Föstudagur, 9. mars 2007
Ég held að launaleyndin skipti ekki alltaf alla öllu máli
Fyrir tæpum tveimur árum bað ég þá ferðaskrifstofu sem ég vann mest fyrir um launahækkun. Eigandinn sagðist því miður ekki geta hækkað tímakaupið mitt því að þá þyrfti hann að hækka líka hjá hinum og þessum sem hann nafngreindi. Og ég sagði: Og?
Ég veit að sjálfshælni er ekki til fyrirmyndar en það er kannski í lagi að vita hverjar eru manns sterku hliðar. Og ég henta brjálæðislega vel í skipin (þori ekki út í nákvæmt hrós). En eigandinn vildi ekki hækka kaupið sem var þá rúmar 1.200 kr. í dagvinnu - með orlofi, desemberuppbót, undirbúningstíma, bóka- og fatagjaldi. Atvinnuöryggi er í lágmarki og leiðsögumenn eru teknir af launaskrá á milli ferða ef þær eru tvær stuttar sama daginn, ef við erum t.d. beðin að fara með hóp í útreiðartúr kl. 12 og vera til kl. 16 og svo aftur með hópinn í mat kl. 19 til kl. 23. Dagurinn er undirlagður frá morgni til miðnættis en leiðsögumaðurinn er á kaupi í 2 x 4 tíma. Og ferðarekandanum gæti þótt rausnarlegt af sér að borga manni fyrir að fara út að borða með hópnum.
Eigandinn vildi sem sagt ekki hækka kaupið mitt þótt ég sannarlega vissi um styrkleika minn og færi fram á hækkun. Hann spurði ekki hvað ég gæti sætt mig við, reyndi ekki að koma til móts við mig en sagðist samt vona að ég héldi áfram. Hann spurði því ekki heldur hvort ég myndi þegja yfir því ef svo bæri undir - en það get ég svarið að ég hefði ekki gert það. Ég hefði viljað segja það öllum.
Ég myndi sem sagt vilja hafa frelsi til að aflétta launaleyndinni af sjálfri mér. Núverandi taxti leiðsögumanna er hvort eð er á netinu - og það er greitt eftir honum. Samt er ferðaþjónustan að verða næststærsti atvinnuvegur landsins. En leiðsögumenn og rútubílstjórar eru á skammarlegu kaupi og bera hitann og þungann af starfinu ásamt þjónum, hótelfólki, landvörðum og ýmsu öðru fólki sem á bara að finnast gaman að mæta í vinnuna.
Ekki að ég sé neitt stúrin ... ég vil bara gjarnan aflétta launaleyndinni og fá samanburðinn upp á borðið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. mars 2007
Feti og spínat
Ég er ekki nógu trygglynd - ég sé það núna - til að kaupa sömu vörurnar, sömu merkin, sama magnið aftur og aftur. Það eina sem ég get borið saman núna er kryddolíufetaostur sem hefur lækkað úr 167 í 156 (6,6% lækkun) og 200 g af spínati úr 267 í 248 (7,1% lækkun). Tilfinning mín er sú að þetta sé lækkunin á svona vöru, og meiri á óhollustu.
Hins vegar fór ég í Nóatún í vikunni og þar fannst mér verð hátt, meira að segja á pasta. Og kílóverð á appelsínugulri papriku var 469 kr., humm. Hins vegar keypti ég gómsætt normalbrauð á 324 kr. hleifinn og það var etið upp til agna. Sumt lætur maður fúslega eftir sér, hehe.
Sem ég sit við þessi ritstörf sé ég að Sölvi Tryggvason hefur fengið sömu hugmynd í Íslandi í dag, hehe, og kemst líka að svipaðri niðurstöðu. Það er ekki alveg allt sem lækkaði við virðisaukaskattsbreytinguna.
Dægurmál | Breytt 18.3.2007 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. mars 2007
Skilningarvitin
Þegar ég var hálfgerður krakki var ég að vinna hjá SS í Glæsibæ. Mér þótti það fjölmennur vinnustaður og stundum var ærandi hávaði í kaffitímunum. Og ég man að einu sinni hugsaði ég og sagði svo: Ég vildi að ég væri heyrnarlaus. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir vanþakklæti mínu og auðvitað var mér engin alvara. Ég lét þessi orð samt falla.
Nú nenni ég ekki að sjá eftir þessu, enda eru bernskubrekin til þess fallin að vaxa upp úr þeim. Og ég vildi sannarlega ekki vera heyrnarlaus, hvorki þá né nú.
Þetta vekst upp fyrir mér af því að fyrir Alþingi liggur forvitnilegt frumvarp um réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Heill hellingur þingmanna styður það með því að vera meðflutningsmenn og nú er ég mjög spennt að sjá hvernig því vindur fram á næstu dögum. Í gær spjallaði ég um stund við Fransmenn sem hafa verið hér í viku og þeir spurðu mig út í táknmálsfréttirnar sem eru rétt fyrir kl. sex í sjónvarpinu og undruðust mjög að ekki væri talað með því. Þessi 10 mínútna fréttatími er það eina sem heyrnarlausum stendur til boða - fyrir utan þegar verið er að fjalla um mál þeirra sjálfra, þá er túlkað og/eða textað. Eins og heyrnarlausir hafi ómögulega áhuga á öðrum málum þjóðlífsins ...
Enn fremur hef ég kynnst störfum táknmálstúlka undanfarin ár þar sem þeir hafa túlkað bæði þar sem ég hef verið að kenna og þar sem ég hef sjálf verið í námi. Þetta er einfaldlega allt annað tungumál, það er eins og að vera í tíma í þýðingafræðum sem fer fram á japönsku - maður skilur bara ekkert. Og þá er maður útundan.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)