Fasteignaverð

Já já, það er að bera í bakkafullan lækinn að tala um fasteignaverð en Stöð tvö var rétt í þessu að fjalla um leiguverð fasteigna. Það er náttúrlega skandall hvað fasteignaverð hækkaði skart á skömmum tíma - sem auðvitað kemur fram í leiguverði - en mér finnst að kaupendur eigi líka að vera svolítið þrjóskir. Kannski á mér eftir að hefnast fyrir þrjóskuna mína en ég gerði tilboð í tvær íbúðir í fyrra og ekki gekk saman með okkur. Nú, hálfu ári síðar eru þær báðar enn til sölu og hafa verið nýskráðar nokkrum sinnum. Önnur hefur verið lækkuð niður í það verð sem ég bauð.

Svo veit ég um seljendur sem fengu langtum hærra en þeir reiknuðu með af því að fasteignasalarnir verðlögðu eignirnar og agiteruðu fyrir sölunni. Þegar söluþóknunin er hlutfall af söluverði fá þeir náttúrlega meira ... en ég myndi aldrei fara að gera þeim upp neina græðgi.

Fasteignaverð hefur snarhækkað í mörgum evrópskum borgum á undanförnum árum en mér er til efs að það hafi gerst eins afgerandi og hér - enda innkoma bankanna á fasteignamarkaðinn á haustmánuðum 2004 algjört óráð.


Næstu dyr við Ísland ...

Sverðfiskurinn

Ússj, þvílíkt skrípi, þessi fyrirsögn. En skv. Ferðamálastofu vitjuðu okkar 48.153 fleiri ferðamenn í fyrra (og sumir fóru til „næstu dyra við Ísland“, Grænlands). Við stefnum óðfluga í hálfa milljón, og einhverjir hafa talað um milljón árið 2015. En er það svo gott?

Ég held að við ættum ekki að reyna að fjölga ferðamönnum í óðagoti - inni í tölunni 422.280 eru vel að merkja ekki farþegar af skemmtiferðaskipunum, um 55.000 á síðasta ári - reyna kannski frekar að fá meiri dreifingu, nýta betur kostinn sem við höfum, t.d. í gistingu, og hafa ferðalangana lengur.

Það verður alveg dásamlegt þegar virðisaukaskatturinn lækkar á mat og gistingu og gestir Íslands fá ekki lengur hland fyrir hjartað þegar þeir eiga að borga fyrir sig. Hvatahópunum fjölgar kannski - einmitt á jaðartímum - og verða alveg syngjandi kátir allan tímann.

Þetta er sko framtíðarsýn.


Nýi bæjarstjórinn á Akureyri

Mér er sama hvaðan gott kemur en það leggst afskaplega vel í mig að Sigrún Björk Jakobsdóttir sé orðin bæjarstjóri Akureyrar. Hún var reyndar ekki orðin bæjarstjóri þegar hún tilkynnti um að ókeypis yrði í strætó og kannski er það ekki beinlínis hennar framkvæmd. Í mínum augum fær hún samt heiðurinn og ég hlakka til að fylgjast með frekari afrekum hennar.

Og enn spenntari verð ég þegar Reykjavíkurborg sýnir þann metnað að rukka ekki sérstaklega fyrir salíbununa með SVR. Sjáum til, við borgum útsvar - og ég sé ekki eftir mínu - og það er notað til að borga fyrir gatnagerð. Einkabílarnir sem eru keyrðir eftir götunum nýta sér það án þess að borga sérstaklega fyrir kílómetrann eða ferðina - nema að einhverju leyti í gegnum eldsneytið.

Hvað innheimtir sveitarfélagið með fargjöldunum? Einhver sagði 200 milljónir á ári. Hvað spörum við samfélagslega á því að nýta SVR (AVS?) betur en nú er gert? Ég er ekki í færum til að reikna það út en ef við tökum slit á götum, slit á farartækjum, færri umferðarmannvirki og færri slys inn í útreikningana verður okkur varla skotaskuld úr því að fá hagstæða útkomu.

Og hversu hátt hlutfall í tekjum borgarinnar eru 200 milljónir? Hvað kostaði vatnsskaðaslysið á varnarsvæðinu um daginn? Hvað kosta starfslokasamningar ýmissa? Hvað er borgin tilbúin að borga háar skaðabætur vegna spilakassanna?

Já neinei, reynum nú að skoða tölurnar í samhengi. 


Bloggfærslur 11. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband