Horgrannur Harðskafi

Nú er ég bara að snúa út úr nafninu á nýjustu bók Arnaldar og því að á bls. 135 er horgrannur maður. Er hann svo grannur að hann er næstum horaður, hmm? Þetta orð, það að nafnið Harðskafi væri útskýrt í bókinni og sagt frá örlögum bróður Erlendar var það eina sem ég hafði heyrt um þessa sögu áður en ég byrjaði að lesa.

Mér finnst Harðskafi spennandi þótt mér finnist ennþá Grafarþögn besta bókin og Dauðarósir vanmetnasta. Þegar ég leit inn á Gegni sá ég reyndar að sagan Dauðarósir hefur verið endurprentuð oft, kannski kann þá fólk að meta hana en segir mér bara ekkert frá því, hmm.

Mér finnst nafnið Harðskafi ekki gott og ekki sérlega táknrænt fyrir söguna af mæðgunum og dauðahyggjunni. Ef Arnaldur væri ekki búinn að nota Kleifarvatn hefði ég stungið upp á Sandkluftavatni. Hafa ekki allar bækurnar hans borið bara eitt nafn? Þá verðum við að halda okkur við það og ég sting upp á að bókin hefði átt að heita Lausmælgi eða Trúnaðarbrestur.

--- Horgrönn, horgrannt ... notar einhver þetta orð í einhverri mynd? Eða ætlaði Arnaldur að skrifa holdgrannur?


Bloggfærslur 16. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband