Verst í heimi: að bíða í röð að óþörfu

Ég fór í sund og lenti fjórða í röðinni í afgreiðslunni. Ein manneskja að afgreiða og allt útlit fyrir að hún yrði korter að afgreiða fremsta manninn. Hvað gerir maður þegar maður vill bara fá að borga og fara svo í laugina að synda?

Ég var heppin núna, átti bara eina ógataða tölu þannig að ég lagði kortið á borðið hjá henni og sagðist fara inn. Hún leit ekki upp. Ég fór samt - og leit aldrei til baka.

Ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að ég vil sem minnst af þjónustu vita? Ég vil sjálfsafgreiðslu sem víðast, dæla bensíninu sjálf, tína sjálf í körfuna í búðinni, tékka mig inn í vél í Leifsstöð - og fara í sund í gegnum götunarvél.

Ég get alveg beðið - en ekki að óþörfu. 


Af hverju ekki rafræn atkvæðagreiðsla?

Tæknin leyfir að menn greiði jafnvel atkvæði úr heimatölvunum sínum, væntanlega með lykilorði og/eða kennitölu. Hvað bannar snögga og örugga atkvæðagreiðslu af þeim toga? Myndu menn sakna þess að frambjóðendur rúntuðu inn og út af þingi á kosninganótt? Óttast menn misnotkun? Er það óöruggara?

Ég held ekki. Og hvað sem mönnum finnst um flugvallarkosninguna forðum daga brúkuðu menn þar tölvur og létu að liggja að slíkar aðferðir væru handan við hornið.

Hvað dvelur orminn langa?

  


Fótbolti er fyrir tilfinningaverur

Það sagði alltént Eggert Magnússon hjá West Ham í viðtali á Rás tvö í morgun. Það skemmti mér ógurlega því að hingað til hefur hann virst heldur fálátur. Í umræddu viðtali var hann virkilega skemmtilegur og sagði sem sé með öðru að hann væri svo mikill fótboltakall af því að í íþróttinni fengju menn útrás fyrir tilfinningar sínar. Og hann sagði að á leikjum mætti lesa í andliti sér hvort leikurinn gengi vel eða illa.

Hmmm, man ég það ekki rétt að hann hafi haft það orð á sér að vera mjög alvörugefinn?


Bloggfærslur 15. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband