Sínum augum lítur hver á silfrið (eða Silfrið eftir atvikum)

Ég er mjög hugsi yfir stækkun þjóðarkökunnar.

Við búum orðið í markaðshagkerfi (ég er samt ekki búin með Hagfræði á 100 mínútum sem Tómas mælir með) og verðlagning ræðst þannig ekki af framleiðslukostnaði vöru, heldur kaupgetu fólks. Ef kakan er stækkuð og allir fá hlutfallslega jafn mikið af henni og meðan hún var minni getum við ímyndað okkur að launamaður með milljón fari upp í eina og hálfa og launamaður með 200 þúsund fari upp í 300 þúsund.

Sitja þeir hlutfallslega við sama borð?

Eða þýðir þetta að verðmyndunin tekur mið af launamanninum sem hækkaði um 50% - æ, það gerðu báðir - sem hækkaði um 50% af milljón?

Bónus segist bjóða betur (betur en hvað?). Ég keypti þar í þarsíðustu viku ósmurða innpakkaða kornstöng á 33 krónur. Hún bragðaðist svo vel að ég ákvað að kaupa mér aðra til smurnings í síðustu viku en þá kostaði hún skyndilega 59 krónur. Og ég keypti hana samt!

Er þetta af því að ég bý í markaðshagkerfi og Bónus veit að ég hef raunverulega efni á að borga 59 krónur fyrir vöru sem kostaði 33 krónur viku áður? Er það stóri bróðir sem fylgist með mér ...?


Nei, ég vil alls ekki vinna milljarð

Ekki bara af því að ég hef gjörsamlega nóg fyrir mig að leggja, nei, ekki bara þess vegna, heldur ekki síður vegna þess að mér finnst yfirtaksheimskulegt að einstaklingur, fjölskylda eða þess vegna ætt græði milljarð. Græði milljarð. Getur maður átt það skilið að græða milljarð? Hvort sem í hlut eiga rúpíur eða krónur.

 

Samt finnst mér svo ásættanlegt að söguhetjan í Viltu vinna milljarð? eignist hann af því að hann græddi hann löglega og af sóðafyrirtæki og svo er a.m.k. látið að því liggja að hann ætli að verja peningunum skynsamlega, gefa með sér og svona.

 

Þetta minnir mig á árið þegar ég síspurði fólk hvað það myndi gera ef það fyndi 35 milljónir í svörtum ruslapoka undir steini í Laugardalnum. Almennt fannst fólki ég heldur tíkarleg, að setja bara 35 milljónir í pokann, ekki veitti af 135 eða þaðan af meira, en ég man ekki betur en að flestir ætluðu að hætta að vinna og fara að lifa í vellystingum praktuglega. Ég vek athygli á að verðgildi hefur heldur daprast síðan þetta var, fermetraverð fasteigna var áreiðanlega almennt ekki orðið 100 þúsund kall.

 

Ég vildi a.m.k. verðskulda milljarðinn minn.

 

Bloggfærslur 17. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband