Sunnudagur, 22. maí 2016
Stóri skjálfti Auðar Jóns
Spennusaga um flogaveika konu, hver hefði trúað því? Saga vaknar næstum minnislaus úr fyrsta flogakastinu í mörg herrans ár og þarf að púsla saman lífi sínu smátt og smátt. Lesandinn fær þannig skýrari mynd af lífi hennar með henni sjálfri.
Ég veit ekkert hvort lýsingin á flogaveiki er trúverðug í sjálfu sér en mikið djö hlýtur að vera erfitt að vera með flogaveiki og vita ekki hvenær næsta kast kemur, hvort það kemur, hvernig maður bregst við og hvort aðrir í kringum mann átta sig á hvað er að gerast.
Spennandi áminning og vel skrifuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. maí 2016
Söguskýring þorskastríðanna
Ég lifði ekki fyrstu þorskastríðin og man ekki það síðasta. Allt sem ég veit um þorskastríðin er það sem ég hef lesið og heyrt. Það er ekki endilega ómarktækara en að vera í hringiðunni og sjá ekki út úr hasarnum. Margt í heiminum er matskennt, þar á meðal hver vann og hver tapaði. Í áróðursstríði og tilfinningastríði er ekki hægt að sjá kónginn felldan eins og í skák. Eftir kosningar segjast flestir flokkar vera sigurvegarar af því að þeir túlka niðurstöðuna sér í hag. Það að auka fylgi sitt úr 10% í 20% er kannski meiri kosningasigur en að fá 35% ef flokkurinn var með 36% síðast og mældist 40% í síðustu könnun.
Sigur er ekki einhlítur.
Það sem mér hefur skilist með þorskastríðin er að svo sannarlega tóku Íslendingar hraustlega á móti Bretum. Klippurnar frægu munu ekki gleymast. Við færðum landhelgina út í 200 mílur á endanum (eins og var gert víðar). Við erum öll sammála um að fiskveiðar voru mikilvægur atvinnuvegur hér, sá mikilvægasti. Við þurftum að verja miðin. Við gerðum það. En Bretar hefðu getað sallað okkur niður, vopnlausa smáþjóð, ef þeim hefði ekki verið annt um orðsporið. Þess vegna sömdu þeir við okkur. Sjómenn í Hull, Grimsby og Aberdeen voru ekkert of lukkulegir. En þannig endaði síðasta þorskastríðið 1976.
Það er engin skömm að því að semja. Auðvitað er frábært að semja og standa sáttur upp frá samningaborðinu. Að segjast hafa unnið þorskastríðið einhliða finnst mér eins og að segjast hafa náð að bjarga hjónabandinu með því að henda makanum út.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. maí 2016
Sjálfstæði þorskastríðanna
Ég vil vera sjálfrar mín ráðandi. Mér finnst ég vera það en kannski er ég bara blind og kannski hugsa ég eins og stóri bróðir ætlast til. Ég veit ekki hvort ég vil ganga í Evrópusambandið, mér hefur aldrei verið boðið upp á að velja fyrir mína parta.
Ég vil ekki skulda, ég vil ekki vera upp á aðra komin. Þannig er mörgum farið, flestum líklega. Við viljum taka eigin ákvarðanir um eigin hag og framtíð. Þegar um framtíð heillar þjóðar er að ræða er hverjum og einum ókleift að velja út frá eigin hag. Þess vegna höfum við fulltrúalýðræði og þótt aðeins 51% hafi valið okkur öllum stjórnvöld tekur kjörinn meiri hluti flestar ákvarðanir fyrir okkur öll.
Ef gæðum landsins væri jafnar skipt þyrfti enginn að líða skort. Auðvitað er eðlilegt að þeir sem leggja meira af mörkum, axla meiri ábyrgð, afla sér meiri menntunar og taka áhættu uppskeri meira en þeir sem gera það ekki. En enginn ætti að þurfa að lepja dauðann úr skel eða óttast morgundaginn vegna hungurverkja. Er það þannig? Ég þekki engan við hungurmörk en ég þekki ekki alla landsmenn.
Ekki aðeins horfum við til framtíðar, við eigum líka fortíð. Ég var í leiðsöguskólanum fyrir rúmum áratug. Þar er mér minnisstæður einn fyrirlestur um söguna, fortíðina. Þorskastríðin voru rædd. Mér finnst kjánalegt að segja að okkur hafi verið kennt um þorskastríðin, fyrirlesari talaði um þau og túlkaði söguna eins og sagnfræðingar gera, lærðir og ólærðir. Okkur var kennt að þorskastríðunum hefði lokið með samningi. Hann var ekki ræddur í þaula en í þessum tíma fór ekki á milli mála sá skilningur að þorskastríðin hefðu verið mikilfengleg, endurtekin, árangursrík fyrir Íslendinga -- og að þeim hefði lokið með samningum. Ég hefði getað lesið þetta og túlkað fyrr eða síðar en þetta var veturinn 2001-2002. Mér finnst kjánalegt að halda því fram að litla Ísland með öflugu klippurnar sínar hefði haft sigur á herveldi Breta ef Bretar hefðu kosið að beita sér.
Ég er sjálfstæður Íslendingur þótt ég gúteri samningsvilja tveggja þjóðríkja. Og þorsksýnin hans Andra er til fyrirmyndar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. maí 2016
Þegar forseti er valinn ...
Er út í bláinn að fara eftir tilfinningu?
Ég get alveg rökstutt af hverju ég hugsa mér að kjósa Guðna. Hann er fróður, yfirvegaður, æsingalaus, fastur fyrir, nægilega sjálfsöruggur og ekki flokkspólitískur. Árum saman hef ég vitað af honum, hlustað á fyrirlestra, heyrt í honum í útvarpi og, já, ég veit hverjir bræður hans eru og hef hitt mömmu hans. Að sönnu veit ég ekki skoðun hans í öllum málum en forseti á ekki að hafa úrslitaáhrif í landsmálum nema þegar þjóðin biður hann. Og þjóðin á að hafa meira frelsi til áhrifa samkvæmt stjórnarskrá. Ég treysti Guðna til að gera hið rétta.
Tilfinningarökin eru svo þau að Bessastaðir munu fyllast af börnum. Það hljómar ákaflega vel.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. maí 2016
Forsetahrókeringar
Mér heyrist sem sumir ætli að kjósa strategískt í ár. Og nú er ég helst að velta einu fyrir mér. Ef forsetaframbjóðandi boðar aðhald með ríkisstjórninni, sem mun hugsanlega breytast eftir kosningar á afmælinu mínu, hvað munu þá pólitíkusarnir kjósa? Ætlar Davíð að standa með vöndinn yfir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki ef hann verður forseti og flokkarnir halda velli í október eða á aðhaldið bara við um Pírata? Munu þingmannaefnin kjósa forsetaefni eftir þessu? Er þá forsetaembættið fallið til sameiningar eða sundrungar?
Er embætti forseta kannski fyrst og fremst pólitískt eftir að Ólafur virkjaði 26. gr. stjórnarskrárinnar? Öryggisventill?
Er óþarfi að breyta stjórnarskránni og hnykkja á sameign þjóðarinnar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. maí 2016
Forsetakosningarnar 1996
Kannski hófst kosningabaráttan í dag, en kannski hefst hún ekki fyrr en 21. maí þegar framboðsfrestur rennur út og við vitum hverjir vera raunverulega í kjöri. En ég get sagt fyrir mig að ég mun ekki kjósa þann sem arkaði inn á sviðið í morgun. Og þótt mér finnist kosningarrétturinn heilagur og muni aldrei láta ógert að mæta á kjörstað er ég að verða æ ánægðari með að hafa nýtt atkvæðið mitt 1996 til að skila auðu.
Ég vil ekki pólitíkus á Bessastaði. Mér finnst enn alveg koma til greina að hafa einfaldlega ekki forseta en á meðan við höfum forseta vil ég að þangað veljist maður sem hefur ekki tengsl inn í flokkapólitík. Auðvitað er allt lífið pólitík eða þjóðmál, afstaða til mála, en mér finnst brýnt að fólk leyfi sér að taka afstöðu byggða á upplýsingum og að fólk geti leyft sér að skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar bjóða upp á það.
Í mínum augum stendur valið á milli Andra og Guðna. Ég þekki hvorugan persónulega en hef vitað af þeim lengi eins og mörgu öðru áberandi fólki í samfélaginu.
Þótt mér finnist Davíð hafa gert óskiljanleg mistök með því að bjóða sig fram - og segjast í leiðinni hafa ákveðið sig í skyndingu (sem ég trúi ekki og ef hann hefði tekið skyndiákvörðun af þessu kalíberi væri þau aukadómgreindarskortur) - viðurkenni ég að sem áhugamaður um þjóðmál og hasar sé ég fram á gósentíð. Spennumyndir verða óþarfar næstu tvo mánuðina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. maí 2016
Ofbeldi eða einelti?
Mér brá eins og fleirum þegar ég horfði á fréttir í gærkvöldi og flutt var frétt af ofbeldi barna á barni. Börn gengu í skrokk á barni á skólalóð og ég held að enn annað barn hafi tekið það upp og dreift á samfélagsmiðlum.
Umræðan í dag hefur talsvert verið um einelti í skólum. Því miður virðist einelti vaða uppi sums staðar og úrræðaleysi er áberandi. Sums staðar er Olweus-áætlunin virk og auðvitað fréttir maður síður af því þegar tekst að grípa í taumana og afstýra ljótum brotum.
En eftir gærkvöldið er ég hugsi yfir orðalaginu. Það sem ég sá á myndbandinu var einfaldlega ofbeldi, líkamlegt og gróft ofbeldi. Mér finnst óþarfi að ofnota orðið einelti þótt það hafi sjálfsagt verið undanfari ofbeldisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. maí 2016
Að gera sitt besta ... er ofmetið
Ein í fjölskyldunni segir ef maður skyldi slysast á að setja í hárið á sér alveg glataðan lit: Þú verður að lita aftur og ná litnum sem þú vilt helst. Maður verður alltaf að gera sitt besta.
Einn í fjölskyldunni segir: Þú verður að hlaupa aðeins hraðar en þú getur. Maður verður alltaf að gera sitt besta.
Annar: Það er ekkert sem heitir að elda vondan mat (nema í undantekningartilfellum). Maður þarf bara að vera læs. Og maður verður alltaf að gera sitt besta.
Enn annar: Þú HLÝTUR að geta skipt um dekk/bremsuklossa/slöngu. Vilji er allt sem þarf.
Einn enn: Drepurðu öll blómin þín? Það er ekki flókið að halda lífi í kaktus! Maður gerir það sem þarf.
Púff, það er lýjandi að reyna að standa sig alls staðar. Það er lýjandi að ná ekki sínu besta. Ég vil fá að vera vonlaus í sumu í friði. Ég ætla ekki að skipta um bremsuklossa á hjólinu mínu. Mér finnst að einhver megi sérhæfa sig í því. Ég vil bara geta hjólað á hjólinu, komist á milli staða og staðið mig bara assgoti vel í því.
Ég vil vera góð í sumu. Ég vil standa mig í vinnu. (Svo er ýmislegt fleira sem ég ætla ekki að tíunda.) En maður verður að láta skáka sér í sumu og leyfa sér að vera misgóður í því sem maður er góður í.
Ég þoli samt ekki þegar fólk er latt í vinnu dag eftir dag ... Maður verður alltaf að gera sitt besta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. maí 2016
Blóðgjöf
Guðni Th. gaf blóð í gær og Blóðbankinn sá sér leik á borði, fékk að mynda hann og gera sér mat úr blóðgjöfinni. Blóðbankinn þarf reglulegar innlagnir en hefur fá tækifæri til að auglýsa sig. Frábært að þetta tækifæri skyldi reka á fjörur bankans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. apríl 2016
Ekkert í fréttum ...
Í dag er 28. apríl, þingi var slitið á miðjum degi eftir romsu af Evróputilskipunum, Árni Páll býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar, maður hótar pústrum, WOW skilar hagnaði (hvert?), 101 Austurland er í vinnslu og mig vantar sýndarpermanent á laugardaginn.
Allt með kyrrum kjörum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. apríl 2016
Af hverju ég vil ekki hafa Ólaf Ragnar lengur á Bessastöðum
Dómsdagur! Ég vakna í Reykjavík um miðjan apríl í snjókomu. Táknrænt! Djók.
En nú að forseta Íslands:
Hann er búinn að vera í 20 ár og heldur að hann sé ómissandi.
Hann er ímynd gamals tíma og fulltrúi valdablokka.
Hann er of afskiptasamur og athyglisfrekur.
Ég er bandsjóðandi viss um að hann gengur annarlegra erinda.
Fólki er hollt að skipta um skoðun ef rök hníga að því en Ólafur Ragnar hefur of oft haft flokkaskipti, klappað upp útrásarvíkinga, talað þá niður, látið umskrifa kafla í bók um sig og almennt snúist eins og hani í vindstrekkingi þegar hann talar um fólkið í landinu. Við höfum ekki getað reiknað út, t.d. eftir stjórnarskránni, hvenær hann muni synja lögum staðfestingar.
Ég vil breyta kvótakerfinu. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti breyta á Íslandi á stundinni myndi ég banna framsal á óveiddum fiski milli landshluta. Ný stjórnarskrá gæti tekið á þessu og ég treysti ekki núverandi bónda á Bessastöðum til að ryðja henni farveg.
Í valdamesta embætti í heimi situr maður í mesta lagi tvö kjörtímabil, átta ár. Þess vegna standa alvöruforsetakosningar fyrir dyrum í Bandaríkjunum. Þegar Ólafur bauð sig fyrst fram, 1996, fannst honum hæfilegt að vera tvö til þrjú kjörtímabil. Til 2004, í mesta lagi 2008.
Ég er flokkspólitískt óvissuatkvæði í þingkosningum og ég bið ókunnuga lesendur mína að vera ekki að spyrða mig við einhvern flokk þótt ég lýsi mig ósátta við framboð Ólafs í sjötta sinn. Árið 1996 vildi ég engan frambjóðanda sem var í boði af því að þau voru öll tengd einhverjum stjórnmálaflokki. Ef við ætlum að hafa forseta yfir landinu vil ég að hann sé ópólitískur - og til vara vil ég að við tökum sameiginlega ákvörðun um það í landinu að embættið sé pólitískt.
Ég man hvernig Ólafur nötraði og skalf í beinu útsendingunni í júní 2004 þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Þá var hann samt búinn að vera forseti í átta ár, þar á undan á þingi og ráðherra og þar á undan háskólakennari og tíður gestur í sjónvarpi. En embættið á ekki að snúast um að standa uppi í hárinu á ríkisstjórninni hverju sinni.
Svo virðist sem ég sé í mótsögn við sjálfa mig, að ég vilji annars vegar áferðarfallega silkihúfu á Bessastöðum og hins vegar mann sem beiti sér í deilumálum. Ég á dálítið erfitt með að sjá út vegna þess að Ólafur stendur alltaf í gættinni og byrgir mér sýn. Ég hefði viljað að næsti forseti hefði þjóðina meira með sér og ynni með sem flestum en ekki á móti.
Ég á eitt atkvæði og ég greiði það ekki núverandi forseta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 18. apríl 2016
Skoðanakannanir um forsetaframboð
Ég hugsaði um það þegar ég fór að sofa í gær og líka þegar ég vaknaði í morgun en gleymdi því þegar ég var komin á fætur hvort ekki ætti að fara að kanna hug fólks til forsetaframbjóðendanna.
Ég hugsaði líka um hver borgaði þær. Er einhver ástæða fyrir að við höfum ekki fengið að sjá neinar skoðanakannanir í margar vikur?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. apríl 2016
Hvað ef fólk hefur fengið afskrifað og á svo eignir á Tortólu?
Þá sjaldan ég skrifa hér í mesta meinleysi um eitthvað sem mér finnst í ólagi í samfélaginu hefur einhver óþekktur vænt mig hér á þessum vettvangi um öfund. Þess vegna ætla ég strax að játa að mér blöskrar að stór kotasæludós skuli kosta 438 kr. og askja af kirsuberjatómötum 369 kr. Að sama skapi finnst mér undarlegt að 2 l af pepsíi skuli einungis kosta 198 kr. Ég held að það sé pólitík að hafa hollari vörur á lægra verði og ég veit að ég er ekki alveg ein um þá skoðun. Hvernig verðpólitík er þetta?
Nú er kominn hálfur mánuður síðan afhjúpunarþátturinn var sýndur á RÚV og okkur var brugðið. Við vitum að þetta er lítið brot af alheimsspillingunni og misskiptingunni. Okkur skilst að nöfn allt að 600 Íslendinga séu i Panama-skjölunum og nú dettur mér í hug hvort það sé sama fólkið og fékk afskrifaðar skuldir í niðurfellingunni stóru. Og af því að ég, meinleysinginn, er vænd um öfund þegar ég voga mér að segja svona á bloggsíðunni minni tek ég fram að ég sótti ekki einu sinni um afskrift eða niðurfellingu eða afslátt af húsnæðisskuldum þannig að ef ég öfunda einhvern eru það útlendingar sem geta keypt flunkunýtt, safaríkt mangó heima hjá sér án þess að borga offjár. Og geta þar að auki borðað það.
Ég held að við þyrftum að þræða okkur marga áratugi aftur til að finna upphafið að spillingunni. Fólksfæðin er eitt svarið.
Ég viðurkenni að þetta er heldur ruglingsleg færsla. Samantekin er hún svona: Það þarf að skera samfélagið upp og fjarlægja meinið sem er misskipting gæða landsins. Framseljum ekki óveiddan fiskinn, seljum þeim ekki rafmagn gegn lágu verði sem geta borgað markaðsverð, reynum að styðja íslenska framleiðslu, t.d. framleiðslu grænmetis, til að spara innflutning (þ.m.t. gjaldeyrisnotkun) og í guðanna bænum, látum ekki heilbrigðiskerfið deyja drottni sínum.
Svo öfunda ég aðallega þá sem geta hlaupið hraðar en ég.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 14. apríl 2016
Herraklipping
Ég er að tala um klippingu á hárgreiðslustofu. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju skilgreind dömuklipping er sjálfkrafa dýrari en herraklipping. Ef eitthvað ætti að skipta máli er það a) tíminn sem fer í klippinguna, b) hársíddin, c) hárgerðin. Það að kynið sé breyta þýðir í mínum augum hafið yfir vafa að konur láta einfaldlega bjóða sér mismunun í þessum efnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. apríl 2016
Beinar tilvitnanir
Andri Snær og stuðningsmenn hans leigðu Þjóðleikhúsið fyrir fund. Ég get trúað eða ekki trúað að leigan sé bara venjuleg (ég trúi því) en ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég sá að blaðamaðurinn vitnaði í lög, hafði utan um þau gæsalappir og fór rangt með.
Þjóðleikhúsið er ríkisstofnun en um það er fjallað í leiklistarlögum. Þar segir meðal annars að [þ]egar Þjóðleikhússbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfssemi samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfssemi.
Í leiklistarlögunum stendur:
11. gr. Þegar Þjóðleikhúsbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfsemi leikhússins samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfsemi.
Ég veit að blaðamenn þurfa einlægt að hafa hraðar hendur en ég leyfi mér að efast um að það sé tímafrekara að fara rétt með en rangt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. apríl 2016
... stígur niður?
Síðustu fjóra dagana hefur samfélagið verið á fleygiferð og margir talsmenn verið kallaðir til. Þá meina ég ekki málsvara, formælanda eða málflutningsmann eins og orðabókarskýringar herma, heldur menn sem tala. Nú kemur vel á vondan (mig) að vera með svona lélegan útúrsnúning á íslensku orði því að umtalsefni mitt hér og nú er fljótfærnislegt orðalag sem borið hefur á. Eða finnst fólki eðlilegt að stíga niður sem forsætisráðherra?
Nei, fjandakornið, menn víkja, hætta, láta af störfum, segja af sér eða láta gott heita. In English they most definitely step down though. Or resign ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. apríl 2016
Hrútar
Nei, ég ætla ekki að blogga um ríkisstjórnina heldur Hrúta. Ég þóttist hafa himin höndum tekið þegar hún var á dagskrá RÚV um páskana því að auðvitað hafði ég ekki hundskast á hana í bíó. Ég gat ekki vakað yfir henni og undraðist himinskautin sem hún hafði farið með. Nokkrum dögum síðar horfði ég svo á hana í sarpinum (í tölvunni) og get sagt fyrir mína parta að Siggi Sigurjóns og Theodór Júlíusson eru stórkostlegir leikarar. Mér fannst söguþráðurinn dálítið hægur, ég játa það, en þegar bræðurnir voru á skjánum fannst mér samt æsispennandi að fylgjast með svipbrigðum þeirra eða svipbrigðaleysi. Þeir búa talsvert afskekkt, hvor í sínu lagi, andskotast hvor út í annan áratugum saman en ná saman um sitt sameiginlega áhugamál. Ærkynið.
Það lá við að ég fyndi lyktina af þeim í tölvunni. Stórkostlegur leikur og stórkostlegt lokaatriði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. apríl 2016
Af hverju vilja karlar ekki raka á sér leggina?
Djók! Fyrirsögnin er bara yfirvarp svo enginn sjái mína raunverulegu skoðun sem er sú að stjórnmálamenn sem véla um fé almennings verða að hafa trúverðugleika. Ég treysti því bara að enginn átti sig á að ég haldi að nokkur trúverðugleiki sé í uppnámi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. apríl 2016
Skatthol
Einu sinni átti ég skatthol.
Ég á það ekki lengur og eignaðist aldrei mynd af því heldur stalst núna til að fá lánaðar myndir af netinu ... Ég vona að mér verði ekki stungið í aflandið fyrir það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. mars 2016
Ekki þyrði ég í forsetaframboð
Að vísu finnst mér ég ekki eiga neitt erindi á Bessastaði og held helst að ég vildi leggja embættið niður en mér blöskrar hvað fólk er sumt orðljótt í garð þess hugrakka fólks sem stígur fram og gefur kost á sér til embættis forseta. Ég geri ráð fyrir að 80-90% frambjóðenda, sem eru í þessum rituðu orðum 12 eða 13 talsins, fái sárafá atkvæði og kannski gera sumir sér engar vonir um hagstæð úrslit en það fólk sem lætur slag standa fær þvílíku útreiðina sums staðar að ég verð hálfu ákveðnari í að verja lýðræðislegan rétt fólks til að bjóða sig fram.
Að vísu (ég endurtek að ég held að hægt væri að koma verkefnum forseta fyrir annars staðar) finnst mér að þegar frambjóðendur eru svona margir ættu umferðir að vera minnst tvær. Tilhugsunin um forseta með 10% atkvæðamagn á bak við sig er mér ekki alveg þóknanleg. Vigdís fékk 33,8% árið 1980, 43.611 atkvæði, og þótti reyndar lítið en samt varð hún forseti mestallrar þjóðarinnar - og sannarlega forsetinn minn þótt ég hefði ekki kosið hana ef ég hefði mátt kjósa. Æ síðan hefur mér þótt það ljóður á ráði mínu að ég skyldi vilja Guðlaug Þorvaldsson því að Vigdís var frábær kostur.
Tölum upp þá frambjóðendur sem eru okkur að skapi, ef einhver, en látum ógert að tala lýðræðið niður. Að svo mæltu sest ég niður og byrja að bíða eftir að Andri Snær tilkynni framboð sitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)