Launamál á leikskólum

Enn berast fregnir af því að ekki takist að manna leikskólana. Það hlýtur að stafa af atvinnuframboðinu í höfuðborginni. Og hvar er meira spennandi vinnu að hafa fyrir þá sem ekki hafa menntað sig til ákveðinna starfa?

Á matsölustöðum, í stórmörkuðum, í sjoppum - vegna þess að þar er betur borgað. Ótrúlegt. Halda menn að obbinn af fólki vilji frekar steikja kjúklinga en að kenna börnum gildi útivistar og hollrar fæðu í þemaleikjum? Ég held ekki. Ég held að veitingabransinn borgi einfaldlega betur.

Meðan Steinunn Valdís var borgarstjóri steig hún eftirminnilegt skref í átt til bötnunar. En eitt skref áfram má sín lítils þegar aðrir þramma til baka.

Á menntaskólaárunum vildi ég komast í öskuna í sumarvinnu af því að hún var svo vel borguð. Það var ekki fræðilegur möguleiki, einhver hefði þurft að redda mér vinnunni. Man einhver eftir því að hafa heyrt talað um erfiðleika við að manna öskuna? Ekki ég. Halda menn þá að eðli vinnunnar sé svo gefandi?

Ef störf í, segjum, umönnunargeiranum væru launuð til jafns við ... ég get varla sagt þetta ... jafn verðmæt eða minna verðmæt störf væru foreldrar ekki sendir heim með börnin sín vegna manneklu.

Þorgerður Katrín skrifaði undir samning við HÍ í vikunni. Ég er hlynnt því að Háskóli Íslands sem sinnir langtum fleiri greinum en hinir háskólarnir fái LOKSINS eitthvert forskot á hina háskólana - en gleymum ekki að leikskólinn er fyrsta skólastigið og það þarf að hlúa að því og nemendum þess.


Bloggfærslur 13. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband