Maðurinn á bak við bláa skjöldinn

Nú er ég búin að eyða dýrmætu föstudagskvöldi í að lesa 1. bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hún varð innlyksa hér um síðustu helgi - ég á sko ekkert í henni - og það tók mig svolítinn tíma að koma mér í verkið. En ég varð sko ekki svikin, hún var meinfyndin, humm humm.

Og það sem er ekki minna fyndið er að skv. bókatíðindum er leiðbeinandi verð 10 kr. en mér skilst að útsöluverð sé 99 kr. Þetta snýst eitthvað um framboð og eftirspurn í markaðshagkerfi, vinsældir vörunnar og hvað fólk er þá tilbúið að borga fyrir hana.

Allt með öllu held ég að lestur 1. bindisins hafi verið góð upphitun fyrir lestur minn á þýðingu HHG á Frelsi og framtaki Friedmans. Ég held að ég geti bara farið að hlakka til.

Merkilega sem lítið hefur verið fjallað um þetta rit í fjölmiðlum.


Lest milli Reykjavíkur og annarra byggðarlaga

Af því að bróðir minn er að íhuga að flytja á Suðurnesin fór ég í enn meira mæli að velta fyrir mér almenningssamgöngum milli landshluta. Við vitum ekki hvernig strætó gengur á milli Keflavíkur og Reykjavíkur en mér skilst að strætó blómstri á milli Akraness og Reykjavíkur. Hreyfir einhver mótmælum við því? Svo geta menn flogið úr Vatnsmýrinni vestur, norður, austur og til Vestmannaeyja (þegar hvorki veður né skortur á flugumferðarstjórum er í veginum). En ansi oft grípa menn til einkabílsins enda er enginn sérstakur hörgull á honum. Einhverju sinni heyrði ég að í Reykjavík væru fleiri bílar en ökuskírteini.

Lausnin er LEST. Af hverju er ekki talað um lestarhugmyndina í neinni alvöru? Fyrir nokkrum árum var unnin skýrsla um kostnað við að koma upp lest milli Keflavíkur(flugvallar) og Reykjavíkur. Ef ég man rétt var kostnaðurinn reiknaður um 6 milljarðar króna og fyrir vikið var hugmyndin slegin út af borðinu. Nú er talan sjálfsagt hærri vegna áranna sem liðið hafa, en kostar ekki eitthvað álíka að bora Héðinsfjarðargöngin? Tvöföldun á vegum kostar líka nokkra aura og telst arðbær til lengri tíma litið. Nú þegar okkur fjölgar svo ört að við gætum verið orðin um 400 þúsund manns árið 2010 verður lestarhugmyndin æ raunhæfari. Það væri hægt að láta lest ganga milli Reykjavíkur og Keflavíkur, Reykjavíkur og Akureyrar o.s.frv. Lest er fljótgeng og veitir öruggt skjól fyrir misvindasömum íslenskum vetrum - já, og sumrum því að ekki hefur verið hægt að treysta á þau nema undanfarin örfá ár.


Bloggfærslur 29. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband