Laugardagur, 10. febrúar 2007
Stór stafur í línu tvö - hugleiðing
Hvað veldur því að sumir hafa fyrsta stafinn í annarri línu stóran þótt fyrsta lína endi á kommu? Þið skiljið hvað ég meina, maður er ávarpaður í línu eitt með t.d.: Sæll, og svo byrjar bréfið í næstu línu á: Ég hef verið að hugleiða ...
Ég sé þetta í ensku og geri ráð fyrir að menn taki það upp þaðan en jafnvel þótt það væri rökrétt í ensku - sem ég sé svo sem ekki - er alls ekki sjálfgefið að það sé rétt eða eðlilegt í íslensku sem er frekar mikill vinur litla stafsins.
Mér finnst þetta tilgerðarlegt. Ég vil ekki segja að það fari í taugarnar á mér (því að það er svo smáborgaralegt, hmmm). Ég tek fram að ég hef bara séð þetta í íslensku hjá Íslendingum.
Es. Feitletraði það sem málið snýst um, m.a. kommuna (,) fyrir aftan sæll.
Dægurmál | Breytt 11.2.2007 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)