Mánudagur, 8. október 2007
Launastríð leiðsögumannsins heldur áfram
Hver er það aftur sem talar svo hátt og snjallt um samspil framboðs og eftirspurnar? Er það ekki einhver hagfræðingur? Eða stjórnmálamaður?
Um daginn var ég beðin um að taka að mér leiðsögn í Bláa lónið og á sleða á Mýrdalsjökul með viðkomu á Gullfossi, Seljalandsfoss og Skógafossi. Ég hafði blendnar tilfinningar gagnvart fyrirtækinu sem er byggt á gömlum og veikum grunni en komið með nýtt nafn og fagurt fyrirheit. Ég viðraði þessar efasemdir en skrifstofumaðurinn sór að allt væri breytt. Og ég sló til.
Ferðin var hin indælasta, gott og skemmtilegt fólk, glæfraakstur í svörtum sandbingjunum, mikið flissað og margt skrafað. Ég sé ekki eftir að hafa farið. Strax eftir ferðina sendi ég ferðaþjónustufyrirtækinu tímana mína og reiknaði með að fá borgað 1. nóvember eða síðar.
En í dag fékk ég launaseðil, útborgun og bréf þar sem mér var tilkynnt um framangreint. Og ég beðin um að hafa samband ef það væri eitthvað. Ég sum sé settist strax við ritstörf:
Sæl x.
Já, það er eitthvað. Ég átti reyndar ekkert sérstaklega von á að þið gerðuð upp fyrr en um næstu mánaðamót þannig að ég þakka þér fyrir að vera mun sneggri en ég átti von á. Og kannski er ástæða til að þakka fyrir að reikna orlof. Í mínum launaflokki er það reyndar 12,07% en ekki 10,17%.
Fjöldi tímanna er réttur, hins vegar er þeim vitlaust raðað á dagvinnu og eftirvinnu. Ég mætti kl. 15 á föstudegi og þá eru í mesta lagi 4 tímar í dagvinnu, allt annað í yfirvinnu, sem sagt 17,5 tímar. Þú hefur líklega ekki áttað þig á að Mýrdalsjökulsferðin var á laugardegi.
Svo er hitt, taxtinn sem þú reiknar er ekki til. Taxti félagsins er á heimasíðu félagsins, sjá: http://www.touristguide.is/index.php?option=content&task=view&id=25&Itemid=48. Dagvinnutaxtinn er sem sagt 1.445,38 og eftirvinnutaxtinn 2.191,26. Heildarsumman er þá 44.128,57 en ekki 33.518. Þetta eru taxtar sem félagið hefur samið um sem lágmarkstaxta við atvinnurekendur.
Að auki sé ég engar greiðslur fyrir símanotkun. Varla finnst þér eðlilegt að ég hringi í bílstjóra og x á skrifstofunni á minn kostnað, er það nokkuð?
Kær kveðja,
Berglind
Sú sem réði mig var ekkert lítið ánægð með að fá leiðsögumann. Hvað í veröldinni veldur því að fólki finnst sjálfsagt að ráða fólk í eins til tveggja daga vinnu með nokkrum símtölum og sem því nemur truflunum frá öðru án þess að ætla að borga því a.m.k. umsamin lágmarkslaun? Og hvað sætta leiðsögumenn sig almennt við? Sætta þeir sig við að fá borgað undir taxta og heldur þess vegna stríð mitt áfram?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)