Færsluflokkur: Menning og listir
Föstudagur, 11. maí 2007
Spennan í gærkvöldi ...
Miðvikudagur, 25. apríl 2007
Raunvera millistjórnenda
Það er svo sem of seint að agitera fyrir Eilífri hamingju Andra Snæs Magnasonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar þar sem ég var á lokasýningunni í kvöld.
Annars hefði ég gert það.
Sjálfsagt er hugmyndin sprottin upp úr vissum fordómum gagnvart hugmyndafræðingum auglýsingamennskunnar og markaðshyggjunnar. En þeir fordómar eru næstir raunveruleika okkar sem þekkjum ekki til. Engu að síður telur maður sig þekkja sum einkennin, kannast við manngerðirnar, samtrygginguna og togstreituna.
Er peningavitið stóriðja 21. aldarinnar?
Missir sá gjaldgengið sem skrifar sig út úr teymisvinnunni?
Eru konur settar til hliðar? Eru þær viðföng? Rjúfa þær samtrygginguna?
Einn millistjórnandinn var sprelligosi og algjörlega laus við viðkvæmni, einn var yfirmillistjórnandi og axlaði ábyrgð á tveimur börnum, einn var sigurvegari og vísaði stöðugt í gengna spekinga og einn virtist vilja bera klæði á vopn.
Tilsvörin voru oft ófyrirsjáanleg og handritið lagað að tíðarandanum og líðandi stundu. Það skemmtir mér. Og skemmdi ekki mikið fyrir þótt uppgjörið í lokin rynni svolítið út í sandinn. Allir eiga sitt Everest-fjall ...
Mér þótti hlutverk Ingvars sigurvegara sýnu verst skrifað, mér þótti gegnheilt pirrandi þegar hann svaraði næstum alltaf með því að vitna í orð Gandís og annarra vísra manna. Hinar persónurnar þóttu mér margbrotnari og gátu kallað fram ólíkar tilfinningar hjá mér. En kannski vildu höfundar teikna Ingvar svo skýrt að ég myndi aldrei ráða hann í vinnu.
Nafnið sem ég ætla að leggja á minnið er tvímælalaust Jóhannes Haukur Jóhannesson því að hann hefur ekki sagt sitt síðasta orð.
Ég er mjög ósátt við að hafa tvö löng atriði bara á ensku án þess að láta þess getið í kynningu. Það breytir því samt ekki að bæði Jóhannes og Orri fóru firnavel með þau hlutverk sín líka.