Að verða fyrir tæknilegu hrósi

Í gamla daga skattyrtist ég oft við elskulegan bróður minn sem rak sjoppu, og með sleifarlagi þótti mér stundum. Hann er óttalega ágætur en mér þótti hann ekki duglegur að taka eftir því sem vel var gert. Stundum reyndi hann að taka sig taki og hrósa svona almennt: Takk fyrir að vera svona dugleg alltaf, eða: Takk fyrir að vera hugmyndarík.

Arg.

Hann átti að taka eftir þegar starfsmaður tók upp hjá sjálfum sér að stilla vörum öðruvísi fram, þrífa sérlega vel í kringum bland-í-poka-borðið, galdra fram meira pláss í frystikistunni eða selja fyrir helmingi meira en á öðrum miðvikudagskvöldum.

Í gærkvöldi velti ég svo hrósi enn meira fyrir mér þegar ég varð viðfang(sefni) í verkefni vinkonu minnar sem er í stjórnunarnámi. Uppleggið var umbun í starfi, hvati (eða lati) - og hrós. Og ég áttaði mig á að almennt hrós er mér einskis virði. Hrós verður að vera fyrir eitthvað afmarkað og helst einstakt. Ég upplifi hrós fyrir það sem mér finnst sjálfsagt að maður geri sem verið sé að tala niður til mín, eins og að segja við vel stálpaðan ungling: Duglegur ertu að reima skóna þína.

Hmm, er ég úti að aka á villigötum? Er ég vanþakklát?

Þegar ég leiðsegi fólki finnst mér mikil umbun þegar fólk hlær einlæglega að bröndurunum mínum og svo líka þegar það kemur til mín við fyrsta tækifæri og spyr af forvitni út í eitthvað sem ég var að segja. Endurgjöfin er áhuginn sem vaknar en ekki endilega ef það kemur og þakkar mér innantómt fyrir með handabandi. Þegar ég hef haft tækifæri til að kenna í Leiðsöguskóla Íslands hef ég látið nemendur vita skýrt að ég gef ekki að pistlunum fluttum einkunn í formi orðanna fínt eða gott, heldur með því að spinna þráðinn áfram og gefa fólki færi á að fylgja málinu eftir.

Ég veit alveg með hvernig fólki ég vil vinna.


Finnst einhverjum nóg að rafhlaða í fartölvu endist bara í 10 mánuði?

Já, seljandanum.

Ég keypti tölvu fyrir rúmu ári og byrjaði að nota hana í janúar. Fyrir á að giska mánuði kom stórt rautt X þar sem hleðslan var vön að sjást. Ég fór með tölvuna á verkstæði fyrirtækisins á mánudag, skildi rafhlöðuna eftir og fékk í morgun upphringingu þar sem mér var sagt að rafhlaðan væri ónýt og fallin úr ábyrgð. Tölvan sjálf er hins vegar í ábyrgð í þrjú ár.

Hvað drífur tölvuna áfram?

Það sem ég ekki skil er hvernig nokkru fyrirtæki finnst verjandi að segja við kaupanda að rafhlaðan eigi ekki að endast lengur. Nú er ég spennt að sjá hvað seljandi nýrrar rafhlöðu segir mér að hún muni endast lengi.

Ég er algjörlega sannfærð um að rafmagnstæki eru markvisst og meðvitað framleidd með það fyrir augum að gefa upp öndina miklu fyrr en áður tíðkaðist. Og það er ekki einu sinni svo gott að fartölvan mín hafi kostað skiterí, nei, hún kostaði hátt í 200 þúsund krónur.

Hver man eftir Westinghouse-ísskápunum sem entust von úr viti? Þeir eru ekki framleiddir lengur. Ég finn ekki einu sinni mynd af svoleiðis grip.


Bloggfærslur 14. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband