Færsluflokkur: Dægurmál

Kakó og pönnukökur með heilbrigðu spjalli

Nú gefst okkur leiðsögumönnum tækifæri til að spjalla um fagið á afmæliskakófundi. Hvernig segja leiðsögumenn t.d. frá flekakenningunni þegar henni hefur verið úthýst af Þingvöllum? Breyta sumir engu þar? Ég hitti Borgþór Kjærnested nýverið og hann sagðist segja frá henni í grennd við Selfoss. Ég fer ekkert endilega framhjá Selfossi þótt ég fari á Þingvelli.

Þýða leiðsögumenn öll örnefni? Þau helstu? Engin? Parliament Plains? Smokey Bay? En örugglega íslensku heitin þá með, ekki satt?

Ég á von á a.m.k. Ursulu, Bryndísi, Þórhildi og Magnúsi úr árganginum mínum. Vonandi Möggu. Pétri líka ef hann er ekki að sinna skyldustörfum á Blönduósi. Aðrir eru bónus! Hvað með Auði, skyldi hún koma frá Hvammstanga?

Og skyldu mínar ágætu bloggvinkonur Lára Hanna og Steingerður eiga heimangengt??

Spennan er óbærileg að verða. 21 klukkutími fram að kakófundi.


Jólabók er inni

Hvur skrambinn, hér sit ég í afhallandi kvöldi og aðlíðandi nótt og fletti upp í Gegni og kemst að því að á bókasafninu mínu er bæði einn Arnaldur og einn Einar Már, og Yrsa í frágangi. Ætli sé dónalegt að standa á þröskuldinum þegar safnið verður opnað á morgun?

Reyndar gæti verið að ég þyrfti að vera annars staðar kl. 10.

Skrambans.

Ég er þó það heppin að Alþingisrásin er ennþá kvik ...


Illa nýttur starfstími

Góðkunningi minn sem vinnur þægilega innivinnu fullyrðir að 30% af starfstíma þeirra sem sitja við tölvu allan daginn sé eytt í þágu starfsmannanna sjálfra. Ég hef enga trú á því.

Dekurdagur í sjónvarpinu

Silfur Egils, Mannamál og Forbrydelsen. Ég hef engu við þetta að bæta. Nema þætti á BBC Prime þar sem tveir stílistar (tvær stílistur?) taka í yfirhalningu konur sem eru áhugasamar um að breyta til í fataskápnum.

Svona eiga sunnudagar stundum að vera.


Leiðsögumenn búnir að funda einu sinni með SA

Vefurinn okkar flytur þau tíðindi af samningaviðræðum leiðsögumanna og Samtaka atvinnulífsins að kröfugerð hafi verið lögð fram og að næsti fundur verði um miðja næsta viku. Magnús Oddsson, ekki-ferðamálastjóri, sem útskrifaðist með mér árið 2002 og sem ég hef óbilandi trú á er hóflega bjartsýnn á að samningar náist fyrir áramót. Það held ég að sé dulkóðun fyrir að ekki verði samið fyrr en 17. maí 2009 eða svo. Samningar eru hins vegar lausir 31. desember nk.

Efsti dagvinnutaxti er kr. 1.450 - með orlofi. 17% hækkun flytti taxtann upp í kr. 1.697. Ég vel töluna 17% að vel yfirlögðu ráði - samt er tímakaupið lágt.

1.697 * 170 tímar = 288.490 (með orlofi og óvissu í ráðningu).

Ég veit um leiðsögumenn sem finnst þetta ágætt.


Ég nota alltaf tækifærið til að segja útlendingum frá vetninu þegar við keyrum framhjá stöðinni

Í hinum klassíska Gullhring keyrir maður einu sinni framhjá vetnisstöðinni og ég sleppi ógjarnan tækifærinu til að segja ferðalöngum af framtíðardraumum okkar Íslendinga, a.m.k. mínum, sem sagt að við munum þegar upp verður staðið keyra fyrir vetni í stað bensíns eða olíu. Ég hef staðið í þeirri meiningu að síðasta eina og hálfa árið hafi einir þrír strætisvagnar og 40-50 fólksbílar verið knúnir með vetni. Sá galli er á gjöf Njarðar að þetta er eina stöðin þannig að maður skutlast ekkert á vetnisbíl lengra en kannski til Hveragerðis. Ég sé ekki í þessari frétt að til standi að fjölga stöðvunum. Stendur það samt til? Verður hægt að taka vetni á Akureyri fljótlega?

Ég á reyndar engan bíl - en getur ekki verið að ég hafi séð í fréttunum nýlega eitthvað um að eldsneytisverð hafi hækkað, og m.a.s. frekar mikið? Hvað kostar svo vetnislítrinn (og hvað kostar farartækið)? Hversu miklu betur fer notkun vetnisbíla með umhverfið en önnur vélknúin farartæki?


mbl.is Vetnisstöð vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðsögn að vetrarlagi

Kannski má kalla mig frístundaleiðsögumann, a.m.k. hef ég ekki aðallífsviðurværi mitt af leiðsögn og mun bara halda áfram í þessu hlutastarfi eins lengi og ég hef gaman af. Ég er svo heppin að vinna helst fyrir fyrirtæki sem kann sig, þar sem eigendur eru húmoristar og treysta starfsmönnum sínum til verka. Að vísu rekur mig ekki minni til að hafa orðið fyrir vantrausti, en ég hef heyrt alls kyns sögur af óhæfu ferðaskrifstofufólki sem hringir í leiðsögumenn í tíma og ótíma, algjörlega að óþörfu. „Ertu komin/n á hótelið?“ „Tókstu nestið með?“

Ég hef heldur ekki verið tiltakanlega mikið við vetrarleiðsögn. Ég fór þó núna einn laugardag um miðjan nóvember á Langjökul með hvatahóp í því ískaldasta veðri sem ég hef upplifað þar um slóðir. Við lögðum af stað úr Reykjavík kl. 8 og fyrsta klukkutímann sáum við ekki neitt. Svo stoppuðum við í Fossatúni og eftir það sást bara sæmilega út um allar jepparúður.

Það sem kom mér á óvart var hve auðvelt reyndist að segja frá í niðamyrkri. Í þoku hef ég oft sagt frá lífi fyrri tíma, þegar fólk gekk á milli allra staða og bar mal sinn á bakinu, reyndi að flýta sér og jók hraðann, heyrði eigin hjartslátt og hélt að það væru ófreskjur sem ætluðu fólk lifandi að éta, komst heim við illan leik, skellti í lás og skemmti sér svo við að segja söguna. Aftur og aftur þess vegna, og alveg þangað til hún tapaði tengingunni við upprunalegan ótta.

Við svona frásagnir dundaði fólk sér á löngum kvöldum ásamt því að prjóna, þæfa, hekla og þvílíkt. Þessar sögur hafa lifað mann fram af manni og svo segi ég farþegum að við séum látin lesa þjóðsögurnar í grunnskóla, þess vegna trúum við svo staðfastlega á huldufólk og annað ósýnilegt!

Um daginn þegar við keyrðum af stað í myrkrinu sagði sú sem sat næst fyrir aftan mig: Segðu okkur frá jólasveinunum. Og það endaði með því að ég talaði um jólin í upp undir klukkutíma, svaraði spurningum og var næstum farin að sjóða hangikjötið. Það má gera sér mat úr myrkrinu.


Leiðsögumenn setjast að samningaborðinu

Kjaranefnd leiðsögumanna sem í eru Halldór S. Magnússon, Magnús Oddsson og Skúli Möller sest á morgun, mánudag, að samningaborðinu með hjálparkokkum okkar í ASÍ og reynir að ná samningum við Samtök atvinnulífsins. Það er ekki seinna vænna því að núverandi kjarasamningar renna út í árslok.

Mér finnst miður hvað ég hef ekkert fram að færa annað en það sem ég hef þegar gert, reynt að standa uppi í hárinu á þeim atvinnurekendum sem ætla ekki einu sinni að fara eftir okkar aumu samningum, reynt að halda því til haga að samningarnar sem hafa verið gerðir eru lágmarkssamningar en ekki tilfallandi-samningar eða stundum-samningar.

Ég hef tekið þátt í að berjast fyrir löggildingu, án árangurs - enn sem komið er. Nú um áramót flytjast ferðamál milli ráðuneyta og þá er lag að reyna enn. Þau rök sem ollu höfnuninni síðast, að löggilding útilokaði hæfa menn eins og Arthúr Björgvin Bollason, Sigurð Líndal og Ara Trausta Guðmundsson frá leiðsögn, þykja mér ekki halda vatni. Hæfir menn sem hafa sannað sig nú þegar geta annað hvort fengið undanþágu eða einfaldlega tekið stöðupróf sem þeir hljóta að standast með láði.

Taxtinn er of lágur, menn slíta sér út, segja já þegar þeir hafa ekki einu sinni orku til að segja nei við ferðum, og hætt er við að sumir leiðsögumenn nái ekki að uppfæra sjálfa sig, endurmennta sig, fylgjast með, fræðast meira og hlaða battaríin. Það bitnar til langs tíma á starfinu og einstaklingnum. Fullt af hæfu fólki hefur hrökklast úr stéttinni og farið í önnur störf þótt margt hæft fólk sé sem betur fer enn að störfum.

Mínar aðalkröfur væru hærri laun, lengri uppsagnarfrestur og aldrei minna en dagurinn greiddur. Fólk sem tekur að sér transfer kl. 12 á miðvikudegi getur ekki lofað sér í neina aðra launavinnu allan dann dag. Ólaunuð binding.

Aukakröfur vörðuðu aðbúnað í langferðum, gistingu og vinnuaðstöðu í rútu. Þótt ferðamenn séu upp til hópa skemmtilegir og eftirsóknarverður félagsskapur er líka stundum brýnt fyrir leiðsögumenn og bílstjóra að vera út af fyrir sig. Á því er mikill skortur í hringferðunum þegar báðar stéttir sitja t.d. skammt undan hópnum í matartímum - og elskulegum hópnum finnst sér stundum skylt að veita umræddum stéttum félagsskap.

Og það grátlega við þessa umræðu er að maður festist í baunum í stað þess að tala um fagið.

Frá því að ég las það að flekakenninguna gæti maður ekki útskýrt á Þingvöllum því að flekarnir mættust ekki þar hefur það varla borið á góma við kollegana, ekki í mínu tilfelli. Við komumst ekki upp úr baunatalningunni og upp á faglegan umræðugrundvöll. Ég er ekki búin að vera á Þingvöllum að ráði síðan ég heyrði af þessu en ég hef ekki hugsað mér að hætta að nota sigdalinn milli Norður-Ameríku- og Evrasíuflekans til merkis um flekaskilin. Hvar og hver er samt faglega umræðan um málið?

Hvernig er með Borgarfjörðinn sem stendur sig best í að vera með fjölmálaskilti á fallegum stoppistöðum? Verður einhvern tíma auðveldara að stoppa í Reykholti upp á mat að gera? Af hverju finnst mér Snorrastofa óspennandi? Það er gaman að skoða Snorralaug, styttuna af Snorra eftir Gustav Vigeland, kirkjugarðinn, jafnvel líta í átt til gróðurhúsanna en Snorrastofa dregur mig ekki inn. Hvað með aðra?

Segja menn frá Fróðárundrunum á Snæfellsnesi, draugagangi og blóðsúthellingum? Vinnst kannski ekki tími til? Segja menn Þjóðverjum og Norðmönnum frá en ekki hinum viðkvæmu Bandaríkjamönnum?

Hvernig segja leiðsögumenn frá pólitík á Íslandi? Að hér sé lýðræði, við höfum verið danskt amt, við veiddum hvali aftur til skamms tíma, herinn sé farinn, velmegun sé mikil, allir skuldi í jeppunum sínum, i-poddar séu hátt tollaðir?

Mikið væri gaman að komast upp úr skotgröfunum og fara að tala um fagið. Eigum við að reyna?


Vetrarríki í Reykjavík

Ég er röng manneskja í vitlausu landi. Úti er byrjað að snjóa, það er m.a.s. viðvarandi föl að sjá á jörðunni, ég er boðin í laufabrauð til systur minnar og ég kalla það þrekvirki ef ég kemst áfallalaust í hverfi 104. Ég er kveif og skal gangast við því á öllum fundum ...

Síðustu 10 árin eða svo hefur íslenska veðrið dekrað við mig, hvort sem um er að ræða hnatthlýnun eða bara innlit hlýskeiðs, og ég vil ekki sjá vetrarmánuði bernsku minnar á ný. Ekki ég.


Smakkað á þýðingahlaðborðinu

Í Saltfélaginu var boðið upp á þýðingahlaðborð í dag, giska girnilegt. Ég entist þó aðeins skamma hríð því að Saltfélagið er ekki síður húsgagnaverslun og kaffihús en bókahorn. Og ég undi mér illa sitjandi á stól hinum megin við ganginn, stól sem var til sölu. Og engan stól mun ég kaupa þarna, frekar en skál eða disk, ekki aðeins vegna þess að ekkert heillaði mig heldur líka vegna þess að ómerkilegustu glös kostuðu marga þúsundkalla. Ég treysti mér ekki til að lofa sjálfri mér því að ég brjóti ekki alveg eins vatnsglas sem kostar 4.000 og það sem kostar 40 krónur.

Mér þótti umhverfið ekki hvetja mig til að narta í hlaðborðið eins og ég ætlaði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband