Laugardagur, 3. nóvember 2007
Bónus er hverfisbúðin mín
Reyndar eru 10-11 og 11-11 líka í næsta nágrenni, Krambúðin á þarnæsta horni og Krónan ásamt Hagkaupum í hjólafjarlægð.
En ég kaupi inn í Bónusi og þar er verð þrátt fyrir allt oft lágt eða lægra en í öðrum nálægum búðum. Og nú er ég enn og aftur búin að fá svar um framlegð Bónuss, á strimlinum er annað verð en kirfilega auglýst inni í búðinni. Nú var ég t.d. látin kaupa tveggja lítra kók í þeirri góðu trú að flaskan kostaði 58 kr. Hún kostaði hins vegar á kassa 78 kr. Það sá ég þegar ég skoðaði strimilinn á hraðri leið í burtu, með poka í báðum höndum og flýtinn í sjálfri mér í augsýn. Ég vil sannarlega að bæði Vífilfell og Jón Ásgeir fái sanngjörn laun fyrir vinnuna sína en mér leiðist að láta ljúga að mér.
Ekki sneri ég við. Ég sný aldrei við, ætla bara alltaf að taka betur eftir næst. Og hvað eru 20 krónur ...? Þriðjungur af uppgefinni tölu, einn fjórði af innheimtri tölu. 33% yfir uppgefnu verði 10 mínútum innar í búðinni.
Svo er annað svar um framlegð Bónuss það að ég keypti líka vöru sem er ekki verðkönnunarvara, servíettur. Þær voru ekki á neinum spottprís, 20 ræfilslegar - en snotrar - og kostuðu 259 kr. Kirfilega ekki merkt á hillu - og ég í sakleysi mínu og asa mat það svo að Bónus myndi selja þessar servíettur við sanngjörnu verði.
Ég var á námskeiði í dag um dómtúlkun, bæði skemmtilegu og gagnlegu. Þegar við vorum búin að ræða fagmennsku, kröfur, ástundun, undirbúning, aðferðir, útkallstíma, viðbragðsflýti o.fl. í þeim dúr kom spurning um taxta. Dómtúlkurinn sem hefur 20 ára starfsreynslu sagði að ekki mætti hafa samráð - sem við föllumst á - en hún gæti sagt okkur að hún tæki kr. 6.500 á tímann + virðisaukaskatt. Þá skiptir engu þótt hún sé kölluð út um miðjar nætur (sem hún sagði reyndar fátítt) en að vísu er þriggja tíma útkall.
Okkur rak í rogastans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)