14 kr. á lítrann

Ég er að horfa á kosningasjónvarpið. Alveg. En ég keypti líka bensín í dag. Mig vantaði bensín og fyrir tilviljun auglýstu þrjú bensínsölufélög verðlækkun í sms-i hjá mér. 14-15 kr. á lítrann. Úr tæpum 200 kr. 

Reiknum þetta aðeins. Ég á Polo sem tekur 40 lítra. 40*15 kr. eru 600 kr. Ef tankurinn væri tvisvar sinnum þetta erum við vissulega að tala um 1.200 kr.

„Fullt verð“ er 197 kr. núna ef ég man rétt. 197*80 lítrar ef við tölum um jeppa. 15.760 fyrir að fylla tankinn. 7% lækkun. Ég myndi ekki ræsa bílinn og fara í leiðangur fyrir það. Og af hverju í ósköpunum er ekki bara lægra verð en það er? Alltaf.


Útganga kvenna

Ég stimplaði mig út úr vinnunni í dag kl. 14.38. Við vorum hvattar, og hvött, til þess þannig að ekki er um eiginlegt verkfall að ræða sem það þó þyrfti að vera. Engu að síður var frábært að mæta á Austurvöll og sjá mannmergðina. Reyndar var fáránlega hlýtt. Ég er mjög mikið fyrir sól og hlýindi en svona blíða í október getur ekki verið góð fyrir andrúmsloftið á heimsvísu.

Fluttar voru örræður. Að öðrum ólöstuðum skaraði Una Torfadóttir fram úr, unglingur með ákaflega sterka réttlætiskennd, máttuga rödd og óaðfinnanlegan flutning. Eitt af því frábæra sem hún sagði var samanburður á límmiðum fyrir verkefnavinnu. Hvaða sanngirni er í því að strákur sem vinnur verk(efn)ið eins og stelpa fái fleiri límmiða en stelpan? Biður stelpan um það? Vill hún vera skör lægra? Vill hún ekki fá verðskuldaða umbun?

Við bíðum ekki til 2068 eftir leiðréttingu launanna. Við krefjumst einfaldlega sömu launa fyrir sömu vinnu. Það er sanngirni.


Viðhorf, ekki hvað er í sjónvarpinu MÍNU

Vinkona mín ein segir á Facebook að henni mislíki útlendingahatrið í sjónvarpinu sínu. Önnur vinkona mín skrifaði um daginn að henni þætti ógurlega leiðinlegt að [einhver] í menningarþætti segði ekkert gagnlegt um leiksýningu sem hún var að hugsa um að sjá.

Og vitið þið hvað? Fyrstu viðbrögð hjá vinum beggja voru: Slökktu á sjónvarpinu þínu.

Ég verð svo leið þegar ég sé svona viðbrögð og get ekki blandað mér í umræðuna af því að ég þekki ekki fólkið sem gerði þessar athugasemdir. Af hverju heldur fólk að málið snúist um SJÓNVARPSÁHORFIÐ? Í öðru tilfellinu snýst það um sjónarmið sem vinkonu minni líkar ekki, að einhver frambjóðandi til þings amist við útlendingum, og í hinu tilfellinu var vinkonu minni raun að því að fá ekki frjóa og upplýsandi umræðu um menningarviðburð.


Orðanetið

Það lofar góðu. 


i-padinn minn

I-padinn kannski? Ipadinn? Mikið vildi ég detta niður á gott orð því að ég hef knýjandi þörf fyrir að lofa græjuna í hástert. Ég fékk svona tæki í jólagjöf síðast, sem leikfang, en núna er ég í námi og hlusta á fyrirlestra í honum, fletti upp í tíma og heima, tek á hann myndir (sjaldan samt) og hann fylgir mér hvert fótmál ef ég vil. 

Hvernig var lífið fyrir tíma internetsins? #dæs


Konur sem viðmælendur

Já, ég er nú algjört nóboddí en hef samt mætt í viðtal í útvarpi einu sinni eða tvisvar. Fyrir mörgum árum mætti ég á Rás 2 til að tala um BA-ritgerðina mína sem ég er enn þann dag í dag dálítið skotin í. Í fyrra var ég aftur á Rás 2 að tala um ball gönguklúbbsins og fékk alls ekki að tala nóg. Einhvern tímann var tekið við mig fréttaviðtal í sjónvarpi vegna Félags leiðsögumanna og í annað skipti blaðaviðtal út af einhverju sem leiðsögumenn voru að bralla. Ég stóð mig ekkert of vel, var dálítið stressuð en fjandakornið, einn og annar kall hefur líka gleypt nokkur orð í beinni eða óbeinni útsendingu.

Og ég bíð alltaf spennt við símann.


Vikulokin í morgun

Í Vikulokunum í morgun voru þrír viðmælendur, ekki rammpólitískt fólk en fólk með miklar skoðanir og það á almennt við um stjórnanda þáttarins sömuleiðis. Ég var úti að hlaupa með þáttinn í eyrunum þannig að athyglin var óskipt. Ég hafði aldrei heyrt talað um konuna sem steig þar inn á völl stjórnmálanna en ég þekki til hinna viðmælendanna. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði hvernig talsmaður sauðfjárbænda talaði, einkum þegar hann kvaðst ekkert kannast við deildar meiningar um búfjársamninginn sem var samþykktur í vikunni.

Hefur hann heldur ekki heyrt talað um internetið og samskipti og yfirlýsingar þar?

Mest freistandi finnst mér samt að spyrja: Græðir einhver annar á samningnum en Kaupfélag Skagafjarðar?


Fjármálalegir ráðgjafar?

Ég hef mikinn áhuga á tungumálinu og vinn við að færa tungutak annarra til betri vegar. Það kann að hljóma hrokafullt en margir eru óöruggir þegar þeir skrifa texta og vilja láta aðra lesa yfir fyrir sig. Fólk er stundum drekkhlaðið af þekkingu en getur ekki miðlað henni og þá er gott að fá ráðgjafa til að straumlínulaga efnið með sér og síðan prófarkalesara til að lesa yfir, samræma og leiðrétta það sem telst rangt. Af þessu tilefni er skemmtilegt að rifja upp að menntamálaráðuneytið gaf nýlega út nýja auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna sem ég tel mér skylt að fara eftir að mestu leyti.

Ég hef líka lært eitthvað um þýðingar. Hvað mikilvægast við þýðingar er að vera vel að sér í tungumálinu sem maður þýðir á. Auðvitað þarf maður að kunna tungumálið sem maður þýðir úr en það er hvergi nærri nóg. Ef ég ætlaði að þýða „former President Finnbogadottir“ dytti mér ekki í hug að skrifa „forseti Finnbogadóttir“ eða „Finnbogadóttir forseti“. Ég held að þið hljótið að taka undir með mér að maður myndi segja: (Frú) Vigdís Finnbogadóttir. Þannig fer ekki á milli mála um hvern er rætt.

Þess vegna leyfi ég mér að smygla mér inn í kórinn með þeim sem hafa undrast málfar á einkavæðingarskýrslunni sem mjög hefur verið rædd í vikunni. Sumt af fjármálatæknilegu orðalaginu virkar vissulega sannfærandi en hér er rangt farið með raðtölur:

5–6. bls.

Lokaorðin trufla mig þó mest, lokaorðin sem eru höfð eftir löggiltum skjalaþýðendum eins og þar segir:

Hr. Árnason sagði það mikilvægt að viðhalda öguðum viðræðum við kröfuhafana. ... Samningaviðræðurnar eru hinsvegar, tvíhliða milli ríkisins og fjármálalegra ráðgjafa gömlu bankanna. 

Financial advisors eru víðast þar sem ég fletti upp annars staðar fjármálaráðgjafar. 

En kannski er ég bara í baunatalningu ...


Uber!

Ég er hrifin af sjálfvirkni sums staðar og mér leiðist að láta sækja mig þannig að ég vona að sjálfkeyrandi bílar (helst fyrir sjálfbæru eldsneyti) verði framtíðin. 


Talgreinir!

Mikið þykir mér spennandi tilhugsun ef það verður að veruleika að tæki greini raddir, hljóð, orðaskil og atkvæði, ef talgreinir getur skráð það sem sagt verður í stað þess að fólk skrifi allt upp eftir „segulbandi“.

Kannski er óraunhæft að það gerist á tveimur árum en ég trúi að það gerist fyrir 2020. Og það skiptir mig og mína vinnu máli. Jibbí.


Hver borgar matinn ofan í leiðsögumenn og bílstjóra í ferð?

Á síðunni Bakland ferðaþjónustunnar var í gær fjörleg umræða um það hvort leiðsögumaður eigi að borga fyrir matinn sinn þegar hann kemur með borgandi gesti á veitingastað.

Ég held að engum blandist hugur um að starfsmaður sem er langt utan heimasvæðis síns á ekki sjálfur að greiða fyrir matinn sinn. Á mörgum staðarvinnustöðum er niðurgreiddur matur þótt fólk hafi val um að taka með sér nesti að heiman, kaupa sér í nærliggjandi búð eða nýta sér mötuneyti vinnustaðarins. Leiðsögumaður í hringferð borgar þannig ekki matinn í Vík, á Höfn, á Egilsstöðum, Akureyri, Húnavöllum eða í Borgarnesi. Þá er spurningin: Borgar vinnuveitandinn? Og í hvaða formi borgar vinnuveitandinn?

Til margra ára hefur leiðsögumaður fengið „frían“ mat á veitingastaðnum sem hann kemur á með gestina. Ég tel óhætt að fullyrða að þá er veitingastaðurinn að gefa vinnuveitandanum en ekki starfsmanninum sem á þennan rétt í kjarasamningi. Og enn lifir (hávær) umræða um það hvort leiðsögumaður og/eða bílstjóri sniðgangi veitingastaði sem vilja ekki „gefa“ starfsmönnum ferðaskrifstofu ókeypis að borða.

Vissulega er þægilegt að koma í hádeginu á stað sem afgreiðir matinn hratt og vel, m.a. til starfsmannanna sem fá að sitja í sérherbergi og tala sín á milli án ferðamannanna, en allt fólk þarf líka að borða og ef allir staðir tækju sig saman um að gera eðlilega samninga við ferðaskrifstofurnar gætu leiðsögumenn/bílstjórar ekki látið geðþótta, fýlugirni eða hentistefnu ráða matarstoppunum.

Sjálf vildi ég helst fá dagpeninga og ráða því hvort ég fæ mér heitan mat í hádeginu eða læt kannski ís og appelsínu stundum duga.

Í öllu falli finnst mér fráleitur hótunartónn sem maður heyrir í sumum í stéttinni um að sniðganga einhvern stað sem „gefur gæd og bíltjóra ekki að borða“.

Ég er leiðsögumaður sem gafst upp á innviðunum og lágu laununum 2013 og er nú í sumarfríi í sumarfríunum mínum, ræð mínum hádegisverðarstað og borga fyrir matinn minn, kannski ekki alltaf með glöðu geði (pastaréttur á 3.500 kr. gekk fram af mér um daginn) en nógu glöðu geði.


Lífshættulegt að hjóla?

Ég hjóla ekki oft í Elliðaárdalnum en það kemur alveg fyrir að ég hjóli úr hverfi 105 í hverfi 220, þá alltaf afar rólega og yfirvegað. Ég nota hjólið til að komast á milli staða og er á því að bílafólk ætti að þakka fyrir að hjólafólki fjölgar því að um leið fækkar trúlega bílunum á götunum. Allir vinna.

En nú hafa borist fréttir af því að einhverjir hafi strengt snæri þvert yfir brúna við Kópavogslæk og kannski víðar, kannski í Elliðaárdalnum sem mér finnst ég hafa fengið spurnir af. Ef fólk hjólar á alveg eðlilegum hraða á snæri í höfuðhæð get ég rétt ímyndað mér hversu sárt það væri. Og nú er ég farin að skilja ónot sjálfrar mín þegar ég læt mig renna frjálslega niður Bankastrætið, yfir Lækjargötuna og inn á Lækjartorg (á grænu ljósi). Mér finnst ég alltaf þurfa að hægja á mér til að forðast harðan árekstur við ímyndað snæri í loftinu.

Ég hef hjólað í rólegheitunum fyrir neðan Öskjuhlíðina þegar fjölmargir hraðir hjólamenn geysast fram úr og mér finnst það ekki í lagi. Mér finnst að hjólamenn eigi að æfa sig á brautum - kannski á götunum? - en mér finnst ekki í lagi að veita þeim tilræði.

Er hægt að koma upp æfingabrautum fyrir þá sem hjóla í æfinga- og þjálfunarskyni fyrst og fremst?


Í sjóinn í gallabuxum?

Á morgun verður þreytt Helgusund í Hvalfirðinum og enn eitt árið læt ég það framhjá mér fara. Mig dauðlangar en af því að ég fór fýluferð í fyrra - m.a.s. kakjakræðararnir máttu hafa sig alla við að komast aftur í land og sundinu var aflýst - er ég efins um að skipulagið sé nógu gott. Agalega leiðinlegt að líða svona en nýliðin vinnuvika býður ekki upp á óþarfan akstur á laugardegi. Ég er samt loks búin að kaupa feit sundgleraugu þannig að Helgusund er ótvírætt á dagskrá 2017, reyndar Viðeyjarsundið líka og kannski fleiri langar sjósundsleiðir.

En gallabuxurnar, hvað með þær? Nei, ég ætlaði nú bara að synda í sundbol og með sundhettu eins og áskilið er. Hins vegar segir sagan:

Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina.


38. kafli

Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gekk.

Ég hef löngum velt fyrir mér klæðnaði Helgu við þetta tækifæri. Hún synti rúmlega 1,5 km í köldum sjónum til að bjarga lífi sínu og sona sinna tveggja. Hvernig var hún klædd? Var hún í síðu vaðmálspilsi? Þungu? Sem varð níðþungt í vatninu? 

Auðvitað eru ekki til neinar myndir en fyrir skemmstu var í sjónvarpinu heimildarmynd um upphaf sundkennslu á Íslandi og ekki síður um upphaf kvennasunds. Konum var óheimilt að synda og sú fyrsta sem synti í laug með körlum gerði það í óþökk þeirra. Þeir voru naktir og hafa sennilega flotið í hægðum sínum og léttleika.

Og, já, þá hlýt ég að velta fyrir mér hvernig væri að synda í gallabuxum og lopapeysu. Eða búrkíní. Og nú ætla ég að nota helgina til að hugsa um trú, trúarbrögð, rétttrúnað og mögulega ánauð kvenna því að ég er enn eingöngu að hugsa um praktísku hliðina af því að synda í miklum og víðum fötum.


Ásetið land?

Ferðaþjónustan er ein af þremur meginstoðum atvinnuveganna um þessar mundir. Mörg hótel eru í byggingu í Reykjavík, margt fólk leigir íbúðirnar sínar í gegnum Airbnb og í einhverjum bæklingum er talað um að Ísland sé uppselt í júní, júlí og ágúst.

Ég fór hringinn seinni partinn í júlí og mér kom verulega á óvart að víða um land mætti ég engri rútu klukkutímum saman, kannski bílaleigubílum, ég er ekki nógu glögg á þá, en alls ekki heilu förmunum af túristum. Auðvitað er ósköp notó að eiga stór landflæmi fyrir sig og gönguhópinn sinn en að sama skapi er skelfilegt að koma á fjölförnu staðina á suðvesturhorninu og Stór-Mývatnssvæðinu þar sem ekki verður þverfótað fyrir fólki sem kemur til Íslands í von um að upplifa auðn og fólksfæð.

Undanfarið hef ég hins vegar spjallað við marga útlendinga í Reykjavík og þótt þeir dásami land og þjóð, náttúru og m.a.s. veðráttu kemst alltaf fljótt til tals að hér sé ALLT rándýrt.

Dreifum fólki víðar um land og stillum í hóf verðlagningu á algjörlega samanburðarhæfum vörum milli landa.

Nú bíð ég spennt eftir að Samtök ferðaþjónustunnar hafi samband og bjóði mér vinnu við að útfæra hugmyndir mínar frekar.


Tillitssemi bílstjóranna

Ég sé alltaf annað slagið einhverja bölsótast út í bílstjóra fyrir framkomu við hjólreiðafólk. Ég hef allt aðra sögu að segja. Ég er á dæmigerðu götuhjóli til að komast á milli staða, þ.e. ekki hraðskreiðu, frambeygðu hjóli sem nær næstum bílhraða, og hjóla daglega. Bílstjórar sýna mér fyllstu kurteisi, stoppa alltaf við gangbrautir og stundum víðar (sem er reyndar óþarfi). 

Ég geri ráð fyrir að ég sé dálítið sýnileg og það sé kannski ástæðan en ég er alveg sannfærð um að fæstir bílstjórar svíni meðvitað á hjólreiðamönnum.


Nýr forseti

Það vantaði bara herslumuninn að tekið yrði viðtal við mig á Austurvelli áðan. Ég vildi það alveg en fannst ég ekki alveg nógu vel tilhöfð til að birtast öllum landsmönnum þannig að ég tranaði mér ekkert fram -- eins og mig langaði þó. Svo mikið langaði mig til að taka undir með já-kórnum, svo full tilhlökkunar er ég gagnvart framtíðinni með þessa fjölskyldu á Bessastöðum.

Af hverju?

Af því að Guðni sló fallegan og hógværan tón í ræðunni sem er full fyrirheita um aukið jafnrétti og að þau gildi sem mér þykja mikilvæg verði borin fyrir brjósti. Ég hef lengi vitað af Guðna en þekki hann því miður ekki persónulega. Eliza lofar líka góðu, kraftmikil kona sem virðist drífa í hlutunum og hefur að auki lært íslensku bærilega eftir að hún flutti hingað.

1. ágúst 2016 er sannarlega gleðidagur.


Er slæmt að hafa langan starfsaldur hjá sama fyrirtæki/sömu stofnun?

Ég heyrði nýlega frá yfirmanni (ekki mínum) að meðal þess sem ynni gegn fólki (kannski ekki öllu fólki) væri að hafa of langan starfsaldur hjá sama fyrirtækinu. Mig setti hljóða. Er tryggð við fyrirtæki/atvinnurekanda ljóður á ráði manns? 

Að sönnu getur fólk komið sér fáránlega vel fyrir í vinnunni, haft frjálsar hendur og orðið latt og sérgott. Auðvitað getur langur starfsaldur þýtt að starfsmaður hafi ekkert frumkvæði, treysti sér ekki til að læra neitt nýtt og treysti sér ekki til að söðla um. 

Mér finnst eðlileg starfsmannavelta sjálfsögð og sem betur fer vilja ekki allir sitja á sama fleti ævilangt en það að halda til á sama vinnustað í áratugi þarf ekki að þýða stöðnun eða að maður breyti ekki til. Á sumum vinnustöðum eru fjölbreytt verkefni sem eru næstum ígildi þess að skipta um vinnu. Fólk þróast - og er það ekki örugglega þannig að maður flytji EKKI með sér öll áunnin réttindi? Mér finnst eðlilegt að menn fái aukinn frama innan stofnunar þegar svo ber undir.

Maður þarf líka að núllstilla varðandi hlunnindi og byrja aftur að klifra upp launastigann.

Að þessu sögðu: Vill einhver bjóða prófarkalesara fast starf? Eða kannski leiðsögumanni?


Hlaupastyrkur - meint áheit

Ég hugsa þetta minnst einu sinni á ári og hef örugglega hugsað þetta upphátt hér áður. Þegar fólk skráir sig í Reykjavíkurmaraþon er það hvatt til að hlaupa til styrktar góðu málefni. Flestir hlauparar hlaupa sér til skemmtunar og margir hlaupa hvorki á góðum tíma almennt né slá persónuleg met. Allt í lagi, ég er aðeins að alhæfa en ég spyr samt: Væri ekki nær að fólk sem vill leggja góðu málefni lið legði pening til? Ég hef á hverju ári orðið meðvirk og styrkt einhvern/ýmsa og alltaf með óbragð í munni af því að viðkomandi hlauparar sjá ekki sóma sinn í að styrkja málefnið sitt með fjárframlagi. Og þar fyrir utan læka bæði andskotinn og amma hans það að fólk hlaupi til styrktar en styrkja svo ekki um tíeyring.

Þetta var nöldrið í ár.

Ég versla við Krabbameinsfélagið (í búðinni), ég er heimsforeldri og kaupi stundum happdrættismiða og svona til að styrkja verðug málefni en þetta betlfyrirkomulag í kringum hlaupahátíð er gengið sér til húðar.


Frakkland versus Portúgal

Ég hef engu meiri áhuga á fótbolta núna en í júníbyrjun. Hins vegar hefur verið gaman að fylgjast með jákvæðninni og gleðinni sem fylgt hefur mótinu, einkum íslenska liðinu (sem ég hef tekið eftir) og ekki síst stuðningsmönnum íslenska liðsins. Nema hvað, ég heyrði marga óska þess að Frakkar ynnu mótið úr því að þeir unnu okkur 5-2. Mér er náttúrlega sama hver verður Evrópumeistari úr því að það er ekki Ísland en er ekki einmitt betra fyrir egóið okkar að Portúgal hafi unnið? Við gerðum 1-1 jafntefli við Portúgal og grættum Ronaldo. Svo vann Portúgal liðið sem vann okkur mjög sannfærandi sem þýðir að dagsformið skiptir máli þegar lið eru komin svona langt.

Við komum sjálfsagt ekki aftur á óvart, keppinautar okkar vita nú að Ísland er til alls víst, en við eigum kannski samt eftir að toppa okkur, þessi fámenna þjóð sem æfir úti í kulda og trekki (að hluta til). 

Gott hjá Portúgal og ég myndi óska Ronaldo til hamingju ef hann væri í kallfæri.


Áfram Ísland

Ég veit að allir eru að segja það en ég ætla að halda því til haga á blogginu mínu. Ísland tapaði 2-5 fyrir Frakklandi á Evrópumeistaramótinu 2016 og lauk þar með keppni sem eitt af átta bestu liðunum í Evrópu. Frakkland var augljóslega betra liðið í leiknum en við unnum seinni hálfleikinn ef maður horfir á tölurnar sem sýnir styrk íslensku strákanna. Þeir lögðu ekki niður vopnin þótt þeir væru undir. Frábær frammistaða og sérlega mikil brýning til okkar allra um samstöðu, baráttugleði og jákvæðni.

Mér skilst að stelpurnar okkar eigi næsta stórmót og þá verður spennandi að sjá og upplifa orkuna í kringum þær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband