Laugardagur, 24. mars 2007
Fasteignamarkaðurinn gerir það ekki endasleppt
Úr því að mbl.is gerir mér þetta enn einu sinni ætla ég að láta vaða. Er þetta frétt? Þetta er upptalning sem sáralítið er lagt út af. Ég er mikill áhugamaður um fasteignamarkaðinn, reyndar vildi ég helst geta haft áhrif á hann því að ég trúi því að íbúðir séu almennt, yfirleitt og allajafna verðlagðar of hátt þessi misserin.
Ég man þegar ég keypti 54 fm íbúð árið 1992 á 3,9 milljónir. Hún var til sölu um daginn á 14,2. Það var búið að dubba hana upp, mikil ósköp, en hún var klárlega of hátt verðlögð og hreyfðist ekki og seldist ekki og var um kyrrt á söluskrá vikum og mánuðum saman. Ég veit ekki hver afdrif hennar urðu á endanum.
Ég er bjargföst í þeirri skoðun minni að fasteignasalar, og trúlega líka starfsmenn greiningardeilda bankanna, beri mikla ábyrgð á hækkuðu verðlagi. Fasteignasalar bera fyrir sig að verðtilboð sé móðgandi lágt ef væntanlegir kaupendur vilja bjóða það sem þeim finnst eðlilegt. Svo er kannski seljandinn samt hæstánægður þegar til á að taka. Verðmætamatið er bara búið að brenglast svo mikið með þessari hröðu hækkun undanfarinn áratug.
Viss hækkun var orðin tímabær, en hún varð of mikil og of hratt. Háu lánin eru bullandi sek í þessu og svo skiptir líka máli að nokkrir auðkýfingar láta sér í léttu rúmi liggja hvort þeir borga 20 eða 200 milljónir fyrir eignina. Þegar einhverjir gera rosalega góða sölu vilja hinir í götunni líka komast á jötuna og þannig hefur orðið nokkur sefjun.
Getur einhver hrakið þetta með rökum?
Ég er til í að borga 200 þús. á fermetrann fyrir réttu íbúðina. Það er samt þreföldun frá því að ég seldi litlu íbúðina mína 1997. Mín þarf að vera rétt staðsett, með suðvestursvölum og stórri stofu. Mér er sama um sérinngang og bílskúr.
Hún verður kannski á endanum í öðru landi.
![]() |
185 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)