Færsluflokkur: Dægurmál

Aftökur? Á samfélagsmiðlum? Í alvöru?

Ég er ekki þolandi og ég veit ekki um þá þolendur sem ég þekki. Þá meina ég að þolendur í mínum umgangshóp hafa ekki stigið fram. Ég ímynda mér líka að það sé ofboðslega erfitt að segja frá vegna þess að þá finnst fólki það vera að játa á sig dómgreindarbrest. Þolendur hafa margir treyst sínum nánustu, í fyrsta lagi treyst þeim sem fólki og svo treyst þeim fyrir sögum sinum og upplifunum.

Það er miklu auðveldara að vera keikur og segja að ekkert sé að. Kynslóð eftir kynslóð hefur tekið þann pólinn í hæðina. Um leið og maður ber sig illa er maður orðinn fórnarlamb og á svo á hættu að vera sakaður um uppspuna, athyglissýki - og að taka geranda sinn af lífi þegar þolandinn fær opinberan stuðning.

Það er erfitt að skrifa um þetta, hvort sem maður er áhorfandi eða í hlutverki. Ég finn að ég kem þessu sennilega ekki skýrt frá mér en ég finn svo innilega til með þolendum og óttast á sama tíma mína eigin gerendameðvirkni því að í þeim efnum er líka nóg framboð og margir pyttir að falla í.

Um daginn sagði góð kona í mín eyru: Hvað ætlum við að vera með marga gerendur á framfæri hins opinbera? Þá hafði einhver gerandi stigið út úr starfi sínu og sviðsljósinu.

Ég get alveg tekið undir með henni, en hvað með alla þá þolendur sem eru á örorku með kvíðaraskanir og ofanda þegar gerendurnir eru alls staðar sýnilegir?

Ég vil að fólk hegði sér. Af hverju verður fólk stjórnlaust og beitir ofbeldi? Er það geðslag, uppeldi eða fíkniefni?

 

 

 


Fékk Guðbjörg gjöf?

Er þetta satt, er það satt að Guðbjörg Matthíasdóttir, sú sem hleður milljónum undir Moggann sem selst ekki á viðskiptaforsendum, hafi fengið minnst 40 milljónir fyrir kaup og sölu á hlutum í Íslandsbanka?

ER ÞETTA SATT?

Ef þetta er ósatt verður ríkisstjórnin að bera það til baka. Ef það er satt verður að afturkalla gjörninginn og ríkisstjórnin er greinilega ófær um að stjórna fjármálum ríkisins.

Ég óttast að þetta sé satt.


Viðskipti í Íslandsbanka

Eitt er að fá ríflegan afslátt þegar maður kaupir vöru á markaði. Annað er að selja vöruna strax og vekjaraklukkan hringir.

Ef kaupendum hefði a.m.k. verið sett það skilyrði að eiga hlutinn í ár hefðu kaupin falið í sér snefil af áhættu.

Virði bankans felst í viðskiptum við hann og þeim gróða sem hann getur búið til með viðskiptavinum sínum. Nú er ég búin að færa aurinn sem ég átti í Íslandsbanka í annan banka. Ég skipti engu máli en ef allir viðskiptavinir bankans færu annað og hættu að vera með lán í bankanum yrði virðið minna og verð hlutarins myndi lækka.

En sá gjörningur virkar minna en skyldi úr því að hákarlarnir seldu aftur strax næsta morgun.

Eigum við virkilega að kyngja þessu? Ætlum við að kjósa yfir okkur sama fólkið og lét þetta viðgangast? Erum við meðvirkari en mamma gerandans sem ber alltaf blak af syni sínum?

 


Reimdu á þig skóna á tónleikunum hennar Guðrúnar Árnýju

Ég þekki þá hugmyndafræði að veiða fólk með villum. Í gamla daga setti fólk upp auglýsingar í sjoppum til að fá barnapíur eða einhvern til að þrífa og ef það var stafsetningarvilla fór fólk að tala um hana og fleiri lásu.

Illt umtal er betra en ekkert umtal, segir sagan. Það átti reyndar ekki við um Brúnegg og einhver fleiri tilvik sem ég man ekki akkúrat í augnablikinu.

En talauglýsingarnar á Bylgjunni í hinu endalaust leiðinlega #slöbbumsaman fyrr í vetur og núna út af tónleikum Guðrúnar Árnýjar, þeirrar öflugu söngkonu, eru bara pirrandi. 

Er til of mikils mælst að útvarpið bara vandi sig og semji af vandvirkni texta handa fólkinu sem les auglýsingarnar?

Þessi pirringur minn hérna mun örugglega ekki auka viðskiptin þannig að ef pælingin var að fá fleiri krónur í einhvern kassa er viðleitnin unnin fyrir gýg.


Sölupólitík andskotans

Einhver má endilega reyna að sannfæra mig um að þetta sé ekki ógeðslegt (samfélag).

Dæmi: Guðbjörg Matthíasdóttir, sem rekur Moggann með tapi upp á hvern dag, kaupir fyrir tæplega hálfan milljarð í Íslandsbanka. Kaupir?

Hver er Valdimar Grímsson og hvernig er hann aflögufær um 225 milljónir?

Hvaða kjósendur velja fólk sem hegðar sér svona? Mér þætti vænt um svar ef það er til.


Ég trúi að flestir vilji vanda sig

Ég var að lesa pistilinn sem þvagfæraskurðlæknir las landsmönnum sem hafa undrast og gagnrýnt skeytingarleysi í heilbrigðisumönnun. Þótt fólk gagnrýni galla og jafnvel ófaglega framkomu þýðir það ekki að fólk líti svo á að allir séu alltaf undir sömu sök seldir. Mér hefur margoft þótt ástæða til að gagnrýna fúsk, þótt það sé ekki endilega á spítölunum, en þar með hef ég ekki sagt að enginn vandi sig.

Ég trúi að flestir leggi sig fram í störfum sem þeir hafa menntað sig til og hafa áhuga á.

Er ekki vissast að endurtaka þetta?

Ég trúi að flestir leggi sig fram í störfum sem þeir hafa menntað sig til og hafa áhuga á.

Ef bakari setur óvart eitt kíló af pipar í piparkökurnar mun ekki nokkur maður koma þeim piparkökunum niður. Það eru mistök sem er óhætt að hafa orð á, mistök sem rústa ekki lífi nokkurs manns en ef bakarinn bætir sig ekki missir hann viðskipti. Einhver myndi þá kalla sem verið væri að kasta bakaranum fyrir lestina, úthrópa hann, rægja eða tala niður. 

Ég skil ekki þessa viðkvæmni fyrir gagnrýni, við hljótum öll að vilja bæta okkur og einmitt læra af mistökum.

Svo er allt annað mál að sjálfsagt er álag á sumum deildum spítalans stundum alltof mikið og þar kemur fjárstjórnarvaldið til sögunnar. Nú ættum við öll að leggjast saman á árarnar og róa í sömu átt, í átt að meira öryggi og meiri fagmennsku.


Ég trúi Bergþóru

Ég horfði á Kveik í fyrrakvöld og Kastljós í gærkvöldi. Mér er enn kalt af hrollinum sem ég fékk þegar ég hlustaði á Huldu Hjartardóttur, yfirlækni fæðingarþjónustu LSH, sem maldaði í móinn og bar á móti upplifun móðurinnar sem er sundurrifin, með stómapoka og situr ýmist í hjólastól eða gengur við göngugrind - allt afleiðingar af meðgöngu og fæðingu sem hefði getað farið vel en fór illa af því að heilbrigðisstarfsfólk hlustaði ekki á hana. 

Ég er næstum orðlaus.

Það sem Bergþóra kallar fyrst og fremst eftir er viðurkenning á því að mistök hafi verið gerð. Læknirinn þverskallast við. Ég skil alveg að fólk vilji tala varlega, almennt séð, en konan sem hafði áður fætt tvö börn og allt gengið vel hefur nú misst óhemjumikil lífsgæði vegna margháttaðra mistaka sem kerfið neitar að gangast við.

Ég á ekki fleiri orð enda sagði Bergþóra sjálf af mikilli yfirvegun allt sem skipti máli í þessu efni.


Stríð hinna

Á morgun eru fimm vikur síðan við fengum fréttir af innrás rússneska hersins í Úkraínu. Við supum hveljur og hrylltum okkur. Ég er enginn aktívisti þannig að ég lagði pening inn hjá Rauða krossinum og vona síðan að menn sjái að sér. Eða að maðurinn sjái að sér því að einn maður á stærstan hlut í þessu stríði.

Og nú eru bráðum komnar fimm vikur, fólk streymir að heiman til að bjarga lífi sínu, í mörgum löndum opnar fólk faðminn og veitir flóttafólki skjól en við erum samt að verða ónæm fyrir fréttum.

Og þá rifjast upp fyrir mér fyrsta bloggfærslan mín, frá árinu 2006.

Af hverju getum við ekki öll lifað í friði? Til vara: Af hverju má ekki taka mestu ófriðarseggina úr umferð?


Edda Falak og Ólöf Tara

Ég hef verið vefáskrifandi að Stundinni í dágóðan tíma. Nú hafa þættir Eddu Falak, Eigin konur, bæst þar við. Í gær birtist viðtal Eddu við Ólöfu Töru, eina stjórnarkonuna í Öfgum. Viðtalið var öfgalaust, umbúðalaust og upplýsandi. Þvílík viðbót við annars góða fjárfestingu í þessari áskrift.


Sjálfsöryggi umfram allt

Ég horfði í vikunni á mynd sem var á RÚV um síðustu helgi, I feel pretty. Pælið bara í hvað lífsgæði manns aukast ef maður hefur fullt af sjálfstrausti. Það er óþarfi að verða oflátungur en það er líka glatað að vera með minnimáttarkennd yfir því að vera öðruvísi en glansmyndirnar í auglýsingunum.

Ókei, nú þurfið þið ekki að horfa á myndina. Lítið bara í spegil og sannfærist um að þið hafið mikið fram að færa. Mér fannst samt gaman að horfa á myndina ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband