Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 8. júlí 2021
Stytting vinnuvikunnar nauðsynleg
Í mörg ár hef ég talað um að í sérhæfðum skrifstofustörfum sé leikur einn að stytta vinnuvikuna í krafti tækniframfara. Ég man að vísu ekki eftir að hafa verið í skóla á laugardögum en ég þykist muna að bankar hafi haft opið til hádegis á laugardögum. Nú förum við bara sjálf í heimabankann hvenær sem okkur þóknast.
Vinnuvikan var stytt úr 44 í 40 stundir árið 1972. Í millitíðinni hefur internetið komið til skjalanna sem þýðir að ýmis verk vinnast til muna hraðar en áður. Ég man þegar ég lærði að hengja skjal við tölvupóst og ég fann strax hvað það sparaði mér mikinn tíma. Þegar ég vann hjá Alþingi innleiddum við talgreini sem forskrifar ræður þingmanna. Það sparar ótrúlegan helling af tíma.
En mörg störf fela í sér sterka viðveru, alls kyns störf á spítölum og við umönnun. Og lögreglan er líka í bindandi starfi. Þegar vinnuvika lögreglumanna er stytt þarf að ráða nýjan mannskap til að fylla mönnunargatið.
Í vor var blásið í lúðra og tilkynnt um tilurð 7.000 nýrra starfa. Ég veit að ekki getur hver sem er orðið lögreglumaður en væri ekki nær að mennta fólk til lögreglustarfa og ráða það fólk svo í þau störf sem þarf að manna frekar en að búa til einhverjar holur fyrir fólk á söfnum sem þurfa ekki að ráða fólk?
Vinsamlegast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. júlí 2021
Þolandi og gerandi
Ég er enginn sérstakur þolandi og ég vona að ég sé ekki gerandi. Ég er vel miðaldra og hef komist klakklaust frá ágjöf lífsins. Þessi pæling mín kviknar auðvitað í kjölfar umræðu um brekkusönginn í Eyjum.
En þótt ég sé ljónheppin á ég samt bróður sem kom illa fram við mig og okkur flest í fjölskyldunni. Ég bloggaði nokkrum sinnum um hann og fannst það óþægilegt í hvert skipti af því að það er aldrei hægt að segja alla söguna og líka af því að á einhvern undarlegan hátt finnur maður alltaf sök hjá sjálfum sér líka.
Af hverju lánaði ég bróður mínum SJÖ MILLJÓNIR KRÓNA? En þótt ég hafi verið of greiðvikin við hann á ég ekki sök á því að hann ætlar að stela af mér peningunum sem ég lánaði honum.
Já við láni var ekki já við gjöf eða ráni. Yfirfærið að vild á aðra misnotkun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. júlí 2021
Þing á þriðjudag!
Ég hélt að ég væri fíkin í fréttir en í dag frétti ég að þing ætlaði að koma saman á þriðjudaginn til að lagfæra mál og ég tók ekki eftir því í neinum fréttatíma. Ég er í sjokki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. júlí 2021
HHÍ eða lottó
Ég veit að bestu auglýsingarnar eru þær vondu af því að fólk talar um þær og nú ætla ég að ganga lóðbeint í gildruna.
Lottóauglýsingarnar sem fela í sér klikkuð símtöl þar sem fólk pantar pítsu með þyrlu eða kaupir demanta í kílóavís af því að það vann þann stóra höfða til óþarflega lágra hvata mannsins. Í öðru orðinu er verið að selja fólki lottó af því að það styðji við íþróttastarf í landinu og í hinu orðinu er verið að selja fólki lottó til að það geti grætt svo mikið að allir verði að ómerkilegum þjónum hins heppna.
Ég hugsa að okkur finnist flestum næs að vinna eitthvað smá og ég er alveg í þeim sporum. Ég vann einmitt 12.000 kr. í útdrætti hjá Happdrætti Háskóla Íslands sem voru lagðar þegjandi og hljóðalaust inn á reikning hjá mér um miðjan síðasta mánuð. Sem betur fer er HHÍ þó enn í gróða eftir áralanga samferð okkar enda keypti ég miða fyrst og fremst til að láta lítilræði rakna til háskólans.
Og fyrir utan hvað þessar auglýsingar frá lottóinu eru ósmekklegar eru þær órökréttar. Sá sem svarar í símann er ekki sá sem vann þann stóra heldur sá sem hringdi. Hlustið bara næst ef þið voruð ekki búin að átta ykkur á þessu og takið eftir að hugmyndin gengur ekki upp. Maður fær ekki áhugavert símtal þegar maður græðir heldur hringir áhugavert símtal.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 24. júní 2021
Sænskir lögguþættir
RÚV er með í spilaranum sínum lögguþætti sem gerast í Malmö. Ég man að einu sinni þótti (mér) allt sænskt sjónvarp vera um vandamál, erfiðleika og leiðindi. Þessir þættir eru um lausnir. Þeir eru um lögreglufólk sem dílar við erfið mál en líka skemmtileg, um fólk sem er sérlega miklar manneskjur.
Hver þáttur er klukkutími þannig að ég réð aldrei við að horfa á meira en einn þátt í einu þangað til í kvöld að ég horfði á síðustu tvo, já, á sólskinsbjörtu síðkvöldi.
Og mér fannst besti þátturinn sá níundi og næstsíðasti, þátturinn sem sýndi svo glögglega vanda Magnúsar gagnvart foreldrum sínum og systur. Aðallega samt föður sínum. Ég fékk hnút í tilfinningarnar og vitsmunina yfir þeim þætti umfram hina. Þar var sko sýnt en ekki sagt, eins og Njörður P. Njarðvík lagði svo mikla áherslu á þegar ég tók ritlistaráfangana hjá honum forðum daga.
Þunna, bláa strikið er í spilaranum fram í apríl á næsta ári þannig að þið hafið nægan tíma til að horfa og ég skora á ykkur að athuga hvort ég hef eitthvað til míns máls.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. júní 2021
Bensínverð
Ég á bíl en keyri lítið og kaupi mjög sjaldan bensín. Í vikunni keypti ég bensín og sá að lítraverðið var komið í 234,60 kr. Síðast þegar ég keypti bensín þar á undan kostaði lítrinn 205,40 kr. (28. mars) og þar á undan 185,50 (11. september 2020).
Ef ég ætla að vera á bensínbíl hef ég lítið val vegna þess að bensínsölurnar eru ekki í samkeppni.
Ef ég vil skipta yfir í annað eldsneyti þarf ég fyrst að losa mig við bílinn minn sem er árgerð 2005.
Mér finnst að ég eigi að keyra bílinn út. Varla getur verið skynsamlegt að pressa vel nothæfan bíl þótt hann sé orðinn 16 ára.
Mikið djö vildi ég óska þess að hér væru almenningssamgöngur sem þjónuðu fólkinu sem vill nota þær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. júní 2021
Pabbi 1921-2019
Í dag, á kvenréttindadaginn 2021, hefði pabbi minn orðið 100 ára ef hann hefði lifað. Hann átti alveg góða möguleika á því vegna þess að hann var hraustur og dugmikill maður. Hann var mikill íþróttamaður sem missti sig á miðjum aldri í talsvert át á sama tíma og hann minnkaði hreyfingu en hann vann hreystina til baka eftir sjötugt. Hann gekk og synti alla daga en ekki var minna um vert að hann var algjör hamhleypa til þeirra verka sem hann tók sér fyrir hendur, svo sem að endurbæta sumarbústað.
Hann var rafvirki að mennt og dró rafmagn í ótal stórra og smárra húsa sem voru byggð í Reykjavík um og eftir miðja 20. öld. Hann rak eigið fyrirtæki með miklum glæsibrag og hafði marga góða menn í vinnu. Þeir voru góðir menn og miklir verkmenn en pabbi hafði líka jákvætt hvatakerfi til að laða fram þeirra bestu hliðar. Þegar maður er með mörg útistandandi verk er mikilvægt að geta treyst mönnunum sínum til að gera það sem þarf. Og þetta var auðvitað fyrir tíma farsímanna sem kallaði á skýrt skipulag í upphafi hvers dags.
Í tilefni dagsins ætlum við systkinin þrjú að fara austur á heimaslóðir pabba, hitta nokkur ættmenni okkar, systkinabörn pabba, og drekka saman kaffi í hans nafni. 19. júní verður í mínum augum og huga alltaf merkisdagurinn hans pabba og ég verð öll meyr við að skrifa þetta.
Til hamingju með daginn.
---
Neðan máls ætla ég að leyfa mér að segja að ef starfsmenn Hrafnistu, þar sem pabbi ól manninn síðustu tæpu tvö árin sín, hefðu ekki misst hann í gólfið þrisvar eða fjórum sinnum hefði hann átt betri lokaár. Þótt við systur færum til hans alla daga - alla daga - gátum við ekki fyrirbyggt það að pabbi dytti margsinnis á gólfið, algjörlega að óþörfu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. júní 2021
Hefurðu tekið áhættu?
Ég horfði á ansi magnaða mynd á RÚV í gærkvöldi, Hinstu kveðjuna (2017). Að vísu valdi þýðandinn annan titil en þar sem myndin er öll um minningargreinar finnst mér hann hafa misstigið sig þar.
Mögnuð mynd, segi ég. Shirley MacLaine (sem er stóra systir Warrens Beattys en ég vissi það ekki fyrr en núna) leikur úrilla konu á níræðisaldri sem ræður leigupenna til að skrifa minningargrein um sig. Samstarfið hefur áhrif í báðar áttir og það hafði líka áhrif á mig. Sem betur fer hefur margt áhrif á mann; fólk, bækur og bíómyndir. Ein spurningin sem ég tek með mér út úr þessu áhorfi er:
Hef ég tekið áhættu?
Ég hef sagt og hugsað þannig um líf mitt að það sé umvafið bómull. Ég er forréttindapési, alin upp við alúð og allsnægtir og hef alltaf getað farið og gert eins og hugur minn hefur staðið til. En ég hef haldið mig í þægindarammanum. Ég tek ekki áhættu, ég ana ekki út í óvissuna. Ég er þægindafíkill og ég hafði/hefði gott af að láta ýta við mér eins og blaðakonan sem sú fullorðna réð til að skrifa um sig minningargrein.
Flest þorum við ekki einu sinni að segja það sem okkur finnst af því að það er óþægilegt fyrir alla. Harriet Lauler lætur það hins vegar ekki þvælast fyrir sér ...
Ég las nokkra dóma um myndina og þeim bar öllum saman um að hún fengi falleinkunn og að kröftum Shirley væri illa varið í henni. Ég er samt þeirrar skoðunar að sagan hafi átt erindi til mín.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. júní 2021
Snillingarnir sem útskrifast - viðurkenningablæti
Ég ímynda mér að foreldrar haldi að þeir séu að gera börnum sínum gott þegar þeir hrósa þeim í hástert. Fyrir nokkrum áratugum held ég að stefnan hafi verið að hrósa sem minnst til að gera afkomendurna sterka og sjálfstæða. Það er því ýmist í ökkla eða eyra af því að við hljótum að vera sammála um að meðalhófið sé best.
Verðskuldað hrós er dásamlegt og uppbyggilegt. Hrós fyrir góðan árangur, aukaframlag, gott viðmót eða hvað sem er hróssins virði. En það er ekki afrek að verða eins árs og það er ekki kraftaverk að útskrifast úr leikskóla. Börn eru ekki snillingar eða meistarar fyrir að fylgja straumi lífsins.
Þið vitið hvað ég meina.
En nú við síðustu útskrift úr grunnskólum er komið glænýtt þema, uppáskrifuð viðurkenning fyrir góðan árangur í náttúruvísindum, tungumálum og einhverju öðru sem ég man ekki. Það væri gott og blessað ef 80-90% fengju ekki þessa viðurkenningu og skildu 10-20% nemenda eftir í salnum með mikla vanmetakennd.
Þetta viðurkenningablæti náði í mínum huga hámarki þegar móðir stúlku sem fékk ekki viðurkenningu tjáði sig fyrir hönd þeirra mæðgna og gagnrýndi það að flestum nemendum var hrúgað upp á svið með viðurkenningar fyrir smæstu smáatriði en lítill hópur sat eftir á áhorfendabekkjunum. Ef 90% eru farin að skara fram úr er ekki um framúrskarandi árangur að ræða.
Kennarar, skólastjórnendur, foreldrar og aðrir uppalendur mega gjarnan hrósa börnunum sínum í einrúmi og eftir atvkum í fjölmenni en að kalla fólk snillinga og meistara í tíma og ótíma gjaldfellir alvöruhrós. Og það að hrósa einum með því að gera lítið úr öðrum er ömurleg framkoma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. júní 2021
Vanskil á Landsbókasafni
Þetta er klassísk vandlætingarfærsla.
Ég skrifaði ritgerð í fyrrasumar og fékk á þeirri vegferð lánaðar nokkrar bækur á Landsbókasafninu. Ég framlengdi í einhver skipti af því að ferlið tók mig lengri tíma en ég áætlaði. Svo skilaði ég loksins bókunum og þá var komið Covid þannig að ég skildi þær eftir í kassa í anddyrinu. Svo leið einhver tími og ég fékk tölvupóst um vanskil á einni bók.
Ég kannaðist við að hafa fengið bókina og eins og maður gerir fékk ég efasemdir um sjálfa mig og sneri öllu við til að finna bókina þótt ég eigi alls ekki vanda til að týna neinu nema vettlingum. Ég fann ekki bókina enda er ég 95% viss um að hafa skilað henni, en ég sendi póst og baðst afsökunar á að finna hana ekki og spurði hvort ég gæti ekki fengið að borga hana bara. Þá var skilafresturinn framlengdur hjá mér, tvívegis án þess að ég bæði neitt um það, og svo fékk ég tölvupóst um vanskil þegar sá frestur var liðinn.
Ég sagði enn að ég fyndi ekki bókina en ef öll ryk hnigju til þess að ég hefði ekki skilað henni þætti mér eðlilegt að ég yrði rukkuð.
Tveimur dögum seinna, í gær, fékk ég tölvupóst með greiðsluupplýsingum og afsökunarbeiðni um hversu seint safnið svaraði (engin mannanöfn í póstunum). Ég borgaði strax og er bara fegin að málið sé úr heiminum þótt ég líti svo á að ég hafi verið að styrkja safnið um 8.000 kr. (engin sérstök eftirsjá í peningnum).
Nei! Í dag fékk ég snigilpóst með hótun um innheimtu.
Mér er engin vorkunn, engin, en mig grunar að þetta sé algengt. Fólk er rukkað, það gerir grein fyrir sér, gerir upp og fær svo innheimturukkun með hótunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)