Færsluflokkur: Dægurmál

Skatthol

Einu sinni átti ég skatthol.

Ég á það ekki lengur og eignaðist aldrei mynd af því heldur stalst núna til að fá lánaðar myndir af netinu ... Ég vona að mér verði ekki stungið í aflandið fyrir það.


Ekki þyrði ég í forsetaframboð

Að vísu finnst mér ég ekki eiga neitt erindi á Bessastaði og held helst að ég vildi leggja embættið niður en mér blöskrar hvað fólk er sumt orðljótt í garð þess hugrakka fólks sem stígur fram og gefur kost á sér til embættis forseta. Ég geri ráð fyrir að 80-90% frambjóðenda, sem eru í þessum rituðu orðum 12 eða 13 talsins, fái sárafá atkvæði og kannski gera sumir sér engar vonir um hagstæð úrslit en það fólk sem lætur slag standa fær þvílíku útreiðina sums staðar að ég verð hálfu ákveðnari í að verja lýðræðislegan rétt fólks til að bjóða sig fram.

Að vísu (ég endurtek að ég held að hægt væri að koma verkefnum forseta fyrir annars staðar) finnst mér að þegar frambjóðendur eru svona margir ættu umferðir að vera minnst tvær. Tilhugsunin um forseta með 10% atkvæðamagn á bak við sig er mér ekki alveg þóknanleg. Vigdís fékk 33,8% árið 1980, 43.611 atkvæði, og þótti reyndar lítið en samt varð hún forseti mestallrar þjóðarinnar - og sannarlega forsetinn minn þótt ég hefði ekki kosið hana ef ég hefði mátt kjósa. Æ síðan hefur mér þótt það ljóður á ráði mínu að ég skyldi vilja Guðlaug Þorvaldsson því að Vigdís var frábær kostur.

Tölum upp þá frambjóðendur sem eru okkur að skapi, ef einhver, en látum ógert að tala lýðræðið niður. Að svo mæltu sest ég niður og byrja að bíða eftir að Andri Snær tilkynni framboð sitt.


Þegar næsti forseti hættir ...

... fer hann ekki á eftirlaun nema hann verði kominn á eftirlaunaaldur.

Árið 2009 var lögunum breytt með lögum nr. 12/2009

Sá sem kosinn var forseti fyrir árið 2009 heldur sömu réttindum og áður, sbr.

2. gr. Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skulu ákvæði laga nr. 141/2003 halda gildi sínu gagnvart hæstaréttardómurum sem skipaðir hafa verið í Hæstarétt fyrir gildistöku laga þessara sem og núverandi forseta Íslands.

... en þótt fertugur maður verði kosinn forseti í júní og hætti eftir fjögur ár, 44 ára að aldri, fer hann ekki sisona á eftirlaun og verður þar það sem eftir lifir ævi hans.

Ég vildi gjarnan að víðlesnari miðlar en bloggsíðan mín hefðu orð á þessu, t.d. fjölmiðlar. Ég þykist viss um að forseti sem hættir fái biðlaun í hálft ár og síðan fær hann eftirlaun þegar hann kemst á þann virðulega aldur.


Blátt flauel

Blue Velvet var í sjónvarpinu um helgina og fyrir einhverja rælni kveikti ég á myndinni í sarpinum í gærkvöldi. Hún er frá árinu 1986 þannig að hún er komin dálítið til ára sinna – en ég hafði aldrei séð hana og vissi ekkert um hana annað en lagið sem ég hef margsinnis heyrt.

Og VÁ, hvað myndin var spennandi, ógnvekjandi, falleg – og óvænt. Það er alltaf í mestu uppáhaldi hjá mér að vita ekkert hvernig mynd vindur fram. Á listanum yfir uppáhaldsmyndir mínar eru mjög fáar en Blátt flauel sækir um af miklum krafti.

Ég hef stundum hugsað að ég gæti vel hugsað mér að vera lögga og grúska í hinu og þessu. En ekki svona lögga. Ef ég fyndi afskorið mannseyra fullt af maðki myndi ég taka myndir, leggja staðinn á minnið og láta einhvern, t.d. löggu, vita af fundinum. Ég myndi ekki tína það upp úr jörðunni og setja í poka sem ég fyndi í grasinu, fara til löggunnar og heimta að fá að vita meira og fara sjálf á stúfana ef löggan þegði þunnu hljóði.

Þið hafið örugglega séð þessa mynd þannig að ég þarf ekki að tíunda söguþráðinn en má segja: Myndatakan, maður lifandi, hún var algjörlega ótrúleg, sérstaklega í blábyrjun og blálokin. Voðaleg ósköp sem þessi mynd hefur fengið litla umfjöllun ...

Bvmovieposter.jpg


Aukinn straumur ... erlendra leiðsögumanna

Í dag var rætt um erlenda leiðsögumenn á þingi. Vandinn er ekki að þeir séu erlendir heldur að þeir eru ekki menntaðir hér og hafa ekki nægan skilning á viðkvæmri náttúrunni. Mikið vona ég að löggjafinn kveiki á perunni og löggildi starfsheitið leiðsögumaður ferðamanna. Rökin eru þau að ókunnugir geta ekki sinnt starfinu eins og vel og kunnugir en við vitum líka að launin munu hækka með því og þá kannski fæst til starfa stærri hópur hæfra leiðsögumanna. Íslenskir leiðsögumenn eru líka mishæfir, sjáið til.


Haghafar - aftur

Ég ætlaði að fara að skrifa pistil um vondu tryggingafélögin en fannst ég vera nýbúin að því og skoðaði síðustu færslurnar mínar. Já, nei, ég bloggaði um arðgreiðslur úr BÖNKUNUM. 

Já, ég skil ekki frekar en margir aðrir hvernig hægt er að borga sér 10 milljarða í ár þegar hagnaðurinn var 5 milljarðar. Já, nei, já, 5 milljarðar voru hagnaður ÁRSINS. Nei, ég skil samt ekki hvernig arðgreiðslur geta verið hlutfallslega svo há tala af arðinum.

En það sem ég vildi samt vita er hverjir fá arðgreiðslurnar. Er það ríkið? Lækka þessar greiðslur skattana okkar? Okkar allra kannski? Eða fá lífeyrissjóðirnir arðgreiðslur? Einstakir einstaklingar? Ríka fólkið? Já, kannski er ég að eltast við hégóma en ég vildi samt vita einhver nöfn, einhverjar stofnanir, einhver fyrirtæki.

Fólk talar um gjaldþol tryggingafélaganna. Ef tryggingartaki verður fyrir tjóni getur tryggingafélagið bætt tjónið ef það hefur gjaldþol. Ég spyr: Hafa menn lesið smáa letrið? Tjón og tjón er ekki það sama þótt tjónþoli verði fyrir fjárhagslegu tapi. Útgreiðslan er skilyrt. Ég hef verið heppin og ekki lent í tjóni og aldrei þurft að sækja bætur þannig að áratugum saman hef ég verið styrkveitandi. Jú, ég hef fengið eitthvert hlutfall endurgreitt en eðlilega ekkert í líkingu við það hlutfall sem ég fæ EKKI endurgreitt.

Má lækka iðgjöldin? JÁ. Auðvitað Á að lækka iðgjöldin ef hagnaðurinn er svona mikill. Þá væru fyrirtækin að sýna í verki að þeim væri annt um viðskiptavinina. Þá tryði maður kannski á samkeppni í fákeppnisþjóðfélaginu. Þá væri ég kannski ekki að hugsa: Það þarf andskotakornið að ríkisvæða tryggingafélög, bensínsölu og sölu á ýmsum varningi. Markaðurinn nær ekki að lækka vöruverð og bæta þjónustu eins og er sérstakt áhugamál markaðssinna.

Ég bið um samkeppni og metnað í fyrirtækjunum. Við Íslendingar erum svo seinþreytt til vandræða að þegar við búum til lúður með höndunum og ergjum okkur yfir að ekkert tryggingafélag skari fram úr er ansi langt gengið. Og, já, ég held ekki að litla tryggingafélagið sé neitt skárra. Ég er búin að sjá svo marga segja upp á síðkastið: Ég er ánægð/ur hjá Verði. Rukkunin var of há en strax og ég benti á það var hún lækkuð. Finnst fólki í lagi að kúnninn þurfi sí og æ að benda fyrirtækinu á að það hafi gert meinleg mistök sem það græðir formúur á ef þau eru ekki leiðrétt?

Og endilega minnið mig á hvað Samkeppniseftirlitið hefur gert til að skakka leikinn.


Hverjum var misboðið?

Ég ætlaði að láta mér duga að tvíta um útgöngu Ágústu Evu í þætti Gísla Marteins á föstudaginn en orðafjöldinn leyfði það ekki.

Ég er mjög ódugleg að horfa á þætti til enda. Í þætti GMB eru oft í lokin tónlistaratriði sem virka sem uppfylling á mig. Sorrí. Reyndar virðist ég tilheyra kynslóð sem horfir oft á sjónvarpið með öðru auganu og það þótt efnið sé forvitnilegt. Ég má alveg taka mig á, en samt – hverjum er ekki sama? Tjah, það er ekki gott að tjá sig um það sem maður sér ekki.

Ég kveikti því á sarpinum áðan þegar ég áttaði mig á að a) Reykjavíkurdætur höfðu verið með boðskap og gjörning og b) Ágústa Eva hafði gengið út. Hvers vegna? Því getur kannski hún ein svarað en við látum okkur hafa það að giska.

Nei, ég get ekki dvalið lengi við þetta. Í mínum augum er svo augljóst að útganga hennar er hluti af atriðinu. Ágústa Eva hefur sjálf reynt að ganga fram af fólki. Og tekist það. Hún veit hvað þarf. Og ég hef enga trú á að hún sé tepra. Og, almáttugur, hvað Gísli Marteinn skaust upp vinsældalistann minn. Við þurfum ekki endalausa og innihaldslausa spjallþætti, þeir mega vera með sem afþreying en þegar efni og efnistök snerta við okkur, minna okkur á til dæmis jafnrétti, er það tvímælalaust til bóta.

Dropinn holar steininn.


Hagnaður upp á hundruð milljarða deilt með fjölda haghafa

Ég hélt að ég hefði verið að búa til orðið haghafi en í orðabók stendur:

hag·hafi

KK nýyrði, viðskipti/hagfræði
sá sem á hlut í eða þarf að gæta hagsmuna sinna hjá fyrirtæki

Fréttamenn eru agalega kurteisir þegar þeir spyrja bankastjóra um hagnaðinn í bönkunum. Hagnaðurinn er samtals upp á hundruð milljarða, sem sagt losar 10% af fjárlögum ársins 2016, og fréttamenn spyrja: Kemur til greina að bankinn leyfi viðskiptavinum [sem standa undir þessum hagnaði] að njóta með sér. Bankastjóri: Sum árin hefur verið tap eða minni hagnaður [suð, bzzzz] og við verðum að sjá [bíb] til á næstu árum [jaríjarí] ...

Mér leikur forvitni á að vita hversu margir hluthafar og áhættuhafar fá arðinn. Ég veit að ríkissjóður fær eitthvað. 28 milljarða? Hversu margt fólk fær 100 milljarða? Hvaða áhættu tók það fólk?

Bankarnir. Eru. Ekki. Í. Samkeppni.


Öll eigum við frídaga

Ég skil alls ekki þessa ekkifrétt um frí starfsmanna samfélagsins vegna vetrarfría í grunnskólum. Mín vegna má alveg deila um vetrarfrí, að þau séu yfirleitt, að þau séu ekki í öllum skólum á sama tíma, að foreldrar nái ekki að verja tíma með börnunum sínum og fleira sem ykkur gæti dottið í hug, en að EINHVER fárist yfir því að fólk sem á inni sumarfrísdaga taki þá út á þessum dögum er ofvaxið skilningi mínum. Fyrir utan heilsueflingu og valdeflingu er mest talað um samþættingu fjölskyldulífs og vinnutíma. Ég sé á Facebook að fólk hefur einmitt notað þennan tíma, a.m.k. daginn í dag, til að vera með börnunum sínum, fara á skíði, fara í sund, púsla, lesa saman, spreyta sig í eldhúsinu, og þá hefði ég haldið að hálfur sigur væri unninn.

Svo er hitt sem ég skil engan veginn, það að fólk haldi í alvörunni að allt starf þingmanna fari fram á þingfundum, í þingsalnum, í opinberum ræðuflutningi. Í alvörunni? Megnið af skoðanaskiptunum fer fram á nefndafundum og svo sjálfsagt óformlega á göngunum. Þar að auki þurfa þingmenn sem taka starf sitt alvarlega að lesa helling af ýmsu, hitta fólk, semja frumvörp og þingsályktunartillögur og melta málin.

Ég held að þessir dagar séu kærkomnir til að efla heilsu, dreifa valdi og flétta saman fjölskyldur, og áhugamenn um þingstörfin geta fylgst með þingfundi á föstudaginn í næstu viku. Starfsáætlunin var einmitt samin svona vegna gagnrýni síðustu tveggja ára!


... hæfisskilyrði leiðsögumanna

Nú er búið að mæla fyrir þingsályktunartillögu um hæfisskilyrði leiðsögumanna. Þar stendur meðal annars þetta:

Ljóst er að mesta hættan á skaða er þar sem saman fara stórir hópar sem njóta leiðsagnar leiðsögumanna með litla eða takmarkaða þekkingu á sérstakri náttúru landsins.

...

Ýmis lönd hafa gripið til þess ráðs að skylda ferðamenn til þess að ráða innlenda leiðsögumenn á ferðum sínum en hér er ekki gengið svo langt.

Gott að menn vilja líka borga fyrir sérhæfinguna, sérfræðiþekkinguna, langtímafjarvistir frá heimili, 16 tíma vinnudaga og óbilandi þjónustulund ... eða ekki.

undecided


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband