Miðvikudagur, 24. janúar 2007
... og aðeins betur ef það er það sem þarf
Nei, ekki eitt aukatekið mærðarorð til viðbótar um handboltann. Gott að allir eru glaðir. Ég hef hins vegar í allt kvöld setið við þýðingar á bráðskemmtilegum texta úr smiðju OECD, um efnahagshorfur í Bandaríkjunum. Heartbreaking.
Og búin að reyna að læra að samþykkja bloggvin.
Þetta kemur allt með kalda vatninu, hmmm.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. janúar 2007
Wir machen uns, wir machen uns, wir machen uns Bestes
Ég hef alveg getað tapað mér yfir handbolta, gólað af æsingi, stokkið upp í rjáfur og hvatt Óla, Einar, Fúsa, Guðmund Hrafnkels og Þorgils Óttar. Það kemur bara ekki af sjálfu sér, ég þarf að ákveða það. Ég er því líklega ekki sannur þjóðernissinni. Ég hef samt lúmskt gaman af handbolta, ólíkt fótbolta.
Einhvern veginn finnst mér að í einhverjum hafi vottað fyrir gorgeir og yfirlæti eftir að við unnum Frakkaleikinn í gær, ekki leikmönnum, eða ég heyri a.m.k. ekkert í þeim, heldur áhorfendum. Og getur ekki verið að einhver hafi látið að því liggja að í Túnis-liðinu væru einhverjir óspilandi strumpar?
Og nú er leikurinn við þá í gangi og Túnis er yfir. Bömmer, kannski verða strákarnir okkar sendir heim fyrr en við viljum fá þá heim.
Ég get bara ekki að mér gert að rifja upp leik Íslendinga við Suður-Kóreu 1986 (það var einmitt þegar Þorgils Óttar Mathiesen og Kristján Arason heilluðu okkur öll) og það var bara formsatriði að spila við þessa stubba. Og svo töpuðum við.
Ég þori ekki að segja að ég hafi hlegið. Og allra síst myndi ég segja eitthvað eins og: Sagði ég ekki?
Flugleiða-auglýsingin um handboltann er samt góð, a.m.k. fram að hléi.
Skjótt skipast veður í lofti, ég er ekki fyrr búin að segja að Túnis sé yfir en Ísland jafnar, hmmm. 17 mínútur eftir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. janúar 2007
Danska upplýsingastofan um þjóðarmorð ...
Hver kippist ekki við af spenningi? Hehhe, nú er ég langt komin með Undatekninguna eftir Christian Jungersen (tæpar 600 blaðsíður) sem gerist meðal starfsmanna umræddrar upplýsingastofu. Ég veit varla hvort hún er venjulegt melódrama (ástir og örlög) eða spennusaga (er fólk myrt eða deyr það bara við að hrynja niður olíuborinn stiga?), kannski sagnfræði (langar greinar um hvernig heilu þjóðabrotin voru leidd til slátrunar). Samt hallast ég helst að því að hún sé um togstreitu á vinnustöðum, sálfræðileg viðbrögð, að gera samstarfsfólki sínu upp sakir og nánast glæpsamlegt athæfi. Hún er á köflum alveg hroðalega langdregin en samt er þarna einhver spennugulrót og nú, þegar ég á eftir um 150 blaðsíður, er ég orðin mjög spennt að vita HVER SENDI TÖLVUPÓSTANA MEÐ HÓTUNUNUM.
Af tillitssemi við Habbý ætla ég ekki að spjalla um þýðinguna.
Svo vona ég að Viggó frétti að næst hlýt ég að lesa Nafn rósarinnar - svo að ég geti einhvern tímann skilað honum eintakinu sem hann lánaði mér. Eftir þessa bók er ég komin í góða æfingu við að lesa doðranta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)