Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Hvaða óþarfa getur maður skorið niður?
Ég ætla að játa. Ég hef keypt og borðað hunangsseríos. Nú er pakkinn kominn í 509 krónur, var undir 400 krónum fyrir skemmstu. Á morgnana ætla ég um ókomna tíð að borða rándýra ab-mjólk og rándýra ávexti, annars vegar íslenska framleiðslu og hins vegar alltént hollan árbít, í stað þess að borða rándýrt sykrað loft.
Og mér veitti ekki af efnahagsþrengingum til að taka svo djarfa ákvörðun.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 18. nóvember 2008
æ emm eff
Á þessum alvörutímum væri hægt að gera íslenskum hjörtum til hæfis og segja i emm eff, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða þá AG(S) ef mönnum liggur á í munninum. Hvaða andskotans eltistefna er að segja skammstöfunina upp á ensku? Eiga menn nokkuð erfiðara með I M F en að segja bé bé sé eða sé enn enn?
Sum borgaheiti eru upp á íslensku, s.s. Kaupmannahöfn, Stokkhólmur og Moskva, sum eru útlensk, Washington, Frankfurt, Bordeaux, sum eru valkvæð, Dublin/Dyflinni, London/Lundúnir, Malmö/Málmey, og sum hafa menn tilhneigingu til að ameríkansera, Munich, Brussels. Hvaða tilgangi á það að þjóna? Fyrir hvern er þetta gert? Það getur ekki verið að mér einni leiðist þetta.
Ætli einhver útlendingur reyni að segja err ú vaff þegar útvarp allra Íslandsmanna er á milli tanna þeirra?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Aldrei fór ég á Nasa
Fyrr en í kvöld. Og ég varð smáborgaralega hrærð. Ég hef iðulega farið á borgarafundi áður, t.d. um skipulagsmál, en hitinn í kvöld, málefnaleg þrungni, framfaraviljinn, lýðræðisviljinn ýtti við smáborgaranum í mér og kom honum á hreyfingu.
Ég er ekki í þeirri stöðu að vera að missa allt mitt og get ekki alveg sett mig í þau spor en margir hljóta að vera þar - en ná því samt að sýna yfirvegun, einblína á málefnin og setja mál sitt skýrt fram. Vissulega missa sig einhverjir en ef maður ætlaði að gera það að aðalatriði er það eins og að fá 49 jákvæð svör í kennaramati og muna bara eftir þessu 50. þar sem stóð: Hefur hlustað einum of oft á Always look at the bright side of life.
Í kvöld voru fjórir frummælendur, öll einstök eins og á þeim síðasta, laugardaginn 8. nóvember. Svo sátu fyrir svörum fjölmiðlungarnir Arna Schram, Egill Helgason, Broddi Broddason, Reynir Traustason, Karl Blöndal, Ólafur Stephensen og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Öll held ég að hafi fengið gagnrýni - sem fjölmiðlungar - kannski ekki bara málefnalega en áreiðanlega að mestu leyti. Og nú mun ég fylgjast spennt með umfjöllun um hin ýmsu mál, verðtryggingu, kvótamál, umhverfisvernd, drottningum og ráðamönnum. Ólafur sagði t.d. að í fyrramálið yrði fjallað í Morgunblaðinu á mannamáli um verðtrygginguna og hvaða áhrif hún hefur á lán fólks. Ég ætla að lesa þá grein.
Ég kemst í Háskólabíó á mánudaginn og ætla sannarlega að fara.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Edduverðlaun hvað?
Mér er slétt sama þótt RÚV leggi hálft sunnudagskvöld undir uppskeruhátíð kvikmyndagerðarmanna. Mér á jafnvel eftir að finnast forvitnilegt að heyra niðurstöðu mógúlanna, enda er ég búin að sjá tvær mjög góðar íslenskar myndir í ár, Sveitabrúðkaup og Reykjavík - Rotterdam.
Þar sem verðlaunin eru samt óhjákvæmilega huglæg að miklu leyti - ég meina, smekkur verður ekki mældur í sentímetrum - er ég logandi hrædd um að hin ljúfmannlega Eva María fái verðlaun sem sjónvarpsmaður ársins, kannski af því að Egill Helgason (Silfrið) og Jóhannes Kr. Kristjánsson (Kompás) þyki of miklir naglar. Af hverju eru aðeins þau þrjú tilnefnd? Í sumum flokkum eru fimm tilnefningar. Og ástæðan fyrir að það mun þykkna í mér ef Eva María uppsker þarna er að ég GET EKKI GLEYMT ÞEGAR HÚN TÓK ÞAÐ Í MÁL AÐ KIPPA BJARNA ÁRMANNSSYNI Í DÚKKULÍSUVIÐTAL Í ÞÆTTINUM SÍNUM Í FYRRA. Í marga daga var búið að auglýsa viðtal við einhvern prest en þegar Bjarni þurfti að skúra ímynd sína út af REI-málinu var Eva María fengin til að taka viðtal við hann um prjónaskap, kartöflur og foreldra hans.
Bjarni hefur aldrei virkað vel á mig þrátt fyrir mikla áferðarfegurð en elskuleg mamma mín féll alveg í stafi yfir því hvað hann væri vænn og vænn og vænn.
Þetta viðtal get ég aldrei fyrirgefið henni Evu Maríu þótt hún sé bæði klár og almennt vel gerð. Ég hef getað horft á sum viðtöl hjá henni síðan en ég valdi sannarlega Dagvaktina á Stöð 2 meðan ég átti auðvelt með það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Lottó- og útburðarauglýsingar
Löngum hafa mér leiðst auglýsingar Lýðs lottóvinningshafa. Smekkurinn er bara svona misjafn. Núna finnast mér þær orðnar mannskemmandi og áðan hjólaði ég næstum á í bræði minni þegar hann gortaði af einkastúdíóinu sínu.
Af allt öðrum toga eru auglýsingarnar frá Póstinum. Hver keppir við Póstinn um útburð bréfa? Til hvers auglýsir hann? Og hvar er sá heimski markhópur sem þær auglýsingar eiga að höfða til? Ekki þekki ég það fólk.
Nú ætla ég að gera eitthvað mannbætandi meðan umræður ganga á Alþingisrásinni, t.d. finna út hvenær best verði að vísítera í Brussel og rifja upp hvernig gengi og stýrivextir eru á ensku. Og kannski finna gengið sjálft.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Stress út af laugardeginum
Ég er á tauginni, ég er búin að taka að mér að vera enskumælandi leiðsögumaður í fjölþjóðlegum hópi á laugardaginn. Við förum upp á Langjökul (í 10 stiga frosti) - ætli mér verði hent ofan í sprungu og mokað yfir? Hvernig á ég að heilsa? Hvað á ég að segja mikið um Icesave? Vera bara kuldaleg?
Brrrrr.
Ætli launin verði síðan tekin af mér eða þau fryst?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Menn grýta grjóti
Menn grýta ekki eggjum, tómötum eða skyrdósum. Sögnin að grýta er skyld nafnorðinu grjót. Við vorum í dag að reyna að finna sambærilega sögn fyrir að kasta eggjum - en eggja nær því ekki ... Tengingin er samt nokkur þar sem hægt er að eggja einhverja til verknaðarins.
Svo vitum við ekkert hvað gerist um næstu helgi. Kannski verður blómað, ha?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Kona fer til læknis - eftir Hollending
Í Neon-klúbbi Bjarts eru gefnar út nokkuð margar bækur á ári, aðeins of margar til að ég komi því í verk að lesa þær með öllum hinum sem ég vil líka lesa. Þess vegna tók það mig hálft árið að byrja á Kona fer til læknis eftir Ray Kluun. Svo lagði ég hana til hliðar til að lesa nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar.
Bók Hollendingsins er lestursins virði. Hún minnir mig að sumu leyti á Once were warriors vegna þess að þótt Stijn breyti hroðalega rangt getur maður að sumu leyti skilið hann, og líka Carmen sem lætur svívirðilega hegðun hans yfir sig ganga. Undarlegur andskoti hvað maður kóar þar sem og þegar síst skyldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Myrká eftir Arnald Indriðason
Svo meðvirk er ég að ég rauk í búð í vikunni til að kaupa nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar. Ég er alveg sérlega meðvirk í því að höndla ekki minna en ég á að mér - þar sem ég hef aldrei keypt bók eftir hann áður, hins vegar oft eina bók í nóvembermánuði til að lesa strax.

Kannski hafði áhrif á mig að Katrín Jakobsdóttir mælti með henni í Mannamáli á sunnudaginn var. Kannski var það minningin um að hafa beðið lengi eftir að fá síðustu bókina hans á bókasafninu (Konungsbók) og verða fyrir vonbrigðum. Kannski bara þetta hagstæða verð, 3.590 kr.
Hún er tæpar 300 síður og mér þótti hún sein í gang, eftir á að giska 230 síður þótti mér hún verða vitund spennandi. Ég ber hana saman við bestu bækurnar hans, Grafarþögn og Dauðarósir, og það er eiginlega bara í lokin sem hann nær sér á sitt besta strik, þegar hann gerir skil glæpnum sem olli glæpnum.
Mér finnst Arnaldur nefnilega góður í samfélagsrýninni.
Ég þekki svo marga sem eiga eftir að lesa Myrká að ég voga mér ekki að ljóstra neinu upp, segi bara að mér finnist hún lesandi en varla eigandi. Kannski ég gefi hana bara ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Eru tífaldar atvinnuleysisbætur hæfileg hæstu laun?
Fullar grunnatvinnuleysisbætur nema kr. 6.277 á dag eða kr. 136.023 að jafnaði á mánuði miðað við 1. feb. 2008.
Svo segir á vef Vinnumálastofnunar. Er það EES sem bannar okkur að ákveða einhver hæstu laun í einkageiranum? Ef fólk getur lifað af þessari upphæð að frádregnum sköttum hvað hefur þá fólk að gera við meira en milljón á mánuði?
Frelsið er vandmeðfarið, það hefur sýnt sig, og þess vegna ákveð ég að ögra Orra svona ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)