Kvöl og pína

Stundum verður maður að þjást tilhlýðilega. Það er ágætlega við hæfi skömmu eftir páska. Ég fór í fermingu í dag.

Þetta er greinilega vinsæll dagur því að það voru um 30 krakkar sem sögðu já við prestinn sem byrjaði á því að biðja fólk um að taka ekki myndir uppi á sviði (eða sagði hún það ekki, sviði?). Svo sagði hún að eftir athöfnina mætti skjóta eins og menn vildu!

Þetta er orðið helmingi meira sjónarspil en var þegar ég var fermd. Meint trú er a.m.k. lítt sýnileg. Ég verð þó að segja Svavs bróðurdóttur minni sem fermdist fyrir fjórum árum það til hróss að hún hugsaði vandlega um það hvort hún ætti að fermast, fermdist svo ári síðar en jafnaldrarnir - og sér reyndar eftir því. Ég tek kannski hrósið til baka, hehe. Systir hennar á að fermast á næsta ári og hugsar nú stíft sinn gang.

Hvernig á maður að geta virt kirkjuna og þjóna hennar þegar þeir rífast hátt og í hljóði, bera hver aðra sökum og ganga ekki á undan með góðu fordæmi og frið að leiðarljósi? Fríkirkjan er í mínum augum ekkert öðruvísi en þjóðkirkjan og Hjörtur Magni prestur eins og Dalla eða Flóki eða Bjarni eða Jóna Hrönn. Svo er hann kærður fyrir að hafa skoðanir á trúsystkinum sínum og stofnuninni sem þau starfa fyrir.

Ég nenni ekki að rifja upp öll þau skipti sem þjónar kirkjunnar hafa komist í fjölmiðla vegna óeiningar. Ég ætla heldur ekki að rifja upp spillta presta bókmenntanna eða blóði drifna slóð trúarinnar. Ég ætla heldur ekki að telja allar milljónirnar sem fara í þetta allt af skattfé. Þetta er gömul saga og sígild, því miður. Sjónarspilið er hins vegar að aukast, myndavélar ráða ferðinni og þessi þarna Jesús víkur æ lengra til hliðar. Hógværð er náttúrlega kostur ...

En hvað er ég að þenja mig? Ég gekk í Ásatrúarfélagið fyrir tveimur árum eftir að hafa verið utan trúfélaga í nokkur ár og þar sitja náttúrlega heldur ekki allir á sátts höfði.

Es. Fyrirgefðu, Addý frænka mín, að ég skuli nota fermingardaginn þinn til að úttala mig. Til hamingju með daginn, hmm.


Bloggfærslur 15. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband