Færsluflokkur: Dægurmál

Kröfugerð í prósentum er út í hött

Nú er búið að vísa kjaraviðræðum Félags leiðsögumanna við viðsemjendur, Samtök atvinnulífsins, til ríkissáttasemjara. Ég hef verið í þessum sporum og ég veit satt að segja ekki hvað þarf til að opna augu ferðaskrifstofa.

Það er ætlast til þess að leiðsögumenn viti margt, geti komið því frá sér á erlendu tungumáli, stundum tungumálum, umgangist náttúruna af varúð og leiðbeint misgæfusömum túristunum, séu ávallt í góðu skapi, séu löngum stundum að heiman og taki sér launalaust frí til að fara til læknis. Atvinnuöryggið er ekkert, réttindi sáralítil og fyrir heilan mánuð af svona starfskrafti eru núna borguð 270.000 í efsta flokki samkvæmt taxta. Við leiðsögumenn vitum mætavel að taxtarnir eru bara gólfið, við megum semja um hærri laun, en stóru ferðaskrifstofurnar vilja ekki borga meira.

Og vitið þið hvað?

Þær segjast hafa gert ráð fyrir þessum (lágu) launum í tilboði til erlendu kúnnanna og að hækkun á launum setji skipulagið á hliðina - en ef samið verði um hærri laun hækki þau auðvitað til okkar. Ha, er þá allt í einu svigrúm?

Í fyrra var samið um skitin 3% með bókun um að mun meiri launakrafa yrði gerð í ár. Ég held að fyrirtæki sem ekki geta hækkað laun leiðsögumanns talsvert séu einfaldlega illa rekin.

270.000 * 50% = 405.000 og þá er samt ekki gert ráð fyrir orlofi, veikindarétti eða starfsöryggi. Ég er kannski heppin að þurfa ekki að vinna við þetta og líka heppin að hafa unnið fyrir þessu skítakaupi í nokkur sumur meðan ég hafði gaman af starfinu. En þessi laun eru ekki boðleg og ég vona að stéttvitundin verði meiri og leiðsögumenn láti hart mæta hörðu. Sjálf er ég búin að vera í eins manns verkfalli í tæp tvö ár.


Næstfallegasti maður í heimi

Nú á ég nýja uppáhaldsbíómynd. Hún er svakalega hversdagsleg og að sumu leyti fyrirsegjanleg - en samt ekki. Hún er um þessi hefðbundnu sannindi að maður verður að lifa hvern dag eins og hann sé einstakur. Það þarf ekki að vera leiðinlegt að taka til morgunmatinn, mæta í vinnuna, borga skatta og ferðast í rigningu. Maður hefur val um að gera gott úr því. Að vísu myndi ekki skaða að geta bakkað og leiðrétt mistökin annað slagið, en í aðalatriðum hefur maður val um að vera í góðu eða vondu skapi og vinna „skylduverk“ með góðu eða illu.

Og ég uppgötvaði frábæran írskan leikara sem ég veit ekkert hvernig á að bera fram nafnið á, Domhnall Gleeson. Hann er svipbrigðaríkur og svo lék hann hlutverk gæfusama mannsins sem áttar sig á ríkidæmi sínu. Rachel McAdams var heldur ekkert slæmur mótleikari. Að ógleymdum Bill Nighy sem mér hefur löngum þótt frábær. Bresk gæði í fyrirrúmi.

Hingað til hefur Nothing to Lose verið í uppáhaldi og Once Were Warriors, ólíkar myndir en báðar þeim eiginleikum gæddar að koma mér á óvart. Og það gerði About Time svo sannarlega og það er með því skemmtilegasta sem ég upplifi. Og hinn undurfríði Domhnall spillti engu þegar hann brosti.


Nei við reiðhjólahjálmi

Því miður finnst mér Hjólað í vinnuna orðið dálítið staðið verkefni. Ég heyrði viðtal við verkefnisstjóra í útvarpinu í gær sem sagði að fjöldi þátttakenda hefði stigið stöðugt fyrstu árin, væri nú komið í kyrrstöðu þegar það væri búið að vera svona lengi í gangi, frá árinu 2003, en vonandi næðist áfram 10.000 manna þátttaka. Ég fer mjög mikið fyrir eigin vélarafli þannig að átakið hefur aldrei haft nein áhrif á raunþátttöku mína, bara skráninguna. Og nú nenni ég ekki lengur að skrá mig þótt ég sé á 100 manna vinnustað og við séum hvött til þess að „vera með“. Ég hjóla í vinnu og ég hjóla úr vinnu. Það þýðir tvær skráningar í verkefninu. Ég veit ekki hvernig það er núna en maður þurfti að minnsta kosti alltaf að velja upp á nýtt ef maður fór ekki hjólandi, síðasta val kom ekki sjálfkrafa upp, og maður var beðinn um veðurlýsinguna - en hún átti að vera sú sama fyrir báðar ferðir. Instagram getur kannski bjargað einhverju í ár en annars er blessað verkefnið alveg að geispa golunni.

Nóg um það.

Ég las viðtal við Gísla Martein í gær um notkun hjálma. Eða ekki. Það er útbreiddur misskilningur að maður þverskallist við að nota reiðhjólahjálm af því að það sé ekki kúl, að það hafi með útlit að gera. Það er ekki málið. Mér hefur alltaf þótt óþægilegt að vera með húfu, mér finnst óþægilegt að vera með annað en kannski úlpuhettuna á hausnum. Þegar ég fer ofan í hella er ég samt með hjálm af því að þá er það raunverulegt öryggisatriði. Þegar ég hjóla eftir stígum eða í rólegum hliðargötum er ég ekki í meiri hættu en gangandi vegfarandi. Ef fleiri hjóluðu að staðaldri en nú er væru færri bílar á götunum en þessi eilífa krafa sumra um að maður hjóli með hjálm fælir of marga frá reglulegum hjólreiðum og eykur þar með slysahættu ef eitthvað er.

Ég segi eins og píratinn: Að auki legg ég til að fólk hætti að amast við hjálmlausu hjólandi fólki (hann er að vísu með annan baráttutón í lok hverrar ræðu).


Sama gamla sagan: Ferðaþjónustan

Nú er verkfall úti um landsbyggðirnar eins og menn eru farnir að kalla svæðið utan höfuðborgarsvæðisins. Ég geri ekki ágreining út af orðalaginu, ég er að velta fyrir mér verkfallinu. Það kemur víða við og ekki síst í ferðaþjónustunni. Ég veit ekki hvort leiðsögumenn munu njóta góðs af þegar úr greiðist en ferðaþjónustan er sannarlega ekki lengur tímabundið „ástand“, ferðaþjónustan er orðin að heilsársatvinnugrein.

Og ég er að hlusta á viðtal við formann Félags leiðsögumanna sem var spilað í Samfélaginu í vikunni. Örvar er málefnalegur, yfirvegaður og skýr í tali. Nú verða leiðsögumenn að fara að fá löggildingu á starfsheitið - og hærri laun. Það þykir vanta menntun inn í ferðaþjónustuna. Það hafa alla tíð verið gerðar miklar kröfur til leiðsögumanna. Nú þurfa launin að fylgja.

 

Ísland allt árið.


Bræðslur og frystiklefar fá nýtt hlutverk

Við þekkjum hátíðir hérlendis, Aldrei fór ég suður og Bræðsluna svo dæmi séu nefnd, sem eiga uppruna sinn í húsum sem hafa verið yfirgefin vegna breyttra forsenda, t.d. í sjávarútvegi. Ég hef oft horft á yfirgefnu bæina á Suðurlandi og velt fyrir mér hvort ekki væri vert að bjóða listamönnum úr ýmsum áttum, myndlistarmönnum, skáldum og tónlistarmönnum svo dæmi séu nefnd, til að vinna að list sinni þar og enda með einhvers konar sýningu. 

Og nú birtist leiðari í Fréttablaðinu um vel sótt en afskekkt listasafn í Tasmaníu og ég rifja aftur upp Frystiklefann á Rifi sem hefur verið breytt í menningarhús og farfuglaheimili.

Meira svona, takk. Ég hef sýnt að ég mæti.


Leiðsögumaður allt árið

Maður heyrir í fréttum að yfirvofandi verkföll muni hafa þannig áhrif á ferðaþjónustuna að hún fari langleiðina á hliðina. Það eru vondar fréttir en í mínum augum er þeta nauðsynlegt ef það á að vera einhver von til þess að fólkið á gólfinu fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína. Í þessu samhengi ætla ég að leyfa mér að undra mig upphátt á fögnuðinum sem mér virðist hafa brotist út yfir „bónusgreiðslunum“ sem tókst að semja um við HB Granda. Grunnlaun eiga að vera mannsæmandi og þau eiga að heita grunnlaun, ekki bónusgreiðslur, ekki yfirvinna, ekki óunnin yfirvinna, ekki bílastyrkur, bílapeningar, þrif eða matartímar. Sumir hafa til dæmis viðrað þá skoðun að leiðsögumenn fái þjórfé og því megi launin vera lægri. Í fyrsta lagi hefur þjórfé ekki tíðkast hjá sumum þjóðernum, ég held að Skandinavar borgi ógjarnan þjórfé, Bretar ekki endilega, ekki Hollendingar. Það eru helst Bandaríkjamenn og líklega svo Þjóðverjar. En nú er ég svolítið að giska. Það sem ég hins vegar man frá áratugnum mínum í ferðaþjónustunni var að þjórfé minnkaði stöðugt, og var svo sem aldrei uppgrip í dagsferðunum. Stærsta flugfélagið skrifaði inn í bæklingana sína að þjórfé væri illa séð. Eða ætlar einhver að hrekja það?

Mér finnst sem sagt að fólk eigi að fá mannsæmandi grunnlaun. Ég held að SAF séu aðeins að vitkast í þessum efnum og það verður spennandi að sjá hvernig sumarið 2015 leggur sig.


Facebook-reglur

Ég veit að í dag er sumardagurinn fyrsti og allir að velta fyrir sér hvort árstíðirnar hafi frosið saman. Samt er ég að velta fyrir mér reglum um myndbirtingar á netinu, einkum Facebook. Ég á litla myndavél en hef alltaf tekið og tek enn margar myndir. Alltaf þegar ég fer með gönguhópnum mínum á fjöll eða geng gamlar þjóðleiðir, alltaf þegar ég fer eitthvað með hlaupahópnum mínum, alltaf þegar einhverjir hópar sem ég tilheyri gera eitthvað dreg ég upp myndavélina. Ég á litla myndavél sem ég nenni alltaf að hafa með mér og gæðin eru ágæt en ekkert í líkingu við þau bestu. Og mér finnst bara skemmtilegt þegar fólk sýnir myndunum mínum áhuga (yfirleitt myndefninu) en í síðustu viku lenti ég í því að maður sem ég þekki lítið tók mynd sem ég hafði tekið af honum og setti á Facebook-vegginn sinn án þess að láta þess getið að hún væri fengin frá öðrum.

Já, hún er af honum og já, hún er ekkert meistaraverk og já, ég gæti talað um þetta við hann og já, ég mun ekki oftar taka mynd af honum (þótt ég hafi ekkert sagt við hann) en ég er bara að velta fyrir mér fræðilega hvað fólki finnst eðlilegt. Ég merki ekki myndirnar mínar með nafni eins og sumir gera en þegar myndum er deilt á Facebook eða fólk einfaldlega merkir sig þannig að myndin birtist hjá því sést hvaðan myndin kemur. 

Þetta finnst mér svo sjálfsagt og þegar ég hef tekið mynd frá öðrum og gert að opnumynd hjá mér segi ég hver tók hana. Þegar ég bið hins vegar einhvern að taka mynd af mér á mína myndavél og nota hana í myndasögu úr einhverri ferð finnst mér óþarfi að tíunda hver tók myndina fyrir mig. Ég vel myndefnið, staðinn og stellinguna. En kannski ætti ég að gera það. Eða er „reglan“ bara sú að myndir sem settar hafa verið á netið séu sameign allra sem horfa á þær?


Vigdís á afmæli

Í dag er 15. apríl og í dag er Vigdís Finnbogadóttir 85 ára gömul. Ég man þegar hún var kosin forseti 1980, ég var ekki komin með kosningarrétt en ég vakti yfir sjónvarpinu alla nóttina. Ég hefði ekki kosið hana, ég HÉLT MEРGuðlaugi Þorvaldssyni ríkissáttasemjara, sennilega af því að mamma og pabbi kusu hann. Sem betur fer hef ég vitkast með árunum.

Mér finnst merkilegt að hafa lifað þann tíma sem Vigdís varð og var forseti. Framboðsfundur sem nýlega var rifjaður upp í sjónvarpinu sýnir stórkostlegt brot af henni. Þegar hún er spurð hvort það eigi að kjósa hana vegna þess að hún sé kona segir hún: Nei, það á að kjósa mig af því að ég er maður.

Heilu áhafnirnar lýstu yfir stuðningi við hana og þótt hún hafi bara verið kosin með um þriðjungi greiddra atkvæða varð hún fljótlega forseti flestra Íslendinga. Tvímælalaust forsetinn minn, talsmaður tungumálsins og náttúrunnar, fjölfróð og glæsileg á velli. Ég er hreykin af því að samlandar mínir hafi tekið hana fram yfir Guðlaug, Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson og mjög stolt af að hún hafi verið forsetinn minn.

Og hún ber enn hróður okkar víða.


Túristi nr. 1.000.001

Ég hef loðað við ferðaþjónustuna í rúm 10 ár. Allan þann tíma hefur verið þrálát umræða um aðstöðuleysi. Nú opnar enn einn ferðaþjónninn munninn - og ég er ekki að gagnrýna hann - en er ekki bráðum búið að tala nóg? Hvað þarf til? Umtalsverðan fjölda af klósettum og vöskum, gjaldhlið eða álíka og talsverðan fjölda sem þrífur eftir gestina.

Fleira? Ég held ekki.

Annars man ég eftir salernum í Seltúni. Kannski eru þau orðin full.


Að ganga í strætó

Ég segi það satt að strætó er ekki vinur minn. Ég opnaði straeto.is í gærkvöldi og ætlaði að finna út hvernig ég kæmist úr Glæsibæ í Álfheimum niður á Lækjartorg í dag. Í reitinn brottfararstaður sló ég Álfheimar 74 og áfangastað valdi ég Lækjartorg. Fyrsti gefni kostur var leið 3. Ég skoðaði legg á korti og sá að ég þyrfti að ganga yfir alla Skeifuna og út á Miklubraut. Og næsti möguleiki var eins og þriðji og fjórði. Enginn vagn bauðst niður Suðurlandsbrautina. Það er sko ekki ofverkið mitt að skondrast í gegnum Skeifuna en ég ætlaði bara 4 km leið á áfangastað og þegar ég lagði gönguna af Suðurlandsbraut við biðtímann var augljóst að ég myndi sáralítinn tíma græða.

Ég gekk niður í bæ og enginn vagn tók fram úr mér á Suðurlandsbrautinni. Þetta er það sem strætó gerir fyrir mig. 

Af því að bíllinn er ekki heima og af því að hjólið er vindlaust fer ég gangandi mest það sem ég þarf og síðustu þrjá dagana eru það orðnir 30 km, skemmtileg tilviljun að þetta eru einmitt fyrstu þrír dagarnir í sérstakri gönguáskorun ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband