Færsluflokkur: Dægurmál

#almenningurhefurorðið

Nú er að minnsta kosti búið að gulltryggja að umræðan um helgina verður lifandi og opin og öll skilningarvit virk! Allar útihátíðir, einkum þær sem hafa á sér orð fyrir að vera vettvangur glæps, verða undir smásjánni.

Vonandi kemur umræðan í veg fyrir glæpina, þá er til einhvers að verið.

Þótt ég sé núna búin að átta mig á að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum skrifaði ekki bréfið til að ögra, því var lekið í fjölmiðla, finnst mér sanngjarnt að hún fái að svara fyrir sig og viðtalið sem Harmageddon tók við hana í gærmorgun er ágætt.


#þöggun #eðaekki

Ég held að fyrir lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum hljóti að vaka að uppræta þöggun þegar hún biður upplýst fólk um að þegja um glæp sem framinn er í skjóli skemmtunar. Viðbrögðin eru auðvitað alveg sjálfgefin, háreysti. Fólk andæfir henni. Fólk stekkur upp á nef sér. Fólk vill umræðuna. Ég vil umræðuna af því að umræðan getur unnið gegn glæpum, ef vel tekst til nær hún til hugsanlegra gerenda sem verða fyrir vikið ekkert gerendur ofbeldis.

Ég veit ekki hvernig þolendum kynferðisglæpa líður almennt, hvorki strax á eftir né næst þegar þeir fletta blöðum eða internetinu. Það er ekki fráleitt að þolendur endurlifi ofbeldið og upplifi með röngu skömm fyrir að hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldismanni. Og fyrstu fréttir af útihátíðum eru oft af því sem fór verr en vel.

Ég undrast oftlega þegar ég heyri fréttir af umferðarslysum eða óhöppum þar sem fólk slasast eða bíður bana. Halda fjölmiðlar að þeim beri að upplýsa vandalaust fólk um banvænt bílslys á stundinni? Ekki mig, það get ég fullvissað ykkur um.

„Ég hef ákveðið í samráði við áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar að lögreglan mun ekki veita upplýsingar um kynferðisbrot til fjölmiðla þessa helgi frekar en gert er á öðrum tímum.“

Eigum við að reikna með að áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustan í bænum gangi erinda þeirra sem halda hátíðina? Eða gerendanna? Ég ætla ekki að trúa því að svo stöddu. Ég ætla að prófa að ganga út frá því að viðbragðsaðilar beri hag þolenda fyrir brjósti. En þá koma forvarnir til sögunnar. Þeim hefur verið flaggað upp á síðkastið með #myllumerkingarbyltingunni, umræðunni og upplýsingunum. Vökulir og afgerandi einstaklingar þurfa að vera á vettvangi og hafa djörfung til að grípa inn í þegar ástæða er til. Það er örugglega vandaverk. Hefur verið hugsað fyrir því, Páley? Eru ráðgjafar tiltækir? Hvernig er lýsingin?

Þetta skil ég ekki:

„Það er lagaskylda á lögreglu að upplýsa um kærur sem berast og almenningur á ekki heldur heimtingu á slíkum upplýsingum.“

Er þetta ekki mótsögn?

Við vitum að við erum ekki glæpalaust samfélag en við eigum að leggja okkur öll fram um að koma í veg fyrir ljóta glæpi sem leggja líf fólks í rúst. Hvernig væri að blaðamenn spyrðu Páleyju út í forvarnir. Eða viljum við bara gefa okkur það versta og velta okkur upp úr vandlætingunni?


Að bera í bakkafullt klósettið

Ég veit, ég hef ekkert nýtt fram að færa í stóra klósettmálinu. Leiðsögumenn hafa vitað það í 40 ár eða svo að klósettum er ábótavant. Það hefur verið rætt um að fólk sem nýtir sér salernisaðstöðu þar sem veitingar eru seldar kaupi eitthvað á móti. Það hefur verið rætt um að selja beinlínis inn á salerni. Það hefur verið rætt um að fólk kaupi sig inn á salerni og geti síðan látið gjaldið, sem annars er óafturkræft, ganga upp í sölu á einhverju í búðinni.

Við vitum að fólk þarf að komast á klósett yfir daginn, það er bara spurning um útfærslu. Og ef ferðamenn verða orðnir 2 milljónir eftir þrjú ár þarf fleiri klósett, meiri klósettpappír, fleiri klósettbursta og fleiri umferðir með burstanum.

Plís, ekki verða svona hissa.

Og leiðsögumaður var í útvarpinu fyrir einu og hálfu ári með hollar ábendingar um hvernig maður hægir sér á fjalli.

Hættum að tala um kúkinn. Girðum hann af.

 


88%

Ég var utan þjónustusvæðis í marga daga í mánuðinum. Svo kom ég til byggða, hlustaði á útvarpsfréttir og heyrði að 88% hjúkrunarfræðinga hefðu hafnað samningnum sem var gerður eftir lagasetninguna. Get ekki sagt að það hafi komið á óvart. 

Nú er ég komin heim, opna fréttaveitur á vefnum og sé að hugmyndir eru uppi um „sóknarfæri“ í heilsu. Ég er skelkuð.

Mér finnst ég borga mikla skatta en ég sver að ég sé ekki eftir þeim ef heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngukerfið er í lagi. Og nú er ég logandi hrædd. Og ég er ekki einu sinni veik og enginn að ráði í nærumhverfi mínu.


... geta hvorki keypt né leigt

... heyrði ég í fréttunum áðan. Já, þróun launa og íbúðaverðs hefur sannarlega þróast í ólíkar áttir síðustu 20 árin. Nú gæti ég talað lengi um reynslu mína af að kaupa fyrstu íbúð, en þar sem enginn unglingur er á heimilinu að reyna að komast að heiman hef ég ekki alveg fylgst með þróuninni síðustu árin. Það er bara eitthvað stórkostlega skrýtið við það að hver einasti einstaklingur sem flytur að heiman þurfi að núllstilla og skuldsetja sig til endalausrar framtíðar.

Gæti sú staða komið upp að enginn hefði efni á íbúð og allar íbúðir stæðu auðar? Hmm.


Gleðin í sorginni eða sorgin í gleðinni

Nei, ég get ekki barnað þessa grein með neinu gríni. Eða alvöru. Ég er ekki sammála einu orði, ég er hins vegar sammála öllum hinum.


Kjarasamningur leiðsögumanna

Nú er ég spennt. Kjarasamningur var undirritaður í gær og verður kynntur á sunnudag. Mánaðarlaun leiðsögumanns í efsta flokki, sem sagt með mestu reynsluna, rétt losa 270.000 kr. og þá er samt ekkert atvinnuöryggi í boði, leiðsögumaður fer til læknis í eigin tíma og þarf að sækja sérstaklega um að fá greidd laun í veikindum. Og nú bíð ég spennt eftir kynningunni á samningnum sem var undirritaður eftir slímusetu með ríkissáttasemjara. Samt var bókað við gerð kjarasamningsins í fyrra að leiðsögumenn myndu ekki sætta sig við vísitöluhækkun að þessu sinni.

Og svo kemur í dag frétt af bágu launaumhverfi yngsta aldurshópsins í ferðaþjónustu. Engar tölur fylgja fréttinni þannig að ég get ekkert borið saman. Ferðaþjónustan er orðin að meginstoð í atvinnulífinu, á fjölsóttustu stöðunum verður ekki þverfótað fyrir aðkomumönnum - hjartanlega velkomnum - en fólkinu á gólfinu eru boðin smánarlaun.

Eða kannski verður hljóðið í mér annað eftir kynningarfundinn á sunnudaginn.


*Skrifaðu flugvöll*

Allir vilja greiðar samgöngur. Allir vilja hámarka öryggi. Allir vilja hagkvæmni.

Ég vil flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni og tel, vissulega tilfinningalega, að hann færi mun betur annars staðar. Ég hef ekkert haft á móti því að færa hann til Keflavíkur, en Keflavík er samt ekki endilega besti staðurinn. En hlýtur það ekki að þjóna hagkvæmninni að hafa innanlands- og millilandaflugvöll á sama blettinum?

Niðurstaða Rögnunefndar hljómar eins og dýrðarinnar tónlist í mínum eyrum. Já, það er tilfinning mín að a) það sé óheppilegt að flugvélar fljúgi yfir þéttustu byggðina á leið til lendingar, b) það gæti þjónað stórum hópi fólks að fljúga utan af landi og geta gengið inn næsta gang til að komast til útlanda og c) sjúklingar þoli aukalega 12 mínútur sem bætast við 150 mínútna meðalferðatíma. Kannski þarf að bæta aðeins við heilsugæslu um borð.

Hingað til hafa aðallega heyrst tilfinningaleg rök með flugvellinum á sama stað, ekki síst að það ógni öryggi sjúklinga og slasaðra að hafa hann annars staðar. Í alvöru? En ef heilbrigðisþjónustan yrði færð, er þá áfram vegið að öryggi sjúklinga að lenda annars staðar, t.d. nálægt nýrri bráðadeild?

Fólk sem á erindi til Reykjavíkur á svo heldur ekki allt erindi í 101.

Fyrir launamann eru 22 milljarðar mjög há upphæð en ef við skoðum 700 milljarða kr. veltu þjóðarbúsins er þessi rosalega háa upphæð aðeins um 3%. Svo má reikna með að eitthvað fáist fyrir landið í Vatnsmýrinni þegar það verður selt, ekki satt? Og hvað með samlegðaráhrifin þegar innanlands- og millilandaflugið verður komið undir sama þak?

Að öllu samanlögðu lofar þessi niðurstaða góðu og nú hlakka ég til að heyra framhaldið. 


Fyrstupersónuflótti

Mér finnst það hafa aukist, kannski bara frá því í síðustu viku, að fólk skrifi í leiðarlýsingum sínum (á Facebook): Gengið var upp fjallið, horft á sólarlagið og farið aftur niður þar sem nestið var loksins borðað. Mér finnst fallegra að nota 1. persónu og segja: Við gengum upp fjallið, horfðum á sólarlagið, fórum aftur niður og borðuðum loks nestið. (Ekki verra: Við gengum upp fjallið, sáum sólina setjast og rísa á ný áður en við fikruðum okkur aftur niður og gæddum okkur loks á smurða brauðinu. Eða eitthvað ...)

Ætli fólki finnist það of sjálfhverft ef það talar út frá sjálfu sér í stað þess að nota þolmynd? Varla, um leið eru teknar svo margar sjálfhverfur ... (Um leið tekur það svo margar myndir af sjálfu sér ...)

Best að ræða þetta á kaffistofunni við tækifæri. Nema þú viljir leggja eitthvað til málanna. laughing


Ferðaþjónusta í boxinu

Nú um helgina gekk ég í tvo daga í Dölunum. Við vorum 30 saman, hópur sem tilheyrir gönguhópnum Vesen og vergangur. Uppáhaldsferðaskipuleggjandinn minn, hann Einar, skipulagði gönguna frá Langavatni að Hítarvatni með viðkomu á Seljalandi þar sem við gistum. Að sönnu er dásamlegt að eiga heiminn frá upphafi til enda og rekast ekki í sífellu á annað fólk en maður getur ekki annað en undrað sig á því að ganga 55 km leið á tveimur dögum og rekast ekki á nokkurn mann fyrr en á endastað þar sem tveir menn stóðu í vatni upp í nára og sveifluðu veiðistöngum. Vegalengdin er upp á kílómetra sú sama og Laugavegurinn milli Landmannalauga og Þórsmerkur sem er mjög fjölfarinn og virðist njóta varanlegra vinsælda, gott með það, en göngufólk mætti kannski líta aðeins í kringum sig. Eins og Einar.

Og þetta á ekki síður við um ferðaskrifstofur sem selja útlendingum ferðir. Mörg svæði eru sprungin eins og oft er talað um í fréttum og það er löngu tímabært að hugsa út fyrir boxið og fjölga viðkomustöðum. Vatnaslóðirnar falla tvímælalaust í þann hóp.

Langavatn > Seljaland > Hítarvatn 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband