Nú styttist í ráðningu nýs ferðamálastjóra

Að vonum er ég spennt að vita hver af 50 umsækjendum um starf ferðamálastjóra fær hnossið. Samkvæmt fréttatilkynningunni verður ráðið í starfið á þriðjudaginn. Ég hefði vitaskuld viljað sjá Marín vinkonu mína, menningar- og ferðamálafulltrúa Hafnarfjarðar, meðal umsækjenda - en hún sótti því miður ekki um. Magnús Oddsson

Ég er það sem ég kýs að kalla hobbíleiðsögumaður og mjög spennt að vita hver leysir Magnús Oddsson af hólmi. Sumarið 2006 var ég í miklum hugleiðingum um framtíð stéttarinnar: 

 

Það sem veldur mér ugg núna er að Magnús Oddsson ferðamálastjóri trúir því, a.m.k. á opinberum vettvangi, að ferðamönnum á Íslandi muni á næstu 10 árum fjölga upp í eina milljón. Lengi hafa heyrst áform um að ferðamenn verði komnir í þá tölu árið 2015. Og það sem meira er, Magnús Oddsson virðist fagna þessari meintu mögulegu staðreynd.

 

En hvernig er staðan núna?

 

Háönnin í ferðaþjónustu er júlímánuður. Júní og ágúst eru líka annasamir. Maí og september taka til sín stærri og stærri hluta en vetrarmánuðirnir eru lágværari. Að vonum. Það er ekki bara á Íslandi sem sumarfrí eru almennt yfir sumarið, sumarið er ferðamannatíminn, sá tími sem menn leggja land undir fót, taka flugið til annarra landa. Samt vitum við að jaðartímabilin koma æ sterkar inn, hvatahópar koma hingað í janúar og febrúar til að skunda á jökul, láta misvindana umvefja sig og myrkrið heilla. Heita vatnið er dularfullt í myrkri gufunni, fossadynurinn óræður, álfarnir ósýnilegir að vanda, samferðafólkið skemmtilegt – og stundum gerir leiðsögumaðurinn gæfumuninn með frásögnum, þekkingu og glensi.

 

Yfir sumarmánuðina eru hótel og aðrir gististaðir að springa af fólki, veitingastaðir margir stútfullir, rútur duga hvergi nærri til, skortur er á leiðsögumönnum og rútubílstjórum, hvalaskoðunarbátarnir drekkhlaðnir og önnur afþreying nýtt í þaula. Nú, þegar gestir landsins eru komnar á fjórða hundrað þúsund, er öllum þeim sem um landið fara ljóst orðið að ekkert af þessu dugir til. Í mörgum landshornum opna gististaðir ekki fyrr en langt er liðið á júnímánuð, m.a. vegna þess að sama húsnæði þjónar skólastarfsemi. Af sömu ástæðum er ekki hægt að manna staðina fyrr því að það er skólafólkið sem stendur vaktirnar.

 

Og í sumar hafa vaktirnar – sem aldrei fyrr – verið mannaðar fólki sem ekki talar íslensku. Margir staðir, einkum utan höfuðborgarsvæðisins, hafa ekki tök á að ráða til sín fólk sem talar íslensku, og í sumum tilfellum ekki einu sinni ensku. Þess eru dæmi að starfsfólk í gestamóttöku skilji ekki leiðsögumenn sem koma með rútufarm af gestum.

 

Atvinnuleysi kvað nú vera 1,3% og mér skilst að hagfræðingar telji það of lítið atvinnuleysi, það bjóði ekki upp á nauðsynlega hreyfingu á fólki. Öllum ber saman um að þensla sé mikil og að sums staðar sé hvergi nærri nógur mannskapur til að sinna verkunum. Í ferðaþjónustunni get ég staðfest að vandinn er til staðar.

 

Og þá hlýtur maður að spyrja sig: Er ástæða til að setja markið á heila milljón ferðamanna þegar við ráðum ekki við 350 þúsund, þegar við höfum ekki mannskap til að þjóna þessum hópi? Og þá er ég ekki einu sinni byrjuð að tala um hvernig náttúran lætur á sjá þegar fleiri og fleiri göslast um landið, fólk sem dáist að ósnortnum víðernum og stígur á sígarettuna sína úti á víðavangi af því að engir eru öskubakkar eða ruslafötur, hvernig stígar sem hrófað var upp til bráðabirgða þola ekki áganginn, þegar leiðsögumenn sem ekki eru aldir upp hér og ekki hafa búið hér leiða hópana yfir mosaþemburnar eða upp að svefnherbergisglugga forsetans og þegar innfluttir rútubílstjórar keyra vegleysur og stofna lífi fólks í hættu.

 

Nei, það er ekki nóg að auglýsa snilldarlega í útlöndum og laða þúsundir Kínverja til landsins. Við þurfum að hafa efni á að auka gjaldeyristekjur okkar af ferðamönnum, við þurfum að hafa þjónustu allt árið, við þurfum að hafa menntað fólk og áhugasamt fólk og nógu vel launað fólk til að sinna forvitnum og áköfum gestum af natni. Við þurfum að hafa vegi sem ekki eru stöðugar slysagildrur, við þurfum að eiga rútur, kojur og lambakjöt til að gera dvöl ferðamanna eftirminnilega og sérstaka.

 

Og hver er þá lausnin?

 

Ég held að við eigum að flýta okkur hægt, byggja okkur upp innan frá, tryggja farþegunum aðgengi áður en við tryggjum okkur farþegana. Ég held líka að við eigum að verðleggja hraustlega það sem er sérstakt - náttúruna, óvissuna, víðáttuna, staðarþekkinguna og fróðleiksbrunnana - og að við eigum að létta okrinu af því sem er hægt að fá hvarvetna, ruslfæði og drykkjarföng. Norðurljósin eru fágæti, brennisteinsilmurinn, björtu næturnar, miðnæturgolfið, veran norðan við heimsbaug, 33 ára hraun sem enn er hægt að baka brauð í, útsýni ofan af jökli, sigling á milli ísjakanna, hraunbreiðurnar baðaðar í dögg, þjóðsögur, Íslendingasögur, næturlífið – sérþekking heimamanna.

 

Ég veit ekki hversu miklar gjaldeyristekjur eru áætlaðar á þessu ári af ferðaþjónustu en ég veit að þær eru ærnar. Það er gott, auðvitað, en við eigum að hugsa næstu leiki og ég held að við gröfum eigin gröf ef við hægjum ekki aðeins á og reynum að tryggja þjónustuna áður en lengra er haldið. Besta auglýsingin er ánægður viðskiptavinur. Látum okkur nægja 360 þúsund ánægða viðskiptavini 2007 frekar en eina milljón ferðamenn sem ber okkur út heima hjá sér vegna þess að við verðum farin að sinna þeim 60% í stað 90%.

 Þetta krotaði ég í ágúst 2006. Ég er enn uggandi um framtíð ferðaþjónustunnar.

Es. Ég breytti lítillega orðalagi í byrjun færslu í ljósi þess hvernig mér fannst eftir á að hyggja að hefði mátt misskilja.


Ítalía sveik ekki

Því miður nutum við ekki hlýindanna, heldur var það Ítalía á Laugaveginum sem ekki sveik.

Laufey vinnur einbeitt á ruccolapítsunniÁsgerður dregur ekkert undan!


Bloggfærslur 29. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband