Sunnudagur, 6. maí 2007
Nú þótti okkur týra á tíkarskarninu
Ég er stödd skammt frá Sandfoksstöðum þeim sem mér heyrist á Runólfi að einkenni alltaf rjómablíða. Kann að vera að hann segi satt - en kannski lætur hann bara litlu veðurstöðina ljúga að sér ...
Því hef ég mál mitt svona að við lögðum af stað, nokkrir leiðsögumenn, úr Reykjavík í vorlegri bongóblíðu á föstudag og vöknuðum í Vík í snjó í gærmorgun. Og öllum gærdeginum vörðum við svo í Hafursey og á Hjörleifshöfða, þræddum einstigi, vitjuðum grafa og sungum í hellum - í slyddu og meiri slyddu. Þetta er sko ekki kvart af minni hálfu, við upplifðum okkur sem hetjur, teljum okkur skilja lífið til forna (hmmm) og þóttumst setja okkur í spor túrista sem koma frá sólríkari löndum.
Þórir í Víkurskála leiddi okkur um allar þorpagrundir enda þekkir hann deili á öllum steinum, þúfum og letri því sem rist hefur verið í gljúpa steina. Það er ómetanlegt að njóta uppfræðslu hjá heimamönnum sem ekki einasta hafa lifað atburðina og verið á staðnum, heldur eru uppfullir eldmóðs, hugmynda og athafnagleði. Og Þórir er slíkur maður, skokkar með gestabækur á leynilega staði og biður okkur um að koma við og segja okkur ferðasöguna ef við förum um án hans. Hann er búinn að setja stálkeðjur við erfiða stíga til að auðvelda lofthræddum að komast á þeim annars óaðgengilega staði o.s.frv.
Og svo veit hann hvernig á að bregðast við næst þegar Katla gýs.
Og um það snýst nú þessi ferð, Kötluslóðir, næsta eldgos, hvað hvarf 1721, hvað lagðist í eyði 1660 - og hvað gerist 2007 eða síðar?
Leiðsögumenn vilja halda landinu í byggð, heimamenn vilja halda landinu í byggð, ferðamenn vilja halda landinu í byggð. Hvað þarf til?
Þótt ekki týri mikið á Kötlu í augnablikinu á eftir að kvikna á henni - og ég held að við vonum pínulítið að við lifum það. Síðast gaus hún almennilega 1918, bylti sér eitthvað 1955 en nú fer að bresta á með gosi - spái ég. Hef sjaldan þótt spámannlega vaxin þó.
En kannski er ekki Katla mesta ógnin við byggðina í landinu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)