Laugardagur, 16. desember 2006
Kom vel á vondan
Seint í gærkvöldi hringdi síminn og maðurinn í hinu þráðleysinu sagði: Ég er að hringja út af þýðingu. Hann var nýbyrjaður á Falli Berlínar eftir Anthony Beevor og þar sagði eitthvað á þá leið að jólin hefðu einkennst af ... vafningum?? eða lárviðarlaufum (þetta man ég sannarlega ekki) og svo hinni 'hljóðu nótt'.
Hvernig sem setningin raunverulega hljómaði rak mig engan veginn í rogastans og hélt að það væri bara ekkert að. Þá sagði hann: Vita ekki allir að hin hljóða nótt er Heims um ból?
Ég vildi að ég gæti skákað í því skjólinu að ég er hundheiðin - en ég get það ekki. Þótt ég sé sannarlega ekki kristilega þenkjandi á maður þó að þekkja bókmenntavísanir, einkum og sér í lagi þegar manni finnst aldeilis í lagi að gagnrýna til hægri og vinstri.
O jæja.
Svo ætla ég að plögga eins og Siggalára gerir iðulega. Ég fór á afmælissýningu Leikfélags Hafnarfjarðar í gær og sá Ráðskonu Bakkabræðra. Þar var margt öndvegisfólk sem ég þekkti ekki og ég hló mér til óbóta á sýningunni. Gísli, Eiríkur, Helgi ríða ekki við einteyming og ollu engum viðstöddum vonbrigðum leyfi ég mér að fullyrða. Og þar rakst ég óforvarandis á téða Sigguláru.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)