Er kímni gáfa?

Oo, ég er alltaf svo hrifin af þessari fyrirsögn, eða titili eftir atvikum. Ég notaði hann á BA-ritgerðina mína fyrir 12 árum og nú gengur texti ritgerðarinnar að litlu leyti í endurnýjun lífdaga á næstunni. Blaðamaður á Vikunni hringdi í mig í gær og vildi taka við mig viðtal um húmor. Fyndið? Hoho. Ritgerðin var um beittan tilgang húmors í Hvunndagshetju Auðar Haralds.

Ó, þeir tímar.

Niðurstaðan varð sú að húmor hafði meira en skemmtigildi. Fyndið? Ja, það er alltaf hægt að skemmta skrattanum.


John Cleese í alþjóðaeigu

Mér var (næstum því) skemmt þegar ég fletti á NRK í gærkvöldi og sá John Cleese, góðvin Kaupþings, í norskri auglýsingu þar sem hann gerði grín að norskum fótbolta. Svipað og að Kaaaaapalingi.

Gettu miklu betur

Nú er gósentíð framundan. Ég hef ævinlega haft góðan bifur (eins og við í klíkunni segjum gjarnan) á Gettu betur og vegna trygglyndis held ég alltaf með MS, bæði af því að ég var þar sjálf í skóla og vegna þess að ég kenndi þar líka í eitt ár.

Og nú er sem sagt Gettu betur byrjað að rúlla á Rás tvö. Kjörið að taka til á meðan maður hlustar - og svarar útvarpinu. Jájá, ég hefði getað svarað urmuli af spurningum. Spennt að vita hvernig ég stend mig í kvöld.


Evra pevra

Mér þykir svo vænt um sjávarútveginn að mig langar mest að taka miðin öll í fangið og passa þau þannig. Ég stend í þeirri meiningu að sjávarútvegurinn sé undirstaða hagsældar okkar og er alveg á tauginni yfir mögulegri inngöngu í Evrópusambandið. En það hjálpar kannski ekkert að breiða út faðminn.

Kannski er ég líka á villigötum. Kannski er fjármálaútrásin lykillinn að öllum hagvexti og kaupmætti. Ég þarf að hugsa meira um þetta.

Hins vegar er ég ekki alveg viss um að lestur um hagfræði hjálpi mér mikið - nema ég sé bara komin fram úr fyrstu lexíu og þurfi að fara í flóknari bækur. Ég er nefnilega búin með nokkra kafla í „Hagfræði í hnotskurn“ eftir Henry Hazlitt og hann segir bara sjálfsagða hluti. Hann uppástendur að vondir hagfræðingar segi að brotin rúða hjá bakaranum sé góð vegna þess að hún búi til störf. Svo útskýrir hann að góðir hagfræðingar sjái lengra og átti sig á að ef rúðan hefði ekki brotnað hjá bakaranum hefði hann getað eytt peningunum í jakkaföt og þannig hefði frekar orðið til starf í fataiðnaði.

Hvaða meðalhálfvita þarf að segja að brotin rúða sé ekki ávísun á velsæld? Nema þá glerskurðarmannsins?

Þetta minnti mig samt á setningu úr Draumalandi Andra Snæs um það að hagvöxtur minnki við það að einhver skrái sig í skóla, þ.e. hætti í einhverju starfi til að fara í nám. Og þar sem þetta komst nýlega til tals var bætt við að hagvöxtur jykist líka við árekstur sem kæmi fólki á spítala.

??

Ég þarf hvorki að vera hagsýn né húsmóðir til að sjá hvað þetta eru fáránlegir útreikningar á hagvexti. Raunverulegur hagvöxtur hlýtur að felast í uppgötvun nýrra auðlinda, bætts verklags og hagkvæmni í rekstri. Til dæmis er óumbeðinn ruslpóstur ekki hagvöxtur þótt ljósmyndarar fái ónauðsynlegt starf við að taka myndir af leirkrúsum og veggklukkum.

Og hver borgar?

Svo er það evran - á maður að biðja um launin sín í evrum og fara að gera sig upp eins og Straumur - burðarás? Ég er í svo mikilli dílemmu.


Bloggfærslur 10. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband