Hlutleysi fjölmiðlunga, eða ekki

Sóley Tómasdóttir og Agnes Bragadóttir lögðu orð inn í umræðuna um fjölmiðlalög í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég varð mér ekki strax meðvituð um það þótt ég horfði af áhuga. Það var ekki fyrr en ég las bloggið hans Hjartar í morgun sem ég sá samhengi hlutanna skýrar. Það má segja að þær tvær hafi skattyrst (hér hefði Hjörtur skrifað skattyrzt og kannski er það áferðarfallegra) stuttlega um hlutleysi. Agnes lýsti yfir vandlætingu á hugsanlegri vinstristjórn og Sóley undraðist að hlutlaus blaðamaður hefði svo afdráttarlausa skoðun. En Agnes sagðist ekki vera hlutlaus og hefði ekki verið fengin í þáttinn til að þegja.

Ég get ekki spurt hvort Agnes sé hlutlaus, en ætti hún að vera það? Úr því að hún er ekki hlutlaus, kannast menn við að hlutlægni hennar sjái stað í skrifum hennar? Skrifar hún fréttaskýringar eins og skrif hennar heita eða eru þær e.t.v. bara skoðanir sem beri að lesa sem slíkar?

Hvað með aðra frétta- og þáttagerðarmenn? Ég nefni af handahófi nokkra sem eru misáberandi. Sigmar Guðmundsson sem stjórnaði stjórnmálaumræðum rétt áðan bloggar fyrir 5-6.000 manns á dag. G. Pétur Matthíasson, sem er reyndar farinn til Vegagerðarinnar en var hjá RÚV þangað til það breyttist í ÚV ohf., bloggar stundum. Ég man eftir Höllu Gunnarsdóttur, blaðamanni Moggans, Önnu Pálu Sverrisdóttur, sömuleiðis blaðamanni á Mogganum, enn fremur Davíð Loga Sigurðssyni. Það má nefna líka Lóu Pind Aldísardóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur, Svanhildi Hólm, Eddu Andrésdóttur, Styrmi Gunnarsson, Arnþrúði Karlsdóttur, Jóhann Hauksson, Þorstein Pálsson, Sigurjón M. Egilsson, Trausta Hafliðason, Björgvin Guðmundsson, Svanborgu Sigmarsdóttur, Kolbrúnu Bergþórsdóttur - og læt ég nú upptalningu lokið.

Allt þetta fólk meðhöndlar upplýsingar og hefur, meðvitað og ómeðvitað, áhrif á viðtakendur. Það skiptir okkur máli að við getum treyst því að það fari með upplýsingar af sanngirni og heiðarleika. Ég vil alls ekki láta leiða í lög að fólk skuli vera trútt starfi sínu, ég ætlast bara til þess að fólk sé siðlegt, en þetta með öðru var mikið rætt fyrir tæpum þremur árum þegar fjölmiðlalög voru sett og svo dregin til baka.

Er utanumhald utan um fjölmiðla nú bara orðið að algjörri eyðimörk sem stendur ekki til að vökva? Dugir kannski umræðan manna á meðal?


Leiðsögumenn, ó, gædar

Ætti maður ekki annars frekar að tala um gæta, sbr. læti?

Þar sem 30 leiðsögumenn koma saman, þar er ekki einn hugur! Ég sat framhaldsaðalfund Félags leiðsögumanna í gærkvöldi sem snerist að mestu leyti um lagabreytingar þær sem við frestuðum að taka afstöðu til á aðalfundi félagsins í febrúar.

Þær tvær breytingar sem samþykktar voru og eru mér núna eftirminnilegastar kveða á um að formaður félagsins skuli vera fagmenntaður (fagfélag sett ofar stéttarfélagi) og að fundargerðir stjórnar skuli birtar innan 10 daga frá fundum. Margar aðrar breytingar voru þó gerðar og má vænta nýju laganna á netinu innan langs tíma.

Óvæntur bónus undir liðnum önnur mál var kynning kjaragerðar. Samningar eru lausir í lok ársins og ef ekki verður gerð ansi hraustleg lagfæring á samningunum má búast við talsverðum atgervisflótta - nema leiðsögumenn séu farnir að semja betur en taxtarnir kveða á um. Því miður held ég að það sé lítil vegna þess að ferðaskrifstofur skáka í skjóli kjarasamninganna og vorkenna öllum öðrum í ferðaþjónustu meira en leiðsögumönnum. Finnst a.m.k. okkur.

Kröfugerðin er skynsamleg og sanngjörn og ég er mjög vongóð um að nefndinni takist að landa leiðréttingu handa okkur. Mér er náttúrlega engin vorkunn, treysti ekki á þetta starf eða þessar tekjur, en fólk á að geta lifað af þessu starfi. Og hvaða önnur stétt býr við það að klukkan 10 á mánudagskvöldi sé hægt að hringja í hana og segja: Ég þarf þig ekki á morgun, þriðjudag, skipið kemst ekki að bryggju?

Einhver?

Svo lýsi ég því yfir að ég saknaði Steingerðar á fundinum!


Bloggfærslur 24. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband