Meintur söluhagnaður af sölu fasteignar

Ég seldi íbúð í fyrra sem ég var búin að eiga í átta ár og síðan hefur fólk verið óþreytandi við að minna mig á að kaupa mér nýja íbúð, m.a. til að þurfa ekki að borga skatt af meintum hagnaði.

Í morgun kom ég því loksins í verk að hringja í ríkisskattstjóra til að spyrja hvort það ætti við rök að styðjast, hvort ég þyrfti raunverulega að borga skatt (og þá af hvaða upphæð) ef ég ekki keypti aðra íbúð í síðasta lagi á næsta ári. Jón Ingi (hvurn ég ekki þekki) hló bara dátt og sagði að maður þyrfti að hafa átt íbúð skemur en í tvö ár og, nei, ég þyrfti ekki að borga skatt af mismuninum þótt ég keypti ekki íbúð á næsta ári.

Ég ætla samt að hringja aftur í næstu viku til að vera alveg viss. Eða hefur einhver annar átt svona símtal nýlega?


Fermetraverð elliblokkanna

Ég sá á forsíðu Fréttablaðsins í morgun að fermetraverðið á íbúðum fyrir aldraða í Vogahverfinu ætti að kosta upp undir 500 þúsund kr. fermetrinn. Og allir í borgarkerfinu klóra sér í höfðinu og botna ekkert í þessu ef marka má fréttina sjálfa.

Ég spyr bara: Þarf einhver að kaupa þetta? Ef nýbyggingarnar eru of hátt verðlagðar seljast þær bara ekki, er ekki svo? Eða ætlar borgin að kaupa, er hún búin að lofa því? Ég hef svo sem ekki leitað að umfjöllun um þessa frétt en ég hef heldur ekkert heyrt um þetta.

Er hátt verðlag að verða eitthvert lögmál? Er OF hátt verðlag að verða eitthvert lögmál?


Bloggfærslur 11. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband