Umhverfisvernd byrjar heima

Að minnsta kosti ætti hver borgari að geta stundað umhverfisvernd, sleppt frauðplasti undir hakkið, skrifað báðum megin á blaðið, skilað dósum og flöskum í Sorpu og breytt kaffikorginum í moltu. Engu að síður vantar góða aðstöðu til að vera umhverfisvænn í Reykjavík. Sorpa er á fáum stöðum og lítið borgað fyrir dósirnar, blaðagámarnir eru stundum fullir eða fjarverandi og engar grænar tunnur til að henda lífrænum úrgangi í. Hjólaleiðir eru fyrir sportista, t.d. er lífshættulegt að hjóla milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og að auki er dýrt í strætó, ferðirnar stopular og óaðgengilegar. Ég er mjög spennt að vita hvernig ókeypis tilraunin á eftir að ganga á Akureyri. Ég er mjög bjartsýn á hana og svo kostar hún bæjarsjóð bara 16 milljónir, held ég að ég hafi tekið rétt eftir.

Svona umhverfisvernd finnst mér skipta máli, ekki síður en Kýótó-ákvæðið.

Og ég verð víst að viðurkenna að í ljósi umhverfisins skil ég ekki almennilega fjaðrafokið út af Alcan-kostuninni á Kryddsíldinni. Ég horfði á hana - nema hvað - og tók ekki eftir kostuninni! Til að kóróna þetta skilst mér að Alcan hafi kostað Kryddsíldina í fyrra líka - augljóslega fé á glæ kastað þar sem fólk leiðir svona auglýsingar hjá sér, hahha.

Ég meina, Alcan er löglegt fyrirtæki, kostun er lögleg og þetta er leiðin sem Stöð tvö fer til að fjármagna útsendingar sínar. Hins vegar er ég enn á því að þetta sé ekki leiðin að jákvæðu viðhorfi Hafnfirðinga og annarra landsmanna.


Ofgnótt kaupmáttar og hagvaxtar

Hvað hefur breyst á 10 árum? Jú, kaupmáttur hefur aukist og hjá mörgum svo mjög að stærsti vandinn á jólunum felst í að finna eitthvað sem hægt er að gefa sumum. Einhverjir brugðu á það ráð núna að kaupa geitur hjá kirkjunni til gjafa. Það þýddi auðvitað ekki að pakkinn jarmaði á aðfangadagskvöld, heldur gaf fólk hugmyndina. Hún er svo sem góð.

Í gærkvöldi frétti ég að í Danmörku - þar sem menn eru líka farnir að gefa geitur sökum skorts á skorti - þar sem viðtökulönd eru önnur en á Íslandi hafi menn keypt of margar geitur. Hugmyndin er uppseld. Og hvað er þá til ráða? Að kaupa brunn í fjarlægu landi fyrir 120 þúsund kr. til að vera rausnarlegur við elskuna sína?

Ekki veit ég.

Mér fyndist samt koma til greina hugarfarsbreyting. Mér finnst galið að fólk kaupi og eignist hluti bara til að eignast hluti þótt það langi ekkert í þá. Og það á sama tíma og sumt fólk hefur ekki efni á nauðsynjum. Erum við ekki öll sammála um að slíku sé til að dreifa á Íslandi?

Ég þori ekki að skrifa það sem ég er að hugsa núna en treysti því að lesandinn geti í eyðuna.

 


Ég elska Heimi Karlsson

Bara svona í sjónvarpinu, Íslandi í bítið. Hann spyr fólk svo mikið eftir lausnum: Hvað þarf að hækka mikið? Hverju þarf að breyta? Hvað myndi duga? Ég viðurkenni að hann fær ekki alltaf svör en hann reynir að hugsa í lausnum frekar en vandamálum.

Við erum of gjörn á að velta okkur upp úr vandanum í stað þess að horfa fram á veginn og spyrja hver lausnin gæti verið.

Áðan voru þau Sirrý með Arndísi Björnsdóttur hjá sér sem hyggur á þingframboð fyrir eldri borgara og hann reyndi að fá fram lausnarhugmyndir.


Bloggfærslur 3. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband