Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Tvískinnungurinn í manni
Ég fékk auðkennislykilinn sendan heim í gær og sem ég sat við að skrá hann inn í gærkvöldi var spiluð í sjónvarpinu auglýsingin með Björgvini Halldórssyni. Ég hló massamikið. Ég held nefnilega að Björgvin hafi ekki verið að leika ... en reyndar hef ég enga ástæðu til að leggja fæð á hann. Ég held samt að hann sé svolítið góður með sig.
Hins vegar láðist mér að gá að því í hvers nafni auglýsingin var. Hver borgar þá? Og ætti ég ekki að verða reið eins og út í Kaupþing um áramótin?
Er maður fullur af tvískinnungi? Ekki svara (svarið er of augljóst)!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Aldrei er ég spurð um pólitík í símann
Ég meina þá að aldrei hringir Gallup og biður mig að setja saman ríkisstjórn. Ég get sjálfri mér um kennt, ég veit það.
Ég man ekki í hvaða röð það gerðist en eitthvert árið fékk ég yfir mig nóg af heimsendum happdrættismiðum sem ég vildi ekki borga. Þá hakaði ég í bannreit hjá Hagstofunni. Eitthvert árið fékk ég líka nóg af skoðanakönnunum í síma og lét bannmerkja símanúmerið. Fyrir vikið fæ ég heldur aldrei að svara forvitnilegum spurningum.
Ég man gjörla eftir einni laaaaaaaaaaaangri upphringingu frá skoðanakannanafyrirtæki um árið. Ég var spurð áreiðanlega 40 spurninga um tónlist. Og ég er illa að mér í tónlist, því miður. Mjög illa myndu sumir segja. Og enginn hefur tekist það á hendur að mennta mig í tónlist (ég öfunda enn bróður minn sem tók áfanga í Bandaríkjunum einu sinni í Music Appreciation). Það er ekki að orðlengja það að ég gat engri spurningu svarað! Það þýðir að ég varð í hvert skipti að segja: Ég kannast ekki við lagið (ég var auðvitað spurð um titla, lögin voru ekki spiluð). Einu sinni laug ég og sagði: Ég kannast aðeins við titilinn en ég veit ekkert hver leikur lagið.
Um það leyti tók ég ákvörðun um að bannmerkja símanúmerið.
Og fæ aldrei að taka þátt í að mynda ríkisstjórn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)