stjórnmálanna en ég þekki til hinna viðmælendanna. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði hvernig talsmaður sauðfjárbænda talaði, einkum þegar hann kvaðst ekkert kannast við deildar meiningar um búfjársamninginn sem var samþykktur í vikunni.

Hefur hann heldur ekki heyrt talað um internetið og samskipti og yfirlýsingar þar?

Mest freistandi finnst mér samt að spyrja: Græðir einhver annar á samningnum en Kaupfélag Skagafjarðar?


Fjármálalegir ráðgjafar?

Ég hef mikinn áhuga á tungumálinu og vinn við að færa tungutak annarra til betri vegar. Það kann að hljóma hrokafullt en margir eru óöruggir þegar þeir skrifa texta og vilja láta aðra lesa yfir fyrir sig. Fólk er stundum drekkhlaðið af þekkingu en getur ekki miðlað henni og þá er gott að fá ráðgjafa til að straumlínulaga efnið með sér og síðan prófarkalesara til að lesa yfir, samræma og leiðrétta það sem telst rangt. Af þessu tilefni er skemmtilegt að rifja upp að menntamálaráðuneytið gaf nýlega út nýja auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna sem ég tel mér skylt að fara eftir að mestu leyti.

Ég hef líka lært eitthvað um þýðingar. Hvað mikilvægast við þýðingar er að vera vel að sér í tungumálinu sem maður þýðir á. Auðvitað þarf maður að kunna tungumálið sem maður þýðir úr en það er hvergi nærri nóg. Ef ég ætlaði að þýða „former President Finnbogadottir“ dytti mér ekki í hug að skrifa „forseti Finnbogadóttir“ eða „Finnbogadóttir forseti“. Ég held að þið hljótið að taka undir með mér að maður myndi segja: (Frú) Vigdís Finnbogadóttir. Þannig fer ekki á milli mála um hvern er rætt.

Þess vegna leyfi ég mér að smygla mér inn í kórinn með þeim sem hafa undrast málfar á einkavæðingarskýrslunni sem mjög hefur verið rædd í vikunni. Sumt af fjármálatæknilegu orðalaginu virkar vissulega sannfærandi en hér er rangt farið með raðtölur:

5–6. bls.

Lokaorðin trufla mig þó mest, lokaorðin sem eru höfð eftir löggiltum skjalaþýðendum eins og þar segir:

Hr. Árnason sagði það mikilvægt að viðhalda öguðum viðræðum við kröfuhafana. ... Samningaviðræðurnar eru hinsvegar, tvíhliða milli ríkisins og fjármálalegra ráðgjafa gömlu bankanna. 

Financial advisors eru víðast þar sem ég fletti upp annars staðar fjármálaráðgjafar. 

En kannski er ég bara í baunatalningu ...


Uber!

Ég er hrifin af sjálfvirkni sums staðar og mér leiðist að láta sækja mig þannig að ég vona að sjálfkeyrandi bílar (helst fyrir sjálfbæru eldsneyti) verði framtíðin. 


Talgreinir!

Mikið þykir mér spennandi tilhugsun ef það verður að veruleika að tæki greini raddir, hljóð, orðaskil og atkvæði, ef talgreinir getur skráð það sem sagt verður í stað þess að fólk skrifi allt upp eftir „segulbandi“.

Kannski er óraunhæft að það gerist á tveimur árum en ég trúi að það gerist fyrir 2020. Og það skiptir mig og mína vinnu máli. Jibbí.


Hver borgar matinn ofan í leiðsögumenn og bílstjóra í ferð?

Á síðunni Bakland ferðaþjónustunnar var í gær fjörleg umræða um það hvort leiðsögumaður eigi að borga fyrir matinn sinn þegar hann kemur með borgandi gesti á veitingastað.

Ég held að engum blandist hugur um að starfsmaður sem er langt utan heimasvæðis síns á ekki sjálfur að greiða fyrir matinn sinn. Á mörgum staðarvinnustöðum er niðurgreiddur matur þótt fólk hafi val um að taka með sér nesti að heiman, kaupa sér í nærliggjandi búð eða nýta sér mötuneyti vinnustaðarins. Leiðsögumaður í hringferð borgar þannig ekki matinn í Vík, á Höfn, á Egilsstöðum, Akureyri, Húnavöllum eða í Borgarnesi. Þá er spurningin: Borgar vinnuveitandinn? Og í hvaða formi borgar vinnuveitandinn?

Til margra ára hefur leiðsögumaður fengið „frían“ mat á veitingastaðnum sem hann kemur á með gestina. Ég tel óhætt að fullyrða að þá er veitingastaðurinn að gefa vinnuveitandanum en ekki starfsmanninum sem á þennan rétt í kjarasamningi. Og enn lifir (hávær) umræða um það hvort leiðsögumaður og/eða bílstjóri sniðgangi veitingastaði sem vilja ekki „gefa“ starfsmönnum ferðaskrifstofu ókeypis að borða.

Vissulega er þægilegt að koma í hádeginu á stað sem afgreiðir matinn hratt og vel, m.a. til starfsmannanna sem fá að sitja í sérherbergi og tala sín á milli án ferðamannanna, en allt fólk þarf líka að borða og ef allir staðir tækju sig saman um að gera eðlilega samninga við ferðaskrifstofurnar gætu leiðsögumenn/bílstjórar ekki látið geðþótta, fýlugirni eða hentistefnu ráða matarstoppunum.

Sjálf vildi ég helst fá dagpeninga og ráða því hvort ég fæ mér heitan mat í hádeginu eða læt kannski ís og appelsínu stundum duga.

Í öllu falli finnst mér fráleitur hótunartónn sem maður heyrir í sumum í stéttinni um að sniðganga einhvern stað sem „gefur gæd og bíltjóra ekki að borða“.

Ég er leiðsögumaður sem gafst upp á innviðunum og lágu laununum 2013 og er nú í sumarfríi í sumarfríunum mínum, ræð mínum hádegisverðarstað og borga fyrir matinn minn, kannski ekki alltaf með glöðu geði (pastaréttur á 3.500 kr. gekk fram af mér um daginn) en nógu glöðu geði.


Lífshættulegt að hjóla?

Ég hjóla ekki oft í Elliðaárdalnum en það kemur alveg fyrir að ég hjóli úr hverfi 105 í hverfi 220, þá alltaf afar rólega og yfirvegað. Ég nota hjólið til að komast á milli staða og er á því að bílafólk ætti að þakka fyrir að hjólafólki fjölgar því að um leið fækkar trúlega bílunum á götunum. Allir vinna.

En nú hafa borist fréttir af því að einhverjir hafi strengt snæri þvert yfir brúna við Kópavogslæk og kannski víðar, kannski í Elliðaárdalnum sem mér finnst ég hafa fengið spurnir af. Ef fólk hjólar á alveg eðlilegum hraða á snæri í höfuðhæð get ég rétt ímyndað mér hversu sárt það væri. Og nú er ég farin að skilja ónot sjálfrar mín þegar ég læt mig renna frjálslega niður Bankastrætið, yfir Lækjargötuna og inn á Lækjartorg (á grænu ljósi). Mér finnst ég alltaf þurfa að hægja á mér til að forðast harðan árekstur við ímyndað snæri í loftinu.

Ég hef hjólað í rólegheitunum fyrir neðan Öskjuhlíðina þegar fjölmargir hraðir hjólamenn geysast fram úr og mér finnst það ekki í lagi. Mér finnst að hjólamenn eigi að æfa sig á brautum - kannski á götunum? - en mér finnst ekki í lagi að veita þeim tilræði.

Er hægt að koma upp æfingabrautum fyrir þá sem hjóla í æfinga- og þjálfunarskyni fyrst og fremst?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband