Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 12. janúar 2010
Feigðarför vörubílstjóra í Tékklandi?
Þýðandi spyr sig: Gæti titillinn í fyrirsögninni selt danskan krimma sem gerist að hluta í Kaupmannahöfn og að hluta í Tékklandi?
Bein þýðing væri: Hin tékkneska tenging/Hin tékknesku tengsl/Hið tékkneska samhengi sem mér finnst algjör geispvaki (reyndar á dönsku líka).
Ég las bókina samt og hafði gaman af. Dómar um hana eru um flest neikvæðir og einum bókmenntarýninum finnst hún ekki einu sinni jafnast á við hina slæmu Lizu Marklund. Ég læt mér annarra bókmenntapáfa dóma í léttu rúmi liggja og birti hér minn eigin páfadóm:
Den tjekkiske forbindelse er spennandi lesning um Bettinu sem er fréttamaður á sjónvarpsstöð með heldur fánýt verkefni. Ögrandi tækifæri til að leita uppi tíðindi af dauða vörubílstjóra í ferðum til Austur-Evrópu kemur skyndilega undir kvöld einn daginn þegar allir karlarnir eru farnir heim af stöðinni! Og hún bindur fyrir augun (eða þannig) og æðir út í óvissuna þar sem hún heldur síðan til lengst af. Eins og Bond 007 hefði hún átt að steindrepast nokkrum sinnum en ekki er að sjá að hún hruflist til muna, þvert á móti kemur hún ófrísk út úr hildarleiknum! Dramatísku atburðirnir eru ekki skornir við nögl, byssukúlur setja skíðalyftur á hreyfingu, maður villir illa á sér heimildir, bræðraregla segir uú! og maður brennur lifandi. Morðingjarnir reynast ekki morðinginn (ekki ásláttarvilla), greiðvikna stúlkan varð ástfangin, arsenik varð sætt á bragðið - og löggan er gargandi spillt. Bettina er mjög ligeglad í ástarmálum en fær algjört hland fyrir hjartað við tilhugsunina um að vera einstæð móðir. Eins og krimma er siður blandast alls kyns fjölskyldumál inn í starfið og Bettina á mjög alkóhólskemmda blanka mömmu sem lætur kærastann lúberja sig.
Já, sitthvað þarna minnir mig á Hafið ... Maður fær ekki að koma upp til að anda. Og það getur vel verið gaman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. janúar 2010
Án viðvörunar - núna, takk
Hekla gaus síðast fyrir tæpum 10 árum. Ég get ekki þóst og giskað og getið í eyðurnar, þetta er allt skjalfest og munað af viðstöddum. Það var laugardaginn 26. febrúar 2000. Enginn var í fjallinu. Fræðingar höfðu pata af gosinu 20 mínútum áður en Hekla lét til skarar skríða. Grunurinn rataði í fréttatíma RÚV og í fyrsta sinn í sögunni vissi fólk af fyrirætlun eldfjallsins fyrirfram.
Þar á undan gaus Hekla 1991, þar á undan 1980-1 og þar á undan 1970. Eðlilega finnst mönnum eðlilegt að gera kröfu um gos á næstu vikum. Alltaf læt ég ferðamennina mína vita af þessum möguleika - þótt ég lofi engu.
Ég held að margir myndu fagna þeirri kúvendingu í umræðunni sem Heklugos byði upp á. Ekki síst útlendinganna vegna. Af Hollendingum er það annars að frétta að ég talaði við einn af þeirri tegund um helgina. Ég sagði: Úps, hatarðu okkur ekki? Og hann sagði: Nei, hatið þið okkur ekki?
Tómar ranghugmyndir.
Svo fór bara vel á með okkur.
Aukaspurning: Hvað verður um HR-húsið í Ofanleiti þegar öll starfsemin flyst í Hlíðarfót á árinu?
Sunnudagur, 10. janúar 2010
Alain Lipietz
Alain Lipietz var í slagtogi með Evu Íslandsvini Joly í Silfri Egils í dag - mikið var hressandi að hlusta á stjórnmálamenn sem þurftu að hugsa sig um meðan þau töluðu (ég veit að bæði töluðu ensku sem er ekki móðurmálið þeirra). Mér finnst mjög margir undir sjálfvirknina seldir og þá finnst mér gjarnan að þeir hlusti ekki á ... t.d. rök.
Kannski ég ætti bara að skríða aftur ofan í holuna mína, hehe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. janúar 2010
Er til ærleg bensínselja?
Sumir dagar eru manni mótdrægir.
Á gamlaársdag ætlaði ég að kaupa bensín í sjálfsala. Ég renndi 5.000 kr. í slíðrið og ætlaði að bæta um betur en sjálfsalinn fúlsaði við báðum þúsundköllunum sem ég prófaði. Og svo kom hvorki bensín úr dælunni né kvittun úr kassanum.
Ég hringdi í símanúmerið sem gefið var upp og fékk þar að vonum símsvara. Þá gretti ég mig til frekara sannindamerkis framan í myndavélina og keyrði í burtu á blikkandi tanki.
Svo prófaði ég að hringja á laugardagsmorguninn í bensínseljuna en fékk sama símsvarann. Á slaginu kl. 9 á mánudagsmorguninn hringdi ég enn og fékk mjög liðlega konu í símann sem sagði mér að seðlateljarinn (nei, hún notaði eitthvert annað orð) ætti eftir að fara á milli sjálfsalanna og tæma þá en tók niður nafn og númer og ætlaði að láta hringja í mig þegar mál skýrðust.
Í morgun hringdi ég enn og fékk svar annarrar mjög elskulegrar konu sem ætlaði að hnykkja á þessu.
Rétt eftir hádegið hringdi síðan einhver gæðakarl sem var búinn að finna þann bláa og bauð mér að sækja hann til hvaða selju sem ég vildi. Auðvitað hefði mér þótt eðlilegast að leggja hann inn hjá mér eða senda til mín með öðrum hætti - eða gerði ég einhver mistök? - en hann var svo kurteis að ég varð eins og smjörlíki í heitri gluggakistu.
Svo lagði ég lykkju á leið mína til að nálgast herlegheitin en þegar ég kom með mitt hóflega tilkall KANNAÐIST ENGINN VIÐ MÁLIÐ. Lipur afgreiðslustúlka hringdi og fékk engin svör. Ég hringdi í númerið sem hringdi í mig í dag (já, ég persónugeri bara símanúmerið) og Securitas svaraði! Þegar ég hváði svo að undir tók í seljunni útskýrði kurteis karl að sennilega væri flutningur á símanum en samt vissi hann ekkert um það og þaðan af síður um mitt mál.
Fimm dögum eftir að bensínselja fékk minn bláa að láni er málinu enn ekki lokið. Ég er hvorki eins kurteis né þolinmóð og allt það fólk sem ég er búin að tala við út af myndinni af Ragnheiði Jónsdóttur biskupsfrú og nú lofa ég við æru óþolinmæði minnar að einhver hjá Olís þarf að grátbiðja um gott veður á morgun.
Helsti lærdómurinn af sögunni er samt sá að maður á að losa sig við helvítis bílinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 1. janúar 2010
Krosseldur Heimis
Icesave vekur fólki hroll, að vonum, hvernig sem allt veltist. Eldurinn sem Heimir reyndi að vekja í Krosseldinum í gær var ansi hrímaður líka, einkum fannst mér reyndar standa út úr Heimi kaldur strókur til Margrétar sem var honum á vinstri hönd.
Það er eitthvað við Krosseldinn sem hefur ekki virkað í mörg ár, eitthvert tilgerðarlegt uppgjör en sérstaklega var það gapandi leiðinlegt í ár.
Af hverju var ekki Halldór E. í miðjunni og stjórnaði með sínum frábæra húmor? Einhver húmor hefði strax verið til bóta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. janúar 2010
Fullorðins
Ég er í hópi þeirra kröfulitlu sem finnst áramótaskaupið yfirleitt heppnast vel. Það er erfitt að gera 300.000 manns til hæfis í einu og mér finnst eðlilegt að sólóa í liðinu sem finnst það fínt.
Reyndar er ég ekki í alvörunni svona hógvær, yfirleitt skil ég tilvísanirnar, yfirleitt þekki ég leikarana og þannig finnst mér ég bara hafa forsendur til að kunna gott að meta.
Og þetta er ekkert Ragnars Reykáss heilkenni. Þetta stenst rökrétta skoðun. Þetta er húmor ...
Meðal leikara í gær voru Stefán Jónsson (SJS), Hanna María Karlsdóttir (Jóhanna), Gunnar Hansson, Laddi (ÓRG), Sigrún Edda Björnsdóttir, María Pálsdóttir (Margrét Tryggva), Árni Pétur Guðjónsson (Þráinn), Pálmi Gestsson (Björgólfur), Örn Arnarson (,,tær snilld"), Erlingur Jóhannesson (JÁJ), Víkingur Kristjánsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og svo var Anna Svava Knútsdóttir þarna og hinn nýlega útskrifaði Hannes Óli Ágústsson sem Sigmundur Davíð ef mér skjöplast ekki. Sævar Sigurgeirsson, stórvinur úr Hugleik, lék Sigmund Erni þáttarstjórnanda í byrjun skaups og Ármanni Guðmundssyni úr sama leikfélagi brá fyrir sem fornmanni. Ég saknaði auðvitað Björns Thors (sem verður sjálfsagt ofnotaður á næstu árum) og veit ekki hver lék Björgólf yngra.
Helsti gallinn á sameiningasrafli þessa áramótaskaups er að það getur ekki hafa höfðað til barna, ekki fyrr en Páll Óskar tók Michael Jackson á línuna í lokin.
Eftir að hafa séð eitt atriði úr skaupinu í Kastljósi í fyrrakvöld var ég sannfærð um að mér þætti það leiðinlegt og ósmekklegt. Mér sýnist nefnilega sem raunverulegar myndir af niðurbroti húss hafi verið notaðar í bland við baráttu Víkings við að stjórna gröfunni sem var trúlega vísun í Hamarinn reyndar líka. En val Kastljóss endurspeglaði ekki skoðun mína á skaupinu. Með hroka beturvitrungsins gef ég skaupinu ágætiseinkunn (eitt atriði var þó notað of oft). Ég mundi heldur ekki (nema ég hafi raunverulega ekki vitað það) að á meðal höfunda var Halldór E. sem er fyndnasti útvarpsmaður sem ég heyri í.
Helsti vandi minn var að ég þurfti svo mikið að útskýra fyrir öðrum í gær (varist harkalega dóma!) og hef fyrir vikið þegar afráðið að horfa öðru sinni á Spaugstofutíma á morgun.
Samt - samt held ég að tími áramótaskaupsins sé liðinn, það á ekki að binda menn yfir sjónvarpinu síðasta kvöld ársins.
Og nú má ávarpið fara að koma frá Bessastöðum!
Dægurmál | Breytt 2.1.2010 kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 27. desember 2009
,,... þegar hann freistaðist til þess að bjarga ..."
Af tillitssemi við umfjöllunarefnið sem er göfugt ætla ég ekki að vísa í fréttina en viðkomandi bjargvættur lét alls ekki freistast. Hann freistaði þess að bjarga manneskjunni sem er allt annarrar merkingar.
Marga amböguna sé ég flesta daga en þessi afvegaleiðir umræðuna svo mikið að ég verð að ergja mig á prenti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 26. desember 2009
Clive Owen er ... ólýsanlegur
Ekki ætlaði ég að fara að horfa á einhvern Inside Man um bankarán í gærkvöldi - bankarán, huhh, komin með nóg af því - en sá þá ofurleikarann Clive Owen sem hefur hingað til ekki brugðist. Og úr varð að bankaránið fékk óskipta athygli mína í tvo tíma.
Mikið er gott að geta enn heillast af bíómynd/leikara.
Og þá er að halda áfram að lesa Horfðu á mig þrátt fyrir að vera eftir Yrsu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 23. desember 2009
,,Þriðja prentun á leiðinni"
Að sönnu er ég ekki mjög öflugt jólabarn. Ég er þó hænd að bókum og langar alltaf að lesa einhver býsn. Ég veit líka að ekki dugir að allir fái bækurnar lánaðar á bókasöfnum, einhver þarf að kaupa þær því að ella hætta þær að koma út.
Og mér leiðist þessi árátta bókaútgefenda að láta alltaf eins og (góðar) viðtökurnar komi svo gleðilega á óvart að nú hafi þurft að ræsa prentvélarnar á ný. Hver trúir á svona lélegt skipulag? Þar fyrir utan hafa svona meintar sölutölur alltaf þveröfug áhrif á mig, ef einhver bók hefur selst í þotuförmum eru mun meiri líkur á að eitt eintak slæðist fyrirhafnarlaust til mín og ég fer á stúfana til að kaupa bók sem enginn hefur hrópað um á torgum.
Að öðru leyti er ég bara orðin nokkuð jólaleg og tilbúin að taka fagnandi á móti frídögunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)