Fimmtudagur, 4. janúar 2007
Lengi tekur sjórinn við
Eða svo sögðu menn. Nú vitum við betur.
Merkileg var úttekt Stöðvar tvö á álverinu í Straumsvík. Ítarleg og fróðleg, en að vísu fannst mér fréttamaður hallast að synjun um stækkun. Finnur Ingólfsson var sýndur í því ljósi, hinn ofurkáti iðnaðarráðherra á sínum tíma vegna þess að loks tókst að selja raforkuna. Það var á þeim tíma sem við héldum að sjórinn tæki endalaust við og lögðum líka mest kapp á að selja einhverjum raforkuna.
Mengunarvarnir eru orðnar betri og þess vegna er mengun ekki söm og jöfn og hún var. Hins vegar mengar þessi iðja eins og ýmis önnur, og meira eftir því sem hún verður umfangsmeiri. Landið mætti nota í annað og nú vantar sannarlega ekki vinnu þegar atvinnuleysið er um 1%. Ótraust heimild mín hermir að 1% Hafnfirðinga starfi í álverinu, 250 af 500 starfsmönnum, 250 af 25.000 Hafnfirðingum.
Það var gaman að sjá Ragnar álskalla í fullu fjöri og hann hljómaði skynsamlega. Hann er samt hlynntur stækkun. Og vissulega er á elleftu stundu boðað íbúalýðræði, a.m.k. á elleftu stundu fyrir álrekendur.
En hvernig er svo með landeigendur við Þjórsá? Í blöðum sverja þeir og sárt við leggja að ekki hafi verið ráðgast við þá eða samið en engu að síður er stækkunin komin í farvatn álverslns. Maður hefði haldið að svona stórviðburðir ættu að fara í eitthvert visst ferli, fyrst spurt og samið, svo gert deiliskipulag eða eitthvað, þá farið í framkvæmdir.
Ég hallast að því að ég segði nei ef ég hefði eitthvað um það að segja. Og skilaði Björgvini Halldórssyni til föðurhúsanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)