Mánudagur, 2. apríl 2007
Launin í ferðaþjónustunni
Í síðustu viku lenti ég á spjalli við Steina Briem í athugasemdakerfi Ómars Ragnarssonar um laun í ferðaþjónustunni. Ég þekki ekki Steina en það rifjaðist upp fyrir mér launasaga (raunasaga) úr ferðaþjónustunni.
Árið 1998 sótti ég um sumarstarf í gestamóttöku hjá hótelkeðju (Cabin minnir mig). Ég var kölluð í viðtal í mars (já, svo snemma) og í kjölfarið var mér boðið sumarstarf í gestamóttökunni á Valhöll á Þingvöllum. Mér var bent á að nálgast launataxtana hjá VR hvað ég og gerði. Skv. þeim átti ég að fá 88.000 kr. í grunnlaun. Ég átti að vinna dæmigerðar hótelvaktir, tvo daga, frí tvo, vinna þrjá o.s.frv. Ég átti að keyra á milli á mínum bíl, fyrir mitt bensín og í mínum tíma. Ég átti að fá gistingu ókeypis (hahha) milli vaktanna og ókeypis að borða á vaktadögunum.
Á níu árum byrjar auðvitað að fenna í minningarnar en ég held að ég muni rétt að ég hafi reiknað út að heildarlaunin fyrir júní hefðu orðið 118.000 (og þá var 17. júní inni í planinu). Þá átti ég eftir að draga frá (skatt, auðvitað) ferðakostnað og reyna einhvern veginn að verðleggja ferðatímann. Aðstandendur hótelsins sögðu að þetta væri 20 mínútna keyrsla, en ég er mjög lélegur lögbrjótur þannig að það stóðst engan veginn.
Ég hætti við sumarstarfið, seldi bílinn, fór til Danmerkur og lagðist upp á nána vini. Það lukkaðist ágætlega og ég fékk engar kvartanir (engin laun heldur en það verður ekki allt metið til peninga, humm hmm).
Laun í ferðaþjónustu eru ekki svona hroðalega léleg lengur, en þau eru léleg samt. Og til að kóróna söguna spurðist um haustið að starfsfólkið á Valhöll hefði ekki einu sinni fengið útborgað. Huggun harmi gegn var náttúrlega að þurfa ekki að borga tekjuskatt ...

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 2. apríl 2007
Orlof og verkefni
Um helgina heyrði ég Kolbrúnu Bergþórsdóttur segja frá því í útvarpsviðtali að henni væri illa við samfellt orlof. Hún biður vinnuveitandann um að fá að taka eina viku hér og aðra viku þar því að henni er meinilla við samfellt fjögurra, ég tala nú ekki um fimm eða sex, vikna frí.
Og viðmælandinn skellti sér á lær í forundran.
Ég er hins vegar ekkert hissa á Kolbrúnu. Henni hlýtur að þykja gaman í vinnunni, hún skrifar, les og fylgist með. Þegar hún er heima hjá sér (ef það er eitthvað að marka pistlana hennar í Blaðinu) og hlustar á t.d. Sjostakóvits (sem Sigurður G. Tómasson spilar alltaf í þáttunum sínum á Útvarpi Sögu) verður það henni líka uppspretta vinnupistla. Hún hefur áhuga á vinnunni sinni.
Er ekki óþarfi að gefa sér alltaf að fólk sé í vinnu bara af því að hún borgar laun? Þegar maður er svo heppinn að fá að vinna við áhugamál sitt, vinna við eitthvað sem maður hefur valið að mennta sig til að gegna, er bara heimsins eðlilegasti hlutur að maður hlakki til að mæta í vinnuna.
Mér finnst hvimleið þessi tilhneiging sumra til að tala um vinnuna sem skyldu eina saman.
Og þó að maður hafi yndi af vinnunni sinni er ekki þar með sagt að manni þurfi að leiðast utan hennar.
Ég hef oft spurt fólk í nærumhverfi mínu hvað það myndi gera ef það eignaðist sisona x milljónir (segjum hálfan milljarð). Yfirleitt ætlar fólk að hætta að vinna. Yfirleitt segist það ekki ætla að gera eitthvað ákveðið, það ætlar bara að hætta að vinna.
Er svona skelfilegt að mæta í vinnu? Ekki finnst mér það.
Dæs. Stundum þyrmir svo yfir mig þegar ég hugsa um hvað fólk hlýtur að lifa leiðinlegu lífi ef það ætlar að kollvarpa öllu við það að eignast pening.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)