Hvað gerir Alþjóðahús?

Hjá Útvarpi Sögu er núna skoðanakönnun um Alþjóðahús, spurt hvort fólki finnist skattgreiðendur eiga að standa undir kostnaði af rekstri þess. Núna klukkan rúmlega níu finnst tæplega 70% að skattgreiðendur eigi ekki að borga fyrir reksturinn.

Ég er kannski hlutdræg, ég veit það ekki. Ég er í námi fyrir verðandi dómtúlka og löggilta skjalaþýðendur. Alþjóðahús hefur beðið mig að taka að mér verkefni sem ég á reyndar erfitt með að sinna vegna annarra anna. Tilfinning mín er samt ómæld sú að Alþjóðahús skipti máli, sé gagnlegt og dálítill gluggi fyrir útlendinga sem eru að reyna að komast inn í íslenskt samfélag.

Á heimasíðunni er að finna allrahanda upplýsingar á 11 erlendum tungumálum. Ég hef verið á póstlista hússins og veit þess vegna um þau ógrynni sem boðið er upp á til að hjálpa fólki að fóta sig og finnast það velkomið.

Hingað koma útlendingar og hér búa útlendingar. Það er okkur öllum fyrir bestu að taka vel á móti fólki og reyna að styðja það fyrstu skrefin. Fyrr en síðar leggst það á árarnar og rær til jafns við aðra.

Ég greiddi sem sagt atkvæði með því að við stæðum undir kostnaði við Alþjóðahúsið. Það er ekki tapað fé.


Bloggfærslur 19. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband