Mánudagur, 19. febrúar 2007
Stokkum upp í skólakerfinu
Ég var einu sinni leiðbeinandi í grunnskóla og fannst það svo erfitt að ég ákvað að mennta mig til að verða kennari. Ég fékk nefnilega engan bjánahroll, bara áhuga, fór í kennslufræðina og kenndi svo nokkra vetur í menntaskóla.
Ég veit að ég var að sumu leyti óöguð, ekki í kennslunni en í undirbúningi og yfirferð. Ég held að það hafi að miklu leyti helgast af því að að ég hafði enga eiginlega vinnuaðstöðu, eitthvert skæni fyrir skrifborð og enga eigin tölvu. Fyrsti veturinn var 1995-6 og þá var tölvupóstur a.m.k. ekki orðinn almennur þannig að maður vann svo sem fyrst og fremst verkefnin á tölvuna. Og sat síðan heilu kvöldin við eldhúsborðið með stíla, ritgerðir og rauð augu.
Ástæðan fyrir að ég söðlaði um og fór í annað var að töluverðu leyti námsmatið. Ég veit að þetta hljómar eins og afsökun en mér þótt hroðalega leiðinlegt að reikna út einkunnir, halda utan um þær allan veturinn og þurfa síðan fyrir jól og á vorin að rökstyðja einkunnagjöfina með því að draga upp verkefnaskilin og tíunda litlu atriðin til að útskýra 7 í stað 8. Þegar svo vildi verkast.
Við Ásgerður sem kenndum einn vetur saman vorum (og erum held ég) sammála um að það væri full ástæða til að stokka upp í kerfinu. Menn fárast yfir löngum fríum kennara, en það er ekki eins hlaupið að því fyrir kennara að lengja hjá sér helgi og skreppa í borgarferð yfir vetrartímann eins og margar aðrar stéttir. Kennarar eru í langa fríinu á dýrasta ferðatíma. Kennarar panta tíma hjá lækni, tannlækni, tíma fyrir börnin líka þegar þeir eru ekki í kennslustund - af því að þá eru þeir í því sem margir kalla frí en er í raun undirbúningstími. Og undirbúningurinn græjar sig ekki sjálfur hjá metnaðarfullum kennurum. En auðvitað eru skussar í stéttinni. Of margir einblína á þá.
Ég myndi vilja sjá einhverjar breytingar í kerfinu. Mér finnst að kennarar ættu að fá góða vinnuaðstöðu í skólunum og hafa vinnuskyldu þar kl. 8-16 eða eitthvað þess háttar. Þá gætu menn auðveldar borið saman bækur sínar, unnið verkefni saman og ég hefði a.m.k. átt auðveldara með að klára vinnuna á eðlilegum tíma í stað þess að eyða of miklum tíma illa.
Ég hefði viljað eiga möguleika á að kenna tímana fyrir Pál ef hann hefði farið yfir verkefni fyrir mig. Ég hefði viljað geta skipt við Brynjólf og hann kennt Eglu í báðum bekkjum en ég ritun í báðum. Mér finnst ekki nauðsynlegt að sami kennari semji verkefni, leggi fyrir og meti til einkunna. Ekki nauðsynlegt, hmm.
Það sem ég vildi sjá núna áður en menn setja undir sig hornin í kjaraviðræðum er fersk nálgun. Og að lokum verð ég að segja að ég tróð ekki illsakir við nokkurn samkennara ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 19. febrúar 2007
Óskað eftir íslenskumælandi starfsfólki
Í atvinnuauglýsingablaði Moggans í gær er tekið fram í auglýsingu frá 101 hóteli að aðeins íslenskumælandi umsækjendur komi til greina sem þó þurfi að kunna ensku vel. Undanfarið finnst mér einmitt hafa færst í vöxt að auglýst sé eftir starfsfólki á pólsku. Þetta er reyndar í gestamóttöku - en ætli þetta þýði að ekki íslenskumælandi fólk hafi sótt mikið um störf í hótelgeiranum?
Eða kannski finnst auglýsandanum ástæða til að taka það fram af öðru gefnu tilefni? Eftir því sem ég fæ best séð er engri íslensku veifað á heimasíðu hótelsins, bara ensku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)