Í sjóinn í gallabuxum?

Á morgun verður þreytt Helgusund í Hvalfirðinum og enn eitt árið læt ég það framhjá mér fara. Mig dauðlangar en af því að ég fór fýluferð í fyrra - m.a.s. kakjakræðararnir máttu hafa sig alla við að komast aftur í land og sundinu var aflýst - er ég efins um að skipulagið sé nógu gott. Agalega leiðinlegt að líða svona en nýliðin vinnuvika býður ekki upp á óþarfan akstur á laugardegi. Ég er samt loks búin að kaupa feit sundgleraugu þannig að Helgusund er ótvírætt á dagskrá 2017, reyndar Viðeyjarsundið líka og kannski fleiri langar sjósundsleiðir.

En gallabuxurnar, hvað með þær? Nei, ég ætlaði nú bara að synda í sundbol og með sundhettu eins og áskilið er. Hins vegar segir sagan:

Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina.


38. kafli

Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gekk.

Ég hef löngum velt fyrir mér klæðnaði Helgu við þetta tækifæri. Hún synti rúmlega 1,5 km í köldum sjónum til að bjarga lífi sínu og sona sinna tveggja. Hvernig var hún klædd? Var hún í síðu vaðmálspilsi? Þungu? Sem varð níðþungt í vatninu? 

Auðvitað eru ekki til neinar myndir en fyrir skemmstu var í sjónvarpinu heimildarmynd um upphaf sundkennslu á Íslandi og ekki síður um upphaf kvennasunds. Konum var óheimilt að synda og sú fyrsta sem synti í laug með körlum gerði það í óþökk þeirra. Þeir voru naktir og hafa sennilega flotið í hægðum sínum og léttleika.

Og, já, þá hlýt ég að velta fyrir mér hvernig væri að synda í gallabuxum og lopapeysu. Eða búrkíní. Og nú ætla ég að nota helgina til að hugsa um trú, trúarbrögð, rétttrúnað og mögulega ánauð kvenna því að ég er enn eingöngu að hugsa um praktísku hliðina af því að synda í miklum og víðum fötum.


Ásetið land?

Ferðaþjónustan er ein af þremur meginstoðum atvinnuveganna um þessar mundir. Mörg hótel eru í byggingu í Reykjavík, margt fólk leigir íbúðirnar sínar í gegnum Airbnb og í einhverjum bæklingum er talað um að Ísland sé uppselt í júní, júlí og ágúst.

Ég fór hringinn seinni partinn í júlí og mér kom verulega á óvart að víða um land mætti ég engri rútu klukkutímum saman, kannski bílaleigubílum, ég er ekki nógu glögg á þá, en alls ekki heilu förmunum af túristum. Auðvitað er ósköp notó að eiga stór landflæmi fyrir sig og gönguhópinn sinn en að sama skapi er skelfilegt að koma á fjölförnu staðina á suðvesturhorninu og Stór-Mývatnssvæðinu þar sem ekki verður þverfótað fyrir fólki sem kemur til Íslands í von um að upplifa auðn og fólksfæð.

Undanfarið hef ég hins vegar spjallað við marga útlendinga í Reykjavík og þótt þeir dásami land og þjóð, náttúru og m.a.s. veðráttu kemst alltaf fljótt til tals að hér sé ALLT rándýrt.

Dreifum fólki víðar um land og stillum í hóf verðlagningu á algjörlega samanburðarhæfum vörum milli landa.

Nú bíð ég spennt eftir að Samtök ferðaþjónustunnar hafi samband og bjóði mér vinnu við að útfæra hugmyndir mínar frekar.


Tillitssemi bílstjóranna

Ég sé alltaf annað slagið einhverja bölsótast út í bílstjóra fyrir framkomu við hjólreiðafólk. Ég hef allt aðra sögu að segja. Ég er á dæmigerðu götuhjóli til að komast á milli staða, þ.e. ekki hraðskreiðu, frambeygðu hjóli sem nær næstum bílhraða, og hjóla daglega. Bílstjórar sýna mér fyllstu kurteisi, stoppa alltaf við gangbrautir og stundum víðar (sem er reyndar óþarfi). 

Ég geri ráð fyrir að ég sé dálítið sýnileg og það sé kannski ástæðan en ég er alveg sannfærð um að fæstir bílstjórar svíni meðvitað á hjólreiðamönnum.


Nýr forseti

Það vantaði bara herslumuninn að tekið yrði viðtal við mig á Austurvelli áðan. Ég vildi það alveg en fannst ég ekki alveg nógu vel tilhöfð til að birtast öllum landsmönnum þannig að ég tranaði mér ekkert fram -- eins og mig langaði þó. Svo mikið langaði mig til að taka undir með já-kórnum, svo full tilhlökkunar er ég gagnvart framtíðinni með þessa fjölskyldu á Bessastöðum.

Af hverju?

Af því að Guðni sló fallegan og hógværan tón í ræðunni sem er full fyrirheita um aukið jafnrétti og að þau gildi sem mér þykja mikilvæg verði borin fyrir brjósti. Ég hef lengi vitað af Guðna en þekki hann því miður ekki persónulega. Eliza lofar líka góðu, kraftmikil kona sem virðist drífa í hlutunum og hefur að auki lært íslensku bærilega eftir að hún flutti hingað.

1. ágúst 2016 er sannarlega gleðidagur.


Er slæmt að hafa langan starfsaldur hjá sama fyrirtæki/sömu stofnun?

Ég heyrði nýlega frá yfirmanni (ekki mínum) að meðal þess sem ynni gegn fólki (kannski ekki öllu fólki) væri að hafa of langan starfsaldur hjá sama fyrirtækinu. Mig setti hljóða. Er tryggð við fyrirtæki/atvinnurekanda ljóður á ráði manns? 

Að sönnu getur fólk komið sér fáránlega vel fyrir í vinnunni, haft frjálsar hendur og orðið latt og sérgott. Auðvitað getur langur starfsaldur þýtt að starfsmaður hafi ekkert frumkvæði, treysti sér ekki til að læra neitt nýtt og treysti sér ekki til að söðla um. 

Mér finnst eðlileg starfsmannavelta sjálfsögð og sem betur fer vilja ekki allir sitja á sama fleti ævilangt en það að halda til á sama vinnustað í áratugi þarf ekki að þýða stöðnun eða að maður breyti ekki til. Á sumum vinnustöðum eru fjölbreytt verkefni sem eru næstum ígildi þess að skipta um vinnu. Fólk þróast - og er það ekki örugglega þannig að maður flytji EKKI með sér öll áunnin réttindi? Mér finnst eðlilegt að menn fái aukinn frama innan stofnunar þegar svo ber undir.

Maður þarf líka að núllstilla varðandi hlunnindi og byrja aftur að klifra upp launastigann.

Að þessu sögðu: Vill einhver bjóða prófarkalesara fast starf? Eða kannski leiðsögumanni?


Hlaupastyrkur - meint áheit

Ég hugsa þetta minnst einu sinni á ári og hef örugglega hugsað þetta upphátt hér áður. Þegar fólk skráir sig í Reykjavíkurmaraþon er það hvatt til að hlaupa til styrktar góðu málefni. Flestir hlauparar hlaupa sér til skemmtunar og margir hlaupa hvorki á góðum tíma almennt né slá persónuleg met. Allt í lagi, ég er aðeins að alhæfa en ég spyr samt: Væri ekki nær að fólk sem vill leggja góðu málefni lið legði pening til? Ég hef á hverju ári orðið meðvirk og styrkt einhvern/ýmsa og alltaf með óbragð í munni af því að viðkomandi hlauparar sjá ekki sóma sinn í að styrkja málefnið sitt með fjárframlagi. Og þar fyrir utan læka bæði andskotinn og amma hans það að fólk hlaupi til styrktar en styrkja svo ekki um tíeyring.

Þetta var nöldrið í ár.

Ég versla við Krabbameinsfélagið (í búðinni), ég er heimsforeldri og kaupi stundum happdrættismiða og svona til að styrkja verðug málefni en þetta betlfyrirkomulag í kringum hlaupahátíð er gengið sér til húðar.


Frakkland versus Portúgal

Ég hef engu meiri áhuga á fótbolta núna en í júníbyrjun. Hins vegar hefur verið gaman að fylgjast með jákvæðninni og gleðinni sem fylgt hefur mótinu, einkum íslenska liðinu (sem ég hef tekið eftir) og ekki síst stuðningsmönnum íslenska liðsins. Nema hvað, ég heyrði marga óska þess að Frakkar ynnu mótið úr því að þeir unnu okkur 5-2. Mér er náttúrlega sama hver verður Evrópumeistari úr því að það er ekki Ísland en er ekki einmitt betra fyrir egóið okkar að Portúgal hafi unnið? Við gerðum 1-1 jafntefli við Portúgal og grættum Ronaldo. Svo vann Portúgal liðið sem vann okkur mjög sannfærandi sem þýðir að dagsformið skiptir máli þegar lið eru komin svona langt.

Við komum sjálfsagt ekki aftur á óvart, keppinautar okkar vita nú að Ísland er til alls víst, en við eigum kannski samt eftir að toppa okkur, þessi fámenna þjóð sem æfir úti í kulda og trekki (að hluta til). 

Gott hjá Portúgal og ég myndi óska Ronaldo til hamingju ef hann væri í kallfæri.


Áfram Ísland

Ég veit að allir eru að segja það en ég ætla að halda því til haga á blogginu mínu. Ísland tapaði 2-5 fyrir Frakklandi á Evrópumeistaramótinu 2016 og lauk þar með keppni sem eitt af átta bestu liðunum í Evrópu. Frakkland var augljóslega betra liðið í leiknum en við unnum seinni hálfleikinn ef maður horfir á tölurnar sem sýnir styrk íslensku strákanna. Þeir lögðu ekki niður vopnin þótt þeir væru undir. Frábær frammistaða og sérlega mikil brýning til okkar allra um samstöðu, baráttugleði og jákvæðni.

Mér skilst að stelpurnar okkar eigi næsta stórmót og þá verður spennandi að sjá og upplifa orkuna í kringum þær.


Til hamingju - allra?

Ég kaus að sönnu þann sem verður forseti okkar eftir rúman mánuð, ekki til að standa uppi í hárinu á einhverjum öðrum heldur af því að mér finnst hann hafa það sem þarf. Ég er búin að vita af honum í um það bil 20 ár, og þekkti reyndar til átta af níu frambjóðendum, og kaus hann af því að hann hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem vel gefinn, réttsýnn, hlutlaus og vandaður fræðimaður. Hann er enginn veifiskati og tekur ekki á valdhöfum með silkihönskum. Ég trúi að hann muni vanda sig við að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar, kannski ekki öllum stundum af því að við erum mismunandi en að hann muni ekki mismuna hópum eftir geðþótta sínum eða annarra. Ég trúi á beinið í nefinu í honum ef á reynir en aðallega trúi ég því að hann verði ekki sá maður átaka sem ég vil ekki hafa í þessu sæti.

Ég vil að þingmenn setji okkur lög og vandi sig við það. Ég myndi vilja sjá ýmislegt öðruvísi, ekki síst dreifingu skattfjár. Ég myndi vilja sjá heilbrigðiskerfið dafna og til þess að það dafni þarf menntakerfið betri stuðning. Mér finnst brýnt að fólk læri að skera upp, kunni á lyf, kunni að teikna og byggja hús, leggja lagnir, tryggja mér rafmagn, yrkja jörðina og framleiða gott matarhráefni. Mér finnst líka brýnt að matvælaöryggi sé mikið og ég vel fjölbreytni í matnum. Af hverju fá garðyrkjubændur ekki magnafslátt af rafmagni? Ég vildi sjá miklu betra vegakerfi og öflugri samgöngur, bæði innan lands og utan. Ég hef áhyggjur af loftslagsmálum og ólæsi, afdrifum fólks sem hrekst að heiman og guðminngóður [innsog], það sem ég vildi að laun væru sanngjörn og óháð kyni þess sem gegnir starfinu.

Ég kaus að sönnu Guðna sem forseta og líður vel með það og að hann hafi verið kjörinn en ég hefði unnt öðrum sigursins ef á hefði reynt og skilyrðislaust leyft fólki að sanna sig - eða afsanna. Þess vegna blöskra mér skrif í Kvennablaðinu í gær. Allir eiga rétt á skoðunum sínum en ég sé ekki nein rök í greininni.


Eitt kjördæmi

Eini fulltrúi þjóðarinnar sem er kosinn beint af fólkinu er forsetinn. Af hverju er landið ekki eitt kjördæmi, a.m.k. í forsetakosningum?

Ég horfði ekki nógu nákvæmlega á kosningasjónvarpið í gær. Ég fór á kosningavöku nýja forsetans og heyrði mest lítið í sjónvarpinu en þykist vita að áhorfendur hafi þurft að bíða eftir tölum. Svo birtast tölur flokkaðar eftir kjördæmum. Hvers vegna?

Engu að síður er ég sæl með niðurstöðuna og hlakka til næstu mánaða og ára.

Svo er landsleikur í Nice á morgun. Áfram, Ísland!


Heildarlausnir í fótboltaáhorfi

Djók, það er ekki séns að ég ætli að tala niður 2-1 sigur Íslendinga á Austurríkismönnum á EM. Ég var mjög spennt nema ég svaf af mér auglýsingahléið en það er bara af því að ég fór á Snæfellsjökul í gær og var fram á morgun að sækja orku fyrir landsliðið og hafði ekki sofið nema klukkutíma frá kl. 7 í gærmorgun.

Auðvitað er meira gaman að fylgjast með liði sem sýnir karakter, snerpu, sigurvilja og einhverja færni, liði sem maður getur haldið með. Ég fór SAMT að hugsa um hvort fótboltareglur væru nokkuð klappaðar í stein. Má ekki hafa bara 10 í vörn þótt 11 séu í sókninni? Má ekki hafa fótboltann stærri/léttari/úr plasti eða eitthvað? Láta leikinn standa í 70 mínútur frekar en 90?

Ókei, ég er búin að koma upp um mig, ég horfi allajafna ekki á fótbolta, en spyr einmitt þess vegna hvort ekki megi breyta reglunum til að fjölga mörkunum ...

Fyrir mótið spáði ég okkur 16. sæti. Í ljósi þess að við erum komin þangað hlýt ég að mega endurskoða spána. En á mánudaginn keppum við reyndar við England ...


Pólitískur forseti

Ég er að hlusta á Ólaf Ragnar Grímsson, fráfarandi forseta, í drottningarviðtali á Sprengisandi. Mér finnst Páll Magnússon standa sig vel í þáttarstjórnuninni og eftirláta mér að undrast oflof forsetans um sjálfan sig og dylgjur í garð tveggja núverandi forsetaframbjóðenda sem hann vill ekki fylgja eftir.

Að öllu samanlögðu ofbauð mér þó mest þegar hann talaði um að hafa setið til borðs með „fyrrverandi samherjum sínum, fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórninni í landinu“ og gert annað en þau reiknuðu með -- af fyrrverandi samherja!

Drepið mig ekki á færi -- hann sannar heldur betur að við getum ekki kosið okkur mann með flokkspólitíska fortíð. Ef það litar ekki forsetann sjálfan litar það þá sem hafa flokkspólitískar væntingar til forsetans.


16. sætið?

Öll erum við spurð í hvaða sæti íslenska karlalandsliðið lendi á EM, ég líka. Þegar ég var spurð (bara einu sinni) svaraði ég að bragði: 16. sæti. Ég held að það sé sígilt svar þess sem hefur ekkert sett sig inn í umrædda íþrótt.

Nema hvað, nú er ég búin að átta mig á því að ef við komumst upp úr riðlinum, sem vel gæti gerst, erum við þegar búin að tryggja okkur 16. sætið. Ég er að hugsa um að endurskoða spána.


Eitthvað annað en lýsi? Eða Lýsi?

Í ljósi nýjustu tíðinda er freistandi að hætta að innbyrða það lýsi sem hefur daglega verið á borðum. Þá leitar maður fanga annars staðar. Veit einhver eitthvað um Margildi?


Má breyta nöfnunum?

Við höfum löngum haft skoðanir á mannanöfnum og þó fyrst og fremst þó ákvörðunum mannanafnanefndar

Nú er búið að kynna drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Í 7. gr. stendur meðal annars:

Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis.

Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum má sem sagt láta barn heita Þúfa, Skrúfa, Hóll, Stóll, Þak og Brak. Þau mega ekki heita þúfa, hóll og þak og heldur ekki Skrúfan, Stóllinn og Brakið enda dytti engu heilvita fólki í hug að skíra svona nöfnum. Sjálfsagt verður þetta allt í lagi. Blak Briem, ha?

Í athugasemdum stendur meðal annars:

... að öðru leyti falla úr lögum þær takmarkanir sem nú eru á mannanöfnum. Þar á meðal eru takmarkanir á fjölda nafna, vernd ættarnafna, skilyrði um að kenninöfn séu föður- eða móðurnöfn eða ættarnöfn og takmarkanir á heimild til að bera erlend nöfn.

Nafn manns er einhver persónulegasta eignin og mér dytti sjálfri aldrei í hug að breyta mínu. Ég var óhress með að heita Berglind á unglingsárunum en sú óánægja eltist af mér. Ég geri ráð fyrir að ef ég hefði alist upp sem Zoëga, Thorlacius, Stones, Hirst eða Schram væri mér það kært en annars skil ég ekki ættarnafnablætið sem ég heyri fólk tala um. 

Ég hef heyrt því fleygt að það gæti verið vit í því að hafa kenninöfnin -son og -dóttir ókeypis (tíðkast víst sums staðar að hafa sumar útgáfur nafna ókeypis og aðrar ekki) en láta borga fyrir ættarnöfnin. Það hljómar afleitlega í mínum eyrum. Í fyrsta lagi myndi það líta út eins og ég hefði ekki efni á að heita Berglind Vágar, Berglind Bertelsen eða Berglind Dan eða, enn verra, að ég tímdi því ekki! Orðsporsáhætta. Og hvernig ætti að verðleggja nafnið? Árgjald? Skráningargjald? 10.000 kr. breytingagjald? 50.000 fyrir stóra fjölskyldu? 10.000 kr. á ári kannski? 1 milljón? 10 milljónir fyrir vinsælt nafn? 10 milljónir fyrir lítið notað ættarnafn?

Ég held að ég sé ekki sérlega íhaldssöm en ég er hrifin af mannanafnafyrirkomulaginu okkar, segi útlendingum iðulega frá því og þeim finnst allajafna mikið til koma.

Ég veðja á að þegar málið verður tekið fyrir í þinginu verði löng umræða utan og innan þings.


Að reskjast

Ég var að horfa á beina útsendingu á Facebook. Gaman að því. Gestur í sal spurði Guðna um kostnaðinn við forsetaembættið og hann notaði tækifærið til að segja viðstöddum að þegar forseti hættir gilda um hann sömu lög og aðra. Forseti fer ekki á eftirlaun um leið og hann hættir nema hann verði orðinn 67 ára. Þetta er ótrúlega lífseig ranghugmynd. Lögunum var breytt 2009 og síðan eru liðin rúm sjö ár.

Forseti fær ekki eftirlaun fyrr en hann verður orðinn býsna roskinn og mættu fjölmiðlar benda lesendum sínum á það. 


Má vinna fyrir tvo í einu?

Vinkona mín ein sem réð sig í spennandi starf hjá hálfopinberu fyrirtæki skrifaði undir ráðningarsamning sem í stóð að hún mætti ekki vinna fyrir aðra. Þegar ég frétti það spurði ég hvort hún væri þá ekki með mjög góð laun. Jú, líklega væri hún það, var svarið, og svo ræddum við aðeins um þá kröfu að mega ekki vinna fyrir aðra. Önnur vinkona sagði: Af hverju ætti hún að hafa orku á kvöldin til að vinna meira frekar en við hin?

Ókei, hér byrja ég að spyrja: Má almennt skikka fólk til að vinna ekki aukavinnu eða á það bara við um sérfræðistörf? Snýst það um hagsmunaárekstra, að í „hinni vinnunni“ búi maður yfir upplýsingum sem mega ekki spyrjast út? Snýst þetta kannski um þann plagsið sumra að vinna aukavinnuna í vinnutímanum hjá aðalvinnuveitandanum?

Einhver sagði nefnilega við borðið þar sem þetta var rætt að hún þekkti einhvern sem kæmi aldrei svo inn til deildarstjórans síns að ekki væru skjöl á skjánum sem tengdust einkafyrirtæki deildarstjórans. 

Ég er launþegi, þ.e. starfsmaður á plani, ánægð í vinnunni og með skemmtileg verkefni, hef aldrei rekið fyrirtæki og eiginlega aldrei verið með mannaforráð, en ég spyr: Á yfirmaður ekki að geta a) ætlast til þess að fólk sinni vinnunni í vinnutímanum (auðvitað með eðlilegri hvíld), b) fylgst eitthvað með því hvað gengur undan starfsmanninum?

Ég vinn stundum aukavinnu á kvöldin, um helgar og í sumarfríinu. Minna núna en áður en ég hef oft gert skemmtilega hluti sem fólk borgar mér fyrir. Fullt af fólki verður að drýgja tekjurnar með aukavinnu.

Niðurstaðan er þá væntanlega sú að svona klausa í samningi eigi að tryggja fulla afkastagetu (eftir föngum) fólks í vinnutímanum. En er einhver munur á því að fólk vinni fyrir aðra í vinnutímanum eða eyði að jafnaði klukkutíma á dag í að skoða og læka á Facebook?

Ég er mjög hugsi yfir aukavinnubanninu. Láglaunafólk væri væntanlega himinsælt með aukavinnubann -- ef grunnlaunin væru hærri.


Hvað ef klósettin springa?

Þau eru sprungin.


,,Hag­kvæm­ast er lík­leg­ast að keyra rútu alla ævi."

Þórður Snær Júlíusson greinir þarfasta þjóninn í Kjarnanum fyrir helgi, ferðamanninn sem bjargar hagkerfinu á Íslandi. Ég skil hann þannig, og er sammála, að arður sé mikill af ferðaþjónustu en renni í fáa vasa og það held ég að sé risastórt vandamál í umræddu hagkerfi.

Ég bjó í 101 í dágóðan tíma einu sinni en nú eru komin býsna mörg ár síðan ég hrökklaðist þaðan undan skemmtistaðahávaða. Nú hafa menn áhyggjur af því að 101 Reykjavík sé að stimpla sig út sem íbúðahverfi. Já, það er þannig. Til viðbótar eru ýmsar húseiningar að gefa sig sem íbúðir af því að Airbnb er búið að að ryðja sér svo mikið til rúms að hinum venjulega Íslendingi finnst ekki lengur pláss fyrir sig. Og umbunin fyrir það? Engin. Óvenjulegu Íslendingarnir, þeir sem rorra ofan á ferðamannastraumnum, skara eld að eigin köku, kalla hana mögulega þjóðarköku en nýta hana í þágu sína og sinna.

Við þurfum að flytja inn fólk til að manna leiðinleg, óþrifaleg og illa borguð störf.

Á sama tíma fær fólk ekki almennilega borgað fyrir að gegna störfum sem krefjast menntunar, útsjónarsemi og fórna, t.d. að vera langdvölum frá fjölskyldu sinni. Leiðsögumenn, andlit þjóðarinnar, andlit ferðaþjónustunnar, hafa svo ömurlega kjarasamninga að menn láta sig hverfa, kannski einmitt þegar þeir eru komnir með ágæta reynslu á skítakaupi. Kannski var ég ömurlegur leiðsögumaður í 11 sumur og kannski var mér þess vegna boðin vinna aftur og aftur hjá sömu fyrirtækjunum - nei, þið sjáið það sjálf að það er varla ástæðan. Ég hætti 2013 vegna lélegra launa og hruninna innviða. Nú er þriðja sumarið frá þeim tíma að renna upp og við erum enn að tala um klósett hátt og í hljóði. Grunnþörfunum þarf að sinna til að fólk njóti alls þess sem við höfum upp á að bjóða í náttúru og menningu.

En menntun er ekki metin til launa og reynslan ekki heldur. Kannski er mestu ævitekjurnar að hafa sem rútubílstjóri - en aðallega eigendur ferðaþjónustufyrirtækja sem geta fleytt rjómann úr turninum sínum.


Kappræður eða ekki

Ég er sjúklega spennt fyrir forsetakosningunum, er í hópi þeirra sem gera sér grein fyrir að kosningarréttur er ekki sjálfgefinn og finnst að allir eigi að nýta sér rétt sinn til að hafa áhrif, þótt þau séu vissulega óveruleg í einu atkvæði.

Mér liggur núna margt á hjarta. Þurfum við forseta? Ég hef alveg velt því fyrir mér. Er hann silkihúfa eða öryggisventill? Hvort tveggja? Ef ekki sérstakt forsetaembætti, hver tekur þá á móti þjóðhöfðingjum, flytur ávörp, vígir spítala og skóla? Handhafarnir? Eru þeir ekki (flokks)pólitískir? - Ég vil alls ekki flokkapólitíkus og hef aldrei viljað. Árið 1996 skilaði ég auðu, gat ekki einu sinni hugsað mér að kjósa Guðrúnu Agnars þótt mér þætti hún að mörgu leyti frambærileg og þótt ég væri sannarlega í markhópnum.

Í gær hefði ég sleppt afmælisveislu (það lá nærri) til að geta séð umræðuþáttinn á Stöð 2. Jebbs, væntingarnar voru uppi í þaki og vonbrigðin allnokkur. En líklega hefði ég átt að hafa vit á að spenna væntingabogann ekki svona hátt. Stjórnendur þurftu að spyrja almennra spurninga fyrir áhorfendur sem höfðu lítið kynnt sér sjónarmið þessara fjögurra sem var boðið í þáttinn. Engin svör komu mér á óvart. Sáralítið heyrði ég nýtt. Ég er búin að velja mér forsetaefni en ég er öruggt óvissuatkvæði í öllum almennum kosningum og útiloka ekki að skipta um skoðun. 

Já, mér þótti þátturinn dauflegur. Tilþrifalítill. Geldur. Allir feimnir, hlédrægir, óframfærnir, í biðstöðu. En almennt kvartar maður meira yfir því að allir grípi stöðugt fram í fyrir hinum. Líklega var þetta ágætt. En aðrir umræðuþættir verða vonandi samt líflegri.

Svo ætla ég að bera blak af Stöð 2 sem er einkarekin sjónvarpsstöð á auglýsingamarkaði. Ég hef aldrei verið með áskrift, ekki svo mikið sem í mánuð, ekki til prufu, aldrei. Stöð 2 hlýtur að vera í daglegri baráttu við að búa til sjónvarp og halda sjó. Ég þykist vita að JónsÁsgeirs-klanið eigi 365 miðla en á þessum miðlum vinnur fólk sem vill vanda sig. Ég hlusta mjög oft á Harmageddon, einhverja búta, og þeir félagar vaða í hvern sem er og láta örugglega ekki skikka sig í skotgrafir eða til að tala gegn skoðunum sínum. Stöð 2 ber engin skylda til að hugsa um almannahag, hún þarf bara að reyna að halda trúverðugleika og framleiða nógu gott stöff til að fólk horfi og auglýsendur borgi. Þannig samþykki ég alveg að hún velji fólk í settið. En vissulega hefði stuðið orðið meira með Elísabetu, Sturlu, Hildi og Ástþóri. Þrátt fyrir að hafa fylgst æst með frá 1. janúar hef ég ekki séð nógu mikið til Guðrúnar Margrétar til að trúa miklu stuði upp á hana.

Mánuður eftir og hjartslátturinn eykst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband