Færsluflokkur: Dægurmál
Miðvikudagur, 31. október 2007
Eru menn búnir að gleyma ferðaþjónustunni?
Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík
og
Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn
21. október 2007
Efni: Athugasemd við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir - Bitruvirkjun, allt að 135 MW jarðvarmavirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.
Ég undirritaður/undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:
- Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni, byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu.
Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa höfuðborgarsvæðisins og afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss. - Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst höfuðborgarsvæðinu.
Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði friðað til frambúðar. - Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem lét gera umhverfismat og ber kostnað af því. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór hagsmunaaðili er í raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn. Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.
- Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar. Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 30. október 2007
Black Adder í sjónvarpinu mínu
Goðsögnin birtist í sjónvarpinu mínu, á BBC Prime. Dásamlegur svartur húmor - og ég heyrði Rowan Atkinson tala! Hann er ekki bara fíflið Mr. Bean. Hann getur leikið.
Það hlýtur einhver að vera sammála mér um þetta (en ég veit um marga sem eru það ekki).
Ég var sem sagt að sjá þátt með Black Adder (Svarta skröltorminum?) í fyrsta skipti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 30. október 2007
Tíu litlir strákar - bara
Ég þori varla að segja þetta en ég var að lesa pistil Gauta Eggertssonar og allar athugasemdirnar á eftir og andlitið á mér lengdist og lengdist þegar ég sá að enginn gerði athugasemd við að það eru bara strákar sem fara sér að voða.
Gera litlar stelpur sig ekki sekar um afglöp? Ætlar enginn að taka upp þykkjuna fyrir stráka?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 30. október 2007
Kvartað undan IBM
Náfrændi minn, systursonurinn, sem veit meira um tölvur en ég segir að IBM hafi hrakað til muna. Ég veit ekki hvað er hæft í því en veit að stykkið mitt er ekki við góða heilsu. Ég er bara búin að eiga þessa fartölvu í á að giska ár og battaríið neitar núna að hlaða sig. Þess vegna er ég með stórt rautt X í rafgeyminum og ef ég tek tölvuna úr sambandi myrkvast skjárinn.
Ég hef gætt þess að tæma battaríið einu sinni í mánuði þannig að heilsuleysi hennar er ekki mér að kenna.
Ætti ég að skæla framan í Nýherja?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 29. október 2007
Allt er aldrandi fært
Ég tek við frumlegum heillaóskum til næsta miðnættis. Þær mega vera í sms-, tölvupósts- eða bréflegu formi, leiknar með og án hljóða, í gríni eða alvöru:
Ég lofa að verða ekki viðkvæmari en efni standa til ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 27. október 2007
Það er bannað að klifra í bonsai-trjám
Ég tók ekki margar myndir í Madrídarferðinni minni og bíð spennt eftir að komast í nokkrar frá öðrum til að stela. Hér eru flestar þeirra sem ég tók á símann minn - enda brást Ingvi við að hjálpa mér að finna nýja myndavél til að kaupa. Ég keypti stafræna vél árið 2001 á kr. 77.000 og nú er svo komið að ókunnugir sem detta inn á heimilið segja við fyrstu sýn: En nett kvikmyndatökuvél. Að auki eru gæðin að daprast af því að aðrar eru gæðameiri.
Á fjórum dögum náðum við að prófa ansi marga tapasrétti. Ég man ekki hvað þessi heitir en ég man að sumir litu girnilegar út.
Mér er sagt af einhverjum sem tók SPÆ 103 að þetta sé áskorun íbúa til djammara í hverfinu um að virða svefnfrið þeirra.
Þarna var ég ein á röltinu og gekk fram á mótmælendur (fyrir utan einhverja búð) sem ég held að hafi mótmælt háu íbúðaverði. Að minnsta kosti stóð eitthvað eins og *600 fjölskyldur á götunni* og leiðsögumaðurinn vitnaði síðar um að íbúðaverð væri orðið svo hátt að það væri orðið að samfélagsvandamáli.
Ég er svo skrýtó að mér þótti gaman að hnjóta um svona ráðuneyti. Á Íslandi erum við með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sem mér skilst að verði um áramót að öðru og þá verði félagsmálaráðuneyti að félagsmála- og velferðarráðuneyti. Það er ekki eins og eitt sé leyft og annað bannað í þessum málum.
Við fórum inn í aðaljárnbrautarstöðina þar sem er frumskógur. Úðararnir voru í gangi í bæði skiptin og skjaldbökurnar hreyfðu sig. Ég held að við höfum öll verið sammála um að ekki væri vanþörf á svona góðu lofti á lestarstöðvum. Ég sá hins vegar aldrei neina lest. Það fyrsta sem okkur var sagt um þessa stöð var að þar hefðu hryðjuverkin 11. mars 2004 verið framin.
Úr glerlyftunni á Soffíu-safninu sást í hótelið, ljómandi notalegt hótel og mér fannst það vel staðsett í gullna þríhyrningnum.
Það er ekki alltaf mikið að sjá út um gluggana. Þarna erum við á leið til Madrídar aftur eftir að hafa eytt hálfum degi í Toledo. Ég gæti margt sagt um Toledo og ferðina þangað. Hef gert það og mun gera það.
Eftir fjóra daga í höfuðborg Spánar eru býsna margir hlutir ofarlega í huga:
- heimsókn í fulltrúaþingið þar sem þingmönnum er leyft að vera í gallabuxum og án hálstaus
- bæjarferð um Madríd þar sem maður kynntist breiðgötum og öngstrætum í fylgd með orðasmiðNUM
- tapastapastapas
- það var svo stutt á milli húsa sums staðar að ég fékk andarteppu við tilhugsunina um að halda þar til
- því miður komst maður hvergi inn til fólks og fyrir vikið sá ég ekki litadýrðina úr myndum Almadóvars
- Prado-safnið, Maja nakta og Maja klædda, skrímslið, dökku myndir Goyas, ljósmyndasýningin þar sem ég sá m.a. nútímaútgáfu af hinstu kvöldmáltíðinni
- Við erum hér, hvar ert þú? - brandarinn sem lifði góðu lífi í fjóra daga
- Soffíu-safnið þar sem Guernica Picassos er - ég er ekki svo verseruð að ég hafi þekkt það, sá bara risastórt verk sem var vel afgirt, gekk nálægt snúrunni og þá hrökk einn vörðurinn upp af stólnum vegna ógnarinnar sem af mér stafaði og ég sagði forheimsk á svipinn: Es Guernica?
- eftirlitsiðnaðurinn er brjálæðislegur
- vegna opinberrar heimsóknar voru á þriðjudaginn lögreglumenn og -bílar úti um allt - allt
- hótelið Husa del Arto sem var bara svo gott
- Edda var rænd
- leikurinn sem Real Madrid vann
- ekkert internet í fjóra daga
- ó, sól!
- ó, ó, rauða taskan sem ég keypti í Toledo - ég öfunda mig af henni sjálf
- ó, ó, ó, beinhvíta kápan sem ég passaði með naumindum ekki í, skæl og snökt
- járnbrautarstöðin með frumskóginum
- bonsai-trén í grasagarðinum þar sem hvorki mátti koma við né setjast - og þá varla klifra, hmm
- og 30 þumlar upp til Ólafsfirðinganna Guðnýjar, Siggu, Þorvaldar og Annettu sem komu sterk inn
Eins og gefur að skilja er listinn ekki tæmandi og ekki í mikilvægisröð. Meira af sama, takk, þótt síðar verði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 26. október 2007
Hver er Snusmumriken?
![]() | |
![]() | Hvem er du i Mummidalen? |
Mitt resultat: Snusmumriken Du er Snusmumriken! Du er modig og rolig. Du er også selvstendig og kan ta vare på deg selv, men du er likevel venn med alle. | |
Ta denne quizen på Start.no |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. október 2007
Bjartasta peran í seríunni
Ég heyrði þetta hugtak um stjórnmálamann nýlega og fannst giska sniðugt. Ég brúkaði það sjálf um allt aðra manneskju síðar til að prófa hvernig hugtakið mæltist fyrir og komst þá að raun um að það má auðveldlega túlka á tvo vegu.
Ég ályktaði nefnilega fyrst að það væri kostur að vera björt pera sem lýsti vel - en hey, björtustu perurnar eru alltaf við það að springa.
Gæti maður þýtt pælinguna yfir á ensku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 21. október 2007
Já, takk, við nýrri sundlaug í Reykjavík
Ég kætist ógurlega við tilhugsunina um nýja sundlaug í Fossvogsdalnum. Megi hún ekki verða eins og Sundabraut sem ætlar ekki að komast út úr umræðunni, megi nýja laugin verða að veruleika. Og megi arkitekt sem fer oft í sund hanna bygginguna og aðstöðuna. Fossvogsdalurinn verður að fá að njóta sín, sólaráttin og útsýnið. Og, góði guð, passaðu að arkitektinn teikni búningsklefana þannig að maður þurfi ekki að leggja sundfötin á öxlina meðan maður teygir sig eftir fötunum.
Elsku besti guð, hafðu laugina 50 metra. Þá skal ég vera reglulega stillt og ekki tala um nýja útilaug við Sundhöllina við öll tækifæri. Hvað er annars að gerast með laugina sem átti að koma þar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. október 2007
Atvinnutilboð
Ég fékk alveg hjartslátt í morgun þegar síminn minn hringdi kl. 8:58 og mér var boðið verkefni við að túlka. Ég hef aldrei gert það og gat því miður ekki tekið tilboðinu því að ég var svoleiðis marglofuð í dag, en þetta tilboð kom bara af því að ég er í þýðingafræðinámi og einmitt núna að stúdera skjalaþýðingar og dómtúlkun.
Menntun býður tækifærunum heim og mikið hlakka ég til þegar það næsta guðar á gluggann.
Ég ætti kannski líka að reyna við löggildingarprófið í febrúar ... já, neinei, umsóknarfrestur er runninn út. Annað tækifæri kemur 2010 - og einhver ýjaði að því að þá yrðum við komin langleiðina í Evrópusambandið og eftirspurnin eftir tungumálafólki yrði gríðarleg.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)