Þriðjudagur, 28. júní 2016
Til hamingju - allra?
Ég kaus að sönnu þann sem verður forseti okkar eftir rúman mánuð, ekki til að standa uppi í hárinu á einhverjum öðrum heldur af því að mér finnst hann hafa það sem þarf. Ég er búin að vita af honum í um það bil 20 ár, og þekkti reyndar til átta af níu frambjóðendum, og kaus hann af því að hann hefur alltaf komið mér fyrir sjónir sem vel gefinn, réttsýnn, hlutlaus og vandaður fræðimaður. Hann er enginn veifiskati og tekur ekki á valdhöfum með silkihönskum. Ég trúi að hann muni vanda sig við að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar, kannski ekki öllum stundum af því að við erum mismunandi en að hann muni ekki mismuna hópum eftir geðþótta sínum eða annarra. Ég trúi á beinið í nefinu í honum ef á reynir en aðallega trúi ég því að hann verði ekki sá maður átaka sem ég vil ekki hafa í þessu sæti.
Ég vil að þingmenn setji okkur lög og vandi sig við það. Ég myndi vilja sjá ýmislegt öðruvísi, ekki síst dreifingu skattfjár. Ég myndi vilja sjá heilbrigðiskerfið dafna og til þess að það dafni þarf menntakerfið betri stuðning. Mér finnst brýnt að fólk læri að skera upp, kunni á lyf, kunni að teikna og byggja hús, leggja lagnir, tryggja mér rafmagn, yrkja jörðina og framleiða gott matarhráefni. Mér finnst líka brýnt að matvælaöryggi sé mikið og ég vel fjölbreytni í matnum. Af hverju fá garðyrkjubændur ekki magnafslátt af rafmagni? Ég vildi sjá miklu betra vegakerfi og öflugri samgöngur, bæði innan lands og utan. Ég hef áhyggjur af loftslagsmálum og ólæsi, afdrifum fólks sem hrekst að heiman og guðminngóður [innsog], það sem ég vildi að laun væru sanngjörn og óháð kyni þess sem gegnir starfinu.
Ég kaus að sönnu Guðna sem forseta og líður vel með það og að hann hafi verið kjörinn en ég hefði unnt öðrum sigursins ef á hefði reynt og skilyrðislaust leyft fólki að sanna sig - eða afsanna. Þess vegna blöskra mér skrif í Kvennablaðinu í gær. Allir eiga rétt á skoðunum sínum en ég sé ekki nein rök í greininni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. júní 2016
Eitt kjördæmi
Eini fulltrúi þjóðarinnar sem er kosinn beint af fólkinu er forsetinn. Af hverju er landið ekki eitt kjördæmi, a.m.k. í forsetakosningum?
Ég horfði ekki nógu nákvæmlega á kosningasjónvarpið í gær. Ég fór á kosningavöku nýja forsetans og heyrði mest lítið í sjónvarpinu en þykist vita að áhorfendur hafi þurft að bíða eftir tölum. Svo birtast tölur flokkaðar eftir kjördæmum. Hvers vegna?
Engu að síður er ég sæl með niðurstöðuna og hlakka til næstu mánaða og ára.
Svo er landsleikur í Nice á morgun. Áfram, Ísland!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. júní 2016
Heildarlausnir í fótboltaáhorfi
Djók, það er ekki séns að ég ætli að tala niður 2-1 sigur Íslendinga á Austurríkismönnum á EM. Ég var mjög spennt nema ég svaf af mér auglýsingahléið en það er bara af því að ég fór á Snæfellsjökul í gær og var fram á morgun að sækja orku fyrir landsliðið og hafði ekki sofið nema klukkutíma frá kl. 7 í gærmorgun.
Auðvitað er meira gaman að fylgjast með liði sem sýnir karakter, snerpu, sigurvilja og einhverja færni, liði sem maður getur haldið með. Ég fór SAMT að hugsa um hvort fótboltareglur væru nokkuð klappaðar í stein. Má ekki hafa bara 10 í vörn þótt 11 séu í sókninni? Má ekki hafa fótboltann stærri/léttari/úr plasti eða eitthvað? Láta leikinn standa í 70 mínútur frekar en 90?
Ókei, ég er búin að koma upp um mig, ég horfi allajafna ekki á fótbolta, en spyr einmitt þess vegna hvort ekki megi breyta reglunum til að fjölga mörkunum ...
Fyrir mótið spáði ég okkur 16. sæti. Í ljósi þess að við erum komin þangað hlýt ég að mega endurskoða spána. En á mánudaginn keppum við reyndar við England ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. júní 2016
Pólitískur forseti
Ég er að hlusta á Ólaf Ragnar Grímsson, fráfarandi forseta, í drottningarviðtali á Sprengisandi. Mér finnst Páll Magnússon standa sig vel í þáttarstjórnuninni og eftirláta mér að undrast oflof forsetans um sjálfan sig og dylgjur í garð tveggja núverandi forsetaframbjóðenda sem hann vill ekki fylgja eftir.
Að öllu samanlögðu ofbauð mér þó mest þegar hann talaði um að hafa setið til borðs með fyrrverandi samherjum sínum, fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórninni í landinu og gert annað en þau reiknuðu með -- af fyrrverandi samherja!
Drepið mig ekki á færi -- hann sannar heldur betur að við getum ekki kosið okkur mann með flokkspólitíska fortíð. Ef það litar ekki forsetann sjálfan litar það þá sem hafa flokkspólitískar væntingar til forsetans.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 19. júní 2016
16. sætið?
Öll erum við spurð í hvaða sæti íslenska karlalandsliðið lendi á EM, ég líka. Þegar ég var spurð (bara einu sinni) svaraði ég að bragði: 16. sæti. Ég held að það sé sígilt svar þess sem hefur ekkert sett sig inn í umrædda íþrótt.
Nema hvað, nú er ég búin að átta mig á því að ef við komumst upp úr riðlinum, sem vel gæti gerst, erum við þegar búin að tryggja okkur 16. sætið. Ég er að hugsa um að endurskoða spána.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 18. júní 2016
Eitthvað annað en lýsi? Eða Lýsi?
Í ljósi nýjustu tíðinda er freistandi að hætta að innbyrða það lýsi sem hefur daglega verið á borðum. Þá leitar maður fanga annars staðar. Veit einhver eitthvað um Margildi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. júní 2016
Má breyta nöfnunum?
Við höfum löngum haft skoðanir á mannanöfnum og þó fyrst og fremst þó ákvörðunum mannanafnanefndar.
Nú er búið að kynna drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Í 7. gr. stendur meðal annars:
Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis.
Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum má sem sagt láta barn heita Þúfa, Skrúfa, Hóll, Stóll, Þak og Brak. Þau mega ekki heita þúfa, hóll og þak og heldur ekki Skrúfan, Stóllinn og Brakið enda dytti engu heilvita fólki í hug að skíra svona nöfnum. Sjálfsagt verður þetta allt í lagi. Blak Briem, ha?
Í athugasemdum stendur meðal annars:
... að öðru leyti falla úr lögum þær takmarkanir sem nú eru á mannanöfnum. Þar á meðal eru takmarkanir á fjölda nafna, vernd ættarnafna, skilyrði um að kenninöfn séu föður- eða móðurnöfn eða ættarnöfn og takmarkanir á heimild til að bera erlend nöfn.
Nafn manns er einhver persónulegasta eignin og mér dytti sjálfri aldrei í hug að breyta mínu. Ég var óhress með að heita Berglind á unglingsárunum en sú óánægja eltist af mér. Ég geri ráð fyrir að ef ég hefði alist upp sem Zoëga, Thorlacius, Stones, Hirst eða Schram væri mér það kært en annars skil ég ekki ættarnafnablætið sem ég heyri fólk tala um.
Ég hef heyrt því fleygt að það gæti verið vit í því að hafa kenninöfnin -son og -dóttir ókeypis (tíðkast víst sums staðar að hafa sumar útgáfur nafna ókeypis og aðrar ekki) en láta borga fyrir ættarnöfnin. Það hljómar afleitlega í mínum eyrum. Í fyrsta lagi myndi það líta út eins og ég hefði ekki efni á að heita Berglind Vágar, Berglind Bertelsen eða Berglind Dan eða, enn verra, að ég tímdi því ekki! Orðsporsáhætta. Og hvernig ætti að verðleggja nafnið? Árgjald? Skráningargjald? 10.000 kr. breytingagjald? 50.000 fyrir stóra fjölskyldu? 10.000 kr. á ári kannski? 1 milljón? 10 milljónir fyrir vinsælt nafn? 10 milljónir fyrir lítið notað ættarnafn?
Ég held að ég sé ekki sérlega íhaldssöm en ég er hrifin af mannanafnafyrirkomulaginu okkar, segi útlendingum iðulega frá því og þeim finnst allajafna mikið til koma.
Ég veðja á að þegar málið verður tekið fyrir í þinginu verði löng umræða utan og innan þings.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. júní 2016
Að reskjast
Ég var að horfa á beina útsendingu á Facebook. Gaman að því. Gestur í sal spurði Guðna um kostnaðinn við forsetaembættið og hann notaði tækifærið til að segja viðstöddum að þegar forseti hættir gilda um hann sömu lög og aðra. Forseti fer ekki á eftirlaun um leið og hann hættir nema hann verði orðinn 67 ára. Þetta er ótrúlega lífseig ranghugmynd. Lögunum var breytt 2009 og síðan eru liðin rúm sjö ár.
Forseti fær ekki eftirlaun fyrr en hann verður orðinn býsna roskinn og mættu fjölmiðlar benda lesendum sínum á það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 10. júní 2016
Má vinna fyrir tvo í einu?
Vinkona mín ein sem réð sig í spennandi starf hjá hálfopinberu fyrirtæki skrifaði undir ráðningarsamning sem í stóð að hún mætti ekki vinna fyrir aðra. Þegar ég frétti það spurði ég hvort hún væri þá ekki með mjög góð laun. Jú, líklega væri hún það, var svarið, og svo ræddum við aðeins um þá kröfu að mega ekki vinna fyrir aðra. Önnur vinkona sagði: Af hverju ætti hún að hafa orku á kvöldin til að vinna meira frekar en við hin?
Ókei, hér byrja ég að spyrja: Má almennt skikka fólk til að vinna ekki aukavinnu eða á það bara við um sérfræðistörf? Snýst það um hagsmunaárekstra, að í hinni vinnunni búi maður yfir upplýsingum sem mega ekki spyrjast út? Snýst þetta kannski um þann plagsið sumra að vinna aukavinnuna í vinnutímanum hjá aðalvinnuveitandanum?
Einhver sagði nefnilega við borðið þar sem þetta var rætt að hún þekkti einhvern sem kæmi aldrei svo inn til deildarstjórans síns að ekki væru skjöl á skjánum sem tengdust einkafyrirtæki deildarstjórans.
Ég er launþegi, þ.e. starfsmaður á plani, ánægð í vinnunni og með skemmtileg verkefni, hef aldrei rekið fyrirtæki og eiginlega aldrei verið með mannaforráð, en ég spyr: Á yfirmaður ekki að geta a) ætlast til þess að fólk sinni vinnunni í vinnutímanum (auðvitað með eðlilegri hvíld), b) fylgst eitthvað með því hvað gengur undan starfsmanninum?
Ég vinn stundum aukavinnu á kvöldin, um helgar og í sumarfríinu. Minna núna en áður en ég hef oft gert skemmtilega hluti sem fólk borgar mér fyrir. Fullt af fólki verður að drýgja tekjurnar með aukavinnu.
Niðurstaðan er þá væntanlega sú að svona klausa í samningi eigi að tryggja fulla afkastagetu (eftir föngum) fólks í vinnutímanum. En er einhver munur á því að fólk vinni fyrir aðra í vinnutímanum eða eyði að jafnaði klukkutíma á dag í að skoða og læka á Facebook?
Ég er mjög hugsi yfir aukavinnubanninu. Láglaunafólk væri væntanlega himinsælt með aukavinnubann -- ef grunnlaunin væru hærri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 31. maí 2016
Hvað ef klósettin springa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 29. maí 2016
,,Hagkvæmast er líklegast að keyra rútu alla ævi."
Þórður Snær Júlíusson greinir þarfasta þjóninn í Kjarnanum fyrir helgi, ferðamanninn sem bjargar hagkerfinu á Íslandi. Ég skil hann þannig, og er sammála, að arður sé mikill af ferðaþjónustu en renni í fáa vasa og það held ég að sé risastórt vandamál í umræddu hagkerfi.
Ég bjó í 101 í dágóðan tíma einu sinni en nú eru komin býsna mörg ár síðan ég hrökklaðist þaðan undan skemmtistaðahávaða. Nú hafa menn áhyggjur af því að 101 Reykjavík sé að stimpla sig út sem íbúðahverfi. Já, það er þannig. Til viðbótar eru ýmsar húseiningar að gefa sig sem íbúðir af því að Airbnb er búið að að ryðja sér svo mikið til rúms að hinum venjulega Íslendingi finnst ekki lengur pláss fyrir sig. Og umbunin fyrir það? Engin. Óvenjulegu Íslendingarnir, þeir sem rorra ofan á ferðamannastraumnum, skara eld að eigin köku, kalla hana mögulega þjóðarköku en nýta hana í þágu sína og sinna.
Við þurfum að flytja inn fólk til að manna leiðinleg, óþrifaleg og illa borguð störf.
Á sama tíma fær fólk ekki almennilega borgað fyrir að gegna störfum sem krefjast menntunar, útsjónarsemi og fórna, t.d. að vera langdvölum frá fjölskyldu sinni. Leiðsögumenn, andlit þjóðarinnar, andlit ferðaþjónustunnar, hafa svo ömurlega kjarasamninga að menn láta sig hverfa, kannski einmitt þegar þeir eru komnir með ágæta reynslu á skítakaupi. Kannski var ég ömurlegur leiðsögumaður í 11 sumur og kannski var mér þess vegna boðin vinna aftur og aftur hjá sömu fyrirtækjunum - nei, þið sjáið það sjálf að það er varla ástæðan. Ég hætti 2013 vegna lélegra launa og hruninna innviða. Nú er þriðja sumarið frá þeim tíma að renna upp og við erum enn að tala um klósett hátt og í hljóði. Grunnþörfunum þarf að sinna til að fólk njóti alls þess sem við höfum upp á að bjóða í náttúru og menningu.
En menntun er ekki metin til launa og reynslan ekki heldur. Kannski er mestu ævitekjurnar að hafa sem rútubílstjóri - en aðallega eigendur ferðaþjónustufyrirtækja sem geta fleytt rjómann úr turninum sínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. maí 2016
Kappræður eða ekki
Ég er sjúklega spennt fyrir forsetakosningunum, er í hópi þeirra sem gera sér grein fyrir að kosningarréttur er ekki sjálfgefinn og finnst að allir eigi að nýta sér rétt sinn til að hafa áhrif, þótt þau séu vissulega óveruleg í einu atkvæði.
Mér liggur núna margt á hjarta. Þurfum við forseta? Ég hef alveg velt því fyrir mér. Er hann silkihúfa eða öryggisventill? Hvort tveggja? Ef ekki sérstakt forsetaembætti, hver tekur þá á móti þjóðhöfðingjum, flytur ávörp, vígir spítala og skóla? Handhafarnir? Eru þeir ekki (flokks)pólitískir? - Ég vil alls ekki flokkapólitíkus og hef aldrei viljað. Árið 1996 skilaði ég auðu, gat ekki einu sinni hugsað mér að kjósa Guðrúnu Agnars þótt mér þætti hún að mörgu leyti frambærileg og þótt ég væri sannarlega í markhópnum.
Í gær hefði ég sleppt afmælisveislu (það lá nærri) til að geta séð umræðuþáttinn á Stöð 2. Jebbs, væntingarnar voru uppi í þaki og vonbrigðin allnokkur. En líklega hefði ég átt að hafa vit á að spenna væntingabogann ekki svona hátt. Stjórnendur þurftu að spyrja almennra spurninga fyrir áhorfendur sem höfðu lítið kynnt sér sjónarmið þessara fjögurra sem var boðið í þáttinn. Engin svör komu mér á óvart. Sáralítið heyrði ég nýtt. Ég er búin að velja mér forsetaefni en ég er öruggt óvissuatkvæði í öllum almennum kosningum og útiloka ekki að skipta um skoðun.
Já, mér þótti þátturinn dauflegur. Tilþrifalítill. Geldur. Allir feimnir, hlédrægir, óframfærnir, í biðstöðu. En almennt kvartar maður meira yfir því að allir grípi stöðugt fram í fyrir hinum. Líklega var þetta ágætt. En aðrir umræðuþættir verða vonandi samt líflegri.
Svo ætla ég að bera blak af Stöð 2 sem er einkarekin sjónvarpsstöð á auglýsingamarkaði. Ég hef aldrei verið með áskrift, ekki svo mikið sem í mánuð, ekki til prufu, aldrei. Stöð 2 hlýtur að vera í daglegri baráttu við að búa til sjónvarp og halda sjó. Ég þykist vita að JónsÁsgeirs-klanið eigi 365 miðla en á þessum miðlum vinnur fólk sem vill vanda sig. Ég hlusta mjög oft á Harmageddon, einhverja búta, og þeir félagar vaða í hvern sem er og láta örugglega ekki skikka sig í skotgrafir eða til að tala gegn skoðunum sínum. Stöð 2 ber engin skylda til að hugsa um almannahag, hún þarf bara að reyna að halda trúverðugleika og framleiða nógu gott stöff til að fólk horfi og auglýsendur borgi. Þannig samþykki ég alveg að hún velji fólk í settið. En vissulega hefði stuðið orðið meira með Elísabetu, Sturlu, Hildi og Ástþóri. Þrátt fyrir að hafa fylgst æst með frá 1. janúar hef ég ekki séð nógu mikið til Guðrúnar Margrétar til að trúa miklu stuði upp á hana.
Mánuður eftir og hjartslátturinn eykst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. maí 2016
Stóri skjálfti Auðar Jóns
Spennusaga um flogaveika konu, hver hefði trúað því? Saga vaknar næstum minnislaus úr fyrsta flogakastinu í mörg herrans ár og þarf að púsla saman lífi sínu smátt og smátt. Lesandinn fær þannig skýrari mynd af lífi hennar með henni sjálfri.
Ég veit ekkert hvort lýsingin á flogaveiki er trúverðug í sjálfu sér en mikið djö hlýtur að vera erfitt að vera með flogaveiki og vita ekki hvenær næsta kast kemur, hvort það kemur, hvernig maður bregst við og hvort aðrir í kringum mann átta sig á hvað er að gerast.
Spennandi áminning og vel skrifuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. maí 2016
Söguskýring þorskastríðanna
Ég lifði ekki fyrstu þorskastríðin og man ekki það síðasta. Allt sem ég veit um þorskastríðin er það sem ég hef lesið og heyrt. Það er ekki endilega ómarktækara en að vera í hringiðunni og sjá ekki út úr hasarnum. Margt í heiminum er matskennt, þar á meðal hver vann og hver tapaði. Í áróðursstríði og tilfinningastríði er ekki hægt að sjá kónginn felldan eins og í skák. Eftir kosningar segjast flestir flokkar vera sigurvegarar af því að þeir túlka niðurstöðuna sér í hag. Það að auka fylgi sitt úr 10% í 20% er kannski meiri kosningasigur en að fá 35% ef flokkurinn var með 36% síðast og mældist 40% í síðustu könnun.
Sigur er ekki einhlítur.
Það sem mér hefur skilist með þorskastríðin er að svo sannarlega tóku Íslendingar hraustlega á móti Bretum. Klippurnar frægu munu ekki gleymast. Við færðum landhelgina út í 200 mílur á endanum (eins og var gert víðar). Við erum öll sammála um að fiskveiðar voru mikilvægur atvinnuvegur hér, sá mikilvægasti. Við þurftum að verja miðin. Við gerðum það. En Bretar hefðu getað sallað okkur niður, vopnlausa smáþjóð, ef þeim hefði ekki verið annt um orðsporið. Þess vegna sömdu þeir við okkur. Sjómenn í Hull, Grimsby og Aberdeen voru ekkert of lukkulegir. En þannig endaði síðasta þorskastríðið 1976.
Það er engin skömm að því að semja. Auðvitað er frábært að semja og standa sáttur upp frá samningaborðinu. Að segjast hafa unnið þorskastríðið einhliða finnst mér eins og að segjast hafa náð að bjarga hjónabandinu með því að henda makanum út.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. maí 2016
Sjálfstæði þorskastríðanna
Ég vil vera sjálfrar mín ráðandi. Mér finnst ég vera það en kannski er ég bara blind og kannski hugsa ég eins og stóri bróðir ætlast til. Ég veit ekki hvort ég vil ganga í Evrópusambandið, mér hefur aldrei verið boðið upp á að velja fyrir mína parta.
Ég vil ekki skulda, ég vil ekki vera upp á aðra komin. Þannig er mörgum farið, flestum líklega. Við viljum taka eigin ákvarðanir um eigin hag og framtíð. Þegar um framtíð heillar þjóðar er að ræða er hverjum og einum ókleift að velja út frá eigin hag. Þess vegna höfum við fulltrúalýðræði og þótt aðeins 51% hafi valið okkur öllum stjórnvöld tekur kjörinn meiri hluti flestar ákvarðanir fyrir okkur öll.
Ef gæðum landsins væri jafnar skipt þyrfti enginn að líða skort. Auðvitað er eðlilegt að þeir sem leggja meira af mörkum, axla meiri ábyrgð, afla sér meiri menntunar og taka áhættu uppskeri meira en þeir sem gera það ekki. En enginn ætti að þurfa að lepja dauðann úr skel eða óttast morgundaginn vegna hungurverkja. Er það þannig? Ég þekki engan við hungurmörk en ég þekki ekki alla landsmenn.
Ekki aðeins horfum við til framtíðar, við eigum líka fortíð. Ég var í leiðsöguskólanum fyrir rúmum áratug. Þar er mér minnisstæður einn fyrirlestur um söguna, fortíðina. Þorskastríðin voru rædd. Mér finnst kjánalegt að segja að okkur hafi verið kennt um þorskastríðin, fyrirlesari talaði um þau og túlkaði söguna eins og sagnfræðingar gera, lærðir og ólærðir. Okkur var kennt að þorskastríðunum hefði lokið með samningi. Hann var ekki ræddur í þaula en í þessum tíma fór ekki á milli mála sá skilningur að þorskastríðin hefðu verið mikilfengleg, endurtekin, árangursrík fyrir Íslendinga -- og að þeim hefði lokið með samningum. Ég hefði getað lesið þetta og túlkað fyrr eða síðar en þetta var veturinn 2001-2002. Mér finnst kjánalegt að halda því fram að litla Ísland með öflugu klippurnar sínar hefði haft sigur á herveldi Breta ef Bretar hefðu kosið að beita sér.
Ég er sjálfstæður Íslendingur þótt ég gúteri samningsvilja tveggja þjóðríkja. Og þorsksýnin hans Andra er til fyrirmyndar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. maí 2016
Þegar forseti er valinn ...
Er út í bláinn að fara eftir tilfinningu?
Ég get alveg rökstutt af hverju ég hugsa mér að kjósa Guðna. Hann er fróður, yfirvegaður, æsingalaus, fastur fyrir, nægilega sjálfsöruggur og ekki flokkspólitískur. Árum saman hef ég vitað af honum, hlustað á fyrirlestra, heyrt í honum í útvarpi og, já, ég veit hverjir bræður hans eru og hef hitt mömmu hans. Að sönnu veit ég ekki skoðun hans í öllum málum en forseti á ekki að hafa úrslitaáhrif í landsmálum nema þegar þjóðin biður hann. Og þjóðin á að hafa meira frelsi til áhrifa samkvæmt stjórnarskrá. Ég treysti Guðna til að gera hið rétta.
Tilfinningarökin eru svo þau að Bessastaðir munu fyllast af börnum. Það hljómar ákaflega vel.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. maí 2016
Forsetahrókeringar
Mér heyrist sem sumir ætli að kjósa strategískt í ár. Og nú er ég helst að velta einu fyrir mér. Ef forsetaframbjóðandi boðar aðhald með ríkisstjórninni, sem mun hugsanlega breytast eftir kosningar á afmælinu mínu, hvað munu þá pólitíkusarnir kjósa? Ætlar Davíð að standa með vöndinn yfir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki ef hann verður forseti og flokkarnir halda velli í október eða á aðhaldið bara við um Pírata? Munu þingmannaefnin kjósa forsetaefni eftir þessu? Er þá forsetaembættið fallið til sameiningar eða sundrungar?
Er embætti forseta kannski fyrst og fremst pólitískt eftir að Ólafur virkjaði 26. gr. stjórnarskrárinnar? Öryggisventill?
Er óþarfi að breyta stjórnarskránni og hnykkja á sameign þjóðarinnar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. maí 2016
Forsetakosningarnar 1996
Kannski hófst kosningabaráttan í dag, en kannski hefst hún ekki fyrr en 21. maí þegar framboðsfrestur rennur út og við vitum hverjir vera raunverulega í kjöri. En ég get sagt fyrir mig að ég mun ekki kjósa þann sem arkaði inn á sviðið í morgun. Og þótt mér finnist kosningarrétturinn heilagur og muni aldrei láta ógert að mæta á kjörstað er ég að verða æ ánægðari með að hafa nýtt atkvæðið mitt 1996 til að skila auðu.
Ég vil ekki pólitíkus á Bessastaði. Mér finnst enn alveg koma til greina að hafa einfaldlega ekki forseta en á meðan við höfum forseta vil ég að þangað veljist maður sem hefur ekki tengsl inn í flokkapólitík. Auðvitað er allt lífið pólitík eða þjóðmál, afstaða til mála, en mér finnst brýnt að fólk leyfi sér að taka afstöðu byggða á upplýsingum og að fólk geti leyft sér að skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar bjóða upp á það.
Í mínum augum stendur valið á milli Andra og Guðna. Ég þekki hvorugan persónulega en hef vitað af þeim lengi eins og mörgu öðru áberandi fólki í samfélaginu.
Þótt mér finnist Davíð hafa gert óskiljanleg mistök með því að bjóða sig fram - og segjast í leiðinni hafa ákveðið sig í skyndingu (sem ég trúi ekki og ef hann hefði tekið skyndiákvörðun af þessu kalíberi væri þau aukadómgreindarskortur) - viðurkenni ég að sem áhugamaður um þjóðmál og hasar sé ég fram á gósentíð. Spennumyndir verða óþarfar næstu tvo mánuðina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. maí 2016
Ofbeldi eða einelti?
Mér brá eins og fleirum þegar ég horfði á fréttir í gærkvöldi og flutt var frétt af ofbeldi barna á barni. Börn gengu í skrokk á barni á skólalóð og ég held að enn annað barn hafi tekið það upp og dreift á samfélagsmiðlum.
Umræðan í dag hefur talsvert verið um einelti í skólum. Því miður virðist einelti vaða uppi sums staðar og úrræðaleysi er áberandi. Sums staðar er Olweus-áætlunin virk og auðvitað fréttir maður síður af því þegar tekst að grípa í taumana og afstýra ljótum brotum.
En eftir gærkvöldið er ég hugsi yfir orðalaginu. Það sem ég sá á myndbandinu var einfaldlega ofbeldi, líkamlegt og gróft ofbeldi. Mér finnst óþarfi að ofnota orðið einelti þótt það hafi sjálfsagt verið undanfari ofbeldisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. maí 2016
Að gera sitt besta ... er ofmetið
Ein í fjölskyldunni segir ef maður skyldi slysast á að setja í hárið á sér alveg glataðan lit: Þú verður að lita aftur og ná litnum sem þú vilt helst. Maður verður alltaf að gera sitt besta.
Einn í fjölskyldunni segir: Þú verður að hlaupa aðeins hraðar en þú getur. Maður verður alltaf að gera sitt besta.
Annar: Það er ekkert sem heitir að elda vondan mat (nema í undantekningartilfellum). Maður þarf bara að vera læs. Og maður verður alltaf að gera sitt besta.
Enn annar: Þú HLÝTUR að geta skipt um dekk/bremsuklossa/slöngu. Vilji er allt sem þarf.
Einn enn: Drepurðu öll blómin þín? Það er ekki flókið að halda lífi í kaktus! Maður gerir það sem þarf.
Púff, það er lýjandi að reyna að standa sig alls staðar. Það er lýjandi að ná ekki sínu besta. Ég vil fá að vera vonlaus í sumu í friði. Ég ætla ekki að skipta um bremsuklossa á hjólinu mínu. Mér finnst að einhver megi sérhæfa sig í því. Ég vil bara geta hjólað á hjólinu, komist á milli staða og staðið mig bara assgoti vel í því.
Ég vil vera góð í sumu. Ég vil standa mig í vinnu. (Svo er ýmislegt fleira sem ég ætla ekki að tíunda.) En maður verður að láta skáka sér í sumu og leyfa sér að vera misgóður í því sem maður er góður í.
Ég þoli samt ekki þegar fólk er latt í vinnu dag eftir dag ... Maður verður alltaf að gera sitt besta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)