Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 28. janúar 2015
Appelsínugulur líffæragjafadagur 29. janúar
Þegar kemur að litakóðuðu átaki til að standa með heilsutengdu málefni er ég svakaleg stemningsmanneskja. Ég hef líka lengi verið áhugamaður um að gera fólki auðveldara um vik að sýna vilja sinn til líffæragjafar ef svo illa fer að lífinu ljúki án þess að öll starfsemin geri það sömuleiðis.
Á morgun er áskorun um að klæðast einhverju appelsínugulu til að sýna í verki vilja sinn til að vera líffæragjafi ef á reynir. Á morgun er 29. janúar og á morgun er ár liðið síðan ungur maður dó en var áður búinn að láta aðstandendur sína vita að hann vildi vera líffæragjafi ef til þess kæmi.
Ég verð appelsínugul nánast frá toppi til táar. Ég er líffæragjafi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. janúar 2015
Gettu æ betur
Því miður get ég ekki setið við og hlustað á alla þættina af Gettu betur í útvarpinu en þetta er gott efni og ég hlakka til að heyra glefsur næstu kvöld. Maður getur verið að taka til, farið út að hlaupa, bloggað og margt annað meðan maður fylgist með með öðru eyranu.
Eru ekki allir að fylgjast með?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. janúar 2015
Er kímni gáfa?
Já! Og beitt vopn.
Ég veit að ég er margbúin að nota og vísa í þennan titil minn á BA-ritgerðinni um Hvunndagshetju Auðar Haralds en nú barst mér enn eitt tilefnið upp í hendurnar. Hvunndagshetjan var nefnilega bók vikunnar á Rás 1 rétt áðan. Hún kom fyrst út 1979, ég skrifaði um hana 1994 og útdrátt úr ritgerðinni 1995 og nú, 20 árum síðar, held ég að hún eigi enn erindi. Og eðlilega voru þau Nanna Hlín og Tyrfingur hrifin af henni í þættinum.
Húmorinn lifi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. janúar 2015
Halla og harðlífið á heiðinni
Ég er nýbúin að sjá Sjálfstætt fólk á sviði. Varð hrifin. Það er töluvert síðan ég las bók Halldórs Laxness og gæti vel hugsað mér að gera það fljótlega aftur. Ég er hins vegar ekki týpan til að lesa sömu bókina á hverju ári en öfunda þá sem eiga þvílíkar uppáhaldsbækur að þeir verða að lesa þær aftur og aftur. Ég sótti mér Höllu og heiðarbýlið eftir Jón Trausta í kjölfarið á ferðinni í leikhúsið af því að sögusviðið er ekki ósvipað. Ég er líka nýbúin að lesa Önnu frá Stóruborg sem mér finnst hrífandi saga. Forðum daga las ég Leysingu og varð mjög hrifin. Nú er svo langt um liðið að ég man ekki gjörla eftir henni en mig minnir að hún hafi verið um kaupmann í litlu sjávarþorpi og auðvitað allt í kringum hann, breið mannlífssaga sem spannaði einhverja áratugi og nokkrar kynslóðir. Ég man eftir að minnsta kosti einni vinkonu minni sem hataðist við Leysingu og fannst hún óhemjuleiðinleg. En ekki mér.
Mér fannst líka Dalalíf átakanleg saga og varð næstum sorgmædd þegar ég kláraði hana. Þá var Ljósa ekkert slor þótt hún væri ákaflega stutt og fljótlesin.
Ég veit ekki hvort mér er óhætt að draga þá ályktun að ég vilji lesa um lífið í torfbæjunum eða sögur sem spanna margar kynslóðir en veit þó það að þessar bækur eiga það sammerkt að vera um raunverulegt líf; líf þar sem skiptast á skin og skúrir, menn lifa ekki hremmingar af, renna sér ekki berhentir niður grannan vír ...
Ég er farin út um víðan völl og greinilega byrjuð að hugsa um Bond-myndir. Ég er ekki sérlega mikil tilfinningavera en lífsbarátta Höllu sem elur af sér þrjú börn sem farnast misjafnlega, tekur niðursetninginn Sölku undir sinn verndarvæng, býr við kröpp kjör og ástlaust hjónaband, veikburða drauma, sult og seyru en líka djörfung og lífsvilja snertir kvikuna í mér. Svo er Jón Trausti með svo stórskemmtilegar mannlýsingar eins og tíðkast í fornsögunum.
Svei mér ef Jón Trausti er ekki bara að komast á meðmælalistann minn. Og hann varð bara 45 ára!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. janúar 2015
Klukkuna vantar
Guðrún Svava Bjarnadóttir, umsjónarkennari minn í 10 ára bekk, leiðrétti í stíl hjá mér orðalagið þegar klukkan var 10 mínútur í 8 og síðan er mér tamt að tala um að klukkuna vanti 10 mínútur í 8. Hins vegar finnst mér eðlilegt að segja að klukkan sé 10 mínútur yfir 8 þótt það sé eiginlega sama ranghugmyndin af því að klukkan ER ekki. Málfarsráðunautur RÚV talaði í Morgunútgáfunni í gær um að rétt væri að segja að klukkan væri 10 mínútur gengin í 9. Jafnframt gekkst hún þó við því að tungumálið breyttist og þróaðist.
Ég gríp ekki fram í fyrir fólki sem segir 10 mínútur í en ætla að halda mig við hitt enn um hríð. Og nú er klukkan stundarfjórðung gengin í miðnætti ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. janúar 2015
Öræfi Ófeigs
Ég er miður mín. Ég heyrði Ófeig Sigurðsson lesa upp úr bók sinni fyrir jólin. Ég veltist um af hlátri, keypti bókina og gaf í jólagjöf. Viðtakandinn gafst upp á bls. 60 og rétti mér. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar en gafst upp þegar á bls. 40.
Ástæðan?
Að einhverju leyti uppblásnar væntingar. Að mestu leyti samt að sagan er skýrsla dr. Lassi sem rekur allt í smáatriðum, svo rækalli miklum smáatriðum að það er ekki séns að henda reiður á atburðarás ef einhver er. Ég tek hana kannski aftur upp ef einhver sannfærir mig um að betra sé framundan. Ég óttast þó að af því verði ekki því að samstarfskona sem ég tek mark á er með herkjum komin út á bls. 160 og mér skilst á henni að allt sé við það sama.
Til viðbótar vil ég gera þá játningu að mér finnst LoveStar Andra Snæs (sem ég hef mikið dálæti á) ekki góð skáldsaga. Ég las hana þó til enda og fannst hún frábær hugmyndabanki. Á hverri síðu var eitthvað spennandi sem hafði enga tengingu við síðuna á undan eða eftir.
Í Öræfum vantar ekkert upp á orðkynngina og tilþrifin. Kannski myndi hjálpa ef einhver læsi hana fyrir mig ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. janúar 2015
,,Engin smálán lengur í Króatíu"
Aldrei fór það svo að Mogginn næði ekki augum mínum á ný. Hann er borinn til mín endrum og eins, kannski einu sinni í mánuði, og nú um helgina bárust auglýsingavafin helgarblöðin inn um lúguna. Fyrir utan ágæta úttekt á nýárssundinu í Nauthólsvíkinni las ég grein um smálán. Það er margt sem maður vildi breyta í hverju samfélagi en það tvennt sem mig langar/langaði allra helst að breyta er annars vegar ætluð líffæragjöf, og nú er búið að auðvelda fólki það, og hins vegar smálánafyrirgreiðsla sem kemur þráðbeint í bakið á lánþegum. Kannski er þessi áhugi minn undarlegur því að ég veit ekki til þess að ég þekki fólk sem hefur þurft á líffærum að halda og ekki heldur tekið skyndilán með okurvöxtum (þótt bankarnir séu sannarlega ekki hvítskúraðir).
Einhverra hluta vegna er enn ekki orðið ólöglegt að rukka okurvexti þótt ýmsir hafi þóst vilja breyta því á síðustu fimm árum eða svo. Fimm árum! Það er langur tími í lífi unga fólksins sem ég held að sé útsettast fyrir þessari starfsemi. Í frumvarpi til laga um neytendalán 2012-2013 er langur texti um smálán sem er horfinn út úr samþykktum lögum um neytendalán nr. 33/2013. Vissulega eru athugasemdir í frumvörpum ekki höfð með í lögunum sjálfum en gilda einhver lög um smálán? Er eitthvert lagaákvæði með eftirfarandi tilvitnun?
... smálánafyrirtæki sem í dag innheimtir 11.700 kr. í kostnað vegna 60.000 kr. láns til tveggja vikna verður aðeins heimilt að innheimta 1.101 kr. vegna sams konar láns. Með nokkurri einföldun má tala um nafnvexti í stað árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og þá má segja miðað við fyrrgreint dæmi að nafnvextir séu að lækka úr 468% í 44,05%.
Í alvöru?
Ég leita og finn tæplega tveggja ára frétt úr Vísi um að það sé ólöglegt að rukka okurvexti - en af hverju er þá verið að birta þessa grein í Mogganum?
Má eða má ekki rukka 468% vexti af skyndilánum?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. janúar 2015
Áramótaskaup 2014 - ,,beint á biðlista"
Ég get ekki tjáð mig um áramótaskaupið fyrr en rykið hefur aðeins sest. Fyrstu viðbrögð voru vissulega skýr, skaupið var leiðinlegt. Ég flissaði nokkrum sinnum af einbeittum gleðskapsvilja, t.d. að áburðarverksmiðjunni, en mér fannst vanta húmorinn í skaupið. Það var eins og fréttaskýring, auðvitað uppfull af skoðunum, en ekkert skilið eftir fyrir ímyndunaraflið. Það var ekki einu sinni sérlega vel leikið, Helga Braga var eins og hún er alltaf, Edda og Laddi endurléku gamla góða full-undir-stýri-brandarann eins og þau væru á fyrstu æfingu - og, jú, nú þegar ég er búin að skrifa mig heita get ég sagt að Þorsteinn Bachmann ER góður leikari. Vatnsfötuáskorunin sem hann tók sem læknir (og var spiluð í Kastljósinu í fyrrakvöld) var samt svo ófyndin. Matarskatturinn - barnið neytt til að borða sælgæti af því að það er ódýrara en ananasinn sem fjármálaráðherra gat leyft sér. Fyndið? Samfélagsmiðlarnir - fjórar manneskjur sitja saman í herbergi og talast við í gegnum Facebook og sms. Fyndið? Endurgerð viðtals Gísla Marteins við forsætisráðherra. Fyndið?
Það er svo sem aldrei hægt að rökstyðja til fulls hvað manni finnst fyndið og af hverju en getur ekki verið að allt hafi verið sagt og ekkert skilið eftir til túlkunar? Í mínum augum er beint á biðlista smellur skaupsins. Ég er hvergi geirnegld í pólitík þannig að það hefur engin áhrif á skoðun mína á fyndni.
Vandi höfunda skaupsins á hverju ári núna er auðvitað endalaus samkeppni við krufningu mála frá degi til dags, fjölmiðlun allra sem hafa stofnað Facebook-síðu og kannski alvarleiki samfélagsins um þessar mundir. Ég hélt að skaupið yrði óvenjufyndið að þessu sinni af því að af svo mörgu væri að taka. Samt veit ég af reynslu að við vitum ekki líftíma skaupsins fyrr en að lengri tíma liðnum. Munum við á næstu árum rifja upp tök Kötlu Margrétar á spurningahríð Hönnu Birnu? Skiptir máli að konur voru alls ráðandi í upphafsatriðinu?
Hvað vantaði? Bílavandræði framkvæmdastjóra Strætós? Hið blauta sumar? Maura og myglu á Landspítalanum? Hvað það tók langan tíma að ráða nýjan þjóðleikhússtjóra? Eigendaskipti á DV? Kosningasigur xD í Vestmannaeyjum? Útópíu (spjallþátt) Víkings Heiðars?
Nei, Kenneth Máni í Kryddsíldinni hélt uppi fjölmiðlastuðinu þessi áramótin. Kalt mat.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 30. desember 2014
Maður ársins 2014
Í mínum huga er Steinunn Rósa Einarsdóttir ótvírætt maður ársins 2014 þótt margir aðrir góðir séu kallaðir til eins og björgunarsveitir og læknar, ekki síst Tómas Guðbjartsson sem var með hjartað í lúkunum. Það sem gerir Steinunni Rósu Einarsdóttur einstaka - ég þekki hana ekki neitt og varð að hafa fyrir að finna nafnið hennar - er að hún steig fram eftir að sonur hennar, 18 ára líffæragjafi, dó í bílslysi í janúar og talaði eindregið fyrir ætluðu samþykki til líffæragjafar ef maður deyr sviplega. Ég hef lengi verið áhugamaður um svona líffæragjafir og skrifaði strax daginn eftir að hann gaf líffæri sín - og sem sagt oft bæði fyrr og síðar.
RÚV hjálpaði mér ekki við leitina að nafninu með yfirliti yfir árið í tímaröð. Þessa viðburðar er ekki getið þar enda erfitt að henda reiður á öllu. Ég fann hana samt.
Dálítið þegjandi og hljóðalaust komst ætlaða samþykkið síðan á koppinn með haustinu. Þeim mun fleiri sem skrá sig, þeim mun fleiri líf verður hægt að framlengja. Það er mikil sorg þegar fólk deyr í blóma lífsins en þá er það huggun að geta gert öðrum gott.
Þess vegna vel ég Steinunni mann ársins. Gjörð hennar verður ekki endurtekin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. desember 2014
Veiði Thomasar Vinterbergs
Ég náði því að Lucasi í Veiðinni hætti til að láta vaða yfir sig. Ég veit líka að Jagten er verðlaunamynd og mér fannst hún mögnuð. Þegar ég horfi á bíómynd í sófanum mínum geri ég fullmikið af einhverju öðru en að horfa á myndina, annað en þegar ég fer í bíó, en ég fylgdist með þessari af einbeittum áhorfsvilja og þrátt fyrir áhrifamikla mynd er ég enn, daginn eftir að ég horfði á hana í sjónvarpinu mínu, að berjast við tilfinninguna að Lucas hafi ekki sagt nóg. Það er handrits- og leikstjórnaratriði, ég næ því líka. Samt ...
Fólk er dómhart og fljótt að gefa sér hlutina en er það í alvörunni svona slæmt? Ég er að reyna að setja mig í spor þess sem grunar einhvern um að hafa gert barninu sínu - eða barni nágrannans og öllum börnum leikskólans - illt og á ofsalega erfitt með að trúa því að maður sem maður hefur þekkt alla ævi fái alls ekki að njóta vafans. Eru þessi ofsafengnu viðbrögð viðbragð við fortíðinni þegar fólk VISSI en gerði samt ekki neitt?
En mikið rosalega er Annika Wedderkopp (Klara) frábær leikari, eða frábært leikaraefni og Thomas Vinterberg auðvitað fær leikstjóri. Ég trúi ekki að viðtalssenurnar sem hún var í hafi verið teknar neitt í líkingu við útkomuna.
Sekt eða sakleysi er auðvitað hrikalega stórt álitamál og um það er myndin. Við áhorfendur þurfum að velta fyrir okkur hvort við viljum setjast í dómarasætin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)