Aðdáunarverð stéttarvitund

Ég dróst svolítið aftur úr í blaðalestri um helgina þannig að ég er að lesa laugardagsmoggann núna. Á forsíðu stendur að ekkert þeirra sem sagt var upp hjá Icelandair fyrir mánuði muni missa vinnuna í desember eins og þó leit sannarlega út fyrir. Ég var búin að frétta þetta úr innsta hring en ekki lesa neins staðar í fréttamiðlum. Og nú undrar mig að þessu séu ekki gerð betri skil. Þetta er nefnilega frétt um stéttarvitund. Flugfreyjur nýta sumar tækifærið til að fara í launalaust leyfi og aðrar til að minnka starfshlutfallið til að dreifa áfallinu og sjálfsagt teygir Icelandair sig líka svolítið til að koma til móts við kröfur (sem þó eru eðlilegar).

Alveg vildi ég að leiðsögumenn kynnu þessa tækni. Alveg vildi ég að leiðsögumenn stæðu saman. Alveg vildi ég að leiðsögumenn réttu hlut sinn.


Ýkjur og öfgar í þýðingum á einu og sama kvöldinu

Ef ég reyti hár mitt öllu frekar í kvöld verð ég sköllótt. Ég er að glíma við verkefni í þýðingafræðinni sem er svona:

Regular Expressions

Lýsing:
Skráin Vulgata.txt er textaskrá sem inniheldur hluta Gamla testamentisins á latínu. Búið til regexp-streng sem breytir skjalinu þannig að hvert vers sé í einni línu. Línan á að byrja á númeri versins.

Best er að nota textaritþór á borð við TextPad, EditPlus, UltraEdit-32. Þetta er hægt í Word, en þá er notast við þeirra eigin mállýsku sem er aðeins frábrugðin.

Reynið að leysa þetta með því að búa til regexp-lýsingu, þeas. strenginn sem settur er í „search and replace". Ef ykkur tekst það ekki getið þið skrifað með orðum hvernig hægt væri að leysa þetta. Það á þá að vera stutt lýsing.

Ef mér hefði tekist að mæta í tíma væri ég kannski með lausnina. Ég er búin að reyna að hlaða niður þessum textaritþórum (Ásgerður, sem sagt þágufall með sögninni að hlaða!) en alltaf þegar TextPad, EditPlus eða UltraEdit-32 voru að ná höfn átti ég aftur að samþykkja uppsetningu. Svo sýndist mér ég helst eiga að borga líka.

Þá reyndi ég að möndla við þetta í word. En hey, hvert er leyndarmálið við það að geta slöngvað 52.000 tölum fremst í línu í einni aðgerð? Um það snýst málið. Og geðheilsa mín. Ég er einstaklega vel gefin en ég get þetta ekki ...

Að þessu sögðu skæli ég líka af gleði yfir því að wordfast-forritið (þýðingaminni) sem ég keypti fyrir rúmu ári og hef hingað til geymt í glatkistunni er ekki rykfallnara en svo að það virkar! Og það sparar tíma. Eykur nákvæmnina. Jibbí. Samvinnan blívur. Blífur?


Bloggfærslur 1. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband