Færsluflokkur: Dægurmál

14 kr. á lítrann

Ég er að horfa á kosningasjónvarpið. Alveg. En ég keypti líka bensín í dag. Mig vantaði bensín og fyrir tilviljun auglýstu þrjú bensínsölufélög verðlækkun í sms-i hjá mér. 14-15 kr. á lítrann. Úr tæpum 200 kr. 

Reiknum þetta aðeins. Ég á Polo sem tekur 40 lítra. 40*15 kr. eru 600 kr. Ef tankurinn væri tvisvar sinnum þetta erum við vissulega að tala um 1.200 kr.

„Fullt verð“ er 197 kr. núna ef ég man rétt. 197*80 lítrar ef við tölum um jeppa. 15.760 fyrir að fylla tankinn. 7% lækkun. Ég myndi ekki ræsa bílinn og fara í leiðangur fyrir það. Og af hverju í ósköpunum er ekki bara lægra verð en það er? Alltaf.


Útganga kvenna

Ég stimplaði mig út úr vinnunni í dag kl. 14.38. Við vorum hvattar, og hvött, til þess þannig að ekki er um eiginlegt verkfall að ræða sem það þó þyrfti að vera. Engu að síður var frábært að mæta á Austurvöll og sjá mannmergðina. Reyndar var fáránlega hlýtt. Ég er mjög mikið fyrir sól og hlýindi en svona blíða í október getur ekki verið góð fyrir andrúmsloftið á heimsvísu.

Fluttar voru örræður. Að öðrum ólöstuðum skaraði Una Torfadóttir fram úr, unglingur með ákaflega sterka réttlætiskennd, máttuga rödd og óaðfinnanlegan flutning. Eitt af því frábæra sem hún sagði var samanburður á límmiðum fyrir verkefnavinnu. Hvaða sanngirni er í því að strákur sem vinnur verk(efn)ið eins og stelpa fái fleiri límmiða en stelpan? Biður stelpan um það? Vill hún vera skör lægra? Vill hún ekki fá verðskuldaða umbun?

Við bíðum ekki til 2068 eftir leiðréttingu launanna. Við krefjumst einfaldlega sömu launa fyrir sömu vinnu. Það er sanngirni.


Viðhorf, ekki hvað er í sjónvarpinu MÍNU

Vinkona mín ein segir á Facebook að henni mislíki útlendingahatrið í sjónvarpinu sínu. Önnur vinkona mín skrifaði um daginn að henni þætti ógurlega leiðinlegt að [einhver] í menningarþætti segði ekkert gagnlegt um leiksýningu sem hún var að hugsa um að sjá.

Og vitið þið hvað? Fyrstu viðbrögð hjá vinum beggja voru: Slökktu á sjónvarpinu þínu.

Ég verð svo leið þegar ég sé svona viðbrögð og get ekki blandað mér í umræðuna af því að ég þekki ekki fólkið sem gerði þessar athugasemdir. Af hverju heldur fólk að málið snúist um SJÓNVARPSÁHORFIÐ? Í öðru tilfellinu snýst það um sjónarmið sem vinkonu minni líkar ekki, að einhver frambjóðandi til þings amist við útlendingum, og í hinu tilfellinu var vinkonu minni raun að því að fá ekki frjóa og upplýsandi umræðu um menningarviðburð.


Orðanetið

Það lofar góðu. 


i-padinn minn

I-padinn kannski? Ipadinn? Mikið vildi ég detta niður á gott orð því að ég hef knýjandi þörf fyrir að lofa græjuna í hástert. Ég fékk svona tæki í jólagjöf síðast, sem leikfang, en núna er ég í námi og hlusta á fyrirlestra í honum, fletti upp í tíma og heima, tek á hann myndir (sjaldan samt) og hann fylgir mér hvert fótmál ef ég vil. 

Hvernig var lífið fyrir tíma internetsins? #dæs


Konur sem viðmælendur

Já, ég er nú algjört nóboddí en hef samt mætt í viðtal í útvarpi einu sinni eða tvisvar. Fyrir mörgum árum mætti ég á Rás 2 til að tala um BA-ritgerðina mína sem ég er enn þann dag í dag dálítið skotin í. Í fyrra var ég aftur á Rás 2 að tala um ball gönguklúbbsins og fékk alls ekki að tala nóg. Einhvern tímann var tekið við mig fréttaviðtal í sjónvarpi vegna Félags leiðsögumanna og í annað skipti blaðaviðtal út af einhverju sem leiðsögumenn voru að bralla. Ég stóð mig ekkert of vel, var dálítið stressuð en fjandakornið, einn og annar kall hefur líka gleypt nokkur orð í beinni eða óbeinni útsendingu.

Og ég bíð alltaf spennt við símann.


Vikulokin í morgun

Í Vikulokunum í morgun voru þrír viðmælendur, ekki rammpólitískt fólk en fólk með miklar skoðanir og það á almennt við um stjórnanda þáttarins sömuleiðis. Ég var úti að hlaupa með þáttinn í eyrunum þannig að athyglin var óskipt. Ég hafði aldrei heyrt talað um konuna sem steig þar inn á völl stjórnmálanna en ég þekki til hinna viðmælendanna. Mig rak í rogastans þegar ég heyrði hvernig talsmaður sauðfjárbænda talaði, einkum þegar hann kvaðst ekkert kannast við deildar meiningar um búfjársamninginn sem var samþykktur í vikunni.

Hefur hann heldur ekki heyrt talað um internetið og samskipti og yfirlýsingar þar?

Mest freistandi finnst mér samt að spyrja: Græðir einhver annar á samningnum en Kaupfélag Skagafjarðar?


Fjármálalegir ráðgjafar?

Ég hef mikinn áhuga á tungumálinu og vinn við að færa tungutak annarra til betri vegar. Það kann að hljóma hrokafullt en margir eru óöruggir þegar þeir skrifa texta og vilja láta aðra lesa yfir fyrir sig. Fólk er stundum drekkhlaðið af þekkingu en getur ekki miðlað henni og þá er gott að fá ráðgjafa til að straumlínulaga efnið með sér og síðan prófarkalesara til að lesa yfir, samræma og leiðrétta það sem telst rangt. Af þessu tilefni er skemmtilegt að rifja upp að menntamálaráðuneytið gaf nýlega út nýja auglýsingu um setningu íslenskra ritreglna sem ég tel mér skylt að fara eftir að mestu leyti.

Ég hef líka lært eitthvað um þýðingar. Hvað mikilvægast við þýðingar er að vera vel að sér í tungumálinu sem maður þýðir á. Auðvitað þarf maður að kunna tungumálið sem maður þýðir úr en það er hvergi nærri nóg. Ef ég ætlaði að þýða „former President Finnbogadottir“ dytti mér ekki í hug að skrifa „forseti Finnbogadóttir“ eða „Finnbogadóttir forseti“. Ég held að þið hljótið að taka undir með mér að maður myndi segja: (Frú) Vigdís Finnbogadóttir. Þannig fer ekki á milli mála um hvern er rætt.

Þess vegna leyfi ég mér að smygla mér inn í kórinn með þeim sem hafa undrast málfar á einkavæðingarskýrslunni sem mjög hefur verið rædd í vikunni. Sumt af fjármálatæknilegu orðalaginu virkar vissulega sannfærandi en hér er rangt farið með raðtölur:

5–6. bls.

Lokaorðin trufla mig þó mest, lokaorðin sem eru höfð eftir löggiltum skjalaþýðendum eins og þar segir:

Hr. Árnason sagði það mikilvægt að viðhalda öguðum viðræðum við kröfuhafana. ... Samningaviðræðurnar eru hinsvegar, tvíhliða milli ríkisins og fjármálalegra ráðgjafa gömlu bankanna. 

Financial advisors eru víðast þar sem ég fletti upp annars staðar fjármálaráðgjafar. 

En kannski er ég bara í baunatalningu ...


Uber!

Ég er hrifin af sjálfvirkni sums staðar og mér leiðist að láta sækja mig þannig að ég vona að sjálfkeyrandi bílar (helst fyrir sjálfbæru eldsneyti) verði framtíðin. 


Talgreinir!

Mikið þykir mér spennandi tilhugsun ef það verður að veruleika að tæki greini raddir, hljóð, orðaskil og atkvæði, ef talgreinir getur skráð það sem sagt verður í stað þess að fólk skrifi allt upp eftir „segulbandi“.

Kannski er óraunhæft að það gerist á tveimur árum en ég trúi að það gerist fyrir 2020. Og það skiptir mig og mína vinnu máli. Jibbí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband