Ísland - dýrast í heimi?

Ég man ekki betur en að það sé alltaf í 1.-3. sæti yfir dýrustu löndin, Noregur er líka ofarlega. Einhvers staðar heyrði ég útundan mér einhvern tala um að best væri að markaðssetja það sem dýrasta landið (fyrir ferðamanninn). Er það ekki góð hugmynd? Um leið og það er orðið afgerandi dýrast gera menn líka kröfur, ferðamenn til okkar og við til okkar. Það ætti að lyfta metnaðinum (og laununum hjá pöpulnum í ferðaþjónustunni).

Við eigum miðnætursól og milda vetur á sumrin, snjó, myrkur og norðurljós á veturna. Það er líka óþarfi að leyfa Finnum að einoka jólasveininn. Svo eigum við sjúklega góðan mat. Hann er það ekki allur, en ég endurtek að við eigum sjúklega góðan mat. Ég var einu sinni að vinna í matartjaldi á víkingahátíð í Hafnarfirði og þar runnu út flatkökur með lambakjöti, já, ekki hangikjöti, bara venjulegu guðdómlegu lambakjöti af sumargengnu. Og núna eru ábyggilega ýmsir á leiðinni hingað á Food & Fund. Svo er tónlistin mjög ... íslensk.

Lækkum bara áfengisgjaldið vegna þess að ferðamenn sjá engan sjarma við að borga 700-kall fyrir rauðvínsdreitil með lambinu. Setjum svo trukk í Ísland - dýrast í heimi. Go!


Geymslutími evru

Ef til vill myndi mjólkin geymast betur ef hún væri keypt fyrir evru (en ekki pund?). Geymslutími evru kvað vera langvinnari. Ég þarf að velta þessu fyrir mér.

En 1. mars nálgast óðfluga og athygli mín var vakin á því að sælgæti mun lækka meira en t.d. grænmeti. Ég fór því með verðlagssjána í Krónuna:

Rískubbar frá Freyju, 170 g, 12 kubbar: 289 kr.

Svartur ópal, salmíak, 40 g: 128 kr.

Hvítt maltesers, 165 g: 298 kr.

Wella-háralitur: 985 kr.

Ég sá líka bananasprengjurnar frá Nóa en þær voru dýrari en í Bónusi þannig að ég ákvað að láta þær eiga sig, hehe. Tilfinning mín er að Krónan sé dýrari en evran ...


Geymslutími mjólkur

Er ekki ábyggilegt að hann lagast líka og lengist 1. mars, á degi hinna gullnu verðlækkana? Mér hafa fundist brögð að því undanfarið að mjólkin súrni á síðasta söludegi. Kannski er ísskápurinn að gefa sig ... en ég vil frekar að mjólkurframleiðandinn skaffi mér endingardrýgri mjólk.

Hmm.


Bóklestur

Kannski er ég að missa það. Ég kláraði Þann yðar sem syndlaus er í gærkvöldi en man ekki lengur hvernig hún endaði ...

Bloggfærslur 21. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband