Færsluflokkur: Dægurmál

Komast Vestmannaeyjar inn í Gullhringinn?

Ég vildi að ég væri flink eins og Kjartan við að tölvuteikna kort. Hann hefur varpað fram mörgum forvitnilegum hugmyndum í ferðaþjónustu, m.a. þeirri að breyta Gullhringnum, bjóða upp á fleiri útgáfur og nýta ónýtta möguleika. Ég er ginnkeypt fyrir nýjungum ef þær eru gáfulegar, og ef ég kynni að teikna myndi ég máta Vestmannaeyjar við Gullhringinn. Ég hef heyrt því fleygt að vonir sumra standi til þess að flétta Eyjarnar inn í hringinn þegar Landeyjahöfn verður að veruleika næsta sumar og sjálfri þætti mér það afar spennandi.

Ég held samt frekar að Eyjarnar henti betur með jöklaferð í Mýrdalinn, tala nú ekki um ef til stæði að gista utan höfuðborgarsvæðisins, og vitaskuld í hringferðunum um *Norðureyju*. Siglingin frá fastalandinu skilst mér að muni taka tæpan hálftíma og að ferðir verði ekki færri en sex á dag.

Ætli ferðarekendur séu búnir að kveikja? Eða er ég e.t.v. of bjartsýn?

Vestmannaeyjar klikka ekki

Landeyjahöfnin verður langtum austar, myndin er tekin af Hellisheiðinni.


Predikun í skáldsögu

Þegar maður er ekki opinber gagnrýnandi getur maður maður leyft sér að hafa tilfinningalegri afstöðu til bókmennta. Karitas án titils heggur í minningunni nálægt fullkomnun og ég gerði mig því seka um að munnhöggvast við væna manneskju sem fannst bókin sú leiðinleg.

Kannski voru væntingarnar fullmiklar þegar ég breiddi út faðminn á móti Karlsvagninum. Hún er vel innan við 200 síður og ég þurfti að pína mig til að klára. Stóri gallinn í mínum augum er predikun aðalpersónunnar. Hún er geðlæknir og lendir í þeirri fáránlegu stöðu að dragnast heila helgi með óstýriláta unglingsstúlku sem er bilaðislega (stolið orð úr nærumhverfi mínu) ósannfærandi karakter.

Og geðlæknirinn er í innra og ytra tali að vanda um við hana, umhverfið og samfélagið gjörvallt bókina í gegn. Ef ég gæti skilið söguna sem allegóríu um síðasta ár, fyrsta árið eftir peningahrunið, væri mér hugarhægra en ég get ekki teymt textann út úr sjálfum sér.

Þetta var skelfilega raunalegt, þeim mun raunalegra auðvitað fyrir það að Kristín er flinkur penni og frábær sagnamaður þegar hún er í góðu formi. Ársform hennar 2009 er í mínum augum hins vegar félagsfræðiritgerð með ögn af persónulegu ívafi.

Eins gott að veðrið verði gott á morgun, það sem eftir lifir viku er það eina vonin, hehe.


Þegar Jónas hefði orðið 202 ára

Skynsamlegasta ganga lífs míns er skólagangan. Eðlilega verður mér hugsað til hennar á degi íslenskrar tungu því að með henni, íslenskri tungu, hef ég unnið fyrir mér.

Að fólk skuli borga mér fyrir að tala, lesa og skrifa - og hlusta - er ómetanlegt.

Ef ég þyrfti hins vegar að söðla um veldi ég frumframleiðslu því að þess hef ég helst saknað í atvinnulífi mínu - að hafa lítinn þátt tekið í áþreifanlegri verðmætasköpun.


Spennandi lesning

Til stendur að SUS útlisti hugmyndir sínar um stjórn fiskveiða von bráðar.

Ég lýg því ekki, þær mun ég vakta.

Á þetta trúi ég ekki:

Hvað þjóðkirkjuna varðar telur SUS rétt að aðskilja ríki og kirkju með öllu. Það verður hins vegar ekki gert á einu bretti og því telur hópurinn rétt að gefa kirkjunni aðlögunartíma. Þannig mætti aðskilja ríki og kirkju á 10 ára tímabili.

Ég vona samt að hugmyndinni vaxi ásmegin. Óðinsmegin þess vegna.

Fjárlagatillögur SUS eru í 28 blaðsíðna fljótlesinni skýrslu. Í kaflanum 2.2 Eflum atvinnulífið – fjölgum störfum (bls. 7-8) fann ég ekkert um fjölgun starfa, bara að aukin skattheimta yrði dragbítur. Skýrslan er náttúrlega stutt og mestu plássinu eytt í niðurskurð í ráðuneytunum þannig að atvinnutillögurnar eru sennilega bara ókomnar. Ég sé heldur ekki að Atvinnuleysistryggingasjóður fái neitt til að mæta því að fjöldi fólks verður sendur á launaskrá hjá honum. Kannski er meiri vilji til að senda þann hóp beint til Keflavíkur.

SUS leggur ekki til að dregið verði úr fjárframlögum til stjórnmálasamtaka upp á 371,5 m.kr. Þau mega vera á forræði skattgreiðenda áfram, ólíkt t.d. Listasafni Einars Jónssonar (16,9 m.kr.), Hafró (1.356,8 m.kr.), talsmanni neytenda (15,6 m.kr.), Jafnréttisstofu (60,5 m.kr.), Fjarskiptasjóði (84 m.kr.) og Hekluskógum (22,6 m.kr.).

Þetta var fyrsta vers, í fallegum litum og að mestu vel frágengið. Ég hlakka til að fá meira að heyra. Alls staðar að.


Það er víst glæta

Á meðan veðrið er bærilegt miðað við árstíma og Jóni Jóhannessyni verða ekki gefnir eftir milljarðar held ég skítsæmilega skapinu. Í minningunni er nóvember 2008 hálfu blautari og drungalegri en nóvember 2009.

Til að lengja líftíma skítsæmilega skapsins fór ég í ljósaseríubúð í gær og keypti mislita seríu og varð fyrir hrósi frá bláókunnugri konu (ekki fyrir seríuval þó). Gærdagurinn var fyrir vikið rúmlega skítsæmilegur, hehe.

Gaman að þessu óþekkta, og líka ókunnuga fólkinu. Gústi, hvernig er veðrið á miðunum?


Gerðist það ekki 10. nóvember 1989?

Þegar maður lifir atburðinn man maður stundum verr hvenær hann varð. Ég man að Rás 2 var tiltölulega ný af nálinni (jæja, sex ára) þegar Berlínarmúrinn féll og fréttum var útvarpað með reglulegum hléum alla nóttina. Mér fannst mér málið skylt því að ég hafði verið í Berlín um hvítasunnuna 1987 ...

Ég fylgdist spennt með fréttum alla nóttina, aðfaranótt 10. nóvember - er það ekki bara dagurinn? - enda var mér ekki boðið í þrítugsafmæli Egils.

Súrt.


Höfuðborgarsvæðið verði eitt sveitarfélag

Ef ég mætti ráða væru Seltjarnarnes, Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Álftanes eitt sveitarfélag með einn sveitarstjóra/borgarstjóra. Og Kjalarnes.

Seltirningar fengju að borga meira til samneyslunnar, ég hef þá grunaða um að vilja það, Kjalnesingar væru ekki gildraðir og umkringdir Reykjavíkinni, strætósamgöngur væru eðlilegar í sveitarfélaginu Reykjavík sem teygði sig víða - og minna væri um smákónga- og -drottingalæti á hreppamörkum.

Er ekki hægt að gera svona lítið fyrir mig, t.d. í sveitarstjórnarkosningunum 2010?


Þú læst á endanum

Í dag heyrði ég útvarpsviðtal þar sem andlát bar á góma. Þegar viðmælandinn talaði um sjúkling sem lýkur hérvist sinni ætlaði hún að segja: Þegar hann læst ... en fannst orðmyndin líklega svo sérkennileg að hún breytti því í: Þegar hann deyr er hann fluttur beint upp í líkhús (eða eitthvað).

Það er synd hvað við veigrum okkur við að nota sum orð í öllum sínum fjölbreytileika.


Ó, hví eru fréttir (stundum) svo lítið upplýsandi?

Heimild mín hermir að vandaðri fyrirspurn hafi verið varpað fram á borgarafundi á Sauðárkróki í síðustu viku þar sem fundarefnið var fyrirhuguð skerðing fjár til stofnana á staðnum. Spurningin var hvort embættismenn Skagafjarðar ættu (ætluðu?) ekki að nota tækifærið meðan þeir væru enn að störfum og ekki sameinaðir öðrum héruðum og taka á kaupfélagsveldinu. Vísir ákvað að skrúfa bara frá krana fréttatilkynningarinnar. Mbl.is sýnist mér gera það líka en

Villa

Ekki fannst frétt með þessu númeri.

kom upp þegar ég smellti á fréttina. Ég fann ekkert á DV-síðunni og ekki heldur á Eyjunni. RÚV skautaði frekar létt yfir, á ,,fremsta fréttaskýringavef landsins" fann ég ekki einu sinni leitarvél, vandleitað var á Pressunni og síðasta hálmstráið reyndist státa af myndum einum saman umfram fréttina sem fundurinn ákvað sjálfur.

Svo að ég hnykki á spurningunni sem ég nefni í fyrstu línu var hún víst eitthvað á þá leið hvort ekki væri ráð að nýta sýslumann og lögreglu sem enn væru að störfum í Skagafirði - ef störfin yrðu stokkuð upp í sparnaðarskyni (sem er allt annað umfjöllunarefni) - til að vinna gegn misnotkun, einokun og spillingu sem allir vissu að viðgengist á staðnum. Mér skilst að spurningin hafi ekki vakið lukku - og það er skýlaust fréttaefni.

Ég tipla á þessu af varfærni vegna þess að ég var ekki á staðnum. En hvert er hlutverk miðlanna sem vinna fyrir alla landsmenn? Úr því að ég frétti af þessu gef ég mér að víða falli sprengjur sem menn þegja um en ættu að segja frá - og taka á.

-Mikið fann ég hins vegar um villtar kindur sem sóttar voru á kettanibbur af mannúð og fluttar milli héraða af mannúð til að slátra af mannúð.


,,Glefsur úr Víðu og breiðu"

Mikið var ég hrifin af að heyra dagskrárliðinn í fyrirsögninni kynntan í útvarpinu. Ég held að einhverjir hefðu t.d. kynnt glefsur úr Vítt og breitt - kannski jafnvel Vítt og breytt, hmm ....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband