Laugardagur, 24. febrúar 2007
Skólagjöld?
Skólaganga á að verða greidd með sköttum. Það finnst mér í aðalatriðum.
Hins vegar er ég farin að hneigjast til þess að hófleg skólagjöld fyrir framhaldsháskólanám væru í lagi, einkum þegar þau eru ávísun á vel launað starf. Auðvitað er ekkert öryggi í námskránni samt, ég geri mér grein fyrir því.
Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér, og er enn. Sjálf er ég fordekruð og þakka skattgreiðendum fyrir að borga brúsann. Ég var í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og háskóla, allt fyrir lágmarksþóknun. Ég tók meirapróf þegar ég var 19 ára (fékk skírteinið á tvítugsafmælinu) og mér skilst að ég hafi borgað fyrir það nám sjálf. Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands og veit ekki betur en að ég hafi borgað tvo þriðju af kostnaðinum við að mennta mig. Þegar ég hef farið á tölvunámskeið hef ég borgað úr eigin vasa.
Er ekki einhver ósamkvæmni í þessu? Það er það sem ég er að hugsa núna. Leikskólinn er fyrsta skólastigið, menn hafa haft fögur orð um að gjaldfrelsa hann en víðast hefur ekki orðið af því (þó á Súðavík ef mig misminnir ekki). Einkaháskólarnir taka skólagjöld (180-250 þúsund finnst mér ég hafa heyrt) en fá líka úr sarpinum.
Kenning mín er núna sú að ef maður borgar gjöld fyrir námið sitt geri maður meiri kröfur bæði til sjálfs sín og kennara sinna. En þá verður maður líka skýlaust að eiga rétt á lánum fyrir námsgjöldunum - og námið verður að vera metið til launa þegar maður ræður sig starfa þar sem menntunin nýtist.
Núna var ég að hugsa upphátt ... Háskóli Íslands var með útskrift í dag og rektor er með háleitar hugmyndir um að koma HÍ á lista yfir 100 bestu skólana. Gera allir nemendur og kennarar raunhæfar kröfur til sjálfra sín - og standa undir þeim líka?
Við megum ekki vera hrædd við að ræða opinskátt um væntingar okkar í þessum málum og leiðir til að uppfylla þær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)